|
Bolli Ernu með Tofslan og Vifslan |
Stundum óttast ég að bækurnar um múmínálfana, sem ég hef haldið ótakmarkað upp á og lesið óteljandi sinnum síðan ég var fimm ára, hverfi í skuggann af varningi sem hefur flætt inn á markaðinn undanfarið. Þar á ég við allskonar dót á borð við leirtau, töskur, sængurföt og hvaðeina með myndum af persónunum úr múmínálfabókunum. Nú í vikunni rakst ég í fyrsta skipti á „kaffi múmínmömmu“ á markaðinum á Östermalm í Stokkhólmi. Ég á auðvitað sjálf ýmislegt dót með krúttmyndum af persónum Múmíndals en ekkert af því dóti hefur glatt mig eins mikið og bækurnar sjálfar. Þær verða aldrei of oft lesnar!
Í tilefni Hinsegin daga drakk Erna Erlingsdóttir kaffið sitt úr Þönguls og Þrasa-bollanum sínum og birti
mynd af bollanum á facebook. Í framhaldinu kom greinin sem fylgir hér á eftir til tals, en hún birtist í tímaritinu Börnum og menningu 2/2008. Börn og menning er eina íslenska tímaritið sem fjallar aðeins um barnamenningu, og ekki síst barnabókmenntir, og ég hvet fólk endilega til að kynna sér það og gerast gjarna áskrifendur.
Litbrigði ástarinnar
Í næstsíðasta kafla bókarinnar
Pípuhattur Galdrakarlsins eftir Tove Jansson koma tveir smávaxnir kumpánar til sögunnar. Í íslenskri þýðingu bókarinnar heita þeir Þöngull og Þrasi. Þeir hafa leyndardómsfulla tösku meðferðis og eru á flótta undan Morranum. Þöngull og Þrasi tala sitt eigið tungumál „...sem allir Þönglar og Þrasar tala. Það er ekki hver og einn sem getur skilið það, en aðalatriðið er þó, að þeir vita sjálfir hvað þeir eru að segja.“ (
Pípuhattur Galdrakarlsins bls. 116).
|
Tove og fjölskyldan í Múmíndal |
Líf og starf Tove Jansson
Finnlandssænska myndlistarkonan og rithöfundurinn Tove Jansson var 87 ára gömul þegar hún lést árið 2001. Starfsævi hennar náði yfir meira en sjötíu ár. Hún skrifaði ekki eigin ævisögu en í bókum hennar má finna mikið af vísunum í eigið líf og vitað er að ýmsar persónur Múmínálfabókanna áttu sér fyrirmyndir í vinahópi höfundarins og persónueinkenni hennar sjálfrar má finna í sögupersónum í ólíkum verkum. Á síðasta ári kom út mikið verk um ævi Tove Jansson. Höfundurinn, Boel Westin, varði doktorsritgerð um verk Tove fyrir tuttugu árum, þær tengdust vinaböndum og hún fékk frjálsan aðgang að öllum persónulegum pappírum Tove, einkabréfum, teikningum, dagbókum, myndum og fleiru. Bókin er tæpar 600 síður og mikill fjársjóður fyrir þá sem hafa áhuga á lífi og starfi skáldsins og myndlistarkonunnar.
Tove Jansson átti bæði í ástarsamböndum við konur og karla. Eftir þrítugt fór hún að prófa sig áfram á því svæði sem hún kallaði „spöksidan“, eða draugasvæðið og síðar flutti hún sig reyndar alfarið yfir á það svæði og bjó í áratugi með konu. Samkynhneigð var refsiverð í Finnlandi til ársins 1971, Tove Jansson var fædd 1914 og á fimmta áratugnum þegar hún átti fyrst í ástarsambandi við kynsystur sína varð að fara afar leynt með sambandið. Talið er víst að leikstjórinn Vivica Bandler, sem síðar varð leikhússtjóri Sænska leikhússins í Helsingfors, hafi verið fyrsta ástkona Tove. Og þar komum við aftur að
Pípuhatti Galdrakarlsins því Boel Westin upplýsir að Tove hafi skrifað samband þeirra tveggja inn í bókina, sem kom fyrst út 1948. Nöfn persónanna sem heita Þöngull og Þrasi í íslensku bókinni, eru í upphaflegum sænskum texta bókarinnar Tofslan og Vifslan, sem voru gælunöfn Tove og Vivicu. Leyndarmálið í töskunni þeirra, sem afhjúpað er í lokakafla bókarinnar, er rúbínsteinn á stærð við hlébarðahöfuð, tákn sjálfrar ástarinnar, sem Morrinn ógnar og girnist.