25. desember 2010

Sýrópsmáninn. Já, og gleðileg jól öllsömul!

Bækur Eiríks Guðmundssonar hafa verið í uppáhaldi hjá mér síðan, tja, ég byrjaði að lesa þær. Eina vandamálið við bækurnar sem hann hefur skrifað (og pistlanna sem hann hefur lesið í Víðsjá) er að ég á mjög erfitt með að greina á milli hans (höfundar) og skáldaðra persóna. Ef ég hefði ekki séð honum bregða fyrir á bókasöfnum og öldurhúsum væri ég að öllum líkindum viss um að hann væri uppdiktaður. Fyrir það fyrsta, þá má segja að mörkin milli hans og skáldskapar verði strax óljós í útvarpspistlunum hans, sem eru eiginlega raunveruleikaskotinn skáldskapur. Í öðru lagi er þó nokkuð um sjálfssöguleg einkenni (metafiksjón) í bókum hans, sérstaklega í Undir himninum (2006). Í þeirri bók fóru þau nú alveg með mig, ég gleymdi gjörsamlega að gera greinarmun á útvarpsmanninum E og Eiríki Guðmundssyni. Það var einmitt einn sumardag fyrir svona tveimur árum (ég hafði nýlokið við að lesa bókina) sem ég benti vini mínum á hús á Hjarðarhaga og sagði honum að rithöfundurinn og útvarpsmaðurinn Eiríkur Guðmundsson ætti heima þarna og ætti það til að láta póstkort detta niður úr glugganum hjá sér. „Einmitt þessum glugga,“ sagði ég og benti á einhvern glugga sem ég hafði ákveðið að hlyti að vera glugginn sem útvarpsmaðurinn E sæti við. (Vinur minn vissi hins vegar að þetta væri ekki rétt og leiðrétti mig - það skrítna var að mér var eiginlega alveg sama, mér fannst, og finnst enn, að ég hafi rétt fyrir mér).

Sýrópsmánininn olli mér ekki vonbrigðum, þótt ég gerði miklar kröfur til hennar. Hún var bara nákvæmlega eins og hún átti að vera, höfundareinkennin eru svo sterk að það að lesa hana er eins og að koma á einhvern kunnuglegan, góðan stað. Bókin fjallar um ungan mann sem hefur unnið í Bóksölu stúdenta og á Vísindavefnum, en finnst skemmtilegra að lesa rússnesk ljóð uppi í turnherbergi og tala við bekki í almenningsgörðum. Svo gerist það (á einhvern saramagólegan hátt) að þoka leggst yfir Reykjavík og neitar að fara. Hún umlykur allt, sumt hverfur jafnvel alveg, og ungi maðurinn ákveður að fara með konu sinni og ungum syni til Ítalíu. Þoka getur þó fylgt manni í fjarlæga skóga og sumarhús í suður Evrópu, þótt maður hafi með sér gott ljóðasafn. Ég ætla ekki að láta eins og það gerist eitthvað rosalegt á Ítalíu, eða þegar fjölskyldan snýr aftur til Reykjavíkur (og að skuggaleg atburðarás mansals og eiturlyfjasmygls fari af stað), það þarf ekkert svoleiðis. Bókin er líka að stórum hluta brotakennd frásögn aðalpersónu af minningum, t.d. um fermingarmyndartöku, tilhugalíf, bækur og fyllerí með besta vini sínum, minningar eða einstaka setningar sem eru rifjaðar upp smám saman og kannski aftur seinna, svo lítið beri á, en þá rifjar lesandi þær upp með aðalpersónunni. Þær eru orðnar sameiginlegar minningar okkar beggja.

Ég las fyrrihluta bókarinnar í útlöndum fyrr í mánuðinum, þegar ég flúði Ísland og allt sem því fylgir í tæpa viku, og mér fannst það æðislegt. Seinnihlutann las ég svo þegar jólaundirbúningur, ritgerðaskil og annað lá í loftinu og ég var orðin óróleg, það var ekki alveg jafn gott. Ekki lesa þessa bók þegar eitthvað er að trufla, hún er skemmtilegust þegar maður fær að vera í friði – nú ætti að vera óhætt að byrja (nema einhver/eitthvað sé að trufla ykkur yfir jólin). Mér fór reyndar að líða eins og ég væri húmorslaus (eða að minnsta kosti ekki nógu drukkin á meðan á lestrinum stóð) þegar ég las umsagnirnar um Sýrópsmánann sem notaðar voru á bókarkápuna. Báðir gagnrýnendurnir segja að bókin sé fyndin, annar þeirra talar jafnvel um að bókin sé „drepfyndin, [að] maður beinlínis [skelli] upp úr hvað eftir annað.“ Bókin er vel skrifuð og skemmtileg, ég brosti, flissaði kannski lágt tvisvar eða þrisvar. En mér finnst algjör óþarfi (og beinlínis villandi, ef einhver er að leita að einhverri brandarabók) að hampa henni fyrir að vera svona fyndin. Mér finnst hún bara mjög góð. Mjög góð bók.

Guðrún Elsa

21. desember 2010

ljóðastaðir

Undanfarna daga hef ég verið að glugga í ljóðabók sem heitir Staðir og er eftir Guðrúnu Hannesdóttur. Ég hef ekki lesið neitt annað eftir Guðrúnu en man þó eftir að hafa rekið augun í fyrrri ljóðabók hennar Fléttur sem kom út árið 2007. Staðir vinnur verulega á við endurtekinn lestur.  Ljóðin láta ekki mikið yfir sér, það eru engin læti eða augljós átök í gangi, ekki svona á yfirborðinu að minnsta kosti. Þarna er farið hægt og hljótt yfir, staðirnir eru af ýmsum toga, borgarlandslag, lyngi vaxnar brekkur, ísi lagður Borgarfjörður sem sagnfestuhross æða um, draumheimar og hjartastaðir.

Að mínu mati tekst Guðrúnu best upp þegar hún fjallar um einhverskonar innra landslag, þau ljóð höfða að minnst kosti mest til mín. „Egg“ finnst mér t.d. næsta gott, m.a. þessar línur:

Það komst ekki hnífurinn
á milli okkar
en að því kom
ég þreif um eggina
og þú dróst blaðið
úr greip minni

(bls 22)

Mitt uppáhaldsljóð í bókinni er þó „samastaður“.  Bæði höfðar efnið til mín og eins finnst mér Guðrúnu þar takast vel upp með að láta efni og form haldast í hendur. Það sem ég get helst fundið bókinni til foráttu er einmitt formið, eða kannski það að fyrir minn smekk þá er yfirbragð margra ljóðanna full „fornt“. Og auðvitað er það aldrei þannig að manni finnist allur efniviður í bók einsog þessari jafn áhugaverður eða endilega skemmtilegur.  En jafnvel í þeim ljóðum þar sem efni eða form hefur ekki höfðað sérstaklega til mín finn ég yndislega fallega mola einsog:

hér skal ég standa
og anda að mér stjörnum

(Ofvæni, bls. 9)

úr augum hennar flóði himinblámi
og silfrað myrkur

(í bók, bls. 19)

Sigfríður

19. desember 2010

Ljósa Kristínar Steinsdóttur

ljósaLjósa er þriðja skáldsaga Kristínar Steinsdóttur ætluð fullorðnum og sú fyrsta af því tagi sem ég les eftir hana. Sagan er hér um bil eins íslensk og skáldverk getur verið (þó sagt með þeim fyrirvara að ég las hana um borð í ferju í erlendri landhelgi og hafði þá ekki lesið skáldsögu á íslensku vikum ef ekki mánuðum saman). Sögusviðið er í sveit fyrir austan, seint á 19. öld og frameftir þeirri tuttugustu. Tvö stef fundust mér gegnumhrópandi: aðstæður kvenna í veruleika sögunnar, og aðstæður fólks með geðræn vandamál. Aðalpersónan Ljósa tilheyrir báðum þessum hópum og um það fjallar sagan - um örlög hennar, undirorpin þessum tilviljunarkenndu breytum utan hennar valdsviðs. Í uppvexti Ljósu kemur að því að hún, eins og öll börn fyrr eða síðar, áttar sig á breyskleikum foreldra sinna (og þar með því að enginn er fullkominn / allt er í heiminum hverfult / insert existensíalíska tilvitnun að eigin vali). Það tengist stöðu kvenna-þemanu á þann hátt að Ljósa þarf að horfast í augu við óforbetranlegt kvennafar heittelskaðs föður síns og vanmátt móður sinnar gagnvart því. Geðveiluþemanu tengist það þannig að þessi draugur bernskuheimilisins fylgir henni út ævina og veldur persónulegu óöryggi og skorti á trausti í samskiptum, en hún er auðvitað sérlega veik fyrir sökum þjakandi kvíða og þunglyndis. Veikindin valda því að Ljósa heldur allt að því sjúklega í hið kunnuglega úr bernsku sinni út ævina; bæjarstæðið, fjöllin, fólk og hindurvitni. Jafnframt þráir hún eitthvað allt annað og meira, en fylgir því aldrei eftir til fulls og þjáist enn meir fyrir vikið.

Þetta kann að hljóma heldur niðurdrepandi eða jafnvel melódramatískt, en bókin er hvorugt, heldur falleg og einlæg og vel skrifuð, það kom mér næstum á óvart hvað hún snart mig. Mæli hiklaust með.

Erla

14. desember 2010

Enginn heldur utan um ljósið eftir Vésteinn Lúðvíksson, Zéní

EnginnheldurFenginn strengjalaus gítar
Tekur því vel, raddlítill munkur
Og railway station sem rímar
á móti destination - nokkuð glúrið

Vésteinn Lúðvíksson gaf út fyrstu ljóðabókina sína, Úr hljóðveri augans, árið 2003, þá rétt tæplega sextugur. Síðan þá hafa birst þrjár ljóðabækur til viðbótar - Svona er að eiga fjall að vini (2004), Sumir láta einsog holdið eigi sér takmörk (2006) og nú Enginn heldur utan um ljósið. Auk þess hefur hann þýtt ljóð Po, Chü-i, sem birtust í bókinni Brjálsemiskækir á fjöllum. Einu sinni var Vésteinn Lúðvíksson leikskáld - en það var held ég í einhverjum öðrum heimi. Áður en ég fæddist.

Hafa ekki verið viðstaddur
þegar ísaldarjökullinn snyrti þetta hulda berg

tylla sér á árangurinn margsinnis og vera
viðstaddur þessi tignarlegu fjöll –

(Í djúpið, s. 13)

Vésteinn Lúðvíksson er íslenskt náttúruskáld og ég er með ofnæmi fyrir náttúruljóðum. Nema náttúruljóðum Vésteins Lúðvíkssonar. Ég hef það á tilfinningunni – og get varla fært nein frekari rök fyrir þessari tilfinningu – að náttúran í ljóðum Vésteins standi á jörðinni, hún sé ekki „íslensk“ fyrir það eitt að vera á Íslandi – hún sé ekki staðgengill fyrir þjóðrembing, eða sjálfsupphafningu – heldur sé hún veraldarinnar, útgeima og eilífðarinnar, nái niður í rætur og tengist öllu. Og allt í einu get ég dáðst að íslenskri náttúru, ég sem get varla hlustað á Sigur Rós eða lesið atómskáld án þess að fá útbrot.

Vésteinn er auðvitað meira en náttúruskáld - ég á ekki við að þetta séu bara einhverjar lækjarsprænur. Ljóð hans eru kannski tilraun til þess að samþætta hugsun, eðli, anda, líkama og náttúru.

Þegar þú hlærð er stóll sem hlær
þegar þú hlærð er húsið alelda
Réttu mér nú höndina og haltu
fast í allt hitt með hinni, verandi funinn
og hermdu mér svo hvaða eldingar nái
að tvístra slíkum trekant

(Hlátur s. 24)

Það er einhver austurlensk kerskni í ljóðum Vésteins - sem er augljóslega undir áhrifum tönkusmiða og hækugerðarmanna – einhver hrokalaus kerskni,full af vinalegri kímni (en ekki þó saklausri). Mér líður vel í þessum félagsskap. Einsog hann skapi mér hugarró – ef ekki hreinlega réttlæti (ég biðst velvirðingar á þessum tilfinningaáherslum; en bókin vekur með mér tilfinningar).

að sitja gagntekinn
á bakkanum, horfa
á eftir því sem flýtur
með straumnum

uns það hverfur
að lokum í fjarskann
einsog fljótið, einsog
bakkinn og augun

og enginn til að líkja
neinu við neitt

Humar sem telur sig humar
og rækja sem telur sig rækju
Eikarbátur frá Ísafirði
á alltaf síðasta upphafsorðið

--

Hvergi fugl, aðeins
fjöður að hringa sig til jarðar
Ekkert að loftinu hvaðþá
orsök og afleiðing

(Bara, s.18-19)

Í bókum Vésteins er að finna allar stjörnur himinsins – og því varla á það bætandi og engar stjörnur hvort eð er til í búinu, en væru hér stjörnur myndum við splæsa og splæsa, sulla í hann stjörnum þar til engar væru lengar eftir (þetta er ekki kennslustund í heimilishagfræði). „Þegar fara saman / þakklæti og undrun / á fyrsta atkvæðið ekki / alltaf heimangengt".

Takk fyrir mig.

Eiríkur Örn Norðdahl

Drekkhlaðin rolla af gleði

Grallarar í gleðileit
Myndabókin Grallarar í gleðileit er ætluð börnum frá fjögra ára aldri. Björg Bjarkadóttir er höfundur sögunnar og einnig sú sem myndskreytir. Hún hefur samið fjölda myndabóka fyrir yngri lesendur eins og bækurnar um Ömmu: Leyndarmál ömmu og Amma fer í sumarfrí. Eins og í fyrri bókum Bjargar eru myndirnar í Gröllurum í gleðileit fjörugar og litríkar. Allt er á hreyfingu; prump puðrast, fíflar skjótast og vatn skvettist yfir heila opnu. Það ríkir ekki lognmolla í kringum þá Tolla og Todda og Björg sýnir það vel með einföldum myndskreytingum.

Mamma er búin að fá nóg af þeim félögum Tolla og Todda. Hún er hætt að brosa og heimilislífið orðið ansi súrt. Drengurinn Tolli og sauðurinn Toddi henda sér í það að finna eitthvað sem gleður mömmu. Toddi kind hefur frábært reyfi sem getur falið hvað sem er. Hin fullkomna hirsla sem tekur endalaust við dýrmætu dóti eins og krakkar fylla venjulega vasana af. En þeir félagarnir eru ekki að leita að dóti handa sér heldur mömmu og þurfa að hugsa um hvað hún myndi vilja. Toddi og Tolli þurfa að setja sig í spor annarra sem er ekkert sjálfsagt mál hjá lesendahópi bókarinnar. Heyrir mamma ílla? Er hún þreytt? Hvað gæti glatt hana? Þessu velta þeir fyrir sér og reyna svo að finna það sem gæti leyst vandann. Þegar Tolli er kominn með fulla kind af gleðigjöfum fyrir mömmu dynur ógæfan yfir. Toddi hristir reyfið og gjafirnar þeytast út og suður og verða að klessu á götunni. Nema einn fífill, sem reynist að lokum hafa kraftinn til að gleðja mömmu.

Þó að margt sé ágætlega heppnað í Gröllurunum þá hefði mátt vinna söguna aðeins betur hér og þar. Sem dæmi má nefna að Tolli stelur púða fyrir mömmu, stingur honum í reyfið á Todda og síðan hlaupa þeir félagarnir í burtu. Það að þeir séu komnir út  í gripdeildir fær ekki frekari umfjöllun rétt eins og það sé bara alvanalegt hjá myndabókaaldurshópnum að standa í slíku.

Grallarar í gleðileit  er bráðskemmtileg myndabók með góðri blöndu af grallaraskap og væntumþykju sem gefur færi á áhugaverðum samtölum við litla spekinga um líðan fólksins í kringum okkur.   

Helga Ferdinandsdóttir

13. desember 2010

Framhaldsfærslur Eiríks Arnar um Hreinsun og Oksanen

oksanenEiríkur Örn Norðdahl les Hreinsun eftir hina dónalegu Sofi Oksanen þessa dagana. Ég er ekki búin að lesa bókina en ég les hins vegar bloggfærslur Eiríks Arnar um bókina af iðandi áhuga. Hér er bloggið hans! Nýjustu færslurnar eru auðvitað efst þannig að það er kannski ráð fyrir áhugasama að renna sér neðar á síðuna og byrja á upphafsfærslunni um bókina.

