26. október 2011

Einar Áskell og byltingin

Einar Áskell er gamall fjölskylduvinur. Einn af þeim sem hægt hefur verið að reiða sig á að sé á sömu buxunum (bókstaflega) ár eftir ár. Frá fyrstu bókinni, Góða nótt Einar Áskell, sem kom út í Svíþjóð 1972 og í íslenskri þýðingu 1980, hefur frásögnin iðulega verið staðsett í steinsteyptum hversdagsleika sænskra blokkarbarna. Einar Áskell hefur alltaf verið bara venjulegur strákur. Hann er hugmyndaríkur og einlægur. Hann leikur sér að bílum og ímynduðum þyrlum. Hann vill ekki slást en getur alveg orðið reiður. Í þeim fjölmörgu bókum sem hafa komið út um hann hefur Einar Áskell fyrst og fremst glímt við ógnir og gleði sem eiga sér uppruna í raunveruleikanum.
Í nýju bókinni sinni, Einar Áskell og allsnægtapokanum, yfirgefur höfundurinn Gunilla Bergström sögusvið fyrri bóka og stígur inn í draumkennda ævintýraveröld. Mörkin sem hún hefur áður sett sögunum um Einar Áskell eru sprengd. Sænska blokkin og sandkassinn eru horfin. Einar Áskell hefur nú eignast sitt eigið land, „Heimalandið“, og ríkir þar sem kóngur.


Í Heimalandinu búa litlar verur, gulmenni og grænmenni, og yfir þeim drottnar Einar Áskell.
Hann er kóngur og þess vegna þarf hann að leysa flókin mál... Binda enda á stríð! Koma í veg fyrir vandræði! Stjórna ríkinu þannig að fólkinu líði vel. Hann þarf að vera bæði vitur og vænn, og slunginn og snöggur, og athugull og úrræðagóður. Því hætturnar blasa víða við. Ekki síst hjá þeim sem þurfa að stjórna sínu eigin kóngsríki. Einhver ógn getur lúrt á bak við næsta stein! En Einar Áskell er alveg rólegur. Því hann á allsnægtapoka. (bls. 8)

Allsnægtapokinn er fullur af hjálparmeðulum fyrir smákónga: þar er vasaljós, úðaflaska, snúður, sprengiduft og rós. Þessir hlutir reynast hafa töframátt, sem er eins gott því Einar Áskell þarfnast þeirra allra til að halda völdum. Hann hefur ekki hugsað nægilega vel um þegna sína því heimafólkið líður hungur og svo kviknar mikill eldur. Hér fær frásögnin goðsagnakenndan, nærri biblíulegan, blæ. Vatnið í úðaflöskunni er aldrei búið og með henni slekkur Einar Áskell heljarbálið. Snúðurinn klárast ekki svo Einar Áskell getur, rétt eins og Jesú með fiskunum, mettað unga, gamla, fríska, veika, háa, lága, karla og kerlingar. Allir saddir! Og svo til að toppa það kastar hann rósablöðum yfir þegna sína og við það „TEKST heimafólkið Á LOFT.“ (bls. 29) Rósin úr allsnægtapokanum virðist gefa Einari getuna til að lyfta heilli þjóð á hærra plan. (Trúarleg upplyfting? Táknmyndir rósa í kristinni trú væri efni í langa ritgerð, en rósin hefur meðal annars staðið fyrir blóð Krists.)

Þegar Einar Áskell vaknar segir hann pabba sínum drauminn en pabbinn efast um að þetta hafi átt sér stað í raun og veru. Þar til það rifjast upp fyrir honum indæll draumur frá árum áður. „Þegar hann hitti elskuna sína, mömmu hans Einars Áskels. Þá var hann glaður.“ (bls. 31) Ha, mömmu hans Einars Áskels? Það hefur aldrei áður verið minnst á mömmu í bókunum og núna er hún bara orðin að gvuð má vita hvernig draumi hjá pabba Einars Áskels, ef eitthvað er að marka svipinn á karlinum. Þetta er virkilega ekki venjuleg Einars Áskels bók.

En þá má heldur ekki gleyma að þrátt fyrir að Einar Áskell sé í sömu buxunum og líti eins út og áður þá á hann samt að vera á sjöunda ári. Þessi bók og sú næsta á undan, Einar Áskell og stríðspabbinn, hafa verið merktar „Einar Áskell fyrir stóra krakka“ og hafa meira lesmál en áður. Lesendahópurinn hefur því elst frá fyrstu bókunum þar sem Einar Áskell er fjögurra eða fimm ára. Í stríðspabbanum, eins og í allsnægtapokanum, er höfundinum mikið niðri fyrir. Rétt eins og Gunilla var á móti stríðsbrölti í síðustu bók þá eru það slæmir stjórnarhættir konunga sem fá á baukinn hér. En kannski ekki nógu rækilega. Því þegnarnir eru á endanum í gleðivímu með sinn allsnægtakóng og of saddir til að gera uppreisn. Það er ekki laust við að maður hefði viljað fá byltingu í Heimalandinu og komið á lýðræði.

Niður með Einar Áskel! Lifi byltingin.

Helga Ferdinandsdóttir

1 ummæli:

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Hey já, ég hefði einmitt viljað sjá þegnana gera alvörubyltingu. En kannski er boðskapurinn í staðinn að möguleikarnir séu fyrir hendi og maður þurfi bara að opna augun.

Tæplega 4 ára frænku minni finnst hún frábær og lét lesa hana bæði að kvöldi og morgni strax eftir að hún fékk hana.