Mig langar að byrja á sígildum vangaveltum um bókmenntaumræðu á Íslandi. TMM og Stína eru auðvitað til en þar er ekki „dagblaðaumræða“ eins og var í Lesbókinni og víðar fyrir einhverjum árum. Hefur netið tekið við eða er Ísland bara of lítið og fámennt til að hægt sé/vilji sé fyrir hendi til að borga fólki fyrir að halda úti daglegri bókmenntaumræðu og ígrundaðri bókmenntagagnrýni?
Ég er prentmaður eins og allir sem lifa í dag og ég sé ekki að netið hafi tekið yfir bókmenntaumræðuna, það er í rauninni frekar fátt á netinu um bókmenntir. Áðan spurði mig vinnustofufélagi minn sem átti í basli með netið: „Er eitthvað að netinu hjá þér?“ Ég svaraði: „Já, það er fullt af lágkúru og drasli.“ Það skiptir í rauninni litlu máli til hvaða fréttamiðils er litið. En í þetta sækir fólk því þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur. Þetta eru mikið til pólitískar veiðislóðir þar sem önglað er út hneykslunarefnum fyrir okkur fiskana, ég er alltaf að bíta á þetta sjálfur. Eitt algengasta þema bókmenntaumræðunnar er auðvitað bókmenntaumræðan og ég hef kannski sagt of mikið um dagana um bókmenntaumræðu, ég er fyrir löngu búinn með kvótann með að gera grín að Kiljunni og enginn skildi halda að því sé endilega vel tekið því eins og vinkona mín Halldóra Thoroddsen sagði af einhverju öðru tilefni: Það er manninum óeðlileg stelling að líta í eigin barm. Maður sér þetta fyrir sér. Að horfa í barminn á sjálfum sér er bara asnalegt. Kiljan er líka um margt prýðilegur þáttur. Einhver annar má gagnrýna bókmenntamiðla núna. Víðsjá heldur úti daglegri bókmenntaumræðu og þar er fólk á launum við það, netið á engan sjens í þetta þótt komnir séu netmiðlar eins og Hugrás. Dagblöðin hafa minnkað bókmenntaumfjöllun sína og áherslurnar hafa breyst og farið í ákveðinn farveg sem ég held hreinlega að sé of viðkvæmt til að nefna. Eða allavega nenni ég ekki alveg að fara út í það því eins og allir rithöfundar hef ég Damóklesarsverð sem hangir yfir höfðinu á mér, á bláþræði. En Druslubækur og doðrantar, það er miðill sem er að standa sig.
Ég hef á svolítið á tilfinningunni að viðmið „gamla módernismans“ ráði umtalsvert í íslenskum bókmenntum, allavega í ljóðagerð, og því sé helst hampað sem er sprottið upp úr og jafnvel mjög líkt því sem var að gerast í íslenskri ljóðagerð á miðri síðustu öld. Er þetta vitleysa hjá mér?
Einn fræðimaður lýsti módernismanum sem „dominant but dead“ og það er langt síðan. Sjálfum þykir mér vænt um módernismann og lít svo á að allir sem skrifa og yrkja verði að takast á við hann, halda honum áfram með einhverjum hætti, taka afstöðu til hans, því sá sem afneitar sögu sinni er holur að innan og sennilega spilltur líka. Ég veit bara ekki hvort módernisminn sé ríkjandi viðmið í ljóðagerð, það mætti eins líka segja mér hið gagnstæða. Ég er ekki viss um að ég ráði við spurninguna. Það eru mjög intresant hlutir að gerast í ljóðlist en þeir eiga undir högg að sækja af ástæðum sem erfitt er að nefna án þess að fara út í eitthvert væl.
Hvað með íslenskar skáldsögur sem koma út þessi árin, hvað finnst þér markverðast? Eru íslenskar bækur með annan fótinn eða báða á síðustu öld að formi/efnistökum? Mér dettur í hug Jarðnæði eftir Oddnýju Eir, það er mjög persónuleg bók og það sama má segja um nokkrar fyrri bækur Guðrúnu Evu, Huldars Breiðfjörðs og fleiri yngri höfunda. Má ekki sjá líkindi með Jarðnæði og Bréfi til Láru? Jón Kalman, Pétur Gunnarsson, Kristín Marja o.fl. hafa líka unnið með fortíðina.
