24. janúar 2012

You're born naked and the rest is drag

Einn ískaldan morgun fyrir skömmu staulaðist ég niður í Tryggvagötu og húkti fyrir utan dyrnar þegar Borgarbókasafnið opnaði. Erindið var að fá lánaða bókina Suits Me, The Double Life of Billy Tipton eftir Diane Wood Middlebrook. Bókin, sem hefst á tilvitnun í dragdrottninguna RuPaul og er yfirskriftin hér að ofan, fjallar um kvenkyns djassistann Dorothy Tipton sem fæddist í Bandaríkjunum1914, en tók sér nafnið Billy og lifði frá 19 ára aldri sem karlmaður. Þegar Billy lést, árið 1989, opinberaðist leyndarmál sem fáir höfðu nokkurn grun um, sjúkraflutningamaður sem var kallaður í móbílhómið þar sem Billy bjó spurði soninn hvort faðirinn hefði farið í kynskiptiaðgerð, sonurinn William kom alveg af fjöllum en það var ekki um að villast, þegar fötunum var flett utan af Billy til að athuga hjartsláttinn, að þarna var kona eða svo vitnað sé í soninn: "I was in awe. I had no thoughts - just looked up at the sky, thinking it was some hallucination from drugs. If my father had lived as a woman, she would have had big breasts."


Fréttir um blekkingu Billy Tipton birtust í blöðum um allan heim, líka hér á Íslandi. Billy var þekktur tónlistarmaður á sinni tíð, lék vel á saxófón og píanó og var hvers manns hugljúfi. Fyrir tvítugt sótti Dorothy um að fá að spila með hinum og þessum djasssveitum en var ekki hleypt að vegna kyns síns. Þá brá hún á það ráð (með dyggri aðstoð tveggja frænkna sinna sem stóðu með henni fram í andlátið) að klæða sig upp eins og strákur, hún klippti hárið stutt, vafði þétt utan um bringuna svo brjóstin flöttust út, fór í jakkaföt og tamdi sér karlmannlegt fas (reykti vindla, tróð einhverju í nærbuxurnar, sat gleið og gerði við bíla) og fékk strax vinnu í djasshljómsveit. Síðan túraði hún í hátt í þrjá áratugi, eignaðist fimm konur (þrjár sverja að þær hafi ekki haft grænan grun um að þær hafi ekki verið með karlmanni) og ættleiddi þrjá drengi með síðustu konunni. Billy laug því að hún yrði að vera með vafða bringu vegna slæmra beinbrota sem hún hefði fengið í bílslysi og að hún væri illa farin neðan mittis eftir sama slys. Engin kvennanna sá hana nakta. Eftir að Billy fór að eldast settist hún að í Spokane í Washington, rak húshljómsveit á næturklúbbi og var umboðsmaður tónlistarmanna. Í þrjátíu ár var Billy Tipton opinber persóna í heimabænum, tók þátt í skátastarfi með sonunum, spilaði stundum og skipulagði allskonar foreldrauppákomur ásamt síðustu eiginkonunni, sem hún skildi við tíu árum fyrir andlátið.

Ævisagan er ansi vel unnin af konu sem var prófessor í Stanford, hún segir lygilega sögu áhugaverðrar manneskju og vakti mig til umhugsunar um fjölmargt tengt hegðun fólks og samskiptum manna almennt, kynjunum, kynhlutverkum og kyngervum auk þess sem hún gefur innsýn í heim djasstónlistar og millistéttar í Ameríku á síðustu öld.

Bókin er sem sé til á Borgarbókasafninu og ég mæli heils hugar með henni (ég skal skila henni síðdegis á morgun) og svo er heill hellingur til af efni á netinu um Billy Tipton, til dæmis er hér umfjöllun með viðtali við ævisöguritarann. Eitt lag finn ég á Youtube þar sem Billy spilar á píanó, það er hér:

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Magnað! Kristín í París.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ótrúlegt alveg.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Þetta er ótrúlega merkilegt. Góð færsla!