Metsölulisti Eymundsson-bókabúðanna birtist alltaf á miðvikudögum. Aðallistinn fyrir síðustu viku er svona. Ég ætla ekkert að tjá mig um hann sérstaklega að öðru leyti en því að þarna er bara ein bók sem hefur eitthvað með börn að gera og það er matreiðslubók og því tæplega notuð til kvöldlestra. Listi barnabóka lítur svona út.
Í fyrstu þremur sætunum eru tvær Disney-matreiðslubækur og bók um Justin Bieber. Síðan kemur eldgömul (en ágæt) bók, ekki beint framsækið verk, líklega aðallega keypt af nostalgískum eldri borgurum. Nú veit ég ekkert hversu mikil sala er að baki þessu og það seljast auðvitað fleiri bækur en í búðunum hjá Eymó, en er ekki eitthvað athugavert við barnabókamarkaðinn? Tekur fólk kannski flestar barnabækur að láni á bókasöfnum?
4 ummæli:
Af reglulegri rannsóknavinnu minni á bland.is tel ég að Vísnabókin sé svona ofarlega af því að það er alltaf verið að gefa hana í skírnargjafir.
Ég viðurkenni alveg að sumar unglngabækurnar sem ég keypti í ár eru kannski ekki af allra bestu sort (unga daman fór í gegn um mikið vampýrutímabil) en Bieberinn kemst aldrei á minn innkaupalista.
Eru til almennilegar tölur um útgáfu barnabóka á Íslandi? Ég man að ég fékk hálfgert áfall þegar ég fór ofan í kjallara Máls og menningar (barnabækurnar auðvitað í gluggalausum kjallaranum!) og megnið af bókunum sem lágu frammi voru eldgömlu (alveg hreint ágætu) litlu smábarnabækurnar, Lína og fleira sem ég las sem barn. Ég keypti alveg slatta af slíku handa krökkunum og núna hef ég lesið bækur Gerðar Kristnýjar fyrir þau og ætla að lesa Þórarinn Leifsson í haust, en mér finnst frekar lítið úrvalið. Barnabókaútgáfa blómstrar meira en nokkur önnur útgáfa hér í Frakklandi, maður verður snarvitlaus í barnabókabúðunum, og litla bókabúðin hér í úthverfinu gengur helst á barnabókum, sýnist mér, meðfram löggusögum, og þar með töldum íslenskum. Ég skal finna tölurnar bráðum, ekki núna samt. Kristín í París.
Fann hér ársskýrslu CNL - Centre National du Livre, sem er Bókmenntastofnun Frakklands: http://www.centrenationaldulivre.fr/IMG/pdf/Chiffres-cles_2009-2010.pdf
Þar kemur fram að barnabókaútgáfa (jeunesse) var 15 prósent af útgáfu og 21 prósent seldust; skáldsögur voru 23 prósent og 24 prósent seldust. Inni í jeunesse eru hvorki teiknimyndasögur fyrir börn, né manga og annað slíkt. Þessi skýrsla er þræláhugaverð fyrir margt. Mest kom mér á óvart (sem sýnir hvað ég er dugleg við að loka augunum fyrir sumum staðreyndum) að DUKAN bók um megrun var best selda bók ársins! Kristín í París.
Skrifa ummæli