13. febrúar 2012

Af austenskum tilfinningaþunga

Eina teikningin sem til er af Jane Austen
Ég er svo heppin að vera að vinna í Jane Austen-tengdu verkefni þessa dagana og hef þar af leiðandi pottþétta afsökun fyrir að lesa og horfa á ofboðslega mikið sem hefur með hana að gera. Ekki sem verst! Ég hef lesið mér mikið til um hana og til dæmis fannst mér þessi bók mjög fín, Jane Austen: The World of her Novels eftir Deirdre Le Faye. Hún setur Austen í sögulegt samhengi og fjallar um þjóðfélagsskipan, tískustrauma og lifnaðarhætti þessa tíma; fer yfir breytingarnar sem urðu á ensku samfélagi á þeim fjórum áratugum sem Austen lifði og tekur hverja skáldsögu sérstaklega fyrir. Þetta er engin analýsa og afskaplega óróttæk sem fræðibók, en segir manni afskaplega mikið um heim sagnanna og er heilmikið myndskreytt, sem gerir bókina þeim mun eigulegri. Einnig er fjallað um ævi Jane Austen og hennar persónulega saga fléttuð saman við fróðleik um England frá miðri 18. öld og fram á þá 19., en Austen lést árið 1817.Ég hef auðvitað líka verið að lesa bækurnar hennar, bæði lesa aftur þær sem ég þekkti fyrir og svo að kynna mér þær sem ég hafði aldrei lesið. Í vikunni sem leið las ég þá síðustu sem ég átti eftir af fullkláruðu skáldsögunum, Persuasion, sem var einmitt síðasta bókin sem Austen lauk við og kom út skömmu eftir dauða hennar. Það er allt öðruvísi stemning í Persuasion en í hinum bókunum - reyndar er miklu meiri munur á bókunum hennar almennt en maður myndi halda af umfjöllun og skírskotunum í Austen. Persuasion var skrifuð á eftir Emmu, sem er af allt öðrum toga - löng og flókin, uppfull af glettni og háði (ekki síst á kostnað aðalpersónunnar), og þótt í henni séu mjög dramatískir straumar er samt aldrei eins og ástamál Emmu og hinna persónanna séu spurning um líf eða dauða. Emma býr vissulega við þrúgandi nærveru einstaklega heilsukvíðins föður (sem nú til dags yrði sendur beint í hugræna atferlismeðferð sem var því miður ekki til á tímum hýpókondríaksins herra Woodhouse), en með þeim er afskaplega kært, hún á vini og ástríka fjölskyldu og lífið blasir við henni. Í Persuasion fylgjumst við hins vegar með eftirleik ástarsambands sem endaði illa og aðalpersónan, Anne Elliot, er stödd í algjöru öngstræti.
Sjö árum áður en frásögn Austen hefst var Anne trúlofuð ungum sjóherliða að nafni Wentworth, en lét undan þrýstingi fjölskyldu og vina og sleit trúlofuninni, þeim Wentworth til gríðarlegs hugarangurs. Anne á hégómagjarnan föður og systurnar eru síst skárri; hégómagjarnar báðar tvær, önnur sjálfselsk og hin afar kaldlynd. Ástarsorgin fékk mjög á Anne sem glataði í kjölfarið æskublómanum og hefur aldrei náð sér að fullu. Þegar sagan hefst er hún orðin 27 ára gömul - sumsé háöldruð - og sífellt verður ólíklegra að hún gangi út.
Stúlkan á myndinni er víst ekki með þverflautu,
eins og mér sýndist fyrst, heldur sjónauka

Eins og lesendur hafa eflaust séð fyrir kemur Wentworth aftur inn í líf Anne og upphefst mikil flétta að hætti Austen; fólk verður ástfangið þvers og kruss, mistúlkar tilfinningar annarra, reynir að beina eigin tilfinningum í annan farveg og les rangt í hegðun fólksins í kring. Sögusviðið er efristéttarsamfélag ensku sveitarinnar en fléttan leiðir aðalpersónurnar til Bath þar sem sagan nær hápunkti sínum og leyst er úr flækjunum.

