8. ágúst 2011

Dúkkur í hakkavélinni


Ég rakst á bókina Living Dolls: The Return of Sexism eftir blaðakonuna Natöshu Walter á flugvelli í Stokkhólmi í vor. Líklegast var það kápan sem vakti athygli mína, hana prýðir nakið og fótósjoppað miðbik kvenlíkama, það eina sem skýlir nektinni er glaðhlakkaleg og bleikklædd barbídúkka sem hvílir í skautinu. Þetta er að vissu leyti dálítið bókstafleg túlkun á innihaldi bókarinnar, fremur klúðursleg framsetning einhvern veginn en nægði hins vegar til að ná athygli minni.

Natasha Walker heldur því fram í þessari bók að greina megi afturför í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna á undanförnum árum og að hennar mati kemur tvennt til. Annars vegar bendir hún á að að bæði konur og ungar, jafnvel barnungar stúlkur séu í auknum mæli skilgreindar sem kynlífsviðföng, sem sé í sjálfu sér ekkert nýtt en hinsvegar sé nú reynt að selja bæði konum og körlum þessa hugmynd á forsendum frelsis. Hinsvegar bendir hún á holskeflu rannsókna á undanförnum árum sem hafa það markmið að sýna fram á eðlisbundinn kynjamun. Bókinni er skipt í tvo hluta, í fyrri hlutanum sem nefnist “The New Sexism” fer hún um víðan völl, hún fjallar um innreið bleiku markaðsbylgjunnar í stúlknaleikfangabransanum, súlustaðasprenginguna, upphafningu á vændi, klámaðgengi barna og unglinga og þau áhrif sem það hefur á kynlíf og sambönd, lýtaaðgerðirnar og þar fram eftir götunum. Hún talar við súludansara, vændiskonur, klámfíkla, allskonar fólk og tengir þetta svo einhvern veginn allt saman.

Í seinni hlutanum veltir hún svo fyrir sér rannsóknum sem eiga að staðfesta kynjamun og einnig rannsóknum sem gera það ekki, en eins og hún kemst að raun um eru þær í miklum meiri hluta. Walker skoðar markvisst hinar ýmsu mýtur og staðalímyndir, hún skoðar rannsóknir sem gerðar hafa verið á hegðun ungbarna, rannsóknir sem eiga að sýna fram á mun á byggingu heila eftir kyni, rannsóknir á meintum mun á stærðfræðigetu, meintum mun á tjáningarhæfileikum og –vilja, meintum áhrifum kynhormóna, svo eitthvað sé nefnt.

Þetta er afar athyglisverð bók, blátt áfram og gífuryrðalaus, hér er bara verið að segja frá hlutunum eins og þeir koma fyrir frá sjónarhóli höfundarins sem hefur rannsakað þessu mál í þaula. Sérstaklega var ég hrifin af seinni hlutanum, Walker fer í gegn um allar þessar rannsóknir lið fyrir lið og niðurstaðan er sú að þrátt fyrir hundruðir rannsókna sem eiga að sýna fram á eðlisbundinn kynjamun hefur engan veginn tekist að sýna fram á raunverulegan eðlismun. Þeim fáu rannsóknum sem virðast sýna slíkam mun er hinsvegar hampað með ókrítískum hætti í fyrirsögnum dagblaða, hin endanlega niðurstaða er svo oft litteratúr sem gengur út á það að karlar séu frá mars og kunni ekki að tjá sig en konur frá Venus og kunni þarf af leiðandi ekki að bakka í stæði.

Walker tekur mýmörg dæmi um rannsóknir í bókinni sem staðfesta að kynbundin hegðun sé fyrst og fremst áunnin, háð uppeldi, félagsmótun og umhverfi. Hér verður aðeins tekið eitt dæmi, af rannsókn þar sem skoða átti áhrif testósteróns karlmenn, kenningin er sumsé sú að testósterónið ýti undir árásargirni, keppnisskap og þar fram eftir götunum....þessa huggulegu hæfileika sem maður þarf til að vinna í banka í dag. Í hópnum sem rannsakaður var voru bæði karlar og konur sem áttu að sýna færni sína í sérdeilis ofbeldisfullum tölvuleik. Hópnum var skipt í tvennt, öðrum hópnum var sagt að fylgst yrði með þeim meðan þau væru í leiknum, hinum hópnum var sagt að ekki yrði fylgst með gangi mála. Í hópnum þar sem þáttakendur héldu að fylgst væri með sér voru karlar mun aggressívari en konurnar, sýndu almennt meiri fruntaskap og gerðu hvað sem er til að ná takmarki sínu. Í hinum hópnum greindist hinsvegar enginn munur á milli kynja. Niðurstaðan er semsagt sú að konur eru penar og settlegar þegar þær halda að fylgst sé með þeim, haga sér eftir einhverri ímynd kvenleikans sem þeim hefur verið innrætt.

Þessi bók staðfestir það sem blasir við okkur á hverjum degi:

Konur sem vinna í kynlífsbransanum eru eðli málsins samkvæmt ekki frjálsar, það er öllum í þessum bransa skítsama um þeirra vilja, þeirra kynhvöt, þeirra langanir. Þetta fjallar ekki um það.

Ef litlum stelpum er innprentað frá fæðingu að “allar stelpur vilji vera prinsessur”, þá mun það hafa áhrif á möguleika þeirra og sjálfsmat.

Ef konur fá þau skilaboð að þær verði að hafa ákveðið útlit til að teljast gjaldgengar í kynlífi (já, við erum að tala um bleika barbílúkkið sem er markaðssett fyrir smástelpur frá fæðingu) mun það ekki hafa voða góð áhrif á kynlíf og ástarleiki. Það elur á óánægju og skorttilfinningu þegar maður reynir að passa í mót sem hæfir manni ekki, þetta vita allir sem hafa einhvern tímann reynt að þóknast öðrum og hugmyndum þeirra um lífið.

Ef konum er sagt nógu oft að þær tali of mikið og geti ekki lært stærðfræði er hætta á að þær fari að trúa því. Jafnvel þó að rannsóknir sýni að þetta eru einfaldlega mýtur, einfaldlega bull og vitleysa.

Ef karlmönnum er sagt nógu oft að tilfinningar þeirra til eigin barna séu ekki jafn “náttúrulegar” og tilfinningar móðurinnar fara þeir kannski að trúa því og haga sér samkvæmt því.

Og svo framvegis.

4 ummæli:

Guðrún Lára sagði...

Í nýlegri verslunarferð sá ég bol fyrir stelpur á aldrinum 1-5 ára sem var bleikur og á honum stóð "Quiet as a" og svo kom rosalega kjúsíleg mynd af einhverri Disney mús. Falleg skilaboð það!

Hildur Knútsdóttir sagði...

Nennir ekki einhver að senda Pjattrófunum og Bleikt.is konum þessa bók?

Nafnlaus sagði...

Ah gott blogg, bara ein athugasemd (smávægileg). Þú talar um lýtaaðgerðir ofarlega í pistlinum, en átt væntanlega við fegrunaraðgerðir. Lýtaaðgerðir eru af öðrum toga og framkvæmdar af nauðsyn t.d. þegar börn fæðast með skarð í vör/góm. Finnst svo leiðinlegt þegar þessum tvennum orðum er ruglað saman.
Annars bara gott stöff.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Mig langar að lesa þessa bók.