11. ágúst 2011

Gamlar gersemar um drengi

Svava ömmusystir mín rak fornbókaverslun við Hverfisgötuna en henni hafði hún tekið við af tengdaföður sínum. Þegar ég var barn heimsótti ég hana stundum þangað og þá átti hún það til að gauka að mér einhverri barnabókinni. Þannig eignaðist ég ýmsar gamlar og forvitnilegar bækur og tvær þeirra hélt ég sérstaklega upp á og las aftur og aftur.
4. útg. 1958
Önnur þeirra er Við Álftavatn. Barnasögur með myndum eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson. Þessa dagana erum við sex ára dóttir mín að lesa hana saman á kvöldin og hún er ekkert síður spennt fyrir henni en ég var á hennar aldri. Bókin kom fyrst út 1934, þegar Ólafur var 15 eða 16 ára gamall, en eintakið sem ég á er hins vegar af fjórðu útgáfu frá 1958 og er Bókaútgáfan Drengir útgefandinn. Þessi bók er safn af stuttum frásögnum Ólafs Jóhanns frá æskustöðvunum í Grafningnum, aðallega af börnum og dýrum. Hann segir frá eigin ævintýrum og uppátækjum og afreksverkum annarra og svo eru þarna stuttar smásögur, eða eiginlega örsögur, af dýrum. Bókin er einstaklega vel skrifuð ef litið er til aldurs höfundar, hún er á fallegu og skýru máli og hann segir frá af hógværð; hann stærir sig ekki af einu eða neinu, játar á sig óþekkt og mistök og einskorðar hólið við frásagnir af öðrum en sjálfum sér.
Einhverjum gætu þótt sumar af þessum sögur væmnar og kannski eru þær það…svolítið. Börnin sem sagt er frá eru yfirleitt þæg og góð, nema þegar Ólafur óhlýðnast foreldrum sínum eða freistast til að stríða vinum sínum og iðrast svo óhjákvæmilega síðar. Hann er gráti nær yfir vonsku mannsins þegar veiðimaður skýtur grágæsir og hann bjargar lóu úr hvofti kattar. En það er samt eitthvað einlægt og satt við þessar frásagnir svo að líklega er ekki rétt að kalla þann tilfinningasætleika sem þarna birtist væmni. Þessar frásagnir gefa skemmtilega mynd af lífi íslensks sveitadrengs á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar. Hann fer á skauta, tínir ber og selur, æfir sig að synda í bæjarlæknum, sinnir bústörfum og finnur upp á ýmsu með félögum sínum. Að minnsta kosti lifði ég mig djúpt inn í þessar frásagnir sem barn og dóttir mín virðist gera það líka.
Í Við Álftavatn eru margir af köflunum myndskreyttir en ekki kemur fram eftir hvern teikningarnar eru og þrátt fyrir að hafa eitthvað reynt að svipast um eftir upplýsingum um það hefur mér ekki orðið ágengt. Það væri fróðlegt að vita hvort þær eru eftir höfundinn sjálfan eða einhvern annan og ef einhver lesandinn lumar á vitneskju um það væri hún vel þegin.
Úr japönsku teiknimyndaseríunni
Ie naki ko Rémi
Hin bókin frá Svövu frænku sem ég ætla að segja frá hér er líklega sú bók sem ég hef lesið einna oftast því hún var í miklu uppáhaldi hjá mér. Kápan á henni var orðin lúin þegar ég fékk hana og nú er hún við það að detta í sundur. Þetta er Litli flakkarinn (fr. Sans famille) eftir Hector Malot (1830-1907) sem Ísafoldarprentsmiðja gaf út 1948. Ekki kemur fram hver þýðandinn er en samkvæmt upplýsingum í Gegni er þetta 2. útgáfa og ný þýðing. Áður hafði bókin komið út 1942 undir heitinu Flökkusveinninn, í þýðingu Hannesar J. Magnússonar.
Lúna eintakið mitt
Sans famille kom upphaflega út 1878. Hún fjallar um munaðarlausa drenginn Remi sem ferðast um með farandhljómlistarmanninum Vitalis, hundunum hans og apanum. Auk þess að sjá sér þannig farborða með söng og hljóðfæraslætti leitar Remi að foreldrum sínum því uppruni hans er dularfullur. Fósturfaðir hans, sem seldi hann síðar til Vitalis, hafði fundið hann sem kornabarn í ríkmannlegum reifum. Remi, Vitalis, apinn og hundarnir lenda í alls konar ævintýrum á ferðum sínum, erfiðleikum, veikindum, sulti og seyru og eru beittir rangindum. En þrátt fyrir að upplifa ýmsa sorg kynnist Remi mörgu góðu fólki og allt endar þetta vel; Remi finnur móður sína og bróður (sem auðvitað eru moldrík og taka honum fagnandi), losnar við vonda fósturföðurinn en heldur fósturmóðurinni góðu og vex svo upp og giftist æskuástinni. Og lamaði drengurinn í bókinni fær máttinn í fæturna og stendur upp heill. 
Nokkrar kvikmyndir hafa verið gerðar eftir Sans famille, þar á meðal japanska teiknimyndin Chibikko Rémi to meiken Capi (Rémi litli og hundurinn Capi), og japönsk teiknimyndasería, Ie naki ko Rémi (Heimilislausa barnið Rémi).
Af því að eintakið mitt af Litla flakkaranum er merkt fyrri eiganda varð ég auðvitað forvitin og fór að leita að upplýsingum um hann. Það kom svo sem ekkert stórkostlega merkilegt í ljós. Maðurinn er fæddur 1940 og félagi í Rótarý.
Hér má heyra söguna lesna á frummálinu.

Engin ummæli: