Guðrún Elsa og Kristín Svava hugsuðu sér gott til glóðarinnar þegar þeim barst nýjasta bók Þórarins Leifssonar, Götumálarinn, enda báðar miklir aðdáendur barnabóka Þórarins, Leyndarmálið hans pabba og Bókasafn ömmu Huldar, þar sem undirtónninn er oft bæði pólitískur og fullur af svörtum húmor. Götumálarinn er „fullorðinsbók“ þar sem Þórarinn segir frá ferðalögum sínu sem götumálari og flækingur á Spáni og í Marokkó þegar hann var um tvítugt og því þegar móðir hans og systir fara af stað til að leita að honum.
KS: Ég var búin að hlusta á fínt viðtal druslubókadömunnar Þorgerðar E. Sigurðardóttur við Þórarin í Víðsjá áður en ég las bókina, og bókin kom mér dálítið á óvart eftir að hafa heyrt viðtalið – og líka bara eftir að hafa lesið aftan á kápuna. Þórarinn er augljóslega að skrifa inn í hefð flökku- eða ferðabókmennta. Hann nefnir sjálfur Dagbók þjófs eftir Jean Genet í viðtalinu, annars staðar sá ég að teikningarnar hans í bókinni vísa til Góða dátans Svejk, en svo má líka nefna bækur á borð við On the Road eftir Jack Kerouac. Það er verið að gefa borgaralegu líferni fingurinn, reglubundnu hversdagslífi með vinnu níu til fimm og svo framvegis, með því að flakka um, vinna sér inn pening eftir hentisemi, vera í tilviljanakenndum félagsskap hins og þessa fólks. Það sem ég fílaði ekki síst er að Þórarinn er ekkert að rómantísera þetta, það eru engir snillinga- eða hetjukomplexar í gangi eða háfleygar sjálfsánægðar vangaveltur um það hvernig hann hafnar hinu smáborgaralega hugarfari. En það kom mér á óvart hvað hann gengur langt með það; ég segi ekki að frásögnin sé steríl en stíllinn er rosalega látlaus, það er sagt frá hlutum eins og heróínneyslu og hættulegum villum á marokkóskum fjöllum í nákvæmlega sama tóninum og sagt er frá dvöl á virðulegum gistiheimilum. Frásögnin rennur þess vegna einkennilega ljúflega miðað við hversu óvenjulegt frásagnarefnið er – hann gerir hið óvenjulega venjulegt. (Þetta hefur skapað fyndinn kontrast í mörgum viðtölum og umfjöllun um bókina, þar sem blaðamaðurinn er að jesúsa sig yfir viðskiptum Tóta við lögregluna og eiturlyfjaneyslu og útigangi og reyna að gíra þetta upp í svakalega dramatík þegar textinn sjálfur gerir frekar í því að tóna hana niður. Enda sagði Þórarinn í fyrrnefndu Víðsjárviðtali að hann hefði jafnvel verið að pæla í að sleppa t.d. heróínneyslunni svo þetta færi ekki að minna á bækur með uppeldisboðskap eins og hann hefði fengið að gjöf á unglingsárum sínum.)