Strahov-bókasafnið í Prag, það tilheyrir líka klaustri og flestar bækurnar eru frá 16.-18. öld, yfir 42 þúsund eintök.
George Peabody-bókasafnið við Johns Hopkins-háskólann í Baltimore í Maryland í Bandaríkjunum.
Lestrarsalur í British Museum í London. Þarna hafa áreiðanlega margir Íslendingar lesið.
Einkabókasafn George Vanderbilt í höllinni hans í New York-fylki. Þarna kom ég þegar ég var barn en man ekkert eftir þessu bókasafani. Þarna eru um tíu þúsund bækur og fínn arinn. Af efri hæð bókasafnsins eru leynidyr inn í svefnherbergi George Vanderbilt, hann vildi auðvitað geta farið beint úr rúminu og inn í bókasafnið.
Í lessalnum í Carolina Rediviva, aðalháskólabókasafninu í Uppsölum í Svíþjóð. Þarna sat Foucault á sínum tíma og vann að Sögu kynferðisins. Um helgar ók hann alltof hratt á sportbílnum sínum til Parísar til að skemmta sér.
Bókasafnið í Norræna húsinu í Vatnsmýrinni. Fallegt og bjart bókasafn þar sem er góður andi.
Háskólabókasfnið í Coimbra í Portúgal, alveg mögnuð mynd af flottu bókasafni.
Örlítið bókasafn í símaklefa í Somerset á Englandi. Þetta finnst mér alveg stórkostleg hugmynd. Ef einhver útvegar mér símaklefa þá heiti ég því að koma upp svona bókasafni í Reykjavík.
Hvernig finnst ykkur nýja bókasafnið í Kanazawa í Japan?
11 ummæli:
mörg fögur bókasöfn þarna - og skemmtilega ólík!
Ég myndi kannski ekki segja að þetta japanska væri notalegt - en það þykir sjálfsagt glæsilegt...
Alltaf sakna ég nú samt gamla Borgarbókasafnsins við Grundarstíg...mér þótti alltaf dáldið magnað að koma þarna inn þegar ég var barn - bæði bækurnar og húsakynnin lyftu huganum!
Maríanna
Æ já, það fór illa fyrir bókasafninu við Þingholtsstræti og húsið lítur ekki vel út núna.
Ég er glöð að sjá þarna mynd af bókasafninu í Coimbra, það er stórfallegt - mjög andaktug stemmning þar.
Fallegasta bókasafn sem ég hef komið í er Bodleian safnið í Oxford. Þegar ég hef heimsótt klaustur hef ég sjaldnast komist upp úr brugghúsunum...
Mér finnst þetta japanska ógnvekjandi. En hin eru öll dásamleg.
Þetta japanska er allavega voðalega hvítt.
Þetta japanska finnst mér martraðarkennt. Hin eru öll æði, nema kannski Vanderbilt-safnið sem mér sýnist heldur þunglamalegt.
Þá er nú ekki síðri blessun að hafa fengið að njóta þeirra forréttinda að týna sjálfum sér heilu eftirmiðdagana við að raða upp bókum í rangölunum niðri í kjallara gamla Esjubergsins í Þingholtsstrætinu. Og fá borgað fyrir það (þó að bókavarðarlaunin þá hafi reyndar verið á mörkunum að teljast ,,borgun"). Þar voru t.d. geymdar bækur inni í kústaskápum (nóta bene, uppröðuðum!)
Annars sakna ég alltaf lestrarsalarins á Fiolstræde í Kaupmannahöfn. Tregaði það mjög þegar honum var lokað fyrir nokrum misserum. Nýja viðbyggingin við bókasafnið i Malmö, flottasta bókasafn á Norðurlöndum, er líka ansi vel heppnuð, finnst mér.
Svo er hringurinn á aðalsafninu á Borgarbókasafninu í Stokkhólmi líka alltaf jafn flottur.
Dásamlegar myndir - nema þessi af japanska bókasafninu. En kannski er samt allt í lagi að vinna þar þótt þetta virðist agalegt.
Fallegasti lestrarsalur á bókasafni þar sem ég hef haldið til er í Deutsche Bücherei í Leipzig (sem heitir reyndar víst núna Deutsche Nationalbibliothek, Leipzig). Þriðja myndin á þessari síðu er af honum: http://www.architektouren.com/english/leipzig/tour_4.html
Sammála Erna, þetta bókasafn í Leipzig er alveg að mínu skapi. Þarna gæti ég alveg hugsað mér að dvelja langdvölum.
Mér finnst þetta japanska í það minnsta kúl, en spurning hvort það er að sama skapi notó. Ég kom annars nýlega á bókasafnið í Turku í Finnlandi og fannst það vel heppnað.
http://www.architonic.com/aisht/new-city-library-jkmm-architects/5100648
Elva Björk.
Skrifa ummæli