Það eru greinilega misjafnar skoðanir á Hreinsun og Sofi Oksanen er víst ekki öllum Eistum að skapi, kannski er hún dæmi um spámanninn í föðurlandinu (ja eða móðurlandinu, faðir Sofiar er víst finnskur en mamman frá Eistlandi) ég veit ekkert um það. En það er margt áhugavert í því sem Eiríkur Örn skrifar og tínir til um þessa marglofuðu bók, til dæmis segir hann: „Sofi Oksanen skrifar einsog gamall grobbinn kall. Hún skrifar „bókmenntastíl“ – nóbelsverðlaunastíl fyrir dummies." Og hér er önnur tilvitnun úr nýjustu færslunni þar sem hann fjallar um greiningu gagnrýnenda, eða kannski greiningarleysi: "Ég finn reyndar mjög lítið af analýsu í þeim dómum sem ég hef lesið – það er mikið af stórum lýsingarorðum og ýjað að því að bókin fjalli um átakamikið samband tveggja kvenna og ble og bla, en 99 af hverjum hundrað orðum gætu hæglega verið úr auglýsingatexta útgefandans. Sem segir kannski sitt um standardinn – hvað sé að verða um bókmenntakrítík í Evrópu."

Ég hlakka til að lesa bókina (ekki alveg strax samt - ég má ekki vera að því) og komast að því hvort þessi margverðlaunaða bók sé Hollywood-melódrama í ætt við Schindler's list eða hvort hún sé eins stórfengleg og flestir vilja halda fram.

Þórdís

12. desember 2010

„það þarf að murka líftóruna úr áhættufælnum frösum“

Okkurgulur sandur er nýtt safn með tíu ritgerðum um bókmenntaverk Gyrðis Elíassonar. Höfundarnir eru Guðmundur Andri Thorsson, Guðrún Eva Mínervudóttir, Halldór Guðmundsson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Hermann Stefánsson, Ingunn Snædal, Jón Kalman Stefánsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Sveinn Yngvi Egilsson og Fríða Björk Ingvarsdóttir.

Í inngangi ritstjórans, Magnúsar Sigurðssonar, segir að tilgangurinn með bókinni sé að kortleggja eftir megni þann margbrotna og um margt einstaka sagna- og ljóðaheim sem Gyrðir hefur dregið upp frá fyrstu bók sinni Svarthvít axlabönd sem kom út 1983, en hann tekur auðvitað fram að slík kortlagning sé takmörkunum háð, enda verk Gyrðis, þýdd og frumsamin, á fimmta tuginn. Ritgerðirnar geta varla talist langar, bókin er ekki nema 125 bls. með inngangi, svo það er augljóst að þetta er engan veginn tæmandi verk. Höfundarverk Gyrðis hefur þróast og tekið miklum breytingum í gegnum árin. Það er fátt líkt, að minnsta kosti á yfirborðinu,  með ljóðabókinni Tvíbreitt (svig)rúm frá 1984 og Sandárbókinni, sem kom út 2007, svo ég nefni tvö verk Gyrðis sem ég hef lesið (ég hef ekki lesið allar bækur hans) en oft finnst mér fólk ræða verk Gyrðis Elíassonar eins og þau séu einsleit og hvert þeirra öðru líkt, sem er alls ekki rétt þó að auðvitað megi alveg tala um ákveðin höfundareinkenni. En það er sem sagt ljóst að í þessari stuttu bók er aðeins drepið á hinu og þessu en bókin er þó happafengur fyrir þá sem vilja kynna sér verk Gyrðis. Mér finnst þetta líka afskaplega skemmtilegt form, það er gaman að fá svona safn sem er eingöngu helgað verkum eins höfundar og þau rædd á fjölbreyttum nótum af ólíkum höfundum.

Ritgerðunum í bókinni er ætlað að vera aðgengilegar og fræðandi (en ekki endilega fræðilegar eins og tekið er fram – hvað það svo sem þýðir). Þær má margar segja lýsingar á lestrarreynslu höfundanna, en sjónarhorn hvers ritara er þó hnitmiðað. Margar greinanna eru skrifaðar af mikilli aðdáun á skáldinu Gyrði Elíassyni og fer ekki hjá því að sumar eru skáldlega fram settar, enda oftar en ekki skáld sem halda á penna eða berja á lyklaborð. Sem dæmi má nefna innlegg Jóns Kalmans Stefánssonar, Á svörtum vængjum inn í ljósið, þar sem segir :
Skáldskapur er undurfurðuleg blanda af fegurð og feigð, grimmd og kvíða, visku og barnaskap, og þá kannski vegna þess að hann er órökvís í eðli sínu. Órökvís og getur þess vegna orkað undarlega sterkt á okkur, sér í lagi ljóðið, andblær þess smýgur inn og andar á það sem sefur í djúpinu. Ljóðið getur hjálpað okkur þegar möguleikum lífsins virðist fækka, birtan hefur dofnað, við fálmum kannski inn í runnaþykkni eftir ljóskúlu sem hefur verið falin annarsstaðar; þá getur ljóðið komið til hjálpar með órökvísi, djúpri og stundum barnalegri visku sinni; hjálpað okkur til að sjá eða gruna að kuldinn er hugsanlega bara yfirborð: (bls. 11)


Þetta, og fleira í grein JKS, finnst mér óneitanlega ansi páfuglslega skrifað þó að það sé svolítið skemmtilegt, en við Jón Kalman erum greinilega óskaplega ólíkt fólk, hann segir á öðrum stað frá því þegar hann sá Gyrði í fyrsta skipti í Ríkinu við Lindargötu: „Ég man að það var talsvert áfall fyrir mig, að hann skyldi vera svona kátur, ég stóð þá í þeirri trú að skáld bæru sársaukann utan á sér, …" (bls. 12). Undirrituð, hafandi ekki umgengist mörg skáld fram eftir aldri, er svo óskáldlega innréttuð að hafa aldrei látið hvarfla að sér annað en að skáld bæru ekki meira sársauka utan á sér eða innan í sér en annað fólk. Jafnvel held ég að ég hafi talið þau hljóta að vera glaðbeitta lukkuriddara að fá að vinna skemmtilegri vinnu en flestir aðrir. En hvað um það Jón Kalman fjallar ágætlega um ljóð Gyrðis og tengir verk hans við verk annarra skálda og gerir þetta býsna skemmtilega og greindarlega. Grein Guðrúnar Evu fjallar um Bréfbátarigninguna, hún er á persónulegum nótum í nálgun sinni og greinin er fremur stutt, fyrir mér var þetta mest upprifjun á þessari ágætu bók. Það er margt ágætt í grein Fríðu Bjarkar um þýðingar. Hún fjallar meðal annars um galdurinn við góða þýðingu, sem hún telur byggðan á skapandi mætti þýðandans og hæfileikum hans til að miðla því sem eitt tungumál getur tjáð yfir á annað þannig að þýðingin sé ekki síðra verk en frumtextinn. Þýðandinn þarf að lesa í hugarheim höfundarins og menningarheiminn handan orðanna, þann sem verkið rís úr. Guðmundur Andri Thorsson skrifar grein um tónlist í verkum Gyrðis. Hann minnist meðal annars á munnhörpuna, sem hann segir eftirlætishljóðfærið og finna má víða í verkunum. Tónlist hljómar sífellt hjá Gyrði og undirtitill Sandárbókarinnar, Pastoralsónata, vísar jú einmitt til fimmtándu píanósónötu Beethovens.

Ég er á því að grein Hermanns Stefánssonar um Sandárbókina sé sú beittasta og besta í bókinni. Hermann skrifar: „það þarf að murka líftóruna úr áhættufælnum frösum sem ávallt koma upp í tengslum við verk einstakra höfunda, þjóða og kynslóða.“ (bls. 73). Hann segir líka að það sé alkunna að þeim mun auðveldara sé að fabúlera um verk rithöfunda sem þau séu meira drasl og að nóg sé til af vaðli um slakar bækur eftir vonda höfunda. Hermann telur Sandárbókina einhverja mest afgerandi pólitísku yfirlýsingu sem út kom á tímum góðærisins. Fyrir þessu færir hann góð rök og þessi grein er lúnkin og gagnleg greining á Sandárbókinni. Mig langar að lauma því að hér að mér finnst að það ætti að kvikmynda Sandárbókina (hefur það kannski einhversstaðar verið rætt?) þar sem sagan er svo myndræn, ég sé hana fyrir mér sem bíómynd. Ég ætla ekki að tíunda fleiri greinar í þessu safni sérstaklega en mæli eindregið með Okkurgulum sandi (ég hefði samt ekki valið þennan titil á bókina).

Hefði ég verið beðin að skrifa grein í safn um verk Gyrðis Elíassonar hefði greinin mín fléttað saman verkum Gyrðis og Tove Jansson, þeirrar sem skrifaði bækurnar um Múmínálfana og um tug annarra skáldverka. Ég sé samtengjandi þræði á hverju strái. Í Múmínálfabókunum leikur til dæmis tjaldbúinn og einfarinn Snúður á munnhörpu og virðist smellpassa inn í vissar sögur Gyrðis og í Sommarboken (sem ekki hefur verið þýdd á íslensku) minna samskipti gamallar konu og sérviturrar stelpu, sem búa saman á eyju, á persónur í bókum Gyrðis þar sem sérvitur börn og einræn gamalmenni eru gjarna á stjákli og stússandi í ýmsu í öllum veðrum.

Þórdís Gísladóttir

8. desember 2010

Maðkflugur og mansal...jólabókin í ár!

hreinsunÞað er kannski að bera í bakkafullan lækinn að hrósa Hreinsun eftir Sofi Oksanen sofie(og þar að auki er komið skuggalega mikið af jákvæðum dómum hjá okkur á Druslubloggið  undanfarið) en ég held ég neyðist samt til að taka Hreinsun með dynjandi lófataki.

Henni tekst að segja erfiðar, já segjum bara ömurlegar, sögur af tveimur ólíkum konum á ólíkum tímum án þess að bókin sjálf verði nokkurn tíman þung eða niðurdrepandi aflestrar þótt vissulega taki hún á.

Það er ekki hlaupið að því að skrifa um mansal og misnokun án þess að detta í klisjur en það tekst Oksanen. Henni tekst að skrifa um hvernig nauðgun var (og er) systematískt notuð í stríðum til að brjóta niður manneskjur og þar með þjóðir og hvernig vestræn samfélög nútímans herja á sambærilegan hátt á líkama fátækra kvenna. Allt þetta á svo lipran hátt að aldrei hvarflar að manni að hún sé að predika eða koma upplýsingum á framfæri, maður bara rífur sig áfram gegnum bókina, æsispenntur.

Hér segir frá Aliide og Zöru sem eyða óvænt saman nokkrum dögum í húsi þeirrar fyrrnefndu. Við fyrstu sýn eiga þær ekkert sameiginlegt en smám saman flettist ofan af sögum þeirra svoleiðis að lesandinn hreinlega fölnar. Saga Aliide gerist um og eftir seinni heimstyrjöldina þegar Eistland var hertekið af Rússum en Zara er ung stúlka á flótta undan annars konar stríði í nútímanum. Sögur þeirra eru ólíkar en þó tengdar órjúfanlegum böndum þeirra sem standa hjálparvana gegn ofurefli.

Aliide er ein eftirminnilegasta bókmenntapersóna sem ég hef lengi rekist á og án þess að segja of mikið (þetta er nefnilega spennusaga ofan á allt annað og hvað elska ég meira en reyfara??) þá er óhætt að segja að Oksanen neyði lesandann til að fara út á hálan og óþægilegan ís með þessari sérkennilegu konu. Það er líka merkilegt að þótt að bókin sé átakamikil og jafnvel hröð er samt nostrað við smáatriði þannig að mér finnst ég gæti ratað blindandi um kotið hennar Aliide og þótt ótrúlegt megi virðast eru lýsingarnar á heimilisstörfum hennar eitt það eftirminnilegasta og magnaðasta í sögunni.

Tónn bókarinnar er sleginn strax á fyrstu síðu þegar Aliide reynir varna viðurstyggilegri maðkflugu að komast í kjötið og verpa þar og segja má að þessi huggulega maðkfluga smokri sér af mikilli list inn í söguna og skelli sér bæði í myndlíkingar og matinn áður en yfir líkur.

Maðkflugur, mansal og stríð...Hreinsun hljómar kannski ekki eins og jólabókin í ár en hún er auðlesin, lúmskt fyndin, æsispennandi og gríðarlega vel skrifuð. Hvað meira er hægt að biðja um?

Maríanna Clara

6. desember 2010

Þetta vill lifa. Þetta veit ekki betur.



Ég hef viðurkennt það á öðrum vettvangi að ég var full þegar ég byrjaði að skrifa þennan bókadóm, ef dóm skyldi kalla. Það kom til af góðu. Ég hafði bókina með mér á bar, las hana meðan drykkjufélagi minn fór á klósettið og lét hann lesa hana meðan ég fór á klósettið, og svo þegar annað okkar kom af klósettinu las hitt valdar línur úr bókinni og við ýmist hlógum tryllingslega eða hölluðum spekingslega undir flatt.

Ég er mjög hrifin af því að taka ljóðabækur með á barinn – þær eru yfirleitt knappar í forminu og henta sem skemmtilestur yfir bjór eða sem afþreying þegar viðmælandinn hverfur á klósettið eða út í sígó. Það verður hins vegar að viðurkennast að það mark sem ölvun setur á skrif um bækur er mun asnalegra og því leyfi ég mér að endurskoða þessi skrif lauslega. Ég skal samt ekki svindla og ritskoða allt hégóma mínum til þægðar, ég skal alveg segja ykkur að ég byrjaði á því að skrifa „Já sæll“, taldi upp fjögur props (gjafakort frá Victoria´s Secret, vodkastaup, Ljóð af ættarmóti eftir Anton Helga Jónsson og Stuck inside a mobile with the Memphis blues again – sérkennileg blanda) og á einum stað stóð VÚHÚ.

Þessi bók var meðal þeirra sem ég var spenntust fyrir að lesa þetta haustið og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Ég var svolítið skeptísk á titilinn áður en ég byrjaði, Ljóð af ættarmóti, fannst hann einhvern veginn ekki alveg nógu afgerandi, en svo sættist ég við hann þegar ég byrjaði að lesa. Bókin er nefnilega ættarmót – mætti kalla þetta konseptverk? – hér stökkva fram Íslendingar á ættarmóti með sínar samræður og einræður og þetta er á einhvern hátt afar íslenskt:

„Lykla-Pétur leiddi hann inn í dýrðina.

Maðurinn litaðist um og spurði: Hvar er mitt fólk?

Þitt fólk er ekki hér, svaraði Pétur.
Þitt fólk er allt farið suður.“ (15)

Þetta er allt fólkið sem er á ættarmótinu og það er misvel mælandi eins og gengur, sumt er það hikandi og stirt, aðrir kunna þetta, eru jafnvel fyndnir, tungutakið oft kunnuglegt. Þvílíkan sjálfsaga hlýtur það að hafa kostað af hálfu hins skáldmælta höfundar að leyfa þeim ekki að hlaupa út undan sér í háfleygum líkingum og lýrík, einfaldleikinn blífur:

„Ekki amast við geitungnum.
Hann er fulltrúi lífsins.
Hér á þessum stað.

Þetta vill lifa.
Þetta veit ekki betur.
Vill koma sér upp afkomendum.“ (19)

(Ég fékk hreinlega samviskubit þegar ég las þetta ljóð, hér eftir mun ég sitja pollróleg og láta geitungana kjamsa á mér, sannfærð um að þeir séu slíkir fulltrúar lífsins.)

Það er ekki svo oft sem maður sér í íslenskri ljóðabók lagt upp með svona ákveðna gegnumgangandi hugmynd um stíl, mér finnst það virka vel og heildarmyndin verða flott og metnaðarfull, mínímalisminn verður ekki eintóna. Blaðsíðurnar eru að sjálfsögðu misjafnar – ljóðin eru ótitluð, þetta er flæði, samræðuflæði – en heildin virkar nógu sterkt til að það skipti minna máli. Sjálfsagt hefði mátt þétta bókina, hún er frekar löng af ljóðabók að vera, en það eru nú smásyndir í mínum kokkabókum þegar restin er góð.

