29. ágúst 2011

Stattu þig drengur


Stattu þig drengur eftir Stefán Unnsteinsson er ævisaga Sævars heitins Ciesielski fram til ársins 1980 þegar hann var 25 ára,  en Sævar var eins og flestir vita, einn af sakborningunum í Geirfinnsmálinu. Sævar lést um daginn og okkur datt í hug að rifja upp þessa bók, en hún er alveg þess virði að lesa. Hér fyrir neðan er hluti úr útvarpsþætti þar sem fjallað var um bókina.

Stattu þig drengur kom út árið 1980 en þá sat Sævar enn í fangelsi og afplánaði dóm fyrir meinta aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar, sem fór að heiman kvöld eitt í nóvember árið 1974. Hann hafði mælt sér mót við ókunnan mann og hefur ekki sést síðan. Sævar Ciesielski var í hópi ungmenna sem var hnepptur í gæsluvarðhald vegna gruns um aðild að hvarfinu en dómur féll í málinu árið 1980, árið sem Stattu þig drengur kom út og voru ungmennin fundin sek og dæmd til mislangrar fangavistar. Mikið hefur verið rætt um þetta mál, margoft hefur verið bent á það að engin sönnunargögn fundust málinu til stuðnings nema játningar sakborningana, sem voru síðar dregnar til baka og færð rök fyrir því að þær hafi á sínum tíma verið þvingaðar fram með pyntingum. Sævar Ciesielski gerði tilraun til að fá málið endurupptekið árið 1996 en það fékkst ekki í gegn. Umræða um Geirfinnsmálið hefur á undanförnum árum snúist töluvert um aðferðir lögreglu við rannsókn málsins en allt bendir til þess að sakborningar hafi verið beittir miklu harðræði. Það er ekki ætlunin að fjalla nánar um þetta mál hér í sjálfu sér, enda eru þau ekki mörg sakamálin sem hafa fengið meiri fjölmiðlaumfjöllun en Geirfinnsmálið.Bókin um Sævar Ciesielski er athyglisverð. Höfundurinn kynntist Sævari sem unglingi og þótti hann áhugaverð manneskja, en þeir unnu saman í fiski á Tálknafirði um skeið. Stefán hafði einnig áhuga á afbrotaunglingum og málefnum þeirra, hann hafði sem ungur maður unnið við unglingaheimilið alræmda í Breiðuvík, en þar dvaldi Sævar einmitt um tíma. Stefán tekur í sjálfu sér ekki eindregna afstöðu til þess hvort að Sævar hafi framið þá glæpi sem hann er sakaður um, enda hefur hann kannski ekki forsendur til þess á þessum tíma. Tilgangur hans er fyrst og fremst að skoða persónuna Sævar Ciesielski og reyna að finna út úr því hversvegna fór sem fór, hvernig aðstæður og samfélag móta hann. Bókinni er skipt í þrjá hluta. Fyrsti hlutinn kallast „Sjálfsmynd Sævars“ en þar segir Sævar sjálfur frá uppvexti sínum og aðdraganda þess að hann lendir í fangelsi. Annar hlutinn nefnist „Myndir annarra af Sævari“ og eins og titillinn ber með sér inniheldur hann frásagnir samferðamanna af viðfangsefninu, þar á meðal félaga hans og kennara. Þriðji hlutinn kallast „Frá Stóra-Hofi að Litla-Hrauni eða nokkrir þættir úr mótunarsögu afbrotamanns“ en þar fer höfundurinn yfir þá þætti sem hann telur að hafi mótað Sævar Ciesielski sem einstakling.

Í fyrsta hlutanum segir Sævar frá sjálfum sér. Það kemur fljótlega í ljós að frásögnin er að minnsta kosti öðrum þræði hugsuð sem málsvörn Sævars. Hann lítur svo sannarlega yfir farinn veg en eins og höfundur bendir á í inngangi er frásögnin hugsuð eins og myndasafn, þar sem hugleiðingar hans, Sævars og annarra fléttast saman. Það er svo undir lesandanum komið hvernig hann raðar þessum brotum saman.

Sævar fæddist árið 1955. Hann virðist aldrei hafa kynnst móður sinni mikið, eins hann segir í bókinni heldur hann að hún hafi verið hress og kát ung stúlka, hann bendir einnig á að afi hans og amma hafi haldið því fram að hún hafi verið fluggáfuð og hálfgert undrabarn en Sævar er ekki alveg á því og segist aldrei hafa séð neitt undravert við hana. Hún var bara venjuleg móðir, svo vitnað sé beint í textann. Hún fellur hún í skuggann af föðurnum en hann var pólskur ameríkani sem var að bíða eftir því að komast til Grænlands til að vinna á veðurathugunarstöð þegar hann kynnist móður Sævars og þau flytja fljótlega til Bandaríkjanna og búa þar um skeið meðan hann klára nám í viðskiptafræðum í Washington. Það virðist ekki vera ljóst afhverju þau flytja aftur til Íslands en faðirinn nær aldrei að blómstra þar. Sævar telur að hann hafa verið óhamingjusaman, hann fékk ekki vinnu í samræmi við menntun sína enda erfitt að vera útlendingur á Íslandi. Samkvæmt frásögn Sævars var hann sterkur persónuleiki, andlega sinnaður og velti mikið fyrir sér mórölskum spurningum og móðirin sýndi þessari hlið víst aldrei mikinn skilning. Fjölskyldan bjó á Hverfisgötunni og þar kynntist Sævar strákum sem mynduðu klíkuna Fantomas en í þeirri klíku var meðal annarra Kristján Viðar Viðarsson sem var einn af ákærðum í Geirfinnsmálinu. Þeir virðast hafa byrjað í hrekkjum og slíku en svo þróaðist starfsemin yfir í ýmisskonar smáglæpastarfsemi, hnupl og þessháttar. Sævari gekk erfiðlega að fóta sig í skólakerfinu og var sendur á milli skóla og uppeldisstofnana sem fá vægast sagt misjafnar einkunnir í bókinni. Í Breiðuvík leggur forstöðumaðurinn til dæmis ítrekað hendur á unglingana og framkoman er oft harðneskjuleg. Veturinn sem Sævar dvelur þar deyr faðir hans en þegar þá var komið sögu voru foreldrar hans skilin að skiptum og faðir hans fluttur til Ameríku. Sævar vildi fara suður til að vera með fjölskyldu sinni en það var ekki tekið í mál. Ástandið í Breiðuvík hefur þannig greinilega verið ljóst þegar bókin er skrifuð en Sævar bendir á að langflestir þeirra sem dvöldust í Breiðuvík hafi síðar stundað glæpi og flestir hafi síðar hist á Hrauninu.

