26. ágúst 2013

Bókasöfn á gististöðum, 16. þáttur: Buffalo, NY

Aðalbókasafnið á fyrstu hæð.
Hjá lyftunni og neyðarútgangnum.
Undanfarna viku hef ég dvalið á farfuglaheimilinu Hostel Buffalo-Niagara, sem stendur við Main Street í Buffalo, New York. Dvölin hefur verið með besta móti, aðstaðan til fyrirmyndar og andrúmsloftið rólegt. Það sem gerir það þó að verkum að ég væri næstum til í að vera hérna lengur – og þá er mikið sagt, þar sem er mig farið að lengja töluvert eftir því að flytja í íbúð sem bíður mín í nágrenninu – er bókasafn farfuglaheimilisins.

Þar má finna óvenjumikið af góðu efni, meðal þess eru skáldsögur eftir höfunda á borð við Joyce Carol Oates (sem er eftir því sem ég best veit eini frægi rithöfundurinn sem hefur gert Buffalo að sögusviði bóka sinna), Paul Auster og Ursula K. Le Guin, ævintýri eftir Lewis Carroll og C.S. Lewis, bókin Little Men eftir Louisa May Alcott (ég hafði aldrei heyrt um þetta framhald Little Women) og auðvitað bæði Pride and Prejudice og Pride Prejudice and Zombies. Til að sýna hversu fjölbreytilegt safnið er má líka nefna bók Bills Clintons, Giving: How Each of Us Can Change the World, sem hvílir sig á hillunni rétt hjá barnasmásagnasafninu Chicken Soup for the Kid's Soul: 101 Stories of Courage, Hope and Laughter.

22. ágúst 2013

Þegar maður rokkpissar ...

48 er fyrsta ljóðabók Höllu Margrétar Jóhannesdóttur og bókin kom út á sumarsólstöðum í ár. Aftan á kápu er eftirfarandi inngangur að verkinu: „Talan 4 er jörðin. Traust og bundin. Hún vísar til höfuðáttanna fjögurra, til frumefnanna, jarðar, lofts, vatns og elds og til þess sem stendur stöðugt á fjórum fótum. Talan 8 byrjar hvergi og endar hvergi. Leggi maður áttuna á hlið birtist táknið ∞ sem í stærðfræði merkir hið óendanlega. Áttan er eilífðin. Halla Margrét er í bilinu, milli jarðar og eilífðar. 48 ár og 48 ljóð. Við erum stödd í skóginum miðjum, miðjunni miðri, í hálfleik, í leikhléi.“

Bókin skiptist í fjóra hluta sem heita Bernska, Morgnar, Leikir og Myndir. Í hverjum hluta eru 12 þematengd ljóð. Í fyrsta hlutanum er horfið til bernskuára með fimleikum, píanóspili, skátafundum, lakkrís og brotakexi.

EIN Á FERР
Það er myrkur á hitaveitustokknum 
og hraunið á vinstri hönd 
Hjálpræði ímyndunar: 
Ég fer flikk flakk á slá 
Ég kemst í splitt

Píanókennarinn bíður 
í Skátaheimilinu 
með nýklipptar neglur 
upp í kviku

21. ágúst 2013

Þokkalega öflugur hvirfilbylur

Í vor kom út fyrsta skáldsaga Bjargar Magnúsdóttur, Ekki þessi týpa. Druslubækur og doðrantar fengu þennan nýslegna höfund til að svara nokkrum (ókei, mis)laufléttum spurningum.

Hvers vegna byrjaðir þú að skrifa og ertu búin að skrifa lengi?

Það að hafa unun af því að skrifa er eiginlega eini rauði þráðurinn í lífi mínu, þegar ég rek ævi mína aftur á bak. Þú veist, connecting the dots, eins og Steve Jobs talar um í algjörri must see ræðu við útskrift úr Stanford. Mér hefur stundum liðið eins og þokkalega öflugum hvirfilbil sem spænist á milli staða og áhugamála. Skriftirnar eru eini fastinn í lífi mínu sem ég man eftir núna, eitthvað sem mér finnst svo innilega gaman og hefur aldrei breyst, frá því ég var mjög ung. Ég hef haldið dagbækur og hugmyndabækur í tæpa tvo áratugi og man fyrst eftir mér svona 13 ára að baksa við að skrifa hnyttna myndatexta í ljósmyndaalbúm heimilisins.