Efnið er í senn hversdagslegt og smátt, jafnvel lítilmótlegt, og mikilvægt og stórt, jafnvel tilvistarlegt. Ég hef gríðarlegt ofnæmi fyrir öllu sem kallað er íslenska þjóðin en í þessu ættarmótsformi lifnar samt við einhvers konar þjóð, samfélag með ákveðna drætti og rætur, hversdagslega sönn og fyrst og fremst mannleg. Það er geitungurinn sem vill lifa og dagarnir sem eru svo gráir að þeir eru eins og endurtekningar á sjálfum sér en samt betra að þeir komi en ekki og svo er að missa af skónum á útsölunni og hugsa til þeirra æ síðan, að langa í eitthvað í ísskápnum en vita ekki hvað, og helvítis frændinn sem platar mann til að hjálpa sér að flytja og gefur manni engan bjór. Ég ætla að hætta áður en ég þyl upp alla bókina, hér er smá brot í viðbót:

„Nú er hann aftur látinn
elsti Íslendingurinn.

Dáinn horfinn
harmafregn.

En varla á heimsvísu
elsti jarðarbúinn kvað vera dáinn líka.

Samt eru bara nokkar víkur
síðan hann dó síðast.“ (88)

Hún er nefnilega líka mjög skemmtileg, þessi bók, og það eykur enn á skemmtunina að hlusta meðfram á upplestur skáldsins sjálfs, enda tilþrifamikill upplesari: http://www.anton.is/?page_id=176

Kristín Svava

30. nóvember 2010

Dagur kvenna sem hata karla.

Ég vil byrja á því að taka það fram að mér finnst Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir og Megas mjög töff og skemmtilegt fólk (nú verður þetta örugglega notað sem kvót til að auglýsa bókina).

Nú ætla ég að bókablogga aðeins um Dag kvennanna - ástarsögu, átján ára nóvellu sem var að koma út í fyrsta sinn núna, „eftir að kynjastríðið [hefur komið] konum á toppinn“, eins og segir á kápu bókarinnar. Atburðarás bókarinnar á sér stað á Kvennafrídeginum 24. október 1975. Clint Eastwood look alike-ið Dagur „Himinrjóður“ og næturdrottningin Máney eru aðalsögupersónur, auk þeirra tuttugu þúsund kvenmanna sem „skjóta rótum“ á Lækjartorgi svo miðbærinn verður gegnsýrður af karlfjandsamlegri nærveru þeirra. Kvenréttindakerlingarnar ógna kynverund og kyngervi blíðra kvenna og vaskra karla. Limir karlmanna lyppast niður og hanga ónýtir (ef þeir hverfa þá ekki bara) og fallegar konur þurfa að gæta sín – hinir illu feministar vilja í afbrýðisemi sinni setja þær í afkynjandi föt og svipta þær skarti og ástmönnum. Dagur kvennanna er öskubuskusaga – nema í þessari sögu á Öskubuska ekki tvær afbrýðisamar stjúpsystur, heldur tuttugu þúsund. Kvenréttindabaráttu og greddu/fegurð/(öllu sem mér finnst skemmtilegt) er ítrekað stillt upp sem andstæðum í fyrsta kafla bókarinnar. Það breytist ekki, maður þarf að sætta sig við það. Ég var ekki einu sinni að lesa á milli línanna – ég las það sem stendur í bókinni. Svo leitaði ég í örvæntingu á milli línanna að einhverju sem gæfi til kynna að um kaldhæðni væri að ræða, en ég fann ekkert. Semsagt, ef maður vill halda áfram að lesa þessa stuttu bók eftir fyrsta kaflann, þarf maður að anda djúpt og taka því að kvenréttindabaráttukonurnar eru ljótar, herptar, afbrýðisamar, kynkaldar og valdagráðugar leiðindaskjóður. Það kemur því í rauninni ekkert á óvart að að gefið sé í skyn á kápu bókarinnar að jafnréttisbaráttunni sé lokið og að hún hafi ekki snúist um að ná raunverulegu jafnrétti, heldur um að koma „konum á toppinn“.

Ég varð hrifnari af bókinni eftir því sem leið á frásögnina og hún varð kynlífsmiðaðri (hey, ég er ekki gerð úr steini) og mér fannst mjög gaman að njóta óhefðbundinnar ástarsögu Himinrjóðs og Máneyjar. Stuttur kafli sem lýsir misheppnuðum mökum erkigrybbunnar (forystufeministans) og fórnarlambs hennar er líka svo dónalegur og fyndinn að maður þarf eiginlega að lesa hann upphátt fyrir alla vini sína. Það er mikill húmor í bókinni; rúnkari leitar hælis á Kleppi sem erótískur flóttamaður. Feministarnir á Hótel Borg stofna kvennatímaritið Láttu mig vera (væntanlega vísun í blaðið Vera: tímarit um konur og kvenfrelsi). Það er enginn tepruskapur í frásögninni og er það mér mjög að skapi. Ég skil samt ekki hvers vegna bókin kom ekki bara út fyrir átján árum – hugmyndirnar í henni hafa allavega ekkert orðið ferskari eða beittari síðan þá. Í dag er þetta eiginlega bara frekar banalt. Persónur bókarinnar eru stereótýpur sem birtast í sífellu í (mogga)bloggum misgáfaðra landsmanna og öllum umræðum um feminisma. Við höfum Himinrjóð, sem skilur ekki af hverju konurnar á torginu ásaka hann fyrir það eitt að vera karlmaður: „ásökuðu HANN fyrir eðli kynjanna. Ásökuðu HANN fyrir árþúsunda hefð, í lognu umboði, ásökuðu HANN fyrir það sem náttúran hefur krafist að karlar og konur gerðu til að uppfylla jörðina mönnum og halda tilraun hennar gangandi.“ Máney skilur ekki af hverju hún má ekki bara vera falleg og kvenleg. Og feministarnir eru bitrar kellingar sem enginn elskar, sem neita að samþykkja eðli kynjanna og eru afkynjandi, geldandi afl.

Þetta er í rauninni mjög áhugavert samansafn af stereótýpum sem við þyrftum að setjast niður að ræða yfir nokkrum bjórum. Svo getum við athugað hverjar okkar eru með lengstu handarkikahárin.



Guðrún Elsa

27. nóvember 2010

Meira kjöt, takk



Af hverju ákveður maður að skrifa ævisögu annarrar manneskju? Ef við reiknum hvorki með praktískum efnum á borð við gróðavon né hreinum listrænum hugsjónum (synd að fólk geri ekki meira af því að formbylta ævisögum) hefði ég haldið að það væri einkum af tveimur ástæðum: af því að viðkomandi manneskja hefur átt sérstaklega áhugaverða ævi eða af því að hún hefur upplifað áhugaverða sögulega tíma. Ég veit ekki hvort það er hægt að dæma um forsendurnar fyrir ritun bókar af kynningu hennar eftir á, en alltént er ævisaga Guðrúnar Ögmundsdóttur eftir Höllu Gunnarsdóttur, Hjartað ræður för, kynnt þannig að þetta séu hvort tveggja ástæður fyrir því að segja sögu hennar. Hún er sögð eiga að baki „litríka og dramatíska ævi“ (aftan á kápunni stendur líka – í gæsalöppum, en ekki kemur fram hvaðan tilvitnunin er komin – „Tilfinningalegur rússíbani“) auk þess að vera „holdgervingur ´68-kynslóðarinnar“ og hafa tekið virkan þátt í pólitískri baráttu gegnum tíðina.

