28. október 2011

Jobsbók hin nýja

Maðurinn á forsíðunni er nokkuð reffilegur gaur. Líkaminn fullkomlega afslappaður en hugurinn einbeittur. Svona týpa sem er alltaf í nýburstuðum skóm. Hann heldur hurðinni fyrir þig, pantar oftast tvöfaldan espesso og dregur upp ipad og hvað þetta nú allt heitir í subway-inu. Eða ég ímynda mér það.

Það finnst varla svo aum bókabúðarhola hér vestanhafs að hún tjaldi ekki heljarinnar borði sem tileinkað er ævisögu Steve Jobs sem kom út í vikunni.

Margir hafa beðið hennar með töluverðri eftirvæntingu enda hafa allir fjölmiðlar verið undirlagðir af minningu Steve Jobs síðan hann lést fyrir tveimur vikum. Fjölmargir hafa "kynnst" þessum hugmyndaríka manni á síðustu dögum sem áður höfðu jafnvel aldrei heyrt á hann minnst. Ég sjálf er því sem næst í þeim flokki. Ég hef átt tölvur úr smiðju hans nokkuð lengi og líkað vel en ekki haft neinn sérstakan augastað á öðru dóti sem eftir hann liggur. Þaðan af síður vissi ég nokkuð um manninn sjálfan. Ég ætlaði að vera búin að ljúka við bókina áður en það kæmi næst að mér að skrifa á druslubókabloggið en mér tókst ekki að klára nema helming og skauta yfir restina. Einhvern veginn hef ég ekki verið neitt sérlega spennt þrátt fyrir nær óslökkvandi ást mína á hverskyns ævisögum. Mér líður svolítið eins og þegar Fight Club kom út, ég sá hana aldrei í raun og veru því mér fannst ég hafa séð hana ótal sinnum í gegnum annað fólk. Ég fékk mig fullsadda áður en ég tók fyrsta bitann. Það er svolítið þannig með ævisögu Jobs og segir það ekkert um gæði verksins sem slíks.

Hinsvegar horfði ég á höfundinn, Walter Isaacson, í 60 mínútum á dögunum þar sem hann var gestur og lýsti samstarfi sínu við tölvunjörðinn. Isaacson er mikill áhrifamaður í fjölmiðlaheiminum og nokkuð afkastamikill rithöfundur. Hann hefur áður ritað ævisögur merkra manna í bandarískri sögu, þeirra Benjamin Franklín og Albert Einstein. Jobs kom víst sjálfur að máli við Isaacson og bað hann að skrifa sögu sína og tók ótal viðtöl við Jobs meðan á söguritunni stóð, það síðasta bara nokkrum dögum áður en hann lést. Einnig voru tekin yfir 100 viðtöl við fjölskyldu, vini, samstarfsmenn og keppinauta. Sjálfur sagðist Jobs ekki hafa neitt að fela, galopnaði sig fyrir ævisöguritaranum og skipti sér ekki af efnistökum. Flestir sem rýnt hafa í bókina í dagblöðunum hér eru á einu máli um að Isaacson takist ágætlega að draga upp trúverðuga mynd af manninum, bókin ausi Jobs vissulega lofi en varpi líka ljósi á breyskleika hans. Einkum er þar tínt til hversu erfiður hann gat verið í samskiptum og hversu botnlausar og óraunhæfar kröfur hann gerði til annarra og ekki síður til sjálfs sín. Hann gat átt það til að hella sér geðvonskulega yfir þjónstufólk á veitingastöðum jafnt sem forritara sem sáttu sveittir við að reyna að fylgja fyrirmælum hans.

Isaacson veltir því upp hvort mögulega geti sú staðreynd að foreldrar hans gáfu hann til ættleiðingar skýrt þessa stjórnsemi hans og tilætlunarsemi – að óttinn við að verða yfirgefinn á ný hafi alltaf verið til staðar og varnarviðbrögðin hafi verið þau að verða alltaf að hafa tögl og haldir. Það er alltaf ágætt þegar höfundar reyna að komast eitthvað lengra með persónuna sem þeri eru að vinna með, álykta sjálfir og tengja saman. Isacsson gerir ekki mikið af því og innst inni var ég nú eiginlega bara fegin því mér fannst fyrrnefnd tilgáta ekki sérlega spennandi. Parið sem ættleiddi Jobs reyndist honum hinir prýðlegustu foreldrar og sögðu honum alla tíð að þau höfðu sérstaklega valið hann sem son. Þannig reyndu þau markvisst að vinna á því að kæfa mögulega höfunartilfinningu sem Jobs hafði gagnvart blóðforeldrum sínum.

Ég hafði ekki sérlega mikinn áhuga á að lesa um Apple ævintýrið sem slíkt og samskipti hans við aðra valdamenn innan þess batterís. Áhugaverðari þótti mér að lesa um andlegt brambolt Jobs en hann var víst mjög leitandi allt sitt líf og lagði eins og margir aðrir upp í mikla ferð til Indlands. Hann sökkti sér í búddisma og datt síða í hug að nota Dalai Lama í fræga auglýsingu fyrir Apple “Think Different” Það vakti ekki mikla lukku hjá Kínverjum og var herferðin dregin til baka þar um slóðir. Þessari hlið á Jobs hefur verið haldið nokkuð á lofti og inn í þetta blandast vangaveltur um þá ákvörðun hans að bíða með að fara í uppskurð við krabbameininu sem síðar dró hann til dauða, og leggja lag sitt heldur við óhefðbundnari lækningar af ýmsu tagi. Níu mánuðum síðar kom í ljós að meinið hafi breitt úr sér og erfiðara var að gera aðgerðina. Menn hafa spurt sig hvort þarna hafi Jobs mögulega tekið ranga ákvörðun. Sjálfur sagðst hann einfaldlega kæra sig lítt um að láta opna líkama sinn, og lái honum hver sem vill.

Fyrir áhugasama um viðskipti, tækni og tölvur er saga Jobs án efa mikill hvalreki og ég leyfi mér að halda því fram að flestir aðrir ættu líka að geta haft gaman að henni. Maðurinn var sannalega áhugaverð týpa.

Fyrir áhugasama er hægt að horfa á viðtalið við Isacsson í 60 mínútum hér.

Engin ummæli: