5. mars 2012

American shouldn´t cry he should look kind and grave and very sorry

Um daginn pantaði ég mér Bandaríkjaþríleik John dos Passos eftir að hafa lesið um hann einhvers staðar og fundist spennandi. Ég bjóst við skáldsögunum saman í módern svartri bók úr klassískri seríu eins og ég hafði séð á heimasíðu Amazon, en í staðinn fékk ég þrjú hnausþykk og virðuleg myndskreytt bindi frá 1946. Skömmu síðar datt netið út og ég las allar fimmtánhundruð blaðsíðurnar í einum rykk, lifði og hrærðist í bandarísku samfélagi á fyrstu áratugum 20. aldar og dreymdi vélritunarstúlkur, fyrri heimsstyrjöldina og flugtilraunir Wright-bræðra.

Bandaríkjaþríleikurinn samanstendur af skáldsögunum The 42nd Parallel, Nineteen Nineteen og The Big Money. Stærstur hluti bókanna eru kaflar sem segja sögur einstakra persóna, en þær fléttast saman eftir því sem á líður, persónur í einni sögu koma fyrir í annarri og svo framvegis. Þessir kaflar eru brotnir upp með þrenns konar öðrum köflum; æviágripum fólks sem setti svip sinn á tímabilið (til dæmis Woodrow Wilson, Isadoru Duncan og Thomas Edison), köflum með yfirskriftinni Newsreel þar sem blandað er saman brotum úr dægurlagatextum og fréttum og fyrirsögnum dagblaða frá tímabilinu, og köflum með yfirskriftinni The Camera Eye sem eru skrifaðir í frjálsu flæði og ku vera sjálfsævisögulegir textar höfundar.
Samkvæmt netinu sem dettur hér inn og út var John dos Passos fyrst kommúnisti, hætti því svo og varð McCarthyisti – fór úr öskunni í eldinn semsagt – en hann hefur verið ívið nær kommúnismanum þegar hann skrifaði þessar bækur. Þetta er raunsæ og oft kaldranaleg lýsing á bandarísku samfélagi á fyrstu áratugum 20. aldar, á breyskum manneskjum sem koma illa fram við hver aðra, fátækt og erfiðleikum, spillingu, félagslegu misrétti og viljaleysi þeirra sem valdið hafa til að gera eitthvað í því. Sumir rísa frá fátækt til ríkidæmis eftir forskrift ameríska draumsins en margir falla aftur og flestir eiga aldrei séns. Það er verið að finna upp bílinn, flugvélina, bíómyndina, og á toppnum er barist um völdin yfir nýju tækninni, peninga, pólitík og bréfin á Wall Street. Meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stendur (en um hana fjallar Nineteen Nineteen að miklu leyti) logar stríðsákafinn í Bandaríkjunum, enda ýmsir sem græða á tá og fingri, og kommúnistar og friðarsinnar eru úthrópaðir sem föðurlandssvikarar. Kynþáttamisréttið er líka allsráðandi; þótt staða blökkumanna sé aldrei gerð að beinu viðfangsefni kemur skýrt fram að þeir eru annars flokks þjóðfélagsþegnar og eru ævinlega í þjónustuhlutverki gagnvart hvíta fólkinu, blandandi endalausa kokkteila fyrir feita ríkisstjóra og graða verkalýðsleiðtoga. (Það er gríðarlega mikið drukkið í bókunum og menn draga viskífleyga óspart upp úr skrifborðsskúffunum á miðjum vinnudegi.)

Verkalýðshreyfing sem sjálf logar í innbyrðis deilum berst fyrir betri kjörum en á við ofurefli að etja og fólk er lamið, hrakið úr vinnu, fangelsað og tekið af lífi fyrir pólitískar skoðanir sínar. „all right we are two nations“ segir fræg lína undir lokin á The Big Money þegar fjallað er um aftökurnar á Sacco og Vanzetti, en í þeirri bók er stéttabaráttan miðlæg og þar örlar helst á skýrri pólitískri afstöðu höfundarins. Hann leyfir sér meira að segja, á næstu blaðsíðu á undan, örlitla upprunarómantík að bandarískum hætti: „America our nation has been beaten by strangers who have turned out language inside out who have taken the clean words our fathers spoke and made them slimy and foul“.