Ég hef miklar mætur á Jarðnæði eftir Oddnýju Eir. Þegar ég var strákur var í gangi ákveðinn svona fótboltastemmning þar sem fólk átti að velja á milli Þórbergs og Halldórs. Ég valdi Þórberg. Eftir á finnst mér það vera rétta valið fyrir mig því Þórbergur reyndi að færa út bókmenntirnar, flytja þær á nýjar og óþekktar slóðir með skrýtnum formum og formblöndum. Kanna eitthvað óþekkt. Halldór var hefðbundnari. Það mætti segja mér að Oddný hafi líka valið Þórberg. Það er þarna sjálfsævisögulegur tónn og ég verð að viðurkenna að stundum finnst mér hann óþægilegur, kannski vegna þess að ég þekki Oddnýju og sumt fólkið sem þarna kemur við sögu. Það kom út bók eftir Vigdísi Gríms fyrir jól sem mér finnst líka fjandi fín þótt ég viti ekki hvort hún sé beinlínis skyld þeirri fyrrnefndu, þar er samt persónulegur tónn og merkilega unnið með ljóð Nínu Bjarkar. Það er einhver sjálfstextatónn í gangi hjá Vigdísi líka, held ég, öðruvísi en skyldur. Allra síðustu skáldsögur Kalmans ná ekki lengur til mín, svo ég viðurkenni það bara blákalt, það má ennþá hafa smekk og tjá hann feimnislaust og ég ætla ekki að lesa bók sem heitir Hjarta mannsins þótt mér sé hlýtt til höfundarins. Söguleg skáldsaga Ófeigs Sigurðssonar höfðar meira til mín, Jón. Nú, hvað meira, Huldar kann ég að meta svo eitthvað sé nefnt, Kristínu Marju hef ég hreinlega ekki lesið en skammast mín ekkert alltof mikið (hún hefur örugglega ekki lesið mig), Guðrúnu Evu kann ég vel að meta og ég hef miklar mætur á Braga Ólafssyni og Óskari Árna. Eiríkur Guðmundsson er finnst mér líka að gera þrusufína hluti á þessum sjálfstextaslóðum, þótt sjálfstextar almennt séu vel að merkja ekki sjálfsævisaga heldur skáldskapur. En ég veit það ekki. Svona upptalningar eru hættulegar því maður gleymir alltaf mörgum. Á Íslandi í dag er ríkjandi sú stemmning að ef fólk sér einhvern einasta flöt á því að móðgast þá móðgast það. Sennilega er ekki til verri maður en ég að spyrja um línur í landslaginu. Ég reyni að hafa opinn huga gagnvart því sem aðrir eru að gera og gera eins vel og ég get sjálfur.
Þú sjálfur hefur skrifað sögur sem líklega má segja að snúi upp á formið og bjóði lesendum í leiki. Í Stefnuljósum eru til dæmis birtar ljósmyndir af persónunum, ein heitir í höfuðið á íslenskum rithöfundi og sögupersónurnar eru með grillur og beygja ekkert endilega þangað sem þær gefa til kynna að þær ætli að beygja. Stefnuljós kom út árið 2005 og ég túlkaði hana sem viðbragð við sínum samtíma (sem var flókinn og öfgafullur - eins og okkar samtími og kannski allur tími). Ég man ekki eftir viðbrögðunum við bókinni en hef á tilfinningunni að lesendur séu ekkert svo spenntir fyrir bókmenntalegum leikjum, er það misskilningur hjá mér?
Ég held að vandamálið við bókmenntalega leiki sé það sama og með húmor í bókmenntum yfirleitt: Fólk tekur þá ekki alvarlega. Húmor er dauðans alvara. Ég er hræddur við húmor. Ég reyni að vera helst alveg húmorslaus sjálfur dags daglega enda er ég sérlega áhyggjufullur maður, kvíðinn, viðkvæmur, uggandi, neorótískur og stundum svolítið obsessívur. Í bókinni á undan, Níu þjófalyklum, heita meira og minna allir eitthvað sem líkist nafninu Ólafur Jóhann Ólafsson. Þannig er þetta í nútímasamskiptum, meira og minna öll tjáskipti á netinu gætu verið frá einum og sama manninum ef því væri að skipta og ég er skefingu lostinn yfir samtímanum, ég held að ég hafi sjaldan verið hræddari. Það verður að gera þetta enn hræðilegra með því að gera það fyndið. Þá fyrst get ég farið að skjálfa. Því ég held að það sé jarðvegur á Íslandi í dag fyrir mjög alvarlega samfélagsþróun, jafnvel þótt góðir möguleikar liggi líka í loftinu. Þessi bók, Stefnuljós, fjallar um það hvert við stefndum. Ég ætla ekki að segja „þetta sagði ég alltaf“ því mér var kennt í æsku að það væri ljótt. En ég veit ekki hvað lesendum finnst um bókmenntalega leiki eða hvort ég stundi þá sjálfur. Maður verður bara að gera það sem kviðurinn segir manni að gera, hvað sem kviðdómurinn svo segir.
