5. ágúst 2011

Klám, klám, klám.

Í bókinni Hard Core (1989) skoðar kvikmyndafræðingurinn og feministinn Linda Williams klámmyndir sem kvikmyndagrein. Markmið hennar er að skrifa eins hlutlaust og hún getur um greinina (sleppa því að fordæma eða dásama) og fjalla þannig öðruvísi um klám en gert var á 8. og 9. áratugnum, þegar umræðan einkenndist að miklu leyti af vangaveltum um réttmæti þess að klám væri til. Williams ákveður að reyna bara að díla við þá staðreynd að það er til, einbeita sér að því að skoða hvað áhorfendur þess fá út úr því (nei krakkar, það er ekki eins einfalt og það hljómar) og reyna að skilgreina kvikmyndagreinina og rannsaka þróun hennar. Þetta þýðir samt ekki að hún sé ekki gagnrýnin, hún er það og hún vill betra klám. Betra í eiginlega öllum skilningi, en kannski helst þeim að hún vill að ánægju konunnar séu gerð betri skil og að dregið sé verulega úr limhverfu myndanna.

Williams skoðar sögu klámmyndarinnar - sem hefur verið til í einhverri mynd frá upphafi kvikmyndalistarinnar - allt frá svokölluðum „steggjamyndum“ (stag films) sem voru frumstæðar karlamyndir, sem sýndu kynfæri (sérstaklega konunnar) og kynlíf en skorti að mestu röklegan söguþráð, til „klassísku klámmyndanna“ sem sýndar voru í kvikmyndahúsum á áttunda áratugnum. Margt breyttist (að mörgu leyti til hins betra) eftir að efni sem áratugum saman hafði aðeins verið sýnt í karlaklúbbum varð aðgengilegt öllum. Mestur hluti bókarinnar einblínir á þessar „nýju“ frásagnarklámmyndir sem skutu upp kollinum uppúr 1970 (Deep Throat (1972) er sú fyrsta og ef til vill sú frægasta).

Í upphafskafla bókarinnar bendir Williams á þá staðreynd að klámmyndir eiga einkenni sameiginleg með öðrum kvikmyndagreinum, en þegar líður á bók ber hún greinina helst saman við (klassíska Hollywood-)söngleiki. Það er helst vegna þess að söguþráður klámmynda er iðulega brotinn upp með mismunandi kynlífsatriðum, líkt og söguþráður söngleikja er ítrekað brotinn upp með söngatriðum. Hún finnur líka líkindi með kynlífs- og söngatriðunum sjálfum: venjulegt gagnkynhneigt kynlíf = dúett (klassískur, gagnkynhneigður), sjálfsfróunaratriði = einsöngur, ménage à trois = trio, orgía = fjöldasöngur, o.s.frv. Þessi samanburður er ógeðslega skemmtilegur. (Hún tekur hann líka miklu lengra.)

Greining hennar felst svo helst í því að skoða söguþráðinn (um hvað fjallar klámmyndin? Hvaða vandamál drífa hana áfram?) og kynlífsatriðin (hvers eðlis eru þau? hvaða hlutverki þjóna þau?) og svo samspil þeirra. Uppáhaldskaflarnir mínir í bókinni eru eiginlega fimmti og sjötti kafli, „Generic Pleasures: Number and Narrative“ og „Hard-Core Utopias: Problems and Solutions“, vegna þess að þeir fjalla líka bara um kvikmyndagreinar almennt. Samt aðallega um klámmyndagreinina náttúrulega.

Eitt það skemmtilegasta við bókina er að hún fjallar um svo margt: deilur feminista um ritskoðun og klám; kvikmyndaformið og sjónræna ánægju; hugmyndir Foucaults um þekkingarþrá vestræns samfélags á sviði kynferðismála (scientia sexualis); uppruna kvikmyndalistarinnar og sannleiksleit; völd og ánægju; táknmyndaheim klámsins; money-shot (ef einhver er með tillögu að þýðingu á því hugtaki, plís skellið því í kommentakerfið) og kjötskot (meat-shot); lagasetningar um klám í Bandaríkjunum; sálgreiningu og klám; sálgreiningu og áhorfandann; sadisma og masókisma; snuff-myndir; klámmyndir eftir konur (klámmyndaleikkonur og feminista); klám í list; tölvu-kynlífshlutverkaleiki; sæðið á kjólnum hennar Monicu Lewinsky* og margt, margt, margt fleira.

Ég les fræðibækur eiginlega aldrei alveg frá upphafi til enda, til að það gerist þarf fræðikonan/maðurinn (úps, hingað til hafa það samt bara verið konur) að vera skemmtilegur penni og efnið áhugavert. Þótt heill hellingur hafi verið skrifaður um klám síðan árið 1989, held ég að þessi bók eigi fullt erindi til áhugasamra í dag.

*Fjallað er um sæði fyrrum bandaríkjaforseta í eftirmála sem bætt var við 1999 útgáfuna. Höfundur er ekki forspár.

8 ummæli:

Kristín Svava sagði...

Ég elska þennan pistil, ég elska klámbækur, ég elska orðið limhverfur! Hlakka svo til að fá hana lánaða og lesa hana þegar þú kemur heim!

Nafnlaus sagði...

Gróðagusan.

guðrún elsa sagði...

Ég hugsaði sérstaklega til þín þegar ég skrifaði orðið limhverfur, Kristín Svava!

Hmm, fín uppástunga. Takk!

Nafnlaus sagði...

Eða skvettiskotið, til að hafa skot þarna inni. Mér tekst ekki alveg að hafa bæði peninga/gróða og skot í sama orði þannig að það sé skemmtileg þýðing. Þess vegna ákvað ég að þýða 'shot' á skrautlegri máta í báðum tilfellum.

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Skemmtilegur pistill. Og nú blóðlangar mig að fá að vita hver Nafnlaus er sem sérhæfir sig í þýðingum á 'money shot'.

Þorgerður sagði...

Hei, ég á þessa bók!

guðrún elsa sagði...

Já, nafnlaus verður eiginlega að senda mér tölvupóst með nafninu sínu eða gefa það hreinlega upp hér á kommentakerfinu, svo ég geti gefið honum/henni kredit þegar ég nota þessar þýðingar í framtíðinni!

Þorgerður: Góð! Er koverið á þinni líka mjúkt, svolítið eins og það með snöggan feld? Áferðin er svo notaleg að ég er hef bundist tilfinningaböndum við eintakið mitt.

Þorgerður sagði...

Uh nei, það held ég ekki. Annars er dálítið langt síðan ég klappaði henni.