Á tímabili safnaði ég prjónabókum. Þar á ég fyrst og fremst við bækur með prjónauppskriftum en þó ekki bara. Oft er prjónabók helguð tiltekinni aðferð, tækni eða mynsturgerð, hugmyndum tiltekins prjónahönnuðar eða prjónuðum plöggum af einhverju tagi og oft inniheldur hún heilmikinn sögulegan fróðleik. Mér telst svo til að ég eigi tæplega fimmtíu prjónabækur, sem eru nú kannski engin ósköp, en mér finnst það orðið nóg. Alla vega er ég nánast alveg hætt að kaupa slíkar bækur því mér finnst ég orðið eiga allt sem ég þarf í þeim efnum. Ég á nokkuð gott safn af flestum þeim uppskriftum sem ég þarf eða fræðslu um aðferðir til að prjóna allt það sem mig langar til að prjóna og það sem upp á vantar er auðvelt að nálgast á netinu, ekki síst eftir tilkomu prjónafeisbúkkarinnar
Ravelry. Líklega gæti ég freistast til að kaupa enn eina prjónabókina ef hún innihéldi eitthvað mjög frumlegt eða nýstárlegt, eða væri með alveg sérdeilis fallegum myndum, en ég ber mig ekki eftir því lengur.
Prjónabækur eiga margt sameiginlegt með matreiðslubókum. Þær innihalda oft uppskriftir sem hægt er að fylgja til þess að búa til það sem óskað er eftir. Oft lýsa þær aðferðum eða innihalda fróðleik sem hægt er að nýta sér til að búa eitthvað til út frá eigin brjósti án þess að fylgja nákvæmlega tiltekinni uppskrift. Í þeim eru oft mjög freistandi myndir sem gaman er að skoða og láta sig dreyma yfir og sem ýmist verða til þess að maður ákveður að fylgja tiltekinni uppskrift eða fær hugmyndir að einhverju sem hægt er að búa til án uppskriftar. Og líkt og sumar matreiðslubækur sem ég á eru sumar prjónabækur þannig að ég hef mjög gaman af að fletta þeim og hugsa um allt sem í þeim er sem ég ætla einhvern tímann að prjóna við tækifæri án þess að ég láti svo nokkurn tíma verða af því.
Lesendum
Druslubóka og doðranta til fróðleiks ætla ég að segja frá nokkrum af uppáhaldsprjónabókunum mínum og kynna um leið nokkra helstu flokka þeirra prjónabóka sem ég hef sankað að mér. Ég hef nefnilega ekkert áhuga á hvaða prjónabókum sem er.
|
Sake-sokkar eftir hina bráðsnjöllu Cookie A. |
Í fljótu bragði telst mér svo til að ég eigi ellefu bækur sem helgaðar eru sokkaprjóni. Langflestar þeirra byggja mikið til á uppskriftum fyrir fíngert sokkagarn og gjarnan með flóknum gata- og kaðlamynstrum. Ég held til dæmis mikið upp á hana Cookie A. sem er höfundur
Sock Innovation og fleiri sokkauppskrifta. Konan sú hannar sokka sem eru hver öðrum flottari, maður bara fellur í stafi yfir öllum þeim undrum sem henni detta í hug. Eiginlega fyllist ég lotningu yfir sokkauppskriftunum hennar og reyndar væri ég alveg til í að eignast líka nýju bókina hennar,
Knit. Sock. Love. Þrjár af sokkabókunum mínum eru eftir Nancy Bush (nei, ég veit ekki til þess að hún sé skyld fyrrverandi forsetum Bandaríkjanna) og þær eru allar byggðar á einhvers konar uppskriftasöfnun þótt ein byggi reyndar líka á hennar eigin hönnun.
Folk Socks er mikil fróðleiksnáma. Í henni er að finna uppskriftir að sokkum samkvæmt hefðum ýmissa landa. Það sem er þó ekki síður merkilegt er að þarna er farið yfir sögu sokka (elstu rituðu heimildir um sokka eða sambærileg klæði eru frá 8. öld fyrir Krist) og svo er farið nokkuð vandlega yfir grundvallaratriði sokkaprjóns eins og mismunandi leiðir til að fitja upp og mismunandi gerðir hæla og táa. Fyrir þá sem ekki hafa reynslu af að prjóna hljómar þetta sjálfsagt eins og eitthvert óskiljanlegt hrognamál en mér finnst þetta alla vega mjög áhugavert.
Knitting Vintage Socks inniheldur nútímavæddar útgáfur af gömlum uppskriftum en í
Knitting on the Road birtir Bush sínar eigin uppskriftir sem hver og ein er þó innblásin af einhverjum stað sem hún hefur komið á. Svo á ég alls konar safnrit með ýmiss konar sokkauppskriftum og að lokum bók sem heitir
Simply Socks sem inniheldur dásamlegar myndir af litríkum sokkum í tyrkneskum stíl, ásamt uppskriftum.
|
Lizbeth Upitis ásamt lettneskum vettlingum |
Höfundur bókarinnar um tyrknesku sokkana heitir Anna Zilboorg og hefur sérhæft sig í litríkum mynstrum, sem er nokkuð sem ég hef alltaf verið veik fyrir líka. Ég á aðra bók eftir hana sem heitir
45 Fine and Fanciful Hats to Knit og hef alltaf verið á leiðinni að útvega mér vettlingabókina hennar. Bækur með mynstrum sem byggð eru á þjóðlegum hefðum, gjarnan litríkum, hafa gjarnan ratað til mín.
Knitting Marvelous Mittens eftir Charlene Schurch hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér og ég hef prjónað ófáa vettlinga upp úr henni. Hún er helguð vettlingamynstrum frá Komi-héraði í Rússlandi, rétt við Úralfjöllin. Þessi mynstur eru skemmtilega reglubundin og auðvelt að leggja þau á minnið þrátt fyrir að þau geti virst flókin. Þau byggja undantekningalaust á symmetrískum línum sem liggja á ská og tengjast og mynda mynstur. Svo leikur maður sér auðvitað með litina eins og manni þykir best henta. Sænska bæklinginn
100 landskapsvantar hef ég alltaf gaman af að skoða. Í honum gefur að líta vettlingaplögg hvaðanæva úr Svíþjóð í öllum regnbogans litum. Þarna má bæði finna afar þjóðlega og hefðbundna vettlinga og vettlinga sem bera tíðarandanum, það er árinu 1981, sterkt vitni. Í
Latvian Mittens safnaði Lizbeth Upitis fjöldanum öllum af myndum af hefðbundnum lettneskum vettlingum sem eru hver öðrum litríkari og fegurri svo mann hreinlega langar ekki að gera neitt annað í lífinu en að prjóna vettlinga. Samkvæmt bók þessari eru margs konar hefðir kringum vettlinga í Lettlandi, meðal annars mun það hafa tíðkast að brúðkaupsgestir væru leystir út með vettlingapari sem brúðurin hefði prjónað (eiginlega vona ég, lettneskra kvenna vegna, að sú hefð hafi lagst af). Ég á svo aðra bók með lettneskum mynstrum sem ber heitið
Latvian Dreams. Í norsku deildinni hjá mér má finna ýmislegt, meðal annars
Ljóð í lykkjum eftir Solveig Hisdal sem hefur að geyma peysur í undursamlegum litasamsetningum byggðum á gömlum norskum vefnaði og svo auðvitað bækur um prjónaplögg í Selbustíl. Samkvæmt Selbuhefðinni er bara notast við svart og hvítt en eftir því sem ég best veit eru engin viðurlög við því að brjóta slíkar reglur og nota bara þá liti sem manni sýnist.
Rósaleppaprjón í nýju ljósi eftir
Hélène Magnússon er svo líka sneisafull af litríkum og fallegum mynstrum í þjóðlegum anda.
