5. október 2011

Herra Helmer ávíttur

Í heilan mánuð hef ég fátt lesið nema á hlaupum. (Annað hef ég lesið í bútum; það hefði kannski verið skemmtilega asnalegt að blogga um „bls. 1-13, 54-56 og 70-97 í Býr Íslendingur hér?“) Ég hef komist í gegnum 120 blaðsíður af No Logo áratug á eftir öllum öðrum, þrjár frekar vondar bækur eftir Lizu Marklund, 25 gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur, stutta bernskusögu af Ströndum og fjórar verðlaunasögur Gaddakylfusamkeppninnar, sem ég verð að segja að voru hver annarri verri. Það sem gladdi mig mest voru eiginlega rauðu og svörtu Word Art-myndskreytingarnar úr sarpi umbrotsmanna DV, sem vöktu með mér nostalgíu eftir hnausþykku heildarsafni Edgar Allan Poe sem ég átti einu sinni þar sem var eins og einhver hefði ælt svörtum líkkistum og svörtum hröfnum og svörtum krossum yfir hverja einustu síðu.

En nú við mánaðamót er nokkrum verkefnum lokið og mjúkt skref mitt yfir í nýja og aðeins minna erilsama dagskrá var ljóðabókin Blóm handa pabba frá 2007 eftir Bjarna Gunnarsson, sem var einmitt að lesa upp með mér á Akureyri um þarsíðustu helgi. Hann las þar úr henni og nýjustu bók sinni, Moldarauka, sem kom út í fyrra. Hana hef ég ekki enn lesið nema í bókabúðarflettingum en verð að segja að titillinn er með þeim flottari sem ég hef séð – hann er fenginn að láni úr rúnakvæði frá miðöldum: „Maður er moldar auki / mikil er greip á hauki“. Hún bara hríslast um mann, hin unaðslega bölsýni.

Blóm handa pabba er öllu bjartari titill og það er almennt frekar bjart yfir bókinni. Þar er ort um að vera sonur pabba síns og faðir sona sinna, á heimilislegan og afslappaðan hátt. Hef eiginlega ekki séð það áður svo ég muni, nema kannski í Vasabókinni og Sykur og brauð eftir Pétur Gunnarsson, ef ég þyrfti að nefna eitthvað. Mér finnst þess vegna athyglisvert að lesa svona afslappaðar yrkingar um heimilislíf eftir ungan karlmann:

Stundum þreyttur á fatahaugum
barnsgráti
og óhreinum bleyjum

Stundum er eins og hausverkur
fylgi þessu húsi

En stundum undrast ég
þann ógnarkraft
sem knýr mig að ryksugunni

Undrast þegar uppvaskið
verður eins og ný dögun

Núorðið undrast ég
nær öllum stundum (29)

Það held ég að ég myndi seint láta hafa það eftir mér ef ég fyndi ógnarkraft knúa mig að ryksugunni – ég velti fyrir mér að hversu miklu leyti það er pólitískt og að hversu miklu leyti persónulegt. En þessi stemmning kom mér alltént frekar skemmtilega á óvart. Og fyrst ég nefni pólitíkina þá er hún ekki alveg fjarverandi á yfirborðinu heldur, eins og sést best þar sem Bjarni talar til herra Helmers í Brúðuheimili (framhaldssaga), sem vakti með mér skelmisglott:

Farðu á námskeið
og lærðu eitthvað áhugavert
kannski finnurðu sjálfan þig (59)

Eins er mikilvægt að þetta er ekki upphafning, þetta er realískt, eins og hausverkurinn sem fylgir húsinu sýnir, og það er soldill húmor í bókinni líka, jafnvel kaldranalegur:

Að verulegu leyti
er maður alinn upp í Volkswagen

Börnin stóðu milli framsætanna
á hraðferð foreldranna
yfir holótta vegi hins unga lýðveldis

Óhjákvæmilega urðu einhver afföll
en maður lærði að minnsta kosti
að horfa fram á veginn (21)

Ég viðurkenni fúslega að að sumu leyti er bókin full lágstemmd fyrir minn smekk, enda vil ég náttúrulega helst hafa nóg af blóði og afbrigðilegu kynlífi og slefandi fyllibyttum. Það glittir í örlítinn djöfulskap í ljóðunum tveimur Hringekju og Við ofninn, sem gerast í verksmiðju (álverinu á Grundartanga? Nei, ég bara spyr) þar sem „eldhjólið / malar gull / í stríðsmyllu heimsins“, en ég get ekki gert almennilega upp við mig hvort djöfullinn býr frekar í því að bíða „þess að vaktin hefjist / nýr sólarhringur / í eldsmiðju Sarúmans“ eða í „Ekki af illsku að við erum hér / fjölskyldufeður / að sjá ástvinum farborða“ (44-45).

Ég veifa þumlinum fyrir Uppheimum og þeirra ötula starfi í þágu ljóðsins (og Akranesbæjar, hohoho) og ætla að ná mér í Moldarauka sem fyrst.

1 ummæli:

Kári Tulinius sagði...

Moldarauki er frábær ljóðabók, bæði skoðuð sem safn og sem eitt langt söguljóð. Eitt það allra besta sem á íslensku hefur komið á þessari öld.