Í gegnum Bókmenntahátíð hef ég kynnst verkum margra skemmtilegra og áhugaverðra höfunda sem annars hefðu sjálfsagt farið fram hjá manni. Sérstaklega er gaman að fylgjast með höfundum sem ekki eru enskumælandi því eitthvað er jafnan þýtt eftir þá á íslensku við þetta tilefni. Sjálf er ég því miður ekki nógu dugleg að lesa annað en bækur á ensku og íslensku – en þótt talsvert sé þýtt þessa dagana (alla vega miðað við hina frægu höfðatölu okkar Íslendinga) þá er ansi stór hlutfall þess skandinavískir reyfarar. Nú er ég mikill aðdáandi lífsþreyttra, drykkfelldra rannsóknarlögreglumanna og gleypi þetta allt í mig með bestu lyst – en það er hins vegar gleðiefni þegar fjölbreytnin verður meiri – eins og til dæmis í kringum bókmenntahátíð.
Meðal nýlegra þýðinga má nefna Andarslátt eftir rúmanska nóbelsverðlaunahafann Hertu Müller en áður hefur komið út eftir hana Ennislokkur einvaldsins. Þá var að koma út Fásinna eftir salvadorska skáldið Horacio Castellanos Moya. Einnig var að koma í bókabúðir íslensk þýðing Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur á Adam og Evelyn, skáldsögu frá 2008 eftir Ingo Schulze og er sú bók hér til umfjöllunar.
Schulze er fæddur árið 1962 í Dresden í Austur-Þýskalandi sem þá var, og var því um 27 ára gamall þegar múrinn féll haustið 1989. Hann er metsölu höfundur í Þýskalandi og hefur verið þýddur yfir á fjöldamörg tungumál – þar á meðal íslensku en árið 2000 kom hér út bókin Simple Stories: Ein Roman aus der ostdeutchen Provinz eða Bara sögur: Skáldsaga úr austurþýskum smábæ. Fall múrsins og lífið sitthvoru megin við hann fyrir og eftir fallið hefur reynst Schulze drjúgur efniviður og er Adam og Evelyn þar engin undantekning.
Sagan hefst í Austur-Þýskalandi sumarið 1989 (rétt fyrir fallið) þegar Evelyn hættir óvænt fyrr í vinnunni og kemur að sambýlismanni sínum, Adam, í baði með annarri konu. Adam er gríðarlega flinkur klæðskeri og eins og bókin orðar það „skapar“ konur uppá nýtt með verkum sínum. Vandamálið er að hann endar oftar en ekki með að sofa hjá sköpunarverkunum. Evelyn er búin að fá nóg og gerir sér lítið fyrir, pakkar ofan í tösku og leggur af stað í ferðalag með vinkonu sinni og Vestur-Þýskum frænda vinkonunnar. Ferðinni er heitið til Ungverjalands en undir sakleysislegum sumarleyfis-áætlunum blundar hugmynd um að flýja til fyrirheitnalandsins, vestursins. Þótt Adam hafi hingað til ekki haft neinn áhuga á því að fara í frí (enda elskar hann vinnuna sína) vill hann ekki láta Evelyn sleppa frá sér og því pakkar hann sömuleiðis niður og eltir hana til Ungverjalands í Austur-Þýska fornbílnum sínum. Í ferðinni lenda þau í ýmsum ævintýrum og kynnast (mis)áhugaverðu fólki áður en svo loks múrinn fellur í nóvember 1989 og lífi þeirra allra er umturnað.
Persónurnar Adam og Evelyn, yfirleitt kölluð Eví, eru leynt og ljóst borin saman við nafna sinn og nöfnu úr Biblíunni og fall múrsins endurspeglar þannig hið kunna fall goðsögunnar. Bókin spyr hins vegar hvar paradís sé raunverulega að finna. Vestrið er við fyrstu sýn sú paradís sem allir þrá og þannig mætti líta svo á að hér sé ferðinni viðsnúningur á sögunni þar sem vestrið opnast jú eftir fallið í stað þess að lokast eins og Paradís. En það kemur í ljós að Adam þráir ekki vestrið, hann blómstraði í eigin paradís kvenna og sköpunargáfu í austrinu. Það var Eví sem freistaði hans og fékk hann til að fara yfir – rétt eins og formóðirin Eva freistaði Adams og átti þannig sök á brottrekstrinum úr Paradís forðum daga. Eins mikið og er gert úr Adam sem „skapara“ í eigin paradís er svo líka óhjákvæmilegt að spyrja sig hvort hann sé þá smækkuð mynd af guði kommúnismans í austrinu á meðan Eví er táknmynd Austur-Evrópu búans sem ekki er sáttur í þeirri svokölluðu paradís. Hvort það sem bíður hinum megin er svo himnaríki eða helvíti er aftur önnur spurning sem Schulze veltir upp undir lok skáldsögunnar.