Sævar hefur ýmis járn í eldinum þrátt fyrir stopula skólagöngu. Hann hefur til dæmis mikinn áhuga á kvikmyndun, hann fær stundum lánaðan tækjabúnað og tekur þá upp áhugaverð myndskeið og fær hugmyndir að kvikmyndahandritum. Hinsvegar stundar hann fíkniefnainnflutning og heldur alltaf sambandi við undirheimana. Hann umgengst allskonar fólk og leikur mörgum skjöldum, hann virðist eiga vini og kunningja í ólíkum hópum, í raun má kannski segja að hann sé sumpart týpískur íslenskur braskari, með puttana í allskonar málum, fullt af hugmyndum og plönum sem eru ekki endilega alltaf framkvæmd. En hann getur ekki sagt skilið við smákrimmaheiminn og þær tengingar verða honum svo að falli. Það verður látið vera að fara nánar út í aðdraganda Guðmundar- og Geirfinnsmálana hér enda nokkuð vel þekkt atburðarás þar á ferð.

Eins og fyrr segir byggir annar hluti bókarinnar á frásögnum samferðafólks af Sævari. Kaflinn hefst á álitsgerð Ingvars Kristjánssonar geðlæknis, um geðheilbrigði og sakhæfi Sævars. Þar segir meðal annars að ekkert komi fram sem bendi til meiri háttar geðveiki en hinsvegar koma fram djúpstæðar truflanir við rannsóknir á persónuleika sem lýsa sér í grunnu tilfinningalífi, tillitsleysi við aðra og andfélagslegu atferli, svo vitnað sé beint í álitsgerðina. Einnig kemur fram að Sævar er málglaður og veður úr einu í annað en jafnframt var um sig og tortrygginn. Það er spurning hvort það má ekki greina ákveðna mótsögn þarna.

Annar álitsgjafi er Arthur Björgvin Bollason sem var tvö sumur í sveit hjá móður afa og ömmu Sævars á Stóra-Hofi í Gnúpverjahreppi. Hann segir að Sævar hafi verið „nokkuð sérstæður krakki, afar viðkvæmur grátgjarn og taugaveiklaður, en vökull og skýr“. Hann fékk jafnframt stundum bræðisköst ef eitthvað bar útaf og lét sig þá stundum hverfa og þá var Arthúr Björgvin sá eini sem gat tjónkað við hann. Þessi stutta frásögn Arthúrs Björgvins virðist hinsvegar aðallega þjóna þeim tilgangi að upplýsa um ofbeldishneigð föðurins undir áhrifum áfengis en þá var hann víst gjarn á að dangla í fólk með beltinu sínu. Hinsvegar var hann skemmtilegur og geysivel lesinn að mati Arhúrs Björgvins og fyrirgafst víst margt þess vegna. Hann bendir einnig á að Sævar hafi ekki líkst föður sínum hvað ofbeldið varðar, hann virtist ekki kippa sér upp við framkomu föðurins undir slíkum kringumstæðum en forðast hinsvegar að beita ofbeldi sjálfur. Þessi lýsing er í samræmi við lýsingar annarra í bókinni. Einn af kennurum Sævars og fleiri félagar lýsa honum í bókinni en skemmtilegastur er líklegast kafli sem ekki er skrifaður undir nafni, höfundurinn nefnist Ónefndur hippi í bókinni en Sævar var tíður gestur í kommúnu þar sem ónefndi hippinn dvaldi í upphafi áttunda áratugarins.

Í þriðja hluta bókarinnar má finna hugleiðingar höfundarins, Stefáns Unnsteinssonar, um ævihlaup Sævars Ciesielskis en hann gengur úr frá því að ekki hafi verið skráð í stjörnurnar að Sævar yrði glæpamaður og á þá við að uppeldis- og samfélagslegir þættir vegi þungt. Samkvæmt þessari greiningu höfundarins endurspeglar þessi umfjöllun um Sævar og hans sögu þróun íslensks samfélags en þar er margt gagnrýnivert að hans mati og er samfélagsgerðin til þess fallin að ala af sér aukinn fjölda afbrotamanna og hann telur meðal annars að örar breytingar á íslensku samfélagi eftir seinni heimsstyrjöld með tilheyrandi neyslubrjálæði og vinnuþrælkun hafi mótað lífshlaup Sævar Ciesielskis.

Við látum þetta duga um Stattu þig drengur en mælum eindregið með því að fólk lesi bókina.

Brot úr útvarpsþætti sem Þórdís og Þorgerður gerðu fyrir RÚV.

Engin ummæli: