3. október 2011

Hraðskreiðasta kona heims


Um daginn fann ég skemmtilega bók í tiltekt sem ég var alveg búin að gleyma. Þetta er lítið kver, sérstaklega af ævisögu að vera, bókin heitir The Queen of Whale Cay eftir Kate Summerscale og fjallar um Marion Barböru Carstairs, sjúkrabílstjóra, hraðbátaunnanda og plantekrudrottningu, með meiru. Marion Barbara var reyndar alltaf kölluð Joe, hún var lesbía og gekk um í karlmannsfötum, var með tattú og reykti vindla. Og svo var hún víst mjög góð í Charleston dansi.

Joe Carstairs fæddist árið 1900 í London. Ekki er í raun vitað hver var faðir Joe þó talið sé að það hafi verið Albert Carstairs, skoskur liðsforingi sem lét sig hverfa áður en Joe fæddist. Mamma hennar var hinsvegar vellríkur heróínfíkill, erfingi olíuauðs sem fékk ýmsar skemmtilegar hugmyndir, hún reyndi til dæmis að markaðssetja furðurlegar yngingarmeðferðir en græddi lítið á því. Flest bendir til þess að hún hafi ekki haft mikinn áhuga á dóttur sinni sem “var aldrei lítil stúlka” að eigin sögn.


Annars virðist Joe Carstairs ekki hafa haft mikinn áhuga á að segja frá sjálfri sér, hún var meira fyrir það að byggja upp dularfulla ímynd af sér. Og það er kannski einmitt það sem er svo heillandi við ævisöguna The Queen of Whale Cay, lesandinn þarf að geta í all margar eyður og gera upp við sig hvað er sannleikur og hvað er goðsagnakenndur uppspuni. Joe Carstairs virðist svo sannarlega hafa gengist upp í því að sveipa líf sitt leyndardómum og sumar útskýringar hennar er afar sérstakar. Hún skýrði til dæmis þrjá hraðbáta í höfuðið á móður sinni (Estelle 1, 2 og 3) en komst síðar að því, að eigin sögn, að móðir hennar hét Evelyn. Svona sögur sagði hún iðulega um sjálfa sig og uppruna sinn og engin leið að staðfesta hvað var rétt og hvað rangt.

En snúum okkur aftur að æviferli Joe. Hún keyrði sjúkrabíl fyrir bandaríska Rauða Krossinn í Frakklandi í heimstyrjöldinni fyrri en á þeim tíma deildi hún íbúð í Montparnasse, í París, með nokkrum öðru kvenbílstjórum. Ein þeirra var Dolly Wilde, frænka Oscars Wilde sem varð ástkona hennar um skeið. Hún kynnti Joe fyrir evrópskum lista-og menningarstraumum sem Joe virðist satt best að segja ekki hafa haft neinn sérstakan áhuga á, síðar á ævinni sýndi hún lítil tilþrif þegar kom að slíku, hún var meira fyrir allskonar sport og lét verkin gjarnan tala.
Eftir stríð vann Joe við það að grafa lík breskra hermanna sem höfðu verið geymd í bráðabirgðagröfum. Hryllilegt starf en Joe virðist hafa verið ánægð með það, merkilegt nokk. Stríðið hafði í raun veitt henni þau tækifæri sem hún þurfti til að vera hún sjálf, jafnoki karlmanna í vinnu og íþróttum og karlmannleg ástkona fjölda kvenna. Hún gerir einmitt mikið úr afrekum sínum í ástarlífinu og virðist hafa átt að minnsta kosti 120 ástkonur. Don Juan og Casanova koma óneitanlega upp í hugann.

