4. september 2011

Af ástum konu og bókasafns


Í tilefni þess að ég hef nokkrum sinnum á stuttum tíma fengið spurninguna: "Hvar náðirðu eiginlega í þá bók?" ákvað ég að skella inn örstuttri ábendingu fyrir lestrarhesta á Reykjavíkursvæðinu. Ég hef nefnilega rekið mig á það að margir (sérstaklega af minni ágætu kynslóð og yngri) vita ekki af bókasafninu í Norræna húsinu - sem er einmitt svarið við þessari algengu spurningu. Þar næli ég mér iðulega í bækur sem annars er erfitt að nálgast, t.d. hef ég þar fengið aragrúa af góðum norrænum barnabókum, gömlum sem nýjum, skemmtilegar norrænar myndasögur og framhaldsbækur í ýmsum bókaflokkum sem ég hef ef til vill byrjað að lesa á íslensku og ekki getað beðið lengur eftir.

Ef fólk er ragt við að lesa á öðrum norðurlandamálum er upplagt að líta á þetta sem kjörið tækifæri til að bæta við sig lestrarmáli - hugsið ykkur bara allar bækurnar sem bíða manns ólesnar á dönsku, sænsku, norsku og færeysku! Það er að minnsta kosti gulrót sem hrífur á mig.

P.S. Ég sakna samt kaffiteríunnar.
P.P.S. Ég hef enn ekki lagt í finnskuna.

6 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Besta bókasafnið. Og svo er líka hægt að fá DVD-myndir þar.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ah, ég gleymdi því! Það er einmitt enn einn kosturinn. Og þetta eru myndir sem er almennt ekki hægt að leigja hérlendis og maður veit ekki af. Svo verður maður augljóslega mun sleipari í norðurlandamálunum af að horfa á norrænt vídeó!

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég dreif mig einmitt í Norræna húsið eftir Anne-Cath. Vestly pistilinn hennar Maríönnu og náði mér í tvær af Áróru-bókunum sem hafa ekki verið þýddar á íslensku (Áróru-bækurnar eru sjö en bara fjórar voru þýddar). Vissuð þið að Áróra og fjölskylda fluttu úr blokkinni og til Norður-Noregs?!

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Flutti Áróra?!? Veröld mín hefur kollsteypst! Ég verð klárlega að leggjast í Árórulestur í vetur og komast að því hvað varð um hana. Það er annars ótrúlega skrítið að lesa framhald af bókum sem maður las sem barn. Ég t.d. las allar Elvis Karlsson-bækurnar fyrir nokkrum árum (fékk þær augljóslega í Norræna húsinu) og upplifði ljúfsárar tilfinningar við að lesa þær sem aldrei voru þýddar. Eins og Elvis hafi gert hluti án mín og ég hafi misst af því ... Sömuleiðis las ég meira um Júlíu og náttpabba. Hmm, ég held að Maria Gripe verði efni næsta pistilsins míns ...

Nafnlaus sagði...

Og ekki má gleyma því að þarna er hægt að fá rafrænar bækur. Ég sem á heima óralangt úti á landi get náð mér í nýjar sænskar bækur og lesið í tölvunni minni. Hrein dásemd.
Já - og takk fyrir þessa yndislegu síðu ykkar.
Jóhanna Hafliðadóttir

Nanna Hlín sagði...

Ég sakna líka kaffiteríunnar en kaffið þar var samt alveg hryllilega slæmt. Þetta er bara svo mikill krúttstaður, ekki annað hægt en að líða notalega í Norræna Húsinu.