Eins og lesendur er kannski farið að gruna þá á ég ekki mikið af íslenskum prjónabókum. Ég hef aldrei lagt mig eftir lopapeysuprjóni en á þó eina eða tvær bækur með slíku. Eiginlega hafa mér fundist lopapeysur óþarflega mikið í tísku undanfarin ár og of mikið notað af sömu uppskriftunum; á götum úti sér maður aðra hverja manneskju í sömu peysunni. Mér finnst það eitthvað trist tilhugsun að hafa fyrir því að prjóna heila peysu og mæta svo fjölda fólks í alveg eins þegar maður fer út að spóka sig í herlegheitunum. Vissulega hafa ekki bara verið gefnar út lopapeysubækur á Íslandi og ekki síst á undanförnum árum hefur gróskan í prjónabókaútgáfu verið umtalsverð. En það hefur samt gerst eftir að prjónabókaþörf mín var mikið til mettuð. Eina íslenska bók held ég þó mikið upp á og það er bókin
Þríhyrnur og langsjöl. Í henni eru uppskriftir að afar fallegum sjölum og skemmtilegur fróðleikur um frummyndir þeirra inn á milli. Fyrst ég er komin út í sjölin og gataprjónið er rétt að nefna fleira úr hillunni hjá mér, eins og
Folk Shawls eftir Cheryl Oberle og
Victorian Lace Today eftir Jane Sowerby.
|
Tebollarnir hennar Debbie New |
Ekki má gleyma þeim prjónabókum sem er allra skemmtilegast að skoða, en það eru þær sem eru óvenjulegar eða nýstárlegar og byggja á tilraunastarfsemi.
Unexpected Knitting eftir Debbie New er í miklu uppáhaldi hjá mér. Þar eru til dæmis flíkur byggðar á alls konar geómetrískum formum og þar sem mismunandi efnum er blandað saman á óvenjulegan hátt en einnig má finna myndir af alls konar prjónuðum skúlptúrum, til dæmis tebollum sem ég bara verð að spreyta mig á við tækifæri, alls konar bikurum, krukkum og svo eru sokkar prjónaðir úr lakkrísreimum. Teva Durham heldur sig nú við nothæfar flíkur í
Loop-d-Loop en þær eru þó nokkuð sérstakar. Í Knitting New Scarves eftir Lynne Barr eru skemmtilegir og óvenjulegir treflar og í
Knit a Fantasy Story eftir Jan Messent kynnumst við því hvernig hægt er að prjóna alls konar leikföng, ekki bara brúður og dýr heldur líka tré og heilu hallirnar. Að lokum verð ég að nefna
Cat Bordhi, sem hefur gefið út hverja frumlegu prjónabókina á fætur annarri. Í
A Treasury of Magical Knitting kennir hún aðferð til að prjóna trefla og sjöl sem eru sannir
Möbíusarborðar. Eins og hún útskýrir í bókinni er nefnilega ekki sama hvernig farið er að ef maður vill vera hinu rétta stærðfræðilega formi trúr. Hún heldur svo áfram með þessa aðferð í
A Second Treasury of Magical Knitting en er þar komin út í skálar, kattarbæli og fleira sem prjónað er út frá Möbíusarborðanum. Og nú er rétt að enda þar sem leikurinn hófst, sem sagt á sokkabók. Bordhi hefur leikið sér að því að prófa alls konar óhefðbundnar leiðir til að prjóna sokka og kynnir þær í
New Pathways for Sock Knitters.
5 ummæli:
Þú átt sem sagt enga ómyndarprjónabókanna sem hafa komið út undanfarin ár á íslensku?
ooo - en gaman! Ég er líka mjög svag fyrir prjónabókum og finnst mjög gaman að fletta þeim í bókabúðum...ég á hins vegar oft erfitt með að skilja flóknar uppskriftir...
Þvílíkar bækur! Nú mun mig dreyma um svona lettneska vettlinga!
Þetta er hreinasti fjársjóður! Lettnesku vettlingarnir eru margra drauma virði, ef svo má sagja.
Þetta er mjög skemmtilegt. Prjónatungumálið er einmitt einn af leyndardómum kvenna finnst mér. Svona bókum er svo gaman að fletta, þær geta verið svo girnilegar að það kitlar bæði í fingur og tær eftir að rifja upp uppfitjanir úr grunnskóla, og svo er þetta bara alger latína, og þarf uþb eigin orðabók til að skilja herlegheitin.
Halla K. Geirsdóttir
Skrifa ummæli