Persónulega hafði ég mestan áhuga á að lesa sögu Guðrúnar vegna þátttöku hennar í Rauðsokkahreyfingunni og kvennabaráttunni almennt en bókin bætir engu við það sem ég veit um þá sögu fyrir og hef heyrt áður. Mér finnst uppbygging bókarinnar frekar vanhugsuð; þetta er hefðbundin og vandlega krónólógísk frásögn þar sem hver kafli lífsins fær nokkurn veginn jafn mikið bókarpláss. Það er hins vegar fullmikið sagt að ævi Guðrúnar hafi verið „dramatísk“ – into each life some rain must fall og allt það, en það er ekki beinlínis dramatík – og að tala um bókina sem „tilfinningalegan rússíbana“ er svo yfirdrifið að það virkar eins og háð. Það er eins og ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um hvað ætti að leggja mesta áherslu á í frásögninni og því verður bókin dálítið eins og langt Mannlífsviðtal, eins konar human interest story. Ég hef ekkert á móti svoleiðis sögum í sjálfu sér, hversdagslíf annarra hefur oft einhvern undarlegan sjarma, en allt á sér sinn stað og stund.

Ég held að bókin hefði grætt mikið á þematískari nálgun þar sem kafað hefði verið dýpra í ákveðna kafla og þeir settir í sögulegt samhengi. Það er væntanlega smekksatriði að einhverju leyti hvað er lögð áhersla á, eins og áður segir hafði ég persónulega mestan áhuga á kvennabaráttunni og hefði viljað miklu efnismeiri kafla um hana, en störf Guðrúnar í félagslega geiranum og þá þróun sem þar hefur orðið í alls kyns réttindamálum og hugmyndafræði hefði líka verið áhugavert að sjá setta í stærra samhengi. Sérlegir áhugamenn um flokkspólitík hefðu kannski viljað sjá meiri umfjöllun um tíma Guðrúnar á þingi en ég var reyndar dauðfegin að hún var ekki meiri, ég er búin að lesa yfir mig af ævisögum pólitíkusa með köflum á borð við „Fjárlög og landamerkjadeilur 1952“ og komin með algjört ógeð á þingrifrildum. Eiginlega hafa þær náð að sannfæra mig um að Alþingi hljóti að vera einn mest niðurdrepandi og mannskemmandi vinnustaður á landinu.

Mér fannst bókin ekki leiðinleg – ég meina, þetta er human interest, og Guðrún er augljóslega mjög sympatísk og skemmtileg manneskja – en það hefði verið hægt að hafa miklu meira kjöt á beinunum ef bókin hefði verið hugsuð betur og nálgunin verið örlítið frumlegri.

Kristín Svava

24. nóvember 2010

Kvennabókmenntir og skvísubækur

alltfint

Í viðtali við Jónínu Leósdóttur á vefritinu Pressunni er skáldsaga hennar Allt fínt, en þú? sögð tilheyra þeim flokki bókmennta sem kallaður hefur verið kvennabókmenntir. Þetta er vissulega rétt, þannig séð, þarsem það er erfitt að skilgreina bók eftir konu um konur og reynsluheim þeirra ekki sem kvennabókmenntir. En fyrir minn pedandíska þankagang þá er þessi flokkun ekki alveg að gera sig. Í mínum huga tilheyrir Allt fínt, en þú? undirflokkuninni skvísubók sem á hinni fögru engilsaxnesku tungu myndi útleggjast „chick lit“ án þess þó að falla kannski alveg inn í þröngan ramma þeirrar flokkunar. Ekki að það sé eitthvað aðalatriði að flokka allt niður í öreindir sínar – en það er kannski svolítið mikilvægt í þessu tilfelli því bæði byggt á því sem höfundurinn segir í áðurnefndu Pressuviðtali og bókinni sjálfri er ljóst að lagt er upp með að skrifa bók útfrá ákveðnum viðmiðum, segi kannski ekki alveg formúlu, og færa þau viðmið (eða formúlu ef vill) uppá íslenskan raunveruleika.

Jónínu ferst þetta ætlunarverk vel úr hendi. Bókin er fín skvísubók, þó kannski frekar fyrir aðeins eldri og heldri skvísur, og sagan gengur vel upp innan þeirra marka sem henni eru sett. Ég las hana í einum rykk, sem ekki gerist oft núorðið, og var vel sátt að lestri loknum. Það er eitthvað þægilegt við að lesa bók einsog þessa sem rennur vel áfram, er lipurlega skrifuð og fjallar – þó á eilítið ýktan hátt sé - um aðstæður og atburði sem flestir geta sett sig inn í, að hluta til að minnsta kosti. Mér fannst sagan í flesta staði mjög fyndin, þó auðvitað sé aðeins dökkur undirtónn. Það hefði t.d. verið auðvelt að gera úr endinum ofurvæmið drama, en Jónínu tekst þar að taka skemmtilegt spin sem að mínu mati gefur sögunni aukið vægi og gerir það að verkum að hún fellur ekki alveg í formúlufarið.

Í stuttu máli sagt: skemmtileg og fjörleg bók sem er vel þess virði að leggjast í lestur á.

Sigfríður

22. nóvember 2010

Dekur á Koppi

Kvöldlesningunni á heimilinu áskotnaðist feikna skemmtileg bók á dögunum. Bræðurnir Breki og Dreki frá Furðufirði eftir Aino Havukainen og Sami Toivonen snöruðu sér inn á heimilið og hafa haldið uppi taumlausri gleði með kostulegum uppátækjum sínum.

brekiogdrekiBókin fjallar um ærslabelgina Breka og Dreka sem fyrir misskilning eyða degi á leikskólanum Koppi. Bræðurnir höfðu hugsað sér að eiga dekurdag á baðhúsinu Kroppi og telja sig vera stadda þar. Á baðsloppum með sundgleraugu fara þeir í gegnum fasta liði leikskóladagsins eins og um meðferðir í baðhúsi væri að ræða. Hjá bræðrunum verður sandkassinn að dásamlegu leirbaði og pollagallinn að sérhönnuðum búningi fyrir spa-meðferð. Leikskólabörnin á Koppi taka þessum nýju leikfélögum fagnandi og þegar upp kemst um miskilninginn setja þau alla sína orku í að koma þeim á baðhúsið. Söguþráðurinn er fjörugur og textinn lipur og fyndinn í þýðingu Druslubókadömunnar Þórdísar Gísladóttur.

Hjónin Aino Havukainen & Sami Toivonen eru myndlistarmenntuð og vinna saman bæði texta og myndir í bókum sínum. Það kemur ekki á óvart að þau hjónin segjast halda upp á bækur Richard Scarry því að eins og hjá honum er hver myndaopna fyllt til hins ýtrasta. Hér fær athyglisgáfa lesandans nóg að gera. Það er auðvelt að gleyma sér við að leita uppi fyndin smáatriði í litríkum myndunum. Hliðarfrásagnir leynast einnig víða. Eitt leikskólabarnið getur til dæmis alls ekki talað
fyrir geipilega stóru snuði en reynist ef vel er að gáð tjá sig lipurlega á latínu
með ýmsum ráðum.

DB-har

Breki og Dreki í leikskóla er ekki síst frábær bók fyrir foreldra. Eins og við þekkjum þá er það drep skemmtilegra bóka að þurfa að lesa þær aftur og aftur. En höfundarnir halda áhuga eldri lesenda ekki síður en þeirra yngri með aragrúa af óvenjulegum vísunum. Við höfum nú lesið Breka og Dreka í leikskóla á hverju kvöldi í marga daga og erum enn að uppgötva eitthvað nýtt. Síðast var það bleyjusugan.

Helga Ferdinandsdóttir

21. nóvember 2010

Hrá hjörtu



Mér finnst yfirleitt mun erfiðara að segja eitthvað um bækur sem mér finnst góðar en bækur sem mér finnst lélegar eða bara svona la-la. Það er ekki – eða allavega ekki bara – vegna þess að ég uni mér best við að níða skóinn af öðrum, heldur af ótta við að skemma eða gengisfella þessar góðu bækur á einhvern hátt með banal athugasemdum eða klisjum sem þær hefðu vel getað verið án. Ég ætla að reyna að gera það ekki, og lýsi því einfaldlega yfir til öryggis að ég var mjög hrifin af Doris deyr eftir Kristínu Eiríksdóttur.