Nýlega voru gerðir þættir með Sally
Hawkins í hlutverki Anne - hefur
einhver blogglesandi séð þá?
Það eru ákveðin þyngsli yfir Persuasion; einhver melankólía eða jafnvel örvænting, sem er auðvitað freistandi að setja í samhengi við líf Austen sjálfrar, sem var orðin heilsulaus þegar þarna var komið sögu auk þess sem fjölskyldan hafði gengið í gegnum talsverðar hremmingar í kjölfar andláts föðurins. Engu að síður einkennast sögulokin af von og gleði, af þeirri tilfinningu að aldrei sé of seint að bæta fyrir fyrri mistök og aðstæður geti breyst til hins betra. Anne og Wentworth eru óttalega litlausar persónur, sem ég áttaði mig í raun ekki á fyrr en að lestrinum loknum, og í samanburði við Lizzie Bennet og Emmu Woodhouse er Anne afskaplega fyrirferðarlítil og auðgleymd. Hún er ekki viðkvæmt (óþolandi) blóm eins og Fanny Price heldur; eiginlega er hún nánast ósýnileg í eigin sögu, sem var merkileg uppgötvun svona eftir á þar eð mér þótti bókin afskaplega góð og ég naut lestrarins mjög.

En hér hljóta að vera einhverjir Austen-aðdáendur - hver er eftirlætisbókin ykkar eftir Austen?

6 ummæli:

Unknown sagði...

Persuasion er í miklu uppáhaldi hjá mér, en hinar bækur Austen eru svo frábærar að það er erfitt að gera upp á milli.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég hef aldrei fengið neitt út úr Austen en þessi kona sem beinir sjónaukanum á haf út er í fallegum kjól.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég er mjög ófrumleg og held mest upp á Pride & Prejudice, sennilega ekki síst út af Elizabeth Bennet sem er sennilega sú bókmenntapersóna sem ég vildi helst líkjast (en geri því miður ekki). Emma er sennilega í öðru sæti hjá mér en í því tilfelli er það bókin en ekki persónan.

Mig langar að fara að lesa Northanger Abbey aftur, hef bara lesið þá bók einu sinni og það er langt síðan, held að ég hefði meiri húmor fyrir henni núna.

Sense & Sensibility finnst mér líka fín. Aftur á móti hef ég aldrei fallið fyrir Persuasion þótt mér finnist hún margt gott í henni. En það er allavega á hreinu að Mansfield Park er neðst á listanum hjá mér. Fanny Price er bara óbærilega leiðinleg.

Hildur Knútsdóttir sagði...

Persuasion er mitt uppáhald. Ég veit samt ekki alveg afhverju. En mér þykir vænt um allar bækurnar hennar.

Nafnlaus sagði...

Það er eitt skondið við bækur Jane Austen, þær eru einu verkin sem ég get látið mér detta í hug sem myndu falla á nokkurskonar öfugu Bechdel-prófi. Karlkyns karakterar eru yfirleitt bara til staðar til að geta gegnt ákveðnu hlutverki í söguþræðinum, að vera dæmdir sem verðugir eða óverðugir fyrir kvenpersónur.
Það eru að vísa alveg fleiri en einn karl í hverri bók, þeir tala stundum saman og um eitthvað annað en konur, en hvergi held ég að finnist sena þar sem kona er ekki nærstödd.
Mér fannst svolítið eins og eina fullmótaða karlpersónan í bók eftir hana væri hinn útvaldi í Northanger Abbey. Mér finnst þetta lúmskt hressandi sagnaheimur, en samt þegar ég las Norhanger Abbey þá velti ég fyrir mér hvort bækurnar hennar hefðu getað verið betri ef karlkyns persónur hefðu verið dýpri.
Ragnhildur

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ég á sjálf mjög erfitt með að gera upp á milli þeirra, finnst þær svo ólíkar (eins og fram kom í pistlinum), en Persuasion tengdi ég mjög sterkt við og held hún tróni á toppnum í augnablikinu. Þær tala líka auðvitað misvel til manns eftir því hvenær maður les þær; ég las t.d. Emmu fyrst þegar ég var 17 ára á ferðalagi um Frakkland og Danmörku, og fannst hún alveg hrikalega skemmtileg og sniðug. Ég á minningu um að liggja í kaupmannahöfnsku rúmi að klára Emmu um miðja nótt á meðan vinkona mín hraut við hliðina á mér.

En þetta er mjög góður púnktur með karlpersónurnar, Ragnhildur! Aðalkarlpersónurnar hennar Jane Austen eru iðulega fremur óeftirminnilegar, hafa ef til vill eitthvert ákveðið sérkenni og virka yfirleitt þvermóðskufullir við fyrstu kynni, en mildast svo gagnvart aðalpersónunni. Ég man ekki eftir senu milli tveggja karla í Austen-bók, þ.e.a.s. þar sem við fáum að vera á staðnum og fylgjast með. Okkur er sagt frá því þegar einhver fer og biður um hönd stúlku en heyrum aldrei á tal þeirra og frásögnin er sett fram í framhjáhlaupi eða eftir á. Ég er að fara að lesa The Watsons (ófullgerðu skáldsöguna) og ætla að hafa augun opin fyrir þessum athyglisverða punkti.