31. október 2011

Barist gegn blóðfíkn

Bókmenntahátíð er nú yfirstaðin og eins og venjulega á lista- og menningarhátíðum var alltof margt að sjá og alltof lítill tími. En það góða við bókmenntahátíðir er að þótt höfundarnir séu horfnir til síns heima og málþingum og fyrirlestrum lokið þá eru bækurnar ekki að fara neitt og þær getur maður dundað sér við fram eftir vetri.

Einn af gestum bókmenntahátíðar í ár var breski rithöfundurinn Matt Haig sem er fæddur árið 1975. Hann sker sig örlítið úr hópnum þar sem hann hefur skrifað talsvert fyrir unglinga eða „young adults“ eins og markhópurinn er jafnan kallaður. Fyrsta bók hans, The Last Family in England, (sem gæti útlagst sem Síðasta fjölskyldan í Englandi) kom út árið 2005 og byggði hún á leikriti Williams Shakespeare um Hinrik IV. Nú er ekki óalgengt að höfundar sæki í smiðju leikskáldsins fræga en það sem var óvenjulegt við bók Haigs var að allar aðalpersónur bókarinnar voru hundar. Önnur bók hans, The Dead Fathers Club – (eða Klúbbur hinna dauðu feðra) frá árinu 2007 sækir sömuleiðis til Shakespeare en bókin er byggð á frægasta leikriti hans, Hamlet, og segir frá 11 ára dreng sem missir föður sinn og rétt eins og danski prinsinn sér hann afturgenginn.

Nú í haust kom hins vegar út hér á landi nýjasta bók Haigs – The Radleys eða Radley fjölskyldan, frá árinu 2010. Textinn er hnyttinn og uppfullur af tilvísunum í breska afþreyingarmenningu – slíkur stíll er ekki auðþýðanlegur en Bjarna Jónssyni ferst verkið glæsilega úr hendi. Skáldsagan segir, eins og nafnið bendir til, frá Radley fjölskyldunni. Hún samanstendur af foreldrunum Helen og Pétri og unglingunum Clöru og Róan. Þau búa í litlum úthverfabæ í Englandi og virðast næstum óeðlilega venjuleg. Enda kemur í ljós að þau eru í hæsta máta óeðlileg. Þau eru vampýrur.

Elstu heimildir um blóðsugur eru ævafornar en þær urðu fyrst vinsælar í bókmenntum á 18. öldinni og hafa svo átt marga góða spretti á þeirri 19. og 20. Eftir að Twilightsería Stephanie Meyer kom út árið 2005 er svo óhætt að segja að vinsældir þeirra hafi aukist til muna. Bækur, kvikmyndir og sjónvarpsþættir helgaðir vampýrum hafa hellst yfir heimsbyggðina og fullorðnir jafnt sem unglingar verið bitnir af vampýruæðinu. Það er ekki gott að fullyrða um ástæður þessara vinsælda en hugmyndin um ódauðleika mannsins ásamt hinum háskalegum tengslum kynlífs og dauða sem einkenna jú vampýrismann spila vafalaust einhverja rullu.

Spurningin er hins vegar – hverju er hægt að bæta við efni sem svo mikið hefur verið skrifað um? Er kannski búið að kreista síðasta blóðdropann úr þessu viðfangsefni? En mögulega er rangt að spyrja um efni – hvort sagan er gömul eða ný skiptir minna máli en hvernig hún er sögð – og Matt Haig tekst prýðilega upp. Vampýrufjölskylda hans, Radleyjarnir, eru óvenjulegar vampýrur og vandamál þeirra eru sniðuglega tengd vandamálum venjulegrar millistéttarfjölskyldu 21. aldarinnar. Fyrir það fyrsta þá drekka þær ekki blóð. Þær eru „óvirkar“ blóðsugur sem berjast við blóðfíkn (þetta kallast auðvitað á við allar þær endalausu fíknir sem talað er um í dag – áfengis-og lyfjafíkn auðvitað en líka kynlífsfíkn, matarfíkn, tölvufíkn og þar fram eftir götunum.)

