Borgarstjóri vor er fjölhæfur maður. Ég er af Fóstbræðrakynslóðinni og vissi lengi engan fyndnari mann á Íslandi en Jón Gnarr. Hann hefur líka átt sín góðu móment sem borgarstjóri og þorað að brjóta ýmsar óskrifaðar og ömurlegar reglur. Nýjasta bókin hans,
Sjóræninginn, fjallar ekki síst um reglur kerfisins og hvað þýðingu og afleiðingar það hefur að hlýða þeim og brjóta þær.
Sjóræninginn er sjálfstætt framhald af fyrri bók Jóns,
Indjánanum (sem Þorgerður fjallaði um fyrir
Bókmenntir.is á sínum tíma), og virðist reyndar sjálfstæðari gagnvart bókinni sem á undan kom en þeirri sem hlýtur að koma á eftir því endirinn er merkilega snubbóttur og er meira eins og kaflalok en bókarlok. Bækurnar eru sjálfsævisögulegar (koma nokkrar sjálfsævisögur út lengur sem ekki eru kallaðar skáldævisögur?)
og
Sjóræninginn hefst þar sem
Indjáninn endar, þegar söguhetjan Jón er tólf ára gamall, og lýkur nokkru eftir að hann fermist.
Unglingurinn Jón á ekki sjö dagana sæla. Hann er utangarðs í skólanum, rekst illa í kerfinu og er hrakinn og smáður af bæði kennurunum og samnemendum sínum. Hann er lagður í einelti, er feiminn og hefur lítið sjálfstraust. Hann nær litlum tengslum við foreldra sína, einkum föður sinn, en þau voru orðin gömul þegar þau áttu hann og það er mikill aldursmunur á honum og systkinum hans. Jón finnur hins vegar félagslegan og hugmyndafræðilegan griðastað í pönkinu og anarkismanum, eignast þar vini og grundvöll fyrir andófi sínu gegn kerfinu. Hann syngur meðal annars um tíma með pönkhljómsveitinni Nefrennsli, án þess reyndar að hafa kjark til að koma fram oftar en einu sinni, en þá fyllist hann slíkri örvæntingu að hann lætur sig detta niður af sviðinu til að þurfa ekki að standa þar lengur.
Lýsingarnar á því hvernig Jón prófar sig áfram sem pönkari og anarkisti eru hlýlega fyndnar (hann er mikill harðlínumaður í skilgreiningu sinni á pönki og úthýsir smám saman nokkurn veginn öllum hljómsveitum úr þeim flokki nema Crass), en það er einn af kostum bókarinnar að frásögnin er alltaf á forsendum hans sjálfs; upprifjun hins fullorðna höfundar á hugmyndaheimi unglingsins er stuðningsyfirlýsing, ekki föðurleg kímni eða yfirlætislegar athugasemdir undir formerkjum aukins vitsmunalegs þroska. Það er kerfið sem er mannfjandsamlegt, ekki Jón sem er gallaður. Það er annars athyglisvert hvað fólk virðist vera miklu tilbúnara til að ræða eineltið sem skólafélagar Jóns beita hann en þá kúgun sem hann upplifir af hálfu skólakerfisins sjálfs, en hún er í rauninni mun miðlægari í bókinni.