12. ágúst 2011

„For sorrow there is no remedy“

Hér er fín grein eftir Julian Barnes (sem m.a. skrifaði Flaubert's Parrot) um sorgina sem ástand og ferli. Útgangspunkturinn er tvær minningabækur skáldkvenna, þeirra Joyce Carol Oates og Joan Didion (sjá fyrri druslubókablogg um JCO hér, hér og hér). Báðar urðu ekkjur skyndilega eftir áratugi í hjónabandi og skrifuðu í framhaldinu bækur, sem báðar takmarkast við fyrsta árið í ekkjudómi - lýsa snarbreyttum hring í annars gamalgróinni hringrás. Bók Oates heitir einfaldlega A Widow's Story: A Memoir en bók Didion ber hinn lýsandi titil The Year of Magical Thinking. Ég hef hvoruga bókina lesið sjálf og ætla svosem ekki að tíunda efni greinar Barnes hér, mæli frekar með að þið lesið hana. Í stuttu máli ber hann saman hjónaböndin tvö eins og þau birtast í skrifum kvennanna og dregur önnur sambærileg verk inní það samhengi, en greinin inniheldur ekki síst hans eigin hugleiðingar um sorg. Hérna fannst mér t.d. vel að orði komist:

In some ways, autobiographical accounts of grief are unfalsifiable, and therefore unreviewable by any normal criteria. The book is repetitive? So is grief. The book is obsessive? So is grief. The book is at times incoherent? So is grief. [...] This is how it feels, and what is grief at times but a car crash of cliché?

7 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Julian Barnes skrifaði einu sinni fína bók um sorgina eftir skilnað. Talking it over heitir hún.

Svanur Pétursson sagði...

Ég tékkaði ekki á endurminningabók Oates eftir að ég las þessa gagnrýni Janet Maslin.
http://www.nytimes.com/2011/02/14/books/14book.html
Ég var rosalega hrifinn af bók Didion og hef mælt með henni og gefið hana til margra. Sú bók varð einnig til þess að ég tékkaði á Play It as It Lays aftir Didion, en ég játa að ég hef ekki lesið neitt eftir Oates, enn sem komið er. En mér fannst svolítið sem svo að þessi bók var aðallega skrifuð vegna þess hve vinsæl bók Ddion var.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég hef bara lesið eina bók eftir Oates og það er ekki þessi sem rætt er um (sem getur auðvitað alveg verið drasl) en mér finnst þessi rýni í NY-Times undarleg. Hvort sem Oates trúlofaðist (hamingjusamlega eða ekki - hvað veit krítikerinn um það) einum degi eða ellefu mánuðum eftir dauða fyrri eiginmannsins, þarf það eitthvað að koma því við hvað henni fannst erfitt að þurrka rödd fyrri mannsins af símsvaranum?

Svanur Pétursson sagði...

Það er alveg rétt hjá þér Þórdís. Ég hef einnig lesið gagnrýni á þessa bók sem hefur verið mjög jhákvæð svo hún gæti alveg verið fín. En ég játa að ég fékk þá tilfinningu líka að þessi bók hefði verið skrifuð aðallega til að metta þennan fína markað sem bók Didion skapaði, og ég vona að við þurfum ekki að horfa upp á bækur frá hverjum einasta rithöfundi sem missir eiginmann/eiginkonu eða annan ástvin.

P.S. Janet Maslin var fyrir um tíu árum kvikmyndagagnrýni NYTimes en hefur verið í bókmenntunum síðastliðinn áratug að mér hefur sýnst.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég kíkti á rýni um bók Didion á sænsku og ensku. Bókin er bæði lofuð í hástert og sögð drepleiðinleg og oflofuð. Það endaði með því að ég pantaði mér eintak.

Hildur Knútsdóttir sagði...

Ég las endurminningabókina eftir Didion og fannst hún góð. Keypti mér þessvegna Play It as It Lays en gafst einhverra hluta vegna uppá henni.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Flaubert's Parrot fannst mér frábær. Magnað að ná að skrifa bók sem er um allt annað en hún á að vera um, skv. sögumanninum þ.e.a.s. Auðvitað eru til margar þannig bækur en það var eitthvað sérstaklega flott við þessa og hvernig hún smám saman nær manni tilfinningalega.