Það væri synd að segja að það væri djúpt á þessari speglun við goðsögunar og ekki þarf mikla skarpskyggni eða þekkingu til að koma á auga á vísanirnar. Þegar Adam og Eví eru komin yfir landamærin til Austurríkis og hvíla sig inni á hótelherbergi rekst Adam á Biblíu og les söguna um syndafallið upphátt fyrir Eví á meðan hún borðar. Hann er sárhneykslaður á textanum sem fyrir augu ber:
Adam skellti bókinni aftur með slíkum hvelli að Evelyn krossbrá.
„Þetta er alveg ótrúlegt, ha!? Við megum ekki snúa aftur í Paradís af því að við vitum hvað er gott og hvað illt og skortir ekkert nema eilíft líf til að verða fullkomin. En Guð vill ekki hafa aðra eins og sjálfan sig. Þetta er alveg óhugnanlegt, af hverju segir enginn manni frá þessu? Og það var heldur ekkert minnst á epli, eða sást mér kannski yfir það?“ „Viltu eitthvað?“ spurði Evelyn. „Þetta er ljúffengt, smakkaðu bara, sætt sinnep!“ Hún skar smábita af kjötbúðingsskorpunni, smurði á hann sinnepi og settist á rúmstokkinn við hliðina á Adam. „Þetta er níðangurslegt, í alvöru,“ sagði Adam. „Af hverju ertu að æsa þig svona? Smakkaðu.“ Evelyn hélt gafflinum með kjötbúðingnum fyrir framan munninn á honum. „Verður þú ekkert æst yfir þessu?“ spurði Adam. „Prófaðu nú,“ sagði Evelyn og hélt annarri hendinni undir gafflinum. „Þetta er ljúffengt.“ (bls. 224)
Adam missir nefnilega sköpunargáfuna þegar til vestursins er komið og þarna á hótelinu í Austurríki reiðist hann yfir því hvernig manninum er neitað um að vera guð. Eví, sem aldrei var guð í Austur-Þýskalandi hrífst hins vegar af vestrinu og freistar Adams hér með með ljúffengum mat frá hinni nýju paradís. Þótt endurspeglunin við Biblíuna sé á köflum helst til augljós er hún þó skemmtileg og bætir að nokkru leyti upp hversu flatar sumar persónurnar eru. Sérstaklega verður ástarsambandið milli Adam og Evelyn ótrúverðugt. Sagan hefst þar sem Adam sefur hjá annrri konu og korter eftir að hann leggur af stað til að elta Eví hittir hann enn aðra konu – flóttastúlku - sem hann leggur sig í hættu við að hjálpa og verður þannig guð og bjargvættur i hennar lífi. Stærsta hluta sögunnar fylgjumst við svo með sambandi þeirra þróast á meðan Eví skröltir í bíl með vinkonu sinni og Vestur-Evrópska ferðamanninum í hlutverki snáksins sem sífellt mærir vestrið. Sagan er að mestum hluta sögð frá sjónarhóli Adams og þar sem lesandinn kynnist Eví sjálfri í rauninni ekkert fyrr en undir lok bókarinnar verður öll þessi mikla ást þeirra á milli í besta falli ósannfærandi. Einhver naskur gagnrýnandi benti reyndar á að Eví sé jafn undirskrifuð persóna og nafna hennar úr Biblíunni en þarna missti Schulze þá af tækifæri til að gera betur en höfundar Gamla testamenntisins.
Vangavelturnar um hvorum megin við fallið Paradís sé að finna eru áhugaverðar þótt mögulega hefði verið hægt að vinna betur úr þeim. En það sem Schulze gerir best eru lýsingarnar á daglega lífinu bak við múrinn, hræðslunni við njósnara, afstöðunni til veraldlegra gæða, biðröðum eftir íspinna og síðast en ekki síst hamingjustunda sem fólk á auðvitað þótt það búi við óþolandi skilyrði.
(þessi pistill var fluttur í Víðsjá í september)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli