7. febrúar 2012

Raunhæft ástalíf

Ansi falleg bók, sjálft bandið er rautt.
Árið 1945 kom út á íslensku bók með titilinn Raunhæft ástalíf: Handbók með 11 innsigluðum litmyndum. Þýðandinn var Ásbjörn Stefánsson, sem var læknir í Reykjavík á sinni tíð (f. 1902), en útgefandi var Fræðsluhringurinn, sem ég finn hvergi að hafi gefið út fleiri bækur svo ég giska á að þýðandi hafi sjálfur gefið út. Höfundur bókarinnar er Anthony Havil.

Þessi bók, sem ég eignaðist í gær, var í íslenskri blaðaauglýsingu árið 1945 sögð fyrsta nútíma handbókin um samlíf karls og konu sem kemur út á íslensku og útgáfan hefur þótt svo umdeilanleg að skýringamyndirnar voru innsiglaðar aftast og tekið var fram í auglýsingum að bókin yrði aðeins seld fullorðnum. Ég hafði aldrei heyrt um þessa bók fyrr en ég fékk hana í hendur og hafði því auðvitað ekki hugmynd um við hverju ég ætti að búast. Vissulega var ég með ákveðna fordóma, kynlífshandbækur eru nú oft ansi kjánalegar, ekki síst ef þær eru komnar vel til ára sinna. En þegar ég fór að lesa kom þessi bók mér skemmtilega á óvart, hún er alveg ágæt að flestu leyti og greinilega skrifuð af höfundi sem vissi sínu viti.


Raunhæft ástalíf hefst á formála höfundar sem segist vera að bregðast við þörf, þar segir:
... er alger skortur á handhægum útgáfum, sem í senn fjalli um helztu viðhorf og mismunandi viðfangsefni kynferðismála og ástalífs almennings nú á dögum. 
Síðan taka við kaflar þar sem fjallað er um lífeðlisfræði, kynhvöt og sálfræði, samfarir, meðgöngu og fæðingu, getnaðarvarnir, fósturlát og fóstureyðingar, samræðissjúkdóma, mansal, getuleysi og ófrjósemi og að lokum er kafli þar sem efnið er dregið saman. Bókin er staðfærð að einhverju leyti og þarna kemur m.a. fram hvaða lög um fóstureyðingar gilda á Íslandi. Ég ætla ekki að
Dr. Elliot Philipp var huggulegur náungi
tína til mörg dæmi úr bókinni en hún er á fínu máli, þokkalega skýr og greinargóð hvort sem rætt er um lífeðlisfræði, getnaðarvarnir, kynsjúkdóma, samfarastellingar, forleik eða vændi, en þar er meðal annars sagt að vændiskonum fjölgi á atvinnuleysistímabilum en fækki þegar almenn velmegun eykst. Höfundur er á því að vændi í Bretlandi sé þjóðarmein af ýmsum ástæðum, níu af hverjum tíu sem smitist af kynsjúkdómum hafi til dæmis smitast af vændiskonum, en hann segir líka að vændiskonur ...
... séu mörgum mönnum ómissandi, margar þeirra  hjartagóðar og umburðarlyndar þrátt fyrir, eða öllu heldur sökum þjáninga þeirra og ofrauna, sem mæta þeim í lífinu. Þær hafa bjargað mörgum manninum frá sjálfsmorði með því að hlusta á harmatölur þeirra og hafa samúð með þeim, öðrum frá brjálsemi með því að vera eins konar útrás fyrir niðurbældar kynhvatir þeirra. Það er sorglegur vottur um uppeldi í kynferðismálum og þjóðfélagshætti yfirleitt að konur þessar skuli vera „ill nauðsyn“ enn þann dag í dag.
Við lesturinn tók ég eftir að oft skein í gegn að höfundurinn er hallur undir Freud og í eftirmálanum mælir hann einmitt með því að menn kynni sér kenningar hans um sálfræði. Innsigluðu myndirnar aftast eru afskaplega hefðbundnar skýringarmyndir á borð við þessa.

Þarna er sýnd leiðin sem spermatozóurnar fara frá eistunum og út úr penis.

Eftir að hafa rennt yfir bókina (hún er í litlu broti og um 120 síður) lagðist ég að sjálfsögðu í rannsóknarvinnu. Fyrst fletti ég Raunhæfu ástalífi upp í Gegni og sá að 13 íslensk bókasöfn eiga eintök og af mörgum þeirra eru aðeins leyfð afnot á safni. Bókin heitir á frummálinu The Technique of Sex og kom fyrst út 1938. Eftir það var hún endurprentuð áratugum saman í tugum útgáfa, 19. útgáfa kom út 1948, ég fann eintak á netinu gefið út 1975, og hún hefur mjög líklega verið prentuð enn síðar. Það var ekki alveg hlaupið að því að finna eitthvað um höfundinn. Að lokum komst ég þó að því að hann hét Elliot Philipp og dó 95 ára í hittifyrra. Philipp vann m.a. með Steptoe og Edwards sem þróuðu glasafrjóvgunaraðferðina og einnig var hann í nánu sambandi við Freud, en Martha kona Sigmundar var náfrænka Elliots, sem ólst upp með föður hans, og Sigmund Freud las einmitt yfir handrit The Technique of Sex á meðan hann lá banaleguna. Freud mun hafa frætt Elliot um ýmislegt og sér þess stað í Raunhæfu ástalífi sem varð margföld metsölubók og sem fyrr segir gefin út undir dunefninu Anthony Havel.

Í læknisstarfinu var Elliot Philipp mjög farsæll ef marka má minningargreinar, hann starfaði víða í London, kenndi og stundaði vísindarannsóknir, var hirðlæknir við franska sendiráðið, skrifaði þó nokkrar bækur og var pistlahöfundur. Síðasta bók hans The Facts about the Menopause kom út 1998. Hér er krækja á minningargrein um Elliot Philipp.

7 ummæli:

Kristín Svava sagði...

Elska ég auglýsingar í spurnarformi? Já, ég elska þær!

En "Raunhæft ástalíf" er dálítið fyndin þýðing á The Technique of Sex, hálfbölsýn jafnvel.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég var einmitt að velta fyrir mér titlinum, þetta er áhugavert orðaval.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þessi auglýsing gefa falskar vonir varðandi eðli litmyndanna.

Ragnhildur.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Óneitanlega er lítið um liti í þeim.

Nafnlaus sagði...

Og bara alls ekki nógu dónalegar til að þurfa á þessum innsiglum að halda. Varla er innri líffæragerð typpis neitt hættulegri fyrir viðkvæma heldur en t.d. þarmakerfið. Einhverjir hljóta að hafa orðið fyrir vonbrigðum þegar þeir loks rufu innsiglin.
Ragnhildur.

Kristín Svava sagði...

"...rufu innsiglin með titrandi höndum" fannst mér ég verða að bæta við þarna.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Tjahh, árið 1945 var þetta sennilega alveg gríðarlega viðkvæmt allt saman. Spermatozóur og svona ... En áreiðanlega líka sölutrikk í þessu - eitthvað verið að kynda undir spennu og vekja falskar vonir um alvöru samfaramyndir.