Áhyggjurnar yfir bókamagni breyttust með tímanum í áhyggjur af því að ég hefði nú varla lesið neitt merkilegt, engar mikilvægar bækur. Svo, árið áður en ég byrjaði að læra bókmenntafræði, fór ég að hafa áhyggjur af því að ég myndi komast að því í háskólanum að ég vissi bara ekkert um bókmenntir og þetta yrði bara allt saman alveg geðveikislega vandræðalegt fyrir mig, kennarana og samnemendur mína. Um það leyti sem ég var að hafa áhyggjur af þessu rakst ég á bókina How to Read a Novel: A User‘s Guide eftir John Sutherland. Þegar ég blaðaði í gegnum hana í bókabúðinni og sá að fyrsti kaflinn heitir „So many novels, so little time“ vissi ég að ég yrði að eignast þessa bók.
Eins og titill hans gefur til kynna, fjallar upphafskaflinn um það hvernig maður eigi að díla við það hvað það eru brjálæðislega margar skáldsögur til í heiminum og að þeim fari bara fjölgandi. Hvernig á maður að velja hvaða bók maður á að lesa næst? Á maður bara að lesa það sem allir aðrir eru að lesa? Velja eftir metsölulistum eða skella sér á það sem maður sá einhvern lesa í strætó? Lesa það sem mælt er með í bókmenntaumfjöllunum (eins og þessari hér), eða ná sér í bók sem nýbúið er að gera kvikmynd eftir? Sutherland reynir að svara þessum spurningum með rúmlega tvöhundruð blaðsíðna vangaveltum um skáldsöguna. Hann hugsar bókina svona:
I have organized what follows as a kind of zoom shot: first contemplating the book (specifically the novel) as an astronomer might a distant object in space; then moving the camera (‘genre’, ‘the fiction industry’) until, eventually close up, I target first the volume, then the page, then the words on the page.Og hann hefur tvennt í huga á meðan hann grandskoðar skáldsöguna:
- How to Read a Novel, bls. 12
- maður á að njóta þess að lesa skáldsögur
- maður nýtur þeirra betur eftir því sem maður les þær betur
Bókin fjallar meðal annars um lesandann, því engir tveir lesendur lesa sömu bókina eins. Sutherland, sem var formaður dómnefndar Man Booker-verðlaunanna árið 2005, fjallar í þessu samhengi um úthlutun verðlaunanna og veltir því fyrir sér hvernig stendur á því að sama bókin getur verið talin bæði frábær og ömurleg, af vel lesnum gagnrýnendum.
„If, when you're buying a book, you feel a tender hand on your genitals, the other hand is probably feeling your wallet. (HtRaN, bls. 54) |
Sutherland veltir líka fyrir sér bókaforminu (bókin er kannski ekki alveg up-to-date þegar maður les pælingar hans um rafbókina, en hún kom líka út árið 2006), ritskoðun/áhrifamætti skáldskapar og tengslum skáldskapar við raunveruleikann - af hverju urðu allir svona reiðir þegar upp komst um að eiturlyfjaendurminningar James Frey, A Million Little Pieces, voru hreinn skáldskapur? Og af hverju fer það í taugarnar á okkur þegar rangt er farið með staðreyndir í skáldskap? (Sutherland tekur eigin pirring yfir því að rangt er farið með það hvar Iris Murdoch er grafin í skáldsögu Zadie Smith, On Beauty, sem dæmi.)
Stundum er Sutherland líka bara að röfla, en samt á skemmtilegan hátt. Í kaflanum „Famous first words“ veltir hann til dæmis fyrir sér upphafsorðum Pride and Prejudice:
They are, in more than one sense, fictional. Thomas Harris's 1988 best-seller Silence of the Lambs, for example, could have opened with the lofty proposition: ‘It is a truth universally acknowledged that every psychotherapist, of advanced intellectual capacity, is in want of a human liver to eat with fava beans and a fine chianti.’ It is not, even in the little world of Longbourn, true that every single man in possession of a fortune, etc., must be in search of a wife. Bingley may be; Darcy certainly is not.Það er ekkert skemmtilegra en að lesa skemmtilegar bækur um bækur.
How to Read a Novel, bls. 144
Bókin hafði frekar mikil áhrif á mig á sínum tíma. Ég byrjaði til dæmis að krota í bækurnar mínar eftir að hafa lesið hana, en Sutherland hvetur til þess að maður hafi slík „samskipti“ við bækurnar sínar - svo maður liggi ekki bara óvirkur og „neyti“ þeirra. Bókin kynnti líka fyrirbæri eins og grein (genre) og textatengsl (intertextuality) fyrir mér (14. kafli fjallar um textatengsl og Sutherland gleður svo lesandann með því að benda á eigin textatengsl í upphafi 19. kafla: „One may as well begin (to echo Zadie Smith echoing E.M. Forster) with the beginning of Salman Rushdie's 2005 novel...“ (bls. 162) - svona lærir maður!) En það besta við bókina er þó greddan í skrifum hans, afsakið orðbragðið. Bókagredda. Sutherland er skemmtilegur og hefur rosalega mikinn áhuga á bókum (þannig eiga bókmenntafræðingar að vera). Áhugi hans er smitandi, þannig að mann langar bara að fara að lesa þegar maður er búinn með bókina. Að lesa vel og njóta þess.
6 ummæli:
Ég er ferlega léleg í því að pikka út bækur af handahófi í íslenskum bókabúðum. Sennilega hefur það eitthvað að gera með stemmninguna í erlendu deildunum hérna heima, mér hefur aldrei fundist hún mjög bjóðandi. Finnst ég einhvern veginn aldrei sjá neitt þar nema risastórar tískuljósmyndabækur, fantasíur og reyfara og bækur um bandaríska stjórnmálasögu. Þess vegna fyllist ég alveg sérstakri magntengdri örvæntingu þegar ég kem í erlendar bókabúðir og ALLAR bækurnar á útstillingarborðinu eru ómótstæðilegar (ég fór reyndar síðast í erlenda bókabúð í febrúar og er ekki búin með bækurnar sem ég keypti á útstillingarborðinu þar...)
Ég punkta hins vegar mjög mikið niður hjá mér nöfn höfunda og bóka sem ég rekst á, á netinu, í öðrum bókum, greinum...svo verður maður að fara reglulega gegnum skrifbókina sína og uppfæra listann. Var einmitt að bæta einum höfundi á hann í dag (hinum ameríska Pynchon?) eftir að hafa lesið hvað Elfriede Jelinek væri hrifin af honum.
-Kristín Svava
Þetta hljómar hrikalega skemmtilega. Ég er mjög veik fyrir bókum um bækur og bókum um lestur og keypti þessa fyrir löngu síðan en hún lenti afsíðis og ég gleymdi að lesa hana. Nú er ég búin að draga hana fram og ætla að byrja á henni sem fyrst!
Já, ég var líka að sjá að hann hefur skrifað bækurnar "Is Heathcliff a Murderer? Puzzles in nineteenth-century fiction" og "Can Jane Eyre be happy? More Puzzles in Classic Fiction" - maður verður að tékka á þeim við tækifæri!
Ég hef stundum látið mig dreyma um að lenda í fangelsi til að finna tíma til að vinna eitthvað á listanum endalausa yfir ólesnu bækurnar. Eða ætli maður fái ekki að lesa eins og maður vill ef maður situr inni? Ég gæti kannski framið einhvern svona tiltölulega meinlausan glæp.
Ég upplifi mikla frelsistilfinningu þegar ég hugsa um það að óendanlega mikið er til af bókum sem eru þess verðugar að lesa. Þó ég geri fátt annað allt mitt líf en að lesa bækur, þá mun ég aldrei komast að endamörkum. Ég mun ekki einu sinni ná upp í mælanlega prósentutölu. Því er engin ástæða fyrir því að hafa áhyggjur af því hvað maður er ekki búinn að lesa og lesa bara það sem manni dettur í hug.
Mig langar að lesa þessa, ef hún er jafn skemmtileg og þú segir skemmtilega frá henni. Og "magntengd örvænting", þar er þessu rétt lýst...
Skrifa ummæli