11. ágúst 2013

Litbrigði ástarinnar - um samkynhneigð í heimi múmínálfanna

Bolli Ernu með Tofslan og Vifslan
Stundum óttast ég að bækurnar um múmínálfana, sem ég hef haldið ótakmarkað upp á og lesið óteljandi sinnum síðan ég var fimm ára, hverfi í skuggann af varningi sem hefur flætt inn á markaðinn undanfarið. Þar á ég við allskonar dót á borð við leirtau, töskur, sængurföt og hvaðeina með myndum af persónunum úr múmínálfabókunum. Nú í vikunni rakst ég í fyrsta skipti á „kaffi múmínmömmu“ á markaðinum á Östermalm í Stokkhólmi. Ég á auðvitað sjálf ýmislegt dót með krúttmyndum af persónum Múmíndals en ekkert af því dóti hefur glatt mig eins mikið og bækurnar sjálfar. Þær verða aldrei of oft lesnar!

Í tilefni Hinsegin daga drakk Erna Erlingsdóttir kaffið sitt úr Þönguls og Þrasa-bollanum sínum og birti mynd af bollanum á facebook. Í framhaldinu kom greinin sem fylgir hér á eftir til tals, en hún birtist í tímaritinu Börnum og menningu 2/2008. Börn og menning er eina íslenska tímaritið sem fjallar aðeins um barnamenningu, og ekki síst barnabókmenntir, og ég hvet fólk endilega til að kynna sér það og gerast gjarna áskrifendur.

Litbrigði ástarinnar
Í næstsíðasta kafla bókarinnar Pípuhattur Galdrakarlsins eftir Tove Jansson koma tveir smávaxnir kumpánar til sögunnar. Í íslenskri þýðingu bókarinnar heita þeir Þöngull og Þrasi. Þeir hafa leyndardómsfulla tösku meðferðis og eru á flótta undan Morranum. Þöngull og Þrasi tala sitt eigið tungumál „...sem allir Þönglar og Þrasar tala. Það er ekki hver og einn sem getur skilið það, en aðalatriðið er þó, að þeir vita sjálfir hvað þeir eru að segja.“ (Pípuhattur Galdrakarlsins bls. 116).

Tove og fjölskyldan í Múmíndal
Líf og starf Tove Jansson
Finnlandssænska myndlistarkonan og rithöfundurinn Tove Jansson var 87 ára gömul þegar hún lést árið 2001. Starfsævi hennar náði yfir meira en sjötíu ár. Hún skrifaði ekki eigin ævisögu en í bókum hennar má finna mikið af vísunum í eigið líf og vitað er að ýmsar persónur Múmínálfabókanna áttu sér fyrirmyndir í vinahópi höfundarins og persónueinkenni hennar sjálfrar má finna í sögupersónum í ólíkum verkum. Á síðasta ári kom út mikið verk um ævi Tove Jansson. Höfundurinn, Boel Westin, varði doktorsritgerð um verk Tove fyrir tuttugu árum, þær tengdust vinaböndum og hún fékk frjálsan aðgang að öllum persónulegum pappírum Tove, einkabréfum, teikningum, dagbókum, myndum og fleiru. Bókin er tæpar 600 síður og mikill fjársjóður fyrir þá sem hafa áhuga á lífi og starfi skáldsins og myndlistarkonunnar.

Tove Jansson átti bæði í ástarsamböndum við konur og karla. Eftir þrítugt fór hún að prófa sig áfram á því svæði sem hún kallaði „spöksidan“, eða draugasvæðið og síðar flutti hún sig reyndar alfarið yfir á það svæði og bjó í áratugi með konu. Samkynhneigð var refsiverð í Finnlandi til ársins 1971, Tove Jansson var fædd 1914 og á fimmta áratugnum þegar hún átti fyrst í ástarsambandi við kynsystur sína varð að fara afar leynt með sambandið. Talið er víst að leikstjórinn Vivica Bandler, sem síðar varð leikhússtjóri Sænska leikhússins í Helsingfors, hafi verið fyrsta ástkona Tove. Og þar komum við aftur að Pípuhatti Galdrakarlsins því Boel Westin upplýsir að Tove hafi skrifað samband þeirra tveggja inn í bókina, sem kom fyrst út 1948. Nöfn persónanna sem heita Þöngull og Þrasi í íslensku bókinni, eru í upphaflegum sænskum texta bókarinnar Tofslan og Vifslan, sem voru gælunöfn Tove og Vivicu. Leyndarmálið í töskunni þeirra, sem afhjúpað er í lokakafla bókarinnar, er rúbínsteinn á stærð við hlébarðahöfuð, tákn sjálfrar ástarinnar, sem Morrinn ógnar og girnist.

9. ágúst 2013

Á slóðum Martins Montag í Berlín

Mollulegan laugardag í Berlín fyrir tæpri viku síðan tók ég neðanjarðarlestina á lestarstöðina Südstern ásamt frænku minni og beið þar í skuggsælu horni eftir að koma auga á kunnugleg andlit; við vorum í þann mund að leggja af stað í bókmenntagöngu um vestanvert Kreuzberg-hverfi Berlínarborgar, nánar tiltekið um söguslóðir skáldsagnanna Jójó og Fyrir Lísu eftir Steinunni Sigurðardóttur. Þær fjalla um lækninn Martin Montag, sem er búsettur í Kreuzberg, og hvernig hann tekst á við kynferðislega misnotkun sem hann varð fyrir í æsku. Maríanna Clara bloggaði um um Fyrir Lísu í vor.

