10. október 2011

Mjög góðar danskar smásögur *

„Hún heitir Helle Helle. Hún getur skrifað skrifað. Því miður hefur hún ekkert að skrifa skrifa um.“ Einhvern veginn þannig hófst einn af fyrstu ritdómunum sem skrifaður var um verk hinnar dönsku Helle Helle. Til allrar hamingju – fyrir Helle alla vega – hafa dómarnir farið batnandi síðan. Eða batnandi er kannski ekki rétta orðið, hún hefur almennt verið hyllt af gagnrýnendum jafnt sem lesendum og fengið fjölda verðlauna og viðurkenninga, var til að mynda tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2009. Engu að síður hafa orð gagnrýnandans þarna forðum daga enn ákveðið sannleiksgildi. Þótt mér finnist Helle Helle alltaf hafa eitthvað mikilvægt að segja er ekki hægt að neita því að sögurnar hennar eru viðburðarsnauðar með meiru.

Helle Helle hefur skrifað fimm skáldsögur og tvö smásagnasöfn. Ég hef bara lesið eina af skáldsögunum en smásagnasöfnin hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér um árabil. Það fyrra, Rester, kom út árið 1996 og það síðara, Biler og dyr, fjórum árum seinna. Sögurnar í báðum bókum eru stuttar, flestar 4-6 síður og umfjöllunarefnin eru yfirleitt afar hversdagsleg. Par keyrir í sumarhús, kona veltir fyrir sér að gera sultu úr graskeri, á vinnustað er lagt í púkk fyrir samúðarblómvendi. Stundum gerast undarlegir atburðir í sögunum, ókunnugir karlmenn dúkka óvænt upp í görðum eða á dyraþrepi kvensöguhetja, kona grætur hátt fyrir utan svefnherbergisglugga ungs pars um miðja nótt og háskólanemi hlustar á bláókunnuga manneskju segja frá hræðilegum atburðum úr fortíð sinni. En jafnvel þá er sagt frá á ofur hlutlausan hátt og án allra tilfinninga. Og það sem er meira um vert, þótt óvæntir og undarlegir atburðir gerist þá virðast þeir á endanum ekki breyta neinu, við skiljum gjarnan við persónurnar í svo að segja sömu sporum og þegar sagan hófst, hrærandi í potti eða horfandi út um gluggann. Stíllinn er svo knappur að það er varla hægt að tala um persónusköpun. Lesandinn veit aldrei hvað persónan hugsar eða hvernig henni líður. Þá sjaldan einhver sýnir tilfinningar er það hulin ráðgáta hvað hafi valdið þeim. Þegar í ofan á lag svo að segja ekkert gerist er kannski ekki skrýtið að gagnrýnandinn hafi þarna um árið bent á að Helle Helle hafi ekkert að skrifa skrifa um.

Það sem ég og flestir gagnrýnendur sem síðan hafa fjallað um verk Helle Helle erum hins vegar sammála um er að allt það sem skipti máli sé sagt milli lína. Það er einmitt þögnin, allt það sem ekki er sagt, sem er merkingarbært. Ég verð meira að segja að játa að það sem mér finnst allra áhugaverðast í þessum sögum er þegar einhver lýgur (sem gerist nokkuð oft). Þá er meira að segja búið að hrifsa það litla sem maður þó vissi burt, kippa fótunum endanlega undan manni. Það er í höndum lesandans sjálfs að móta frásögnina og gefa henni merkingu. Í mínu tilviki er það sjaldnast svo að ég endi uppi með endanlega lausn á því um hvað sagan fjalli. Mun oftar enda ég svo að segja bara með ótal margar ósvaraðar spurningar. En stundum eru spurningarnar sjálfar bara svo miklu áhugaverðari en svörin!

Í mínum huga hafa flestar sögurnar feminískar skírskotanir. Þær fjalla á einhvern hátt um samskipti kynjanna, eða kannski öllu heldur samskiptavandræði og ólíkan tjáningarmáta. Pörin í bókunum skilja oft ekki hvort annað, virðast tala sitt hvort tungumálið og setja hvort öðru hömlur þess vegna. Að gefa eftir, að taka eitthvað frá einhverjum, að troða sér inn á heimili, inn í líf, einhvers – allt eru þetta endurtekin stef. Þetta er reyndar aldrei sett fram á agressífan hátt, ekkert í þessum sögum er agressíft. En undir niðri, undir yfirborðinu mallar einhver spenna, jafnvel ógn. Og svo finnst mér aldrei laust við að það sé verið að fjalla um þær kröfur sem gerðar eru til fólks, kannski sérstaklega kvenna. Mér finnast titlar bókanna til dæmis endurspegla þetta á dálítið írónískan og lúmskan hátt. Á upprunalegri kápu Biler og dyr var til dæmis mynd af einhvers konar umferðarmerki og dýri sem vísar í eina söguna í bókinni. Saman fannst mér kápan, titillinn og sagan vilja minna mig á að það sé vandasamt verk að keyra bíl, maður verði að fylgja reglunum og vara sig á hvítum og draumkenndum dádýrskálfum sem gætu birst fyrivaralaust á veginum. (Hugtökum eins og lögmáli föðurins skýtur hér upp í huga bókmenntafræðingsins – en svoleiðis „öfga-feminismi“ er kannski ekki beint vænlegur til að selja fólki hugmyndina um að lesa tilteknar bækur!) Rester minnir mig á leiðbeiningarit frá 1950 um hvernig best sé að nýta afganga. Og titill skáldsögunnar Hus og hjem er eins og titill á enn einu híbýlatímaritinu, til þess gerðu að láta fólki líða eins og það vanti eitthvað inn í líf manns ef maður kaupi ekki svart slökkvitæki og sorteri hvítu legokubbana út og leyfi börnunum bara að leika með þá.

En í ljósi þess sem ég hef sjálf sagt hér að ofan um að það áhugaverðasta við verk Helle Helle sé að lesandinn laði sjálfur merkinguna upp úr tóminu er sjálfsagt best að ég láti staðar numið hér. Ég vona hins vegar að sem flestir leiti Helle Helle uppi, lesi sögurnar, spyrji sinna eigin spurninga – og finni kannski einstaka svör.

* Með laufléttri vísan í pistil gærdagsins!

2 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég er einmitt með ólesna bók eftir Helle Helle hérna sem heitir Föreställningen om ett okomplicerat liv med en man. Ég hlakka til að lesa hana.

Guðrún Lára sagði...

Já, ég hef einmitt lesið hana. Það er að vísu langt síðan en mig minnir að hún hafi verið góð.