Það sem gefur bókamessu gildi umfram bókamarkað Perlunnar er auðvitað nærvera höfundanna sjálfra og annars fólks úr bókabransanum, sem var mætt í viðtöl og pallborðsumræður og áritanir út um allt svæðið. Margt var náttúrlega í gangi samtímis, svipað og á tónlistarhátíðum og öðrum margsviða viðburðum, svo gestir geta þurft að velja og hafna. Ég er blessunarlega nógu fáfróð um finnskar bókmenntir til að vita ekki neitt um heilan helling af höfundum og gat því stílað inná það fáa sem ég hafði forsendur til að þykja spennandi, án þess að finnast ég vera að missa af.
Tuula-Liina Varis talar við Jörn Donner |
Norðmaðurinn Erlend Loe nýtti hinsvegar allan sinn sviðstíma í að tala um nýju bókina sína, sem heitir Þöglir dagar með Nigellu (það er þýðing á finnska titlinum, á norsku heitir hún Stille dager i Mixing Part (sem á uppruna í einhverjum misskilningssprottnum orðaleik sem höfundurinn útskýrði í viðtalinu en ég er búin að gleyma)) og fjallar um misheppnað leikskáld sem flytur tímabundið til Þýskalands með fjölskyldu sinni. Hann er þjakaður af nasismafóbíu og ástfanginn af Nigellu Lawson og upplifir meiriháttar ranghugmyndakreppu þegar hann kemst að því að hún er gift gyðingi. Mig minnir nú að mér hafi þótt Ofurnæfur ágæt á sínum tíma, en ekki náði höfundurinn alveg að selja mér ágæti þessarar.
Tapio Koivukari og Heli Laaksonen |
Í dag fór ég síðan á bókamessuna í Helsinki. Messugímaldið var voða svipað því í Turku, í sama Ikeavörugeymslustíl, nema með miklu fleiri gluggum og meiri dagsbirtu, sem sló merkjanlega á innlyksa fílinginn. Á Helsinkimessunni eru líka táknmálstúlkar sem túlka viðtölin! Einn fyrir viðmælanda og annar fyrir spyril. Þetta sá ég samt bara í fyrsta viðtalinu sem ég fylgdist með. Ég veit ekki hvort túlkarnir hafi af einhverjum ástæðum bara túlkað það, eða hvort þeir hafi bara verið á stóra sviðinu – eða hvort ég hafi bara veitt því athygli þá, því þetta var fyrsta viðtalið sem ég fylgdist með – en reyndar var ýmislegt fleira athyglisvert við þetta fyrsta viðtal. Ég verð hinsvegar að halda þessari langloku áfram seinna, enda stóð til að verja helginni sem minnst við tölvuskjáinn – og í fyrramálið mæti ég aftur til messu og sé meira til að segja frá! Framhald á næstu grösum...
4 ummæli:
Hiljaiset päivät Nigellan lumoissa... einhvern veginn finnst mér þetta skólabókardæmi um hvernig Finnar, þegar þeir þýða titla á bókum og bíómyndum, sjá sig tilneydda til að útskýra erlendu titlana.
Eins og John Irving bækurnar Hotel New Hampshire (kaikki isäni hotellit) og Cider House Rules (Oman elämänsä sankari).
Sjálfur er ég hrifinn af svona titlum sem segja manni nákvæmlega ekki neitt, en vekja upp margar spurningar. Þannig að ég hefði sennilega kosið að þýða þetta öðruvísi ;)
Ágúst
Satt, það er nokkuð dæmigert - myndin Friends with benefits heitir til dæmis Vain seksiä, eða Bara kynlíf...
"Kyrrlátir dagar" hefði annars verið betri þýðing hjá mér en þöglir.
Mixing Part í bókinni eftir Erlend Loe er eftir tölvuþýðingu. Sögumaðurinn dvelur í Garmisch-Partenkirchen, sem gúgglinn þýðir "Mixing Part Churches."
kv.
Tapio
já, mikið rétt! og tekið úr raunverulegum aðstæðum - bróðir Loes átti í tölvupóstsamskiptum við þýsk hjón vegna íbúðaskipta, hjónin töluðu litla ensku og treystu á gúgl trans... líka fyrir staðanöfn.
Skrifa ummæli