Bókin er safn tíu smásagna sem fjalla allar um manneskjur. Þetta eru ekki bara karakterar sem eru þarna af því að einhver þarf að segja eitthvað eða gera eitthvað í sögunni heldur fjalla sögurnar beinlínis um það að vera manneskja, með öðrum manneskjum, í ólíku samhengi. Þær eru vægðarlausar (svo ég noti sama orð og textinn á bókarkápunni, með þeirri afsökun að hann er óvenju vel heppnaður) að fleira en einu leyti; aðstæður eru oft erfiðar og drungalegar, jafnvel fullar af ofbeldi, og frásögnin mjög afhjúpandi gagnvart þeim breysku manneskjum sem lenda í þessum aðstæðum, af eigin hvötum eða annarra. Hins vegar er sagan líka sögð af skilningi í garð persónanna, sem skapar jafnvægi i frásögninni og ljáir þeim reisn og von – og kannski manni sjálfum sem lesanda í leiðinni.

Eins og eðlilegt er með flokk af sögum sitja þær missterkt í manni, en þegar ég ætlaði að fara að telja þær upp sem mér fannst bestar voru þær samt of margar, sem hlýtur að vera góðs viti. Stelpan með hráa hjartað sem fer afsíðis og þambar bjór, Evelyn sem fer að gráta yfir niðurlægingu stelpunnar sem á alveg eins úlpu og hún, saga af flugmanni og flugfreyjum sem gerði það að verkum að ég horfði sjúklega tortryggin á alla starfsmenn flugvélarinnar þegar ég fór til útlanda um daginn og ímyndaði mér um þá alls konar hluti.

Ég veit aldrei hvernig ég á að enda svona, en þetta er frábær bók, og sönn, mér þykir strax vænt um hana og mér finnst að þið ættuð að lesa hana. Ég sá að Kristín sagði í DV um daginn að af frægum manneskjum vildi hún helst hitta Britney Spears til að geta skrifað ævisögu hennar og ég held að það væri í fúlustu alvöru mjög góð hugmynd. Fyrir utan það hvað „ljóð – smásögur – ævisaga“ væri skemmtilegt tvist held ég að niðurstaðan gæti orðið verulega töff.

Kristín Svava

19. nóvember 2010

Kellíngabækur

Á morgun, laugardaginn 20. nóvember, verður haldin bókakynning í Gerðubergi með yfirskriftina Kellingabækur. Ný verk kvenhöfunda; skáldsögur, ljóðabækur, ævisögur, barnabækur, fræðibækur o.s.frv. verða kynnt og einnig bækur eftir erlendar konur sem þýddar hafa verið á íslensku.

Dagskráin mun standa yfir á milli kl. 13-17. Lítið endilega við í Breiðholtinu fagra!

16. nóvember 2010

Darwin eldist ljómandi vel

170px-Charles_Darwin_by_G._Richmond250px-Charles_Darwin_seated_cropdarwin

Í fyrra voru liðin 200 ár síðan Charles Darwin fæddist í Shrewsbury á Englandi og einnig voru liðin 150 ár frá því verk hans um uppruna tegundanna kom út. Þetta var auðvitað haldið upp á um allar trissur og líka á Íslandi og nú hefur Bókmenntafélagið gefið út bókina Arfleifð Darwins; þróunarfræði, náttúra og menning þar sem þróunarfræðiþráðurinn er tekinn upp þar sem Darwin skildi við hann og raktar ýmsar hugmyndir og niðurstöður rannsókna síðari tíma. Í bókinni eru fjórtán greinar ritaðar af sextán íslenskum fræðimönnum á sviði líffræði, jarðfræði, trúarbragðafræði og vísindasagnfræði.

Lítið hefur hingað til verið skrifað um þróun lífvera á íslensku, en af því litla efni eru þrjár greinar eftir Þorvald Thoroddsen einna merkastar. Greinar hans birtust í Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags 1887-1889, en tvær síðari greinarnar eru útdráttur úr 6. útgáfu Uppruna tegundanna. Þær voru endurútgefnar árið 1998 í lærdómsritinu Um uppruna dýrategunda og jurta með skýringum og ítarlegum inngangi eftir Steindór J. Erlingsson. Árið 2004 kom svo Uppruni tegundanna loksins út á íslensku í röð lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags í þýðingu Guðmundar Guðmundssonar. Arfleifð Darwins ætti að höfða til fólks með áhuga á þróun lífsins og fjölbreytileika þess, sögu hugmyndanna og allra sem hafa áhuga á líffræði mannsins og stöðu hans í náttúrunni.

Ritstjórar bókarinnar eru Arnar Pálsson, Bjarni Kristófer Kristjánsson, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Snæbjörn Pálsson og Steindór J. Erlingsson.

Þórdís

13. nóvember 2010

Húðflúr og hommaklám með ljóðrænu ívafi



Áður en ég dembi mér út í íslenska jólabókaflóðið, sem ég hef rétt tyllt tánni í enn sem komið er, langar mig að minnast á aðra bók sem ég lauk við í gær, svo ég gleymi því nú örugglega ekki. Það er ný bandarísk ævisaga eftir Justin nokkurn Spring með ómótstæðilegum titli sem leyfði mér ekki að láta hana ókeypta: Secret Historian. The Life and Times of Samuel Steward, Professor, Tattoo Artist, and Sexual Renegade. Samuel Steward var ekki þekktur maður en skilur eftir sig miklar heimildir um fjölbreytt og áhugavert lífshlaup sitt, enda vísar heitið Historian í titlinum til þess hve ötull skrásetjari hann var.

Samuel Steward fæddist í Ohio árið 1909. Hann tók doktorspróf í enskum bókmenntum frá Ohio State University í Columbus og starfaði sem háskólaprófessor í tuttugu ár upp frá því, lengst af í Chicago. Framan af dreymdi hann um að verða rithöfundur, hann orti ljóð og gaf út eina skáldsögu sem fékk ágætar viðtökur. Hann ferðaðist til Evrópu, lærði frönsku og kynntist ýmsu andans fólki, einkum Gertrude Stein og Alice B. Toklas sem urðu góðar vinkonur hans. Um 1950 fékk hann skyndilega gríðarlegan áhuga á húðflúri, batt enda á langan feril sinn sem prófessor og gerðist tattúlistamaður. Sem slíkur flutti hann til San Francisco og tattúveraði meðal annars fjölmarga meðlimi Hell´s Angels. Á sínum síðari árum tók hann aftur til við skriftir en í þetta sinn runnu frá honum klámsögur á borð við $TUD og My Brother, the Hustler. Hann lést á gamlársdag árið 1993.

Rauði þráðurinn gegnum þetta margbreytilega líf Stewards var gríðarlegur áhugi hans á kynlífi, bæði verklegur og fræðilegur. Hann var samkynhneigður og kynferðisleg ástríða hans olli honum mikilli togstreitu og erfiðleikum sem einkenndu allt hans líf. Hann lifði þó ótrúlega opinskáu einkalífi miðað við þá fordóma og ofsóknir sem samkynhneigðir máttu sæta, sérstaklega um miðja öldina, enda hafði hann sérstaka andstyggð á því tvöfalda lífi sem flestir þeirra neyddust til að lifa og streittist mjög á móti því. Hann skilur eftir sig gríðarlega áhugaverðar heimildir um heim samkynhneigðra í Bandaríkjunum fyrir upphaf mannréttindabaráttunnar. Sem fyrr segir var hann ötull, allt að því smásmugulegur skrásetjari, en besta dæmið um þá áráttu hans er hið svokallaða Stud File, nákvæm spjaldskrá yfir allar kynferðislegar athafnir sem hann tók þátt í frá upphafi (þær urðu á fimmta þúsund, með meira en 800 mismunandi einstaklingum). Í gegnum víðfeðma reynslu Stewards af heimi samkynhneigðra og samviskusama skrásetningu hans gerðist hann samstarfsmaður og mikill vinur dr. Alfred Kinsey, sem gaf út tímamótarannsóknir sínar á kynlífi Bandaríkjamanna um miðja 20. öld. Kinsey fór jafnvel út í hálfgerðar mannfræðirannsóknir og var viðstaddur skipulagðar orgíur á heimili Stewards, væntanlega með lonníetturnar á nefinu og nagandi blýant.