Stíll teikninganna minnti mig stundum
á gamlar barnabækur eftir Enid
Blyton...en ekki efni þeirra
Það kom mér á óvart hversu opinská frásögnin er í kynferðismálum – hér er talað um allt frá erfiðum túrverkjum til hneigða til eigin kyns. Konur eru að fá kosningarétt og byrja að vera fjárhagslega sjálfstæðar. Getnaðarvarnir eru hins vegar ekki orðnar almennar og það gerir samskipti kynjanna flókin; allir vilja sofa hjá en konurnar eru settar í það hlutverk að „neita“ körlunum um kynlíf til að eiga ekki á hættu að sitja uppi með lausaleikskróga. Ef þær verða óléttar stingur pabbinn kannski af og þær fara í ólöglega fóstureyðingu eða drepa sig. Ef hann ákveður að axla ábyrgðina með henni neyðast þau til að gifta sig og jagast svo bitur og beisk í hvort öðru til æviloka. Karlarnir gera mikið af því að sofa hjá vændiskonum og eru síhræddir um að „catch some disease“. Maður lærir sannarlega að meta frjálst aðgengi að getnaðarvörnum eftir svona lestur.

Ég var virkilega hrifin af þessum bókum og þótt persónurnar séu margar hverjar óttalegir skíthælar fór ég fljótlega að sakna þeirra eftir að ég lauk síðustu bókinni. Þótt samfélagssýn höfundarins sé myrk er líka húmor í bókunum, ekki síst í Newsreel-köflunum („PRESIDENT HAS SLIGHT COLD AT SEA“, „FIND TEN THOUSAND BAGS OF DECAYED ONIONS“), og þessir alternatívu styttri kaflar af ýmsu tagi gefa færi á ljóðrænni texta, oft mjög flottum. Síðasti kaflinn í Nineteen Nineteen, „The Body of an American“, er frægt dæmi. Hann minnti mig dálítið á söguna hjá Dovlatov sem ég lýsti hér, þar sem blaðamaðurinn er settur í það hlutverk að velja fjögurhundruðþúsundasta íbúa Tallinn fyrir afmælishátíð borgarinnar og er í öngum sínum á fæðingardeildinni að reyna að finna sómasamlegt reifabarn sem er komið af góðum sósíalískum ættum en ekki blökkumönnum eða gyðingum, nema hvað hér er verið að velja hentugt lík óþekkts hermanns til að flytja vestur um haf frá Evrópu með sæmd:

Make sure he ain´t a dinge, boys,
make sure he ain´t a guinea or a kike,
how can you tell a guy´s henredpercent when all you´ve got´s a gunnysack full of bones, bronze buttons stamped with the screaming eagle and a pair of roll puttees?
...and the gagging chloride and the puky dirtstench of the yearold dead...

Í The 42nd Parallel var önnur hálfdraumkennd lýsing á hermanni sem fluttur er láréttur heim og ég var ekki síður hrifin af:

American shouldn´t cry he should look kind and grave and very sorry when they wrapped me in the stars and stripes and brought me home on a frigate to be buried I was so sorry I never remembered whether they brought me home or buried me at sea but anyway I was wrapped in Old Glory

Bandaríkjaþríleikurinn kom fyrst út árið 1930 og mér finnst hann hafa elst ótrúlega vel. Misrétti og stríð heyra því miður ekki sögunni til og þótt þjóðfélagsaðstæður hafi breyst að einhverju leyti er ekki sérlega erfitt að sjá þessar meingölluðu manneskjur fyrir sér í samtímanum.

5 ummæli:

Kári Tulinius sagði...

E. E. Cummings og Dos Passos voru vinir á háskólaárum sínum og höfðu mikil áhrif á hvorn annan. Það liggur við að þeir séu einir og sér sérstök stefna í enskumælandi bókmenntum. Dos Passos varð hefðbundnari með árunum, öfugt við Cummings sem hélt áfram í tilraunamennsku.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Hm, ég ætla að lesa þetta. Þó ekki væri nema fyrir Cummings-tenginguna sem Kári minnist á hér að ofan. Ég er nefnilega e.e.-njörður síðan á unglingsárum.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Þetta er spennandi efni. Ég á eina (eða tvær í raun, því bindin eru tvö) uppáhaldsbók sem lýsir bandarísku samfélagið um 1920, það er Babbitt eftir Sinclair Lewis. Frábær bók og kom út í íslenskri þýðingu Sigurðar Einarssonar árið 1943.

Nafnlaus sagði...

Ég las Babbitt þegar ég var svona tíu ára (já, ég var undarlegt barn). Ég þarf að lesa hana aftur.

Salka

Kristín Svava sagði...

Áhugavert að heyra af þessari tengingu milli dos Passos og Cummings - hana hafði ég ekki hugmynd um!