Minik stuttu eftir komuna til New York |
Það hafði vakið athygli fyrri landkönnuða að inúítar á Norðvestur-Grænlandi notuðu verkfæri úr járni og virtust hafa greiðan aðgang að einhvers konar járnnámu. Járnið reyndist koma úr þremur loftsteinsbrotum í Savissivik við Melvillesund. Innfæddir kölluðu þau Konuna, Hundinn og Tjaldið (eða Ahnighito), og var Tjaldið langstærst, eða 31 tonn að þyngd (Konan var 3 tonn og Hundurinn 400 kílógrömm). Peary hafði heyrt af loftsteininum og beitti miklum fortölum til að fá einhvern kunnugan staðháttum til að vísa sér leiðina að honum. Íbúar svæðisins voru flestir tregir til þess þar sem þeir höfðu áhyggjur af að hann hefði brotin með sér á brott—enda reyndist full ástæða fyrir þeim áhyggjum. En Peary fann að lokum viljugan leiðsögumann og þannig tókst honum að ná loftsteinsbrotunum.
Þessi saga er rakin af Kenn Harper í bókinni Give Me My Father’s Body (1986), sem er fyrst og fremst saga Miniks (ca. 1890-1918). Eftir komuna til New York voru inúítarnir sex (sem höfðu þekkst boð Pearys um að fara í skoðunarferð til Bandaríkjanna og snúa svo aftur heim) rannsakaðir og hafðir til sýnis, rétt eins og loftsteinninn. Þeir veiktust svo allir fljótlega, meðal annars af lungnabólgu, og fjórir þeirra dóu. Eftirlifendur voru Minik og ungur maður að nafni Uisaakassak sem sneri aftur til Grænlands. Minik var því einn eftir af hópnum í New York. Hann var ættleiddur af William Wallace, sem starfaði við American Museum of Natural History, og konu hans og bjó að mestu í Bandaríkjunum þar til hann fórst í inflúensufaraldri 1918. Lík Qisuks, föður Miniks, var tekið til rannsókna og beinagrind hans höfð til sýnis á American Museum of Natural History. Slík meðferð á líkamsleifum þótti með öllu óviðeigandi meðal inúíta á Norðvestur-Grænlandi og var Minik afar ósáttur við hana.
Á þessum sama tíma voru svokallaðar viðundrasýningar, eða freak shows, vinsælar víða í Evrópu og Ameríku. Fólk gat borgað sig inn til að fá að berja augum skeggjaðar konur, hottintotta og halanegra og fólk sem var afmyndað eða fatlað á einn eða annan hátt. Flestir hafa líklega heyrt um Joseph Merrick (1862-1890) sem einmitt var hafður til sýnis. Leikritið og kvikmyndin Fílamaðurinn eru byggð á ævi hans.
Einföld leit leiðir í ljós að fjöldi bóka hefur verið skrifaður um viðundrasýningar, sögu þeirra og félagslegt samhengi. Þar má nefna Freak Show: Presenting Human Oddities for Amusement and Profit eftir Robert Bogdan, Carny Folk eftir Francine Homberger, Sideshow U.S.A.: Freaks and the American Cultural Imagination eftir Rachel Adams, The Spectacle of Deformity: Freak Shows and Modern British Culture eftir Nadja Durbach, Freakery: Cultural Spectacles of the Extraordinary Body eftir Rosemary Thomson og safnritið Human Zoos: From the Hottentot Venus to Reality Shows.
Einhvern veginn stóð ég í þeirri trú að gripasýningar á fólki sem af einni eða annarri ástæðu sker sig úr fjöldanum væru úrelt fyrirbæri og einn af þessum svörtu blettum úr fortíðinni sem við þættumst yfir hafin núorðið. Ég hélt að við gerðum okkur að minnsta kosti far um að sýna hvert öðru þá lágmarksvirðingu að meðhöndla ekki hvert annað eins og sýningargripi. Mér var ungri kennt að það væri ókurteisi að benda á fólk eða að góna á það bara vegna þess að mér þætti það skrýtið. Af þessum sökum kom mér það vægast sagt á óvart að árið 2011 skuli íslenskt bókaforlag flytja inn dverg að því er virðist í því skyni að auglýsa bók sem er nýkomin út. Fólki er svo boðið að koma og berja manninn augum í helstu bókaverslunum höfuðborgarsvæðisins. Ég á erfitt með að ímynda mér hvernig foreldrar kynna þessa „skemmtilegu“ bókabúðarferð fyrir börnunum sínum. „Jæja krakkar, við skulum koma og skoða pínulitla manninn. Sjáið þið bara hvað hann er skrýtinn“? Og ég velti fyrir mér hversu mikið þessi minnsti maður heims fái greitt fyrir að koma til landsins og vera til sýnis, ég ætla rétt að vona að það sé að minnsta kosti sómasamleg upphæð en ekki bara eitthvert smáræði sem þykir kannski mikið í Nepal. Ætli kostnaðurinn við að fá manninn hingað borgist upp með söluaukningu?
Nú bíð ég bara eftir fréttum af sýningum á síamstvíburum í Hljómskálagarðinum.
3 ummæli:
Þetta er einhver ótrúlegasta auglýsingamennska sem ég hef orðið vitni að. Með eindæmum lágkúruleg og sjúk.
Það hefur víst ekki verið boðið upp á deit með manninum, eins og þegar tyrkneski risinn heimsótti okkur, í fyrra eða hittifyrra...
Þetta er algjör hroði. Takk fyrir að skrifa um þetta, ekki hefur gagnrýninni verið fyrir að fara í fjölmiðlum heldur allir birt athugasemdalaust fréttatilkynningar frá innflytjendum mannsins.
Skrifa ummæli