Í einni tilvitnun á bókarkápu segir gagnrýnandi um bókina að í henni séu fleiri dónasögur en viðkomandi hefði haldið að rúmuðust í einu lífi, og ég viðurkenni fúslega að þær eru með því skemmtilegasta í bókinni. Steward var svo dásamlega opinskár um hneigðir sínar og þau misupplífgandi ævintýri sem hann rataði í fyrir þeirra tilstilli. Rúmlega tvítugur skellti hann sér til Evrópu og heimsótti Lord Alfred Douglas, hann Bosie hans Oscars Wilde, gagngert í þeim tilgangi að sofa hjá honum og komast þannig nær skáldinu. Og gerði það, þótt Bosie væri kominn á sjötugsaldur og ekki sérlega aðlaðandi náungi. Um svipað leyti átti Steward eldheitan fund með Rudolph Valentino á hótelherbergi og varðveitti æ síðan lokk af skapahárum Valentinos til minningar (lokkurinn ku enn vera til). Síðar þróaði hann með sér mikið búningablæti. Það beindist í fyrstu einkum að sjóliðum, sem hann leitaði uppi meðal annars á YMCA í San Francisco, eða eins og þar segir: „Moreover, because the Y was full of uniformed sailors, Steward found himself in a state of permanent sexual arousal, and as the weeks passed, the condition left him exhausted.“ Þegar hann varð tattúlistamaður sá Steward svo mikið af myndarlegum sjóliðum á degi hverjum að sjarmi þeirra dofnaði en hann sneri sér þá að lögreglumönnum, táknmyndum yfirvaldsins, meðfram því sem hann fikraði sig áfram í sadómasókískum tilraunum. Þessi hrifning átti eftir að endast Steward út lífið og það er mjög krúttleg saga af því í lok bókarinnar þegar félag samkynhneigðra lögreglumanna í San Francisco býður honum í veislu á 9. áratugnum, og það er passað upp á að allir séu einkennisklæddir – gamli maðurinn var alveg í skýjunum eftir það partí.

Höfundur bókarinnar, Justin Spring, segir sögu Stewards af mikilli hlýju og virðingu. Þótt bókin sé mjög skemmtileg er ekki dregin nein dul á það að líf Stewards var oft einmanalegt, einkum á síðari árum, þegar hann var ekki lengur ungur og hraustur og eftirsóttur kynferðislega heldur meira í ætt við gamlan perra sem sat innan um typpastytturnar sínar og skrifaði klám, vilji maður lýsa því harðneskjulega. Eitt af því sem er mest heillandi við Steward er hversu fjölbreytt líf hans og persóna er – ástríðufullur kynlífssérfræðingur, streetwise tattúlistamaður, háfleygur bókmenntamaður sem neimdroppar villt – og hvað rennur saman við annað, hann skrifar háskólaritgerðir um samkynhneigð Whitmans, bækur um mannfræði tattúlistarinnar og hommaklámsögur uppfullar af vísunum í heimsbókmenntirnar.

Ég hef bara rétt tæpt á bókinni hér, það er margt í henni sem athyglisvert væri að ræða frekar, einkum og sérílagi ýmis atriði viðkomandi lífi samkynhneigðra í Bandaríkjunum á 20. öld og þeirri þróun sem verður í hugmyndum um kynhneigðir og kynlíf á þessum tíma. Bókin um Samuel Steward er alltént fyrirtaks upphafspunktur, svo verðið þið bara að koma með mér í leshring.

Kristín Svava

11. nóvember 2010

Að flytja vestur á Ljósvallagötu og gerast bóhem

leyndarmal annarraÞað er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um „Leyndarmál annarra“, fínu ljóðabókina hennar Þórdísar Gísladóttur, druslubókadömu með meiru. En þarsem mottó okkar druslubókadamanna er að við skrifum um þær bækur sem okkur sýnist, þegar okkur sýnist og eins og okkur sýnist þá blæs ég á allar fyrri umfjallanir, hagsmunatengsl sem og næstum því tvíburastatus okkar Þórdísar og fer því hér á eftir lofrulla um bókina.

Það var auðvitað týpískt fyrir hana Þórdísi að vera nú ekkert að spýta því útúr sér við næstum því tvíburasystur sína að hún væri búin að skrifa heila ljóðabók, hvað þá að fá hana gefna út og næla sér í þessi líka huggulegu verðlaun í leiðinni. Ég veit ekki hvort þetta flokkast undir kvenlegt lítillæti eða bara almenna fælni þeirra sem fæddir eru í miðju krabbamerkinu. Sennilega frekar það síðarnefnda bara. Allavega, bókina skrifaði Norðurmýrarmaddaman og er vel að verðlaunum og útgáfu komin.

Ég las bókina, sem nota bene er ekki löng, í einum rykk og hef svo verið að glugga í hana öðru hvoru síðan – lesið úr henni ljóð fyrir hafnfirskar saumaklúbbskonur, opinbera starfsmenn og fleiri vel valda einstaklinga, sem allir hafa verið sammála mér í hrifningu minni. „Geðveikisbakteríur“ og „How to look good naked“ vekja sérstaka lukku á slíkum uppákomum! „Geðveikisbakteríur“ er náttúrlega ekkert minna er tær snilld, Icesave og allt það jukk verður hreinlega gruggugt í samanburðinum. Ég meina, hver getur keppt við tvílitar gjaldkerastrípur, innkaupakerruna og helvítis gasgrillið og bernaissósuna. „Hafnarfjörður á liðinni öld“ fannst mér líka meirháttar, kannski að hluta til vegna þess að ég kannaðist strax við það sem sögu úr kaffispjalli í Nýja Garði á gróðæristímabilinu þegar við Þórdís strituðum þar hlið við hlið og skemmtum okkur með því að segja sögur úr sveitinni.

En ljóðin eru ekki bara skemmtileg – ekki að það sé ekki nóg útaf fyrir sig. Það er þegar Sylviu Plath áhrifin verða hvað áþreifanlegust sem mér finnst Þórdísi takast hvað best til. Ég er ekkert að grínast með Sylviu og hennar áhrif. Veit líka að Þórdís fékk ítrekað þá einkunn í feisbúkkkvissum að hún væri Sylvia Plath endurborin, og varla lýgur fésbókin. Ljóðin „Félagslegt raunsæi“ og „Landakot“ finnast mér frábær og þar finnst mér ég sjá greinileg Plath áhrif. Sérstaklega er það síðarnefnda áhrifamikið en þar nær ljóðmælandinn algeru flugi í lýsingum á prestinum; útlitslýsingar svo næmar að innra landslag verður sem opin bók. Hápunkturinn er svo þegar hún gengur útúr kirkjunni og skyrpir í vígða vatnið. Ég segi ekki meir – er hægt að biðja um betra?

Sigfríður

Graðir andarsteggir og fleiri borgarbúar

hendurÞrjár hendur eftir Óskar Árna Óskarsson las ég með síðbúna morgunkaffinu mínu rétt áðan. Bókin er safn stuttra nafnlausra ljóða, myndir af atburðum og því sem fyrir augu ljóðmælandans ber á ferðum hans, oft er hann á rölti um bæinn. Í því fyrsta segir frá langt að komnum harmónikkuleikara á Laugaveginum sem veltir því fyrir sér af hverju fólki liggi svona mikið á, á næstu síðu er sagt frá auglýsingu um herbergi til leigu í kjallara í Norðurmýri og því að fáum dögum síðar sé búið að líma svartan plastpoka fyrir kjallaragluggann, einhversstaðar er sagt frá þvottaklemmum sem hangið hafa úti allan veturinn, þremur köttum sem læðast í bakgarði og afgreiðslustúlka í Góða hirðinum kemur líka við sögu í bókinni ásamt dulurfullum manni frá Austurlöndum sem ferðast um í Vesturbænum með túrban á höfði.

Þeir sem lesið hafa það sem Óskar Árni hefur áður skrifað kannast við fílgúdd-tóninn í bókum hans. Það er huggulegt andrúmsloft og ljúfur tónn í ljóðunum og ýmislegt skemmtilegt sem kemur á óvart. Ef fólk er að leita að pönki eða byltingu þá eru Þrjár hendur ekki málið en með morgunkaffinu, þegar maður er að róa sig niður eftir að hafa lesið yfir sig af heimskulegum netpistlum og Eyjukommentum, eða rifist við góða feisbúkkvini um bann við hænsnahaldi í borgum, er bókin róandi innspýting frá nærgætnum smáskammtalækni.

Hitti aldrað ljóðskáld í