24. október 2011

Liturinn sem var ekki til

Fyrir svona átta til tíu árum fékk dóttir mín bókina Litarím í afmælisgjöf. Þessi bók kom út 1992 og er fagurlega myndskreytt af Tryggva Ólafssyni með kvæðum eftir Þórarin Eldjárn. Eins og titillinn gefur til kynna er tilgangur bókarinnar að kynna litina fyrir ungviðinu sem og að útskýra fyrir þeim grundvallaratriði í blöndun lita (gult og blátt verður grænt og svo framvegis).

Bókin er þannig sett upp að fyrst er fjallað um einn lit á hverri opnu, öðrum megin er þá mynd eftir Tryggva þar sem viðkomandi litur er í aðalhlutverki en hinum megin er þriggja erinda vísa um litinn eftir Þórarin. Í lokin er svo fjallað um alla litina saman og svo er litahringur sem sýnir blöndun grunnlita. Eins og við má búast eru myndir Tryggva mjög skemmtilegar og vísur Þórarins prýðilega settar saman, þótt þetta sé svo sem ekki með því besta eða skemmtilegasta sem ég hef séð frá honum.

Af ástæðum sem verða svo tíundaðar hér hef ég átt erfitt með að fá mig til að lesa þessa bók með börnunum mínum og hef leyft henni að gleymast svolítið. Þegar hún hefur þrátt fyrir allt verið dregin fram þá hef ég fundið mig knúna til að benda á að hún sé haldin undarlegum galla. Þetta er galli sem hlýtur að vera viljandi hjá myndlistarmanninum Tryggva og ég bara skil ekki hvers vegna í ósköpunum:

Eins og ég nefndi er fyrst fjallað um einn lit í einu. Byrjað er á grunnlitunum, gulum, rauðum og bláum, og allt í góðu lagi með það. Svo koma litirnir sem verða til við blöndun grunnlita; grænn, appelsínur og…brúnn! Já, brúnn en ekki fjólublár. Svo kemur hvítt, grátt og svart og síðan regnbogi með skalanum frá rauðum að bláum…en engin fjólublá rönd í honum. (Við megum líklega þakka fyrir að ekki hafi verið skellt brúnni rönd í regnbogann, sem væri með því furðulegra sem hægt væri að ímynda sér.) Í lokin er svo þessi myndarlegi litahringur og meðfylgjandi vísa:

 
Renni saman rautt og gult
rím í litaþulu
verður úr því alveg fullt
af appelsínugulu.

Gult plús blátt er grænt að sjá,
geislar litakynngin.
Blátt plús rautt er brúnt, ójá,
bætist það í hringinn.

Ójá, hvað? Síðan hvenær verður blátt og rautt brúnt? Mér líður eins og ég sé stödd í einhverri furðulegri samsærisskáldsögu þegar ég les þessa bók. Fjólublái liturinn er með öllu útskúfaður. Það kemur hvergi neitt fjólublátt fyrir í allri bókinni. Ekki minnsta arða af fjólubláu. Satt að segja hef ég talsvert gruflað yfir þessu. Hvers vegna í ósköpunum telja þessir ágætu menn það rétt að blekkja börnin í þessum efnum og láta þau halda að brúnt verði til úr rauðu og bláu? Myndu þeir ganga alla leið og segja að litir regnbogans, eða litirnir sem sjást þegar hvítt ljós fer í gegnum prisma, séu rauður, appelsínugulur, gulur, grænn, blár og brúnn? Brúnt ljós? Eða er bara endað á bláum (eins og á myndinni af regnboganum í bókinni)?

Spurningin sem ég sit eftir með er sem sagt þessi: Hvað í ósköpunum er svona slæmt við fjólublátt?

Að lokum: Ef einhver býr yfir upplýsingum um þetta mál þá væru þær vel þegnar. Mér finnst þetta nefnilega afar dularfullt.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Áhugavert!

Kallinn hefur ábyggilega verið á kafi í einhverri litaþeoríunni.

Kannski litblinda?

Það er að vísu ekkert heilagt í heimi lita!

Elísabet sagði...

Ég bíð spennt eftir svari, þetta er dularfullt!

Nafnlaus sagði...

Brúnn er auðveldara rímorð en fjólublár?