31. október 2011

lesið í london

Þrátt fyrir að núna sé góður tími til að byrja á umfjöllun um „jólabækurnar“ þá ætla ég alveg að láta það eiga sig í bili. Og það þrátt fyrir að nokkrar þeirra séu komnar í bókabiðröðina á náttborðinu og ein, sem mér er sagt að sé æsispennandi , eða „Víti í Vestmannaeyjum“ komin í lestur til undirverktaka. Nei, mér finnst einhvernvegin meira heillandi að spjalla aðeins um nýlega dvöl í London. Æ, hvað það er alltaf eitthvað dásamlegt, og í raun algjörlega bráðnauðsynlegt, að komast aðeins í burtu úr súldinni og krepputalinu hér á þessu annars svosem þokkalega skeri, og anda að sér hæfilega menguðu stórborgarlofti, detta inná söfn, hverfa inn í mannhafið, kíkja í leikhús, hangsa í bókabúðum og bara svona almennt að finna fyrir taktinum í stórborginni.

En jafnvel í stórborginni þarf maður að taka tillit og gera svona sitt lítið af hverju sem hentar hinum ýmsu fjölskyldumeðlimum, þannig að ég gat nú kannski ekki eytt eins miklum tíma og ég hefði viljað í bókabúðum og bókasöfnum. En náði nú samt að taka góða syrpu í Foyles og nokkrum second hand verslunum. Var að vonast eftir því að finna einhverjar spennandi ljóðabækur í Foyles, en þar hef ég oft dregið eitt og annað upp af því tagi, t.d. „The Beasts of Malunga“ eftir James Mapanje sem mér þótti mikill happafengur, sem og fleira útgefið af Bloodaxe Books. Í þetta sinn varð ég þó að láta mér nægja að taka með mér heim nýlega útgefna bók með völdum ljóðum lárviðarskáldsins Carol Ann Duffy, sem auðvitað er hið besta mál og í raun tími til kominn að ég kynni mér aðeins ljóðin hennar.

Ég komst líka alveg óvart í kynni við nýjan höfund, sem mér finnst raunar merkilegt að ég hafi náð að láta fara fram hjá mér, en svona er þetta þegar maður þarf að sjá fyrir sér og svona og getur ekki verið alltaf að lesa og fylgjast með ..... bara uppskrift að veseni! Sum sé, við duttum inná Kensington and Chelsea Public Library einn morguninn, verulega fínt, hægt að parkera ungmennum í þartilgerða deild og detta sjálfur í að skoða og lesa. Þar var mér bent á bókina „The Long Song“ eftir Andrea Levy, sem bæði hefur fengið Whitbread Book of the Year og Orange verðlaunin fyrir bækurnar sínar. Þessi sem ég gluggaði í er saga konu, Miss July, sem er dóttir þræls á sykurplantekru á Jamaica og býr við þær aðstæður þar til bresk ekkja, nýflutt til Jamiaca ákveður að taka hana af móður sinni nefnir hana „Marguerite“ og flytur hana í herragarðinn á plantekrunni. Þetta virkaði, af því litla sem ég náði að skoða, áhugaverð bók og sem áður sagði þá skil ég ekkert í því hvernig þessi höfundur hefur fram að þessu farið algjörlega fram hjá mér!

Það er svo ekki hægt að enda þessa frásögn án þess að segja frá því að sem ég sat í lestinni eitt síðdegið og gluggaði í Evening Standard komst ég að því að Julian Barnes hefði fengið Man Booker-verðlaunin fyrir bókina „Sense of an Ending“. Maður hefur svosem ekkert lesið hana frekar en margt annað og ekkert eftir Barnes annað en „Flaubert´s Parrot“ fyrir margt löngu. Í sama blaði las ég svo ansi skondna frétt um það að Jeanette Winterson hefði tekið æðiskast og öskrað á nágranna sinn sem var víst eitthvað að kvarta yfir því að hún hefði lagt Range Rovernum sínum í innkeyrslu sem hann átti. Segið svo að rithöfundar standi ekki í allskyns veseni öðru en að sitja hljóðir og góðir og skrifa bækur.

2 ummæli:

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Oh, hvað ég þrái að komast til útlanda og bókabúðast ... Ég var einmitt að skoða skemmtilegt myndaalbúm í tölvunni í gærkvöldi, frá því í desember á síðasta ári þegar ég fór í góða Bretlandsreisu og eyddi ófáum stundum í bókabúðum í Cardiff, Swansea, Bath, Oxford og að sjálfsögðu London.

Ég las Small Island eftir Andreu Levy sem mér fannst mjög fín, hún er skemmtilegur sögumaður. Small Island var einmitt valin til lestrar í mögnuðu lestrarátaki sem mín þáverandi heimaborg, Glasgow, tók meðal annars þátt í og má lesa um hér:
http://www.bristolreads.com/small_island_read/index.html

Sigfríður sagði...

Æ já, það er algjörlega nauðsynlegt að komast reglulega af eyjunni og í stærra samhengi! Ég hlakka til að sökkva mér almennilega ofaní bækurnar eftir Andreu Levy, virðast við fyrstu sýn vera alveg minn tebolli!