11. janúar 2012

Af hinum og þessum bókum, en aðallega einni

Það er soldið langt síðan ég bloggaði síðast og ég er búin að lesa svo mikið síðan þá að ég vissi ekki alveg á hvaða bók ég ætti að byrja að fjalla um.

Ég fékk nokkrar bækur í jólagjöf, þeirra á meðal Nöfn Íslendinga (sem ég hef þó ekki enn lesið spjaldanna á milli, ótrúlegt en satt), svo fékk ég ógeðslega skemmtilega myndasögu sem ég ætla að blogga um seinna og Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur sem mér fannst alveg frábær.

Síðast í fyrradag kláraði ég svo Hálendið eftir Steinar Braga og var bara helvíti hrifin af henni, en Guðrún Elsa fjallaði einmitt um hana í þessum pistli, sem birtist hér fyrir jól. Ég hef svosem ekki miklu við hennar fínu umfjöllun að bæta, en get ekki annað en nefnt að mig langaði svolítið í aaaðeins meira konkret endi. Ég nefni það vegna þess að a.m.k. tveir hafa nýverið gúgglað „Steinar Bragi+Hálendið+endir“ og lent hérna á Druslubókasíðunni. Það tel ég bera vitni um að ég sé ekki ein um að hafa viljað fá aðeins haldbærari upplýsingar svona rétt undir lokin, og það að enn annar lesandi síðunnar hafi gúgglað „Steinar Bragi netfang“ lít ég jafnframt á sem sönnun þess að einhver lesandi sé framfærnari en ég og hyggist krefja höfundinn sjálfan um svör. Hinn sami lesandi má svo gjarnan áframsenda þau á mig, fái beiðnin hljómgrunn.



En bókin sem ég ákvað svo á endanum að blogga um heitir Dreadnought og er eftir Cherie Priest. Hún er (nokkurnveginn) sjálfstætt framhald af gufupönksbókinni Boneshaker, sem ég bloggaði einmitt um hérna í mars, og get nú bætt við að skv. nýjustu fréttum frá útlöndum þá er víst Hollywood-mynd eftir bókinni í bígerð.

Sögusviðið er sem fyrr Bandaríkin á tímum þrælastríðsins, nema þrælastríðið hefur geisað í ein sjötíu ár og alls konar morðtól og vélar hafa verið þróaðar og ganga ýmist fyrir gufu eða glænýrri díselolíu beinustu leið frá Lýðveldinu Texas. Upptök stríðsins eru svo gott sem gleymd – menn berjast bara afþví þeir eru búnir að berjast svo lengi að þeir kunna ekkert annað.

Söguhetja bókarinnar er hjúkrunarkonan Mercy Lynch. Hún starfar á hersjúkrahúsi í Suðurríkjunum við að tjasla hermönnum saman eftir sprengjubrot, byssukúlur og fleiri og ævintýralegri drápstól. Hún fær þær fréttir að eiginmaður hennar, sem hún hefur ekki heyrt frá í tvö ár, hafi látist í stríðinu og að faðir hennar, sem yfirgaf hana og móður hennar þegar hún var lítil, liggi fyrir dauðanum hinum megin á landinu og síðasta ósk hans sé að hitta hana. Án þess að gera upp við sig hvort hún vilji í raun hitta pabba sinn ákveður Mercy að hlýða kallinu og leggja land undir fót og ferðast þvert yfir landið (og yfir vígvöllinn miðjan). Ekki af því hana langi endilega til að fara, heldur af því ekkert bíður hennar þar sem hún er.

Ferðin reynist erfið og löng. Víglínan er sífellt að færast og stríðandi fylkingar eiga báðar skelfileg vopn. Mercy ferðast fyrst með loftskipi og síðan fljótabáti, en til að komast á leiðarenda er henni nauðugur einn kosturinn að þiggja far með lestinni Dreadnought, sem er vopnuð vítismaskína Sambandsríkjanna. Þar gerir hún sitt besta til að leyna uppruna sínum og kynnist ýmsum kynlegum kvistum og kemst ekki hjá því að taka eftir því að eitthvað leyndardómsfullt leynist í tveimur læstum vögnum sem er kirfilega gætt.

Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn frekar hér, heldur læt ég mér nægja að mæla með bókinni.

Ég er svo mikill öfgafemínisti að ég er auðvitað algjör sökker fyrir sterkum kvenpersónum sem falla ekki í staðalmyndagryfjuna. Þar af leiðandi var ég hrifin af Mercy, því hún er ákveðin, klár og hugrökk, en hefur samt tilfinningar og er stundum lítil í sér eins og alvöru manneskja.

3 ummæli:

Kristín Svava sagði...

Ég bíð spennt eftir færslunni um Nöfn Íslendinga!

Nafnlaus sagði...

Já, verð að segja að ég hefði viljað að Steinar Bragi hefði gefið sér meiri tíma í endinn, sem var soldið snubbóttur, svo ekki sé meira sagt.

Hef lengi næstum lesið Cherie Priest en aldrei komið mér í það.
Hefuru lesið The Windup Girl eftir Paulo Bacigalupi, eða eitthvað eftir China Mieville?

Hildur Knútsdóttir sagði...

Neibb, en Mieville er á ætlaaðlesa-listanum mínum.