7. ágúst 2011

„Bíttu í píkuna á þér“

Fljótt á litið mætti ætla að orðunum í fyrirsögninni væri ætlað að særa eða móðga og að það að einhver skrifi þau til manns væri dæmi um samskipti í neikvæðari kantinum. Og undir flestum kringumstæðum væri sú ályktun sjálfsagt rétt. En þegar þessi orð voru látin falla í minn garð á feisbúkk fyrir nokkrum vikum leit ég á þau sem vinarhót og sem eitthvað bráðfyndið. Það er nefnilega þannig með hið ritaða orð, rétt eins og hið talaða, að merkingin er að svo miklu leyti háð samhengi. Í töluðu máli kemur raddblær auðvitað við sögu líka, og oft svipbrigði og líkamstjáning, en í rituðu máli má byggja á umræðuefninu, umhverfinu sem skrifað er í og fyrri samskiptum höfundar og lesanda, svo eitthvað sé nefnt. Og kannski er best að taka það strax fram að ég er alls ekki að mælast til þess að fólk út um allar trissur fari að bölva við vini sína, segja þeim að éta eitthvað vont eða bíta í kynfæri sín. Það er ekki hægt að reikna með að því verði vel tekið og það er hreinlega ekki á allra færi að lesa þannig í aðstæðurnar að geta metið hvenær sé óhætt að láta slík orð falla.
Þessi bloggfærsla fjallar ekki um bók en hún fjallar um skriflega tjáningu og samskipti og vin Druslubókabloggsins par excellence, manninn sem skrifaði ofangreinda setningu, en hann átti ég nánast eingöngu skrifleg samskipti við. Ég skrifa „átti“, því sjórinn í Eyrarsundi hrifsaði hann frá okkur á fimmtudagsmorguninn og framhald á samskiptunum þar með útilokað. Nú er ég loksins farin að meðtaka það að orðin fjarstæðukenndu „Gunnar Hrafn drukknaði í morgun“ sem ég heyrði í síma fyrir nokkrum dögum sé því miður ekki hægt að túlka á annan veg en þann að vinur minn sé dáinn og að þetta sé ekki bara einhver hræðilegur misskilningur. Ég hef svo sannarlega reynt að finna aðrar leiðir til túlkunar og árangurslaust mátað alls konar mjög svo langsóttar skýringar á því hvernig þessi orð geti þýtt eitthvað allt annað en að stórkostlegur baráttumaður, faðir, sonur, eiginmaður, bróðir, vinur og félagi sé horfinn öllu því fólki sem að honum stóð eða tengdist honum á einhvern hátt, 35 ára gamall.
Gunnar Hrafn Hrafnbjargarson var stjarna. Hann skrifaði þannig að ekki var hægt að láta hjá líða að taka eftir honum. Við urðum bloggvinir fyrir fimm árum eða svo, skiptumst á athugasemdum og vísuðum hvort á annað eins og bloggvina er siður. Hann var skemmtilega hreinskilinn og ögrandi í skrifum sínum og það var eitthvað ferskt við það hvernig hann skrifaði um fjölskyldulíf án nokkurrar tilgerðar eða væmni. Seinna færðust samskiptin yfir á feisbúkk og í tölvupóst þegar tilefni gafst, við skiptumst þar á yfirlestri og ráðleggingum í sambandi við skrif og ræddum málin. Á feisbúkk var hann oft kjaftfor og lét þar engan komast upp með neina vitleysu, hikaði ekki við að láta í sér heyra þegar honum var misboðið og ósjaldan þurfti maður að éta ofan í sig bullið eftir ábendingar frá honum. Og hann var líka stríðinn. Þrátt fyrir þetta fór hann aldrei yfir strikið og virtist afar næmur á það hvað hver og einn gat þolað eða átti að geta þolað. Stundum gat hann jafnvel endurskilgreint fyrir manni hvar strikið lá. Þrátt fyrir þessa hrjúfu hlið var Gunnar Hrafn alltaf manna fyrstur til að sýna vinum sínum stuðning þegar á reyndi, láta hvatningarorð falla og sýna hlýju og hann var óspar á hrósið þegar honum þótti ástæða til. Hann hafði einstakan húmor og setti fram oft mjög svo frumlega sýn sína á skoplegar hliðar hlutanna bæði með orðum og myndum. En jafnvel þótt skriflegu samskiptin hafi verið gefandi yfir hafið – hann var jú búsettur fyrst í Noregi og svo í Svíþjóð allan þann tíma sem við þekktumst – verð ég ævinlega þakklát fyrir að hafa náð að hitta hann í eigin persónu í sumar og fengið að kynnast hans alræmdu knúzum live og sannreyna hve hlýr og skemmtilegur hann var í fasi.
Eins og ég nefndi var það einkenni á skriflegri tjáningu hans á netinu hvernig hann blandaði töffaraskap og kjafthætti við hvatningarorð og hlýju. Þetta gerði það að verkum að hann laðaði að sér skemmtilegt fólk. En Gunnar Hrafn lék sér líka að mismunandi tjáningarformum með því að skapa persónur. Síðasta árið vakti hann talsverða athygli með því að blogga um jafnréttismál undir nafninu Sigurbjörn. Þar var hann óþreytandi við að gagnrýna staðalmyndir og yfirborðsmennsku, ekki síst birtingarmyndir þeirra í fjölmiðlum og í vefritum sem virðast helguð því að njörva fólk niður í flatneskjuleg kynhlutverk, og átti jafnvel í löngum bréfaskiptum þar sem hann hélt áfram með ótrúlegri þolinmæði að ýta við hugmyndum viðtakenda. Ég verð að játa að stundum skildi ég ekki hvernig hann nennti þessu; knúinn áfram af réttlætiskennd og hugsjónum um betri heim var hann óþreytandi. Kannski hafði hann meiri trú á manneskjunum en mörg okkar hinna, trú á að hægt væri að fá fólk til að átta sig á hlutunum með því að halda áfram að útskýra ýmislegt sem ætti kannski að vera öllum augljóst. Sigurbjörn var, eins og Gunnar Hrafn sjálfur, einlægur í skrifum sínum en stíllinn var annar. Sigurbjörn var alltaf kurteis þótt þrjóskur og þrálátur væri og aldrei með kjaft, hann hefði aldrei sagt neinum að bíta í eitt eða neitt. Undir það síðasta hafði Gunnar Hrafn svo líka skapað væmna montrassinn Hnallþór til að skemmta vinum sínum. Hnallþór skrifaði um eigið ágæti, fullkomleika barna sinna og eiginkonu og alls konar yndislegheit í lífinu eins og sólsetur og grillmat. Og einhvers staðar þarna á bak við var Gunnar Hrafn, sem stærði sig svo sannarlega ekki af eigin ágæti þrátt fyrir ómælda hæfileika og gáfur, en sem kom líka auga á hið fallega og ljúfa í lífinu þótt hann hefði aldrei orðað það með neinni væmni, og sem líka var óumræðilega stoltur af konu sinni og börnum.
Elsku Krummi, Sveinungi, Ratatoskur, Sigurbjörn, Hnallþór en fyrst og fremst alltaf Gunnar Hrafn: Mikið óskaplega held ég að veröldin verði snautlegri en áður nú þegar þú ert farinn úr henni! Anna-Lena, Tycho, Ragna og aðrir fjölskyldumeðlimir og aðstandendur eiga alla mína samúð. Hugurinn er hjá þeim.

9 ummæli:

Elísabet sagði...

Tek undir hvert orð, takk Eyja!

Og fyrir utan þessar ótalmörgu hliðar sem þú minnist á var Gunnar Hrafn hrikalega skemmtilegur gramsari, sbr. http://ruiogstui.blogspot.com/ og ljósmyndari, sbr. http://krummalingur.tumblr.com/

lilja sagði...

Falleg orð, Eyja :)

Þórdís Gísladóttir sagði...

Gunnar Hrafn var líka einu sinni gestabloggari hjá okkur. Hér er færslan. http://bokvit.blogspot.com/2010/10/mattleysi-mialdra-manna.html

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Takk fyrir þetta, allar saman. Þarfir og góðir linkar. Það er sko endalaust hægt að skemmta sér við að skoða ljósmyndirnar hans Gunnars Hrafns. Og gestabloggið mjög skemmtilegt. Ég las einmitt eitthvað af Hamilton-bókunum á sínum tíma en þraukaði greinilega ekki í gegnum jafnmargar og GH, kannski ekki eins þolinmóð.

Nafnlaus sagði...

Takk kæra Eyja fyrir falleg og huggunarrík minningarorð um krummalinginn bróður minn.
M

Kristín í París sagði...

Tek sömuleiðis undir hvert orð þó ég hafi reyndar því miður misst alveg af því að fá að hitta hann í eigin persónu.

Arngrímur Vídalín sagði...

Ég vissi ekki að hann hefði verið Hnallþór. En mikið fannst mér hann skemmtilegur, sem allir þrír. Mig langar að fá hann aftur ef ég mætti.

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Þó það nú væri, María.

AV, ég held ég hafi ekki verið að fletta ofan af neinu leyndarmáli, GH talaði nokkuð opinskátt um Hnallþórstýpuna og reyndi ekkert að leyna því að hann væri þar að verki. Það hefur bara hist þannig á að þú hefur ekki verið á sveimi á þeim augnablikum.

Garún sagði...

Einlægt og fallegt, Eyja. Kannast við nokkrar hliðar af þessum indæla og litríka manni sem þú lýsir svo vel, þó ég hafi ekki hitt hann í eigin persónu.

Samhryggist öllum sem þekktu hann og mátu.