Í grein í Lesbókinni árið 2008 vitnaði Þröstur Helgason í Guðberg Bergsson sem sagði um samtímabókmenntir: „Vandamálið er að þora að skrifa um samtímann og finna útgefanda. Þeir og rithöfundar eru yfirhöfuð orðnir að sölukjánum.“ Þetta situr í mér, líklega vegna þess að mér fannst Guðbergur óvæginn. Það er auðvelt að gagnrýna útgefendur fyrir að vera gráðugir kapítalistar og höfunda fyrir að vera „sölukjánar“ en flest fólk þarf bara að vinna fyrir sér og sínum. Ertu til í að tjá þig um íslenskar bókmenntir og kapítalisma?
Damókles með sverðið yfir höfði sér. Málverk frá 1812 eftir Richard Westall. |
Hvað finnst þér um þýðingar yfir á íslensku, hvar erum við stödd í þýðingabransanum?
Ég er að lesa Regnskógabeltið raunamædda eftir Claude Lévi-Strauss í þýðingu Péturs Gunnarssonar og út frá því finnst mér staðan ansi góð bara. Það eru ekkert öll lönd þar sem svona stöff kemur út. Ekki held ég að bókin fáist einu sinni í smábæ í Bandaríkjunum með sambærilegum mannfjölda og Ísland. Það má ekki gleyma að vera þakklátur. Að því sögðu þá hef ég einsett mér sjálfur að þýða bara það sem mig langar til að þýða og finn upp á sjálfur. Ég held að kæmi til greina að breyta fyrirkomulagi í styrkjamálum á þann veg að þýðendurnir hefðu meira um það að segja hvað er valið til þýðinga, í dag eru það útgefendurnir. Og útgefendur eru hrifnir af þeirri hugmynd að eiga fyrir salti í grautinn, hvað enginn skildi lá þeim. Þar með er hætta á að mest sé þýtt af drasli, því ótrúlega margir eru haldnir þeirri hugmynd að fólkið vilji helst drasl, sem verður auðvitað reyndin ef fólkið fær bara drasl. Fólk sem talar fyrir fólk er yfirleitt ekki fólk sjálft. Var þetta of flókin setning?
Lestu barnabækur og hvar finnst þér íslenskir barnabókahöfundar staddir?
Ég les mikið af barnabókum fyrir eins árs son minn þessa dagana. Áslaug Jónsdóttir er í uppáhaldi hjá honum, alveg frá því hann var nokkurra mánaða, það er merkilegt að sjá hve bókmenntasmekkur er fljótur að þróast og skrímsli hafa alltaf höfðað til barna. Hann er ekki kominn að Einari Áskeli og finnst Tralli leiðinlegur. Af reynslu veit ég að maður fer síðan að missa af barnabókum þegar börnin vilja fara að lesa sjálf en ég las til dæmis Fluguna sem stöðvaði stríðið um daginn og var mjög ánægður. Svo hef ég lesið Potter og talsvert af þannig efni og langar núna að lesa Hungurleikana. Ég er ekki hlynntur því að hlífa börnum of mikið við erfiðum bókum, það var meira en óhætt að lesa Búrið eftir Olgu Guðrúnu sem barn og manni varð allt annað en meint af því og bækurnar um Elvis voru talsvert svartar. En ég hef enga mótaða kenningu um íslenska barnabókahöfunda og íslenskar barnabækur.
Hvað ertu sjálfur að skrifa þessa dagana?
Ég er að vinna en held bráðum áfram að skrifa skáldsagnasveig sem ég verð lengi með. Svo er ég að leita fyrir mér með skáldsögu sem ég hef ákveðið að slíta út úr þessum sveig vegna þess að hún vill vera ein. Svo er ég að skrifa pistil á bleikt.is um útrýmingarbúðir nasista. Ég er búinn að gera það einu sinni áður en hef áhyggjur af að fólk haldi að ég hafi gert það óvart en ekki af einbeittum brotavilja og rangsnúinni mannúð. Þann misskilning vil ég leiðrétta. Ég ætla að hafa pistlana alls þrjá. Líklega vill maður hafa eitthvert sverð yfir höfði sér hverju sinni.
3 ummæli:
Mér finnst þetta ógurlega skemmtilegt viðtal og er alveg stúmm yfir því að engar athugasemdir hafi komið. En já. Kannski er það bara svo, að enginn hefur tíma til að skrifa athugasemdir við perlurnar meðan öslað er gegnum lágkúruna. Takk!
Takk Kristín.
Hressandi viðtal, takk bæði tvö.
Mér finnst alltaf svo traustvekjandi þegar bókmenntafólk les Potter - miðað við snobbkunningja mína sem halda fram (án þess að hafa klárað seríuna) að bækurnar séu ómerkilegar. Já gott barnaefni er ofarlega á áhugasviði mínu ;)
Skrifa ummæli