1. ágúst 2011

Bókasöfn á gististöðum, 2. þáttur

Eyja skrifaði nýverið færslu sem ég vona að verði upphafið að miklum bálki. Það er óskandi að sem flestir taki þátt í því að rannsaka bókakost í bústöðum og á hótelum, og þarsem ég fór sjálf í bústað síðastliðna helgi þá gat ég að sjálfsögðu ekki látið mitt eftir liggja.

Bústaðurinn sem um ræðir er lítill veiðikofi við Staðará í Staðarsveit á Snæfellsnesi, og fyrir utan bókhald yfir fiskerí voru þar þrjár bækur. Og ég held að það sé óhætt að segja að valið virtist nokkuð handahófskennt.

Heims um ból eftir Björn Dúason.

Á bakhlið bókarinnar stendur:

Sálmurinn "Heims um ból"* er svo samofinn jólahaldi Íslendinga að hann hljómar í sérhverri kirkju landsins, í flestum ef ekki öllum skólum og á svo til öllum heimilum jafnt á undan hátíðinni sem og á hátíðinni sjálfri. Dreg ég í efa að sálmurinn njóti meiri hylli í öðrum löndum.

Allnokkur íslensk skáld hafa spreytt sig á að þýða hinn þýska sálm Mohrs eða semja nýja texta út frá efni jólanna, sem syngja mætti við lag Grubers.

Björn Dúason, meðhjálpari Ólafsfjarðarkirkju, hefur nú um nokkuð skeið unnið að því að safna saman öllum íslenskum ljóðum sem gerð hafa verið út frá þessum jólasálmi.

Það er bæði fróðlegt og skemmtilegt að lesa þessa samantekt Björns Dúasonar, og má ætla að margir hafi gaman af að lesa um sögu hins þýska jólasálms, en þó ekki síður að sjá hversu margir hafa spreytt sig á að þýða sálminn á íslensku og hversu ólíkar þær þýðingar eru. Þessi bók mun einnig nýtast vel þeim er vilja fræða unga sem aldna um sögu "Heims um ból", hvort heldur það er á heimili, í kirkju eða í skóla.

Sr. Jón Helgi Þórarinsson

Þar mátti svo einnig finna unglingabókina Brosað í gegnum tárin eftir Helga Jónsson. Á bakhlið er henni lýst svo:

Nútíma ævintýri þar sem allt getur gerst.

Spennandi unglingasaga um Sóleyju sem fannst hún vera ljót þar til henni var boðið að taka þátt í fegurðarsamkeppni. Hún þekkti fáa og átti bara einn vin, Villa sem krakkarnir kölluðu Villa vitlausa. Pabbi hennar er aldrei heima og stjúpan er henni vond og hálfsysturnar tvær þola hana ekki.** En allt breytist þegar Sóley tekur þátt í fegurðarsamkeppninni. Skyndilega er hún orðin vinsæl og eftirsótt. Hún eignast nýja vini, ekki síst hana Píu, sem líka tekur þátt í keppninni, og hún kynnist Hólma, miklum töffara á jeppa, og finnur ástina í fyrsta sinn. En það er ekki fyrr en Sóley kynnist Sævari að hún verður verulega ástfangin og lífið breytist til hins betra.

Hér er á ferðinni æsispennandi saga um dularfulla atburði í hversdagslífinu. Saga sem fjallar um alvarlega hluti á nærfarinn [sic] hátt.

BROSAÐ GEGNUM TÁRIN er fimmta unglingabók Helga Jónssonar. Bækur hans hafa allar fengið mjög góðar móttökur gagnrýnenda og lesenda.
Báðar þessara bóka voru gjöf Skíðasambands Íslands til Breiðabóls árið 2003, einsog áritanir fremst bera vitni um.

Getgátur um hvernig þessi veglega bókagjöf endaði svo í litlum veiðikofa eru velkomnar í kommentum.

Að endingu mátti svo finna fræðiritið Þeir fiska sem róa - Smábátaútgerð á Íslandi.*Sorrí, en ég kann ekki að gera íslenskar gæsalappir á blogger.

**Er það bara ég eða er þetta blatant Öskubuskuvísun?

2 ummæli:

Kristín Svava sagði...

Brosað gegnum tárin mun gegna veglegu hlutverki í væntanlegri doktorsritgerð minni um verk Helga Jónssonar, því get ég lofað. Stórkostleg bók - blindi pabbinn er einhver átakanlegasta persóna íslenskra bókmennta!

Nafnlaus sagði...

Nei, Öskubuskuvísunin blasir við. Vond stjúpa og leiðinlegar hálfsystur? Sá sem gerir þetta óvart er annað hvort daufblindur eða ólæs.

Var í BHMbústað í Svignaskarði um daginn. Þar var bókakostur rýr, mér til mikilla vonbrigða. Hæst bar Þætti úr ábúendasögu Svignaskarðs, en það var reyndar bæði fyndin og skemmtileg bók. Bókasafnið var langt undir því sem vænta má í stéttarfélagsbústað, t.d. var engin Snjólaug og engin unglingabók. Ég skildi eftir eina secondahand kilju eftir Joy Fielding. Mér finnst það vera skylda mín að skilja eftir bók í stéttarfélagsbústöðum.

Kv. Halla Sverris