Það var fámennur en góðmennur hópur sem lagði af stað í gönguna á laugardaginn, og fór hún fram á þremur tungumálum til skiptis, íslensku, þýsku og ensku. Fyrstu viðkomustaðir okkar voru kirkjugarðarnir tveir við Südstern, en þeir koma nokkuð við sögu í lífi Martins Montag. Kirkjugarðarnir eru þeir almenningsgarðar sem hann gengur um og þar finnur hann sér staðgengilsforeldra á himnum þegar hans eigin foreldrar bregðast honum. Í Fyrir Lísu gengur hann jafnframt til sálfræðings sem hefur sérkennilega aðstöðu innan kirkjugarðsmúranna, og er reyndar sjálfur allsérkennilegur. Við gengum jafnvel framhjá sjálfu heimili Martins Montag, í huggulegu hvítmáluðu fjölbýlishúsi.

"Hvíldartími útrunninn. Vandamenn vinsamlegast hafi samband við afgreiðslu."
Sem er það sem Martin Montag gerir í Fyrir Lísu.

5. ágúst 2013

Að lesa eða lesa ekki?

Þeir sem fylgjast með bókmennta- og kvikmyndaumræðunni í Bandaríkjunum gætu hafa rekið augun í umfjöllun um Orson Scott Card á síðustu vikum. Þessi bandaríski vísindaskáldsöguhöfundur hefur verið að í þrjátíu og fimm ár og er líklega þekktastur fyrir bókaflokkinn vinsæla um Ender, en kvikmynd sem byggð er á fyrstu bókinni - Ender's Game - er væntanleg í bíó fyrir næstu jól. Það er óbeint þess vegna sem Orson Scott Card er nú ræddur fram og til baka á hinum ýmsu vefsíðum - margir hafa nú uppi háværar kröfur um að fólk sniðgangi myndina og hætti að kaupa bækur höfundarins. Ástæðan er ógeðfelld hómófóbísk orðræða Scott Card, sem hefur ítrekað haldið því framsamkynhneigð sé óeðli eða erfðafræðileg brenglun, og lýsti því m.a. yfir að kollsteypa ætti hverri þeirri ríkisstjórn sem samþykkti ein hjúskaparlög öllum til handa, auk þess sem hann er þess fullviss að samkynhneigðir karlmenn hafi upp til hópa verið misnotaðir kynferðislega sem börn og séu þess vegna með "brenglaða" kynvitund. Jebbs, svona frekar viðbjóðslegur málflutningur heilt á litið. Scott Card er mormónatrúar og reyndar hvorki meira né minna en afkomandi Brigham Young.
Ender's Game hefur selst í bílförmum
Þessi umræða tengist spurningu sem hefur verið mér hugleikin síðustu misserin; hvort persónuleiki eða skoðanir höfunda hafi, eigi að hafa eða eigi ekki að hafa áhrif á viðbrögð manns við verkum þeirra. Það er að segja, hvort hið ytra skarist við verkið sjálft. Hvort heimurinn sem er skapaður í bók geti staðið einn og sjálfur eða hvort maður lesi alltaf í stærra samhengi. Er maður að kvitta undir skoðanir sem manni þykja ógeðfelldar ef maður kaupir, les og jafnvel nýtur bóka eftir fólk sem vafasöm viðhorf? Þessar pælingar eiga að sjálfsögðu líka við um annað listafólk, kvikmyndagerðarfólk (barnanauðgarinn Roman Polanski kemur strax upp í hugann), tónlistarmenn og svo framvegis.

Stundum fæla yfirlýsingar rithöfunda mann frá bókum sem maður hefur ekki lesið. Mig til dæmis langar ekki að lesa neitt eftir enska höfundinn Martin Amis því ég hef aldrei lesið svo mikið sem hálfa grein eftir hann eða viðtal við manninn án þess að langa til að sparka í vegg. Ég get ekki ímyndað mér að maður sem hefur jafnhaturs- og hrokafullar skoðanir um alla aðra en hvíta forréttindakarlmenn geti haft neitt sniðugt eða merkilegt að segja mér um mannfólkið, hvort sem það er uppskáldað eður ei. En ég hafði heldur aldrei lesið neitt eftir hann þegar ég komst að því hvað mér þykir hann hroðalegur - hvernig hefði mér liðið ef bækurnar hans hefðu verið í uppáhaldi hjá mér?

Það er nefnilega aðeins flóknara með höfunda sem maður heldur þegar upp á.