En fyrir sautján árum yfirgáfu Helen og Pétur Radley London og fluttu í rólegan smábæ til að hefja nýtt blóðlaust líf og enginn, ekki einu sinni börnin þeirra – vita að þau eru öll blóðsugur. Helen og Pétur hafa logið að börnum, vinum og nágrönnum í sautján ár – sagt að þau séu öll með bráðaofnæmi fyrir hvítlauk, þjáist af svefnleysi og séu sérstaklega viðkvæm fyrir sólarljósi og þurfi því alltaf að bera á sig sólarvörn númer 60. Það er erfiðara að útskýra aðra hluti eins og afhverju hundar og kettir hlaupa spangólandi í burtu þegar þau birtast og fuglasöngur þagnar þegar þau stíga út í garð. Í heimi Haigs geta vampýrur lifað án blóðs – en það er erfitt líf því fyrir utan ofnæmi, útbrot, stanslausan höfuðverk og svefnleysi eru þau (og sérstaklega foreldrarnir sem þekkja þessar hvatir) sífellt að berjast við og bæla niður þrána eftir blóði. Sagan hefst á því að kvikyndislegur ofbeldisseggur úr bekk Clöru, dótturinnar, reynir að nauðga henni eftir partý. Við árásina vaknar loks hennar niðurbælda eðli og hún bítur hann og drepur. Þar með kemst leyndarmálið upp – alla vega innan fjölskyldunnar og það er ekki langt þar til nágrannarnir og lögreglan eru líka komin á sporið. Það er ekki svo erfitt að réttlæta að ung stúlka drepi nauðgara í sjálfsvörn en morðin verða fleiri áður en yfir lýkur og hinar óhjákvæmilegu siðferðisspurningar vakna – vill lesandinn að vampýrurnar fylgi eðli sínu og drekki blóð og drepi eða vill hann að þær haldi áfram að bæla hvatir sínar og reyna að lifa sómasamlegu lífi? Valið er gert erfiðara þar sem Haig undirstrikar hversu ömurlegt líf hinnar óvirku vampýru sé. Þegar vampýrurnar drekka blóð líður þeim vel, þau verða sterk og sjálfsörugg og finnst þau geta sigrað heiminn. Þau geta (í bókstaflegri merkingu) flogið. En þegar þau eru óvirk eru þau nánast lifandi dauð, þreytt, þunglynd og lífsleið. Fjölskyldan heldur dauðahaldi í snjáð eintak af sjálfshjálparritinu Handbók óvirkra (2. útgáfa) og kaflar þaðan sem er reglulega skotið inn í frásögnina kallast á við AA bókina og sporin 12. Þar má finna gullmola á borð við: „Blóðdrykkja æsir bara upp í manni þorstann, en slekkur hann ekki.“ (bls. 100) og „Ef svarið er blóð, er spurningin röng.“ (bls. 289) Þannig stendur Radley fjölskyldan frammi fyrir tveimur kostum og er hvorugur góður – annað hvort geta þau haldið áfram að afneita eðli sínu og lufsast lifandi dauð um úthverfið eða hefja blóðdrykkju með öllum þeim afleiðingum sem því fylgja.

Svarið við hinni stóru siðferðisspurningu blóð eða ekki blóð er kannski eilítið of snyrtilegt hér en það breytir því ekki að vandamálin sem upp koma eru sannfærandi og vel úr þeim unnið. Þau eru nefnilega (eins og áður sagði) nátengd vandamálum hverrar annarrar millistéttarfjölskyldu. Samband foreldranna er staðnað og náttúrulaust, unglingsdrengurinn Róan er lagður í einelti í skólanum og Clara er týnd og óörugg. Fjölskyldan gerir allt sem hún getur til að falla í hópinn – foreldrarnir losa sig við jaðartónlist úr geisladiskasafninu og fylla upp í með Phil Collins og Vivaldi. Helen, sem er málari, hættir að mála naktar konur og fer að mála blóm og girðingar og gengur í bókaklúbb á meðan Pétur er undir stöðugum þrýstingi að ganga í krikketliðið. Þau berjast í sífellu við að bæla innri hvatir og fylgja fyrirfram ákveðinni formúlu um hvernig sé best að líta út, tala og haga sér og eru illa svikin þegar þessi gríma færir þeim ekki hamingju heldur tómleika og vonbrigði. Handbók óvirkra gerir sér svo skemmtilegan mat úr þessum litlausa lífsstíl með ráðleggingum á borð við: „Fylgstu með golfi. Sýnt þykir að ef fólk horfir á ákveðnar utanhússíþróttir í sjónvarpi, til dæmis golf og krikket, þá dregur það til muna úr líkum á ÓBÞ (óstjórnlegum blóðþorsta).“(bls. 262)

Handbók óvirkra heldur því fram að eðlisávísunin sé röng –við séum siðmenntuð en siðmenningin standist ekki nema við bælum eðlisávísunina niður. Alveg burtséð frá því hvort maður er óvirk vampýra eða ekki er alveg ljóst að siðmenningin eins og hún birtist í bresku úthverfi er svo andlaus að hún hreinlega drepur (enda eru mannlegir nágrannar Radleyfjölskyldunnar síst hamingjusamari en hún). En á hinn bóginn kemur í ljós að ef einstaklingur fylgir bara eðli sínu og gefur skít í allt annað er hann ekki hæfur í samfélagi manna – og við þurfum þrátt fyrir allt öll (líka vampýrur) á öðrum manneskjum að halda. Þótt Haig hendi gaman að því hversu yfirborðskennd millistéttin geti verið og líf hennar óspennandi og innihaldslaust þá hefur hann samt skilning á því að undirliggjandi er mjög raunveruleg þrá eftir því að búa fjölskyldu sinni öruggt skjól í hættulegum heimi. Þegar upp er staðið eru flestir foreldrar tilbúnir til að fórna öllu til að vernda börnin sín, rétt eins og Helen og Pétur.


(Þessi pistill var áður fluttur í Víðsjá í september)

Engin ummæli: