|
Ég giska á að markaðsfræðingar hafi
ráðið leturstærð á nöfnum þeirra hjóna. |
Ég var mikil áhugamanneskja um Oscar Wilde þegar ég var unglingur. Áhugi minn á honum stafaði að hluta til af hrifningu á bókunum hans og að hluta til af því hvað líf hans hafði verið ómótstæðilega tragískt, sjálfseyðingarhvötin og hin ódeyjandi ást á skíthælnum snoppufríða Lord Alfred Douglas.
Ég hafði lesið mér til um líf hans og vissi að hann hafði verið giftur og átt tvo syni. Þegar við systir mín skemmtum okkur við að búa til síður á Barnalandi fyrir „börnin okkar“ Brasilíu Mist, Venesúelu Nótt og Enok Sörla var það mynd af hinum bráðfallega syni Oscars Wilde, Cyril, sem við stálum af netinu og settum á síðuna hans Enoks Sörla. (Við fengum meira að segja sérstakan
umræðuþráð á Barnalandi í kjölfarið, þótt það geri reyndar enginn sérstaka athugasemd við nítjándu aldar yfirbragð Enoks litla.)
Ég verð samt að viðurkenna að ég hafði aldrei leitt hugann sérstaklega að örlögum hinnar ógæfusömu eiginkonu Oscars Wilde fyrr en mamma lánaði mér ævisöguna hennar,
Constance. The Tragic and Scandalous Life of Mrs Oscar Wilde eftir Franny Moyle. Bókin kom út á síðasta ári og er reyndar ekki fyrsta ævisagan sem skrifuð hefur verið um Constance Wilde; mér sýnist á bókalistanum aftast að skrifaðar hafi verið bækur um velflesta þá sem stóðu Oscari Wilde nærri, til dæmis
Oscar Wilde and His Mother eftir Önnu Brémont,
Son of Oscar Wilde eftir son hans Vyvyan,
Robbie Ross: Oscar Wilde´s Devoted Friend eftir Jonathan Fryer, að ótaldri
Oscar Wilde and Myself eftir Lord Alfred Douglas.
Oft hefur verið litið á Constance sem hagkvæman aukahlut í lífi Oscars, þýðingarlitla kvenpersónu sem hann giftist til fjár og til að senda samfélaginu réttu skilaboðin, en hér fær hún ákveðna uppreisn æru. Franny Moyle dregur úr fjárhagslegum ávinningi Oscars við giftinguna og telur að þau hafi raunverulega elskað hvort annað í upphafi – þótt það sé alltaf erfitt og ekki endilega æskilegt að reyna að setja hugtök á borð við ást og hagkvæmni í augum fólks sem var uppi fyrir meira en öld í flokka sem okkur finnst passa þeim í dag.