22. ágúst 2011

Fyndnasta bók í heimi (segir Steve Martin)


Breski rithöfundurinn Geoff Dyer ákveður að skrifa bók um annan breskan rithöfund, D.H. Lawrence. Hann er mikill aðdáandi Lawrence, hefur lesið allt sem hann hefur skrifað og sumt margoft. Hann hefur einnig sankað að sér heimildum um Lawrence og allan þennan fróðleik ætlar hann að nota í alvarlega stúdíu á verkum Lawrence með ævisögulegu ívafi. Það kemur út bók eftir dúk og disk og hún hefst á þessa leið:
Looking back it seems, on the one hand, hard to believe that I could have wasted so much time, could have exhausted myself so utterly, wondering when I was going to begin my study of D.H. Lawrence; on the other, it seems equally hard to believe that I ever started it, for the prospect of embarking on this study of Lawrence accelerated and intensified the psychological disaray it was meant to delay and alleviate. Conceived as a distraction, it immediately took on the distracted character of that from which it was intended to be a distraction, namely myself.
Geoff Dyer stendur nefnilega frammi fyrir býsna algengu vandamáli, hann getur ekki byrjað á bókinni sem hann ætlar sér að skrifa. Hann finnur sér ýmislegt til afsökunar, hann þar nauðsynlega að byrja á skáldsögu, hann þarf að skipta um umhverfi, hann þarf að rannsaka umfjöllunarefnið betur, meðal annars með því sækja heim staði þar sem D.H. Lawrence vann og bjó. En hann getur ekki byrjað á bókinni og skrifar aldrei bókina sem hann ætlar sér.
Hann skrifar hinsvegar aðra bók, hún heitir Out of Sheer Rage: In the Shadow of D.H. Lawrence (undirtitillinn í amerísku útgáfunni er: Wrestling with D.H. Lawrence, aðeins meiri fætingur í því) og fjallar í raun ekki nema að litlu leiti um D.H. Lawrence. Hún fjallar um Geoff Dyer og baráttu hans við þetta ætlunarverk sitt. Í bókinni fjallar hann um allt það sem hélt honum frá því að byrja á bókinni um D.H. Lawrence og fljótlega kemur í ljós bókin sú er ekki það eina Dyer lætur reka á reiðanum í sínu lífi, hann getur ekki ákveðið í hvaða landi hann vill búa eða hvort hann vill í raun vera með kærustunni sinni. Hann reynir í sífellu að skapa réttar aðstæður til að byrja á bókinni en það er alltaf eitthvað sem glepur, allskonar smáatriði sem afvegaleiða hugann, verkefnið virðist því dauðadæmt frá upphafi.
Kenning hans er sú að flestir lifi lífum sínum einmitt svona, á flótta undan því sem þeir vilja í raun og veru framkvæma, við viljum gera svo margt en komum okkur ekki endilega að því. Og það var einmitt mín eigin frestunarárátta sem laðaði mig að þessari bók en ég heyrði upphaf hennar lesið í gömlum This American Life útvarpsþætti (á heimasíðunni thisamericanlife.org má hlusta á alla þættina og mæli ég eindregið með þessu eðal útvarpsstöffi). Það er dálítill sjálfshjálparbragur á þessu sem keyrir venjulega upp fordómana í mér en þetta reyndist hinsvegar býsna áhugaverð bók, skemmtileg stúdía á mannlegu eðli, sérhlífni, ákvarðanaangist og vanmáttarkennd, ýmislegt alveg hreint óbærilega kunnuglegt. Svo leiðir þessi bók hugann að hlutverki bókmennta og veltir upp nýjum möguleikum til að skoða bækur og fjalla um þær.
Ég var ekki að grínast í fyrirsögninni, leikarinn ástsæli, Steve Martin, lætur hafa eftir sér á bókarkápunni að þetta sér fyndnasta bók sem hann hafi lesið. Ég get ekki sagt að ég sé sammála því (þetta er fyndnasta bók sem ég hef lesið, Steve Martin hefur pottþétt ekki lesið hana) en hinsvegar er bókin ansi fyndin á köflum, þessi líka fíni, þurri, breski húmor. Og svo kynnist maður D.H. Lawrence og verkum hans líka töluvert, þrátt fyrir allt.

4 ummæli:

Maríanna Clara sagði...

Ég er ekki mesti aðdáandi D.H. Lawrence - en þessi hljómar nokkuð vel! Þú neyðist svo eiginlega til að skrifa næsta blogg um "fyndnustu bókina" (sem er uppseld skv. linknum sem þú bendir á...)

Garún sagði...

Já, hvort tveggja hljómar áhugavert - sérstaklega fyndnasta bókin sem þú hefur lesið :-) Kíkti aðeins inn í bókina og byrjunin gefur strax tóninn..;-)

Þorgerður sagði...

Það er sko aldrei að vita...

Þórdís Gísladóttir sagði...

Hvers vegna ertu ekki búin að lána mér þessa bók?