Eftir stríðið fór hún á fullt í hraðbátasiglingar og varð þá fræg um skeið en hún vann hverja keppnina á fætur annari og var kölluð „hraðskreiðasta kona heims“ en hún þótti öðrum konum fremri á sviði siglinga á fyrri hluta 20. aldarinnar. Ein ástkvenna hennar, ritarinn Ruth Baldwin gaf henni á þessum tíma litla leðurdúkku, karlkyns, frá þýska leikfangafyrirtækinu Steiff. Joe skýrði dúkkunna Lord Tod Wadley og samband hennar við þessa dúkku var alla tíð furðulegt. Hún lét klæðskerasauma jakkaföt á hana á Savile Row og pantaði sérsmíðaða skó frá Ítalíu. Nöfn þeirra beggja mátti finna við útidyrnar á heimili þeirra í London og Lord Tod Wadley sat iðulega á öxl Joe á myndum (á bókakápunni er eins slík). Wadley átti sér uppdiktað líf, það birtist grein í tímariti með myndum af dúkkunni þar sem hún siglir báti, er á hestbaki, skrifar skáldsögu, fær sér hanastél o.s.frv. Hlutverk dúkkunnar virðist hafa verið margbrotið, hún var vinur Joe en líka einhversskonar blætiskennt alter egó. Hann var líka lukkudýr en Joe þakkaði Wadley gjarnan góðan árangur sinn í bátakeppnunum. Einnig hefur Wadley mögulega verið ígildi barns en í bókinni vitnar Summerscale í lesbísku skáldsöguna Nightwood eftir Djunu Barnes en þar kemur upp sú kenning að gefi kona ástkonu sinni dúkku sé hún í einhverjum skilningi að bæta upp fyrir barnleysi tveggja kvenna í ástarsambandi.

En það var vandlifað fyrir konu í karlmannsfötum á þessum tíma, Joe var gagnrýnd í fjölmiðlum, enda voru svokallaðir “inverts” ekki vel séðir (sem dæmi mætti taka réttarhöldin vegna bókarinnar Well of Loneliness eftir Radclyffe Hall en söguhetjan Stephen Gordon er lesbía sem kynnist ástinni sinni Mary Llewellyn á meðan hún starfar sem sjúkrabílstjóri, í fyrri heimstyrjöldinni rétt eins og Joe. Skáldsagan var dæmd til eyðileggingar í réttarhöldum í Bretlandi árið 1928).

Hún flutti þar af leiðandi til Bahama eyjunnar Whale Cay sem hún keypti fyrir 40.000 spírur sem hún erfði eftir móður sína. Þar var drottnaði hún í 40 ár, hún byggði sér mikið hús fyrir sig og ástkonur sínar sem komu og fóru (Marlene Dietrich ku hafa verið ein þeirra) en aðrir íbúar eyjunnar sem langflestir voru svartir, bjuggu í strákofum í kring og unnu á plantekrunni. Joe lét byggja skóla, kirkju, búð og ýmislegt fleira sem ekki hafði verið til staðar, það má þannig segja að hún hafði byggt samfélagið upp og ræktað það frá grunni – og var ávallt í hlutverki hins hvíta yfirboðara. Eiginlega var hún tekin í guðatölu en íbúar Whale Cay töldu Lord Tod Wadley vera einhversskonar vúdúdúkku með yfirnáttúrulega hæfileika. Joe réði þannig því sem hún vildi ráða, stofnaði her á eyjunni, setti lög eftir eigin hentisemi (þar sem framhjáhald og áfengi var m.a. bannað hjá innfæddum) og tók sér það vald að nefna öll börn sem fæddust á eyjunni.

Blaðamenn sýndu Joe og þessu nýja lífi hennar mikinn áhuga í fyrstu, en með tímanum virðist hún hafa og kannski hætti hún að vilja láta á sér bera. Hún varð æ sérlundaðri og lífið á Whale Cay varð erfiðara, þegnarnir hlýddu ekki eins og þeir gerðu í fyrstu og hún missti smám saman tengslin við þá. Árið 1975 seldi hún eyjunna og flutti til Miami en þar bjó hún allt til dauðadags með Lord Tod Wadley, horfði á box í sjónvarpinu og hafði það náðugt.

The Queen of Whale Cay er virkilega skemmtileg bók og hún leiðir líka hugann að eðli ævisagnaritunar, sem getur verið flókið, ekki síst ef viðfangsefnið skreppur jafn auðveldlega undan sannleikanum og Joe Carstairs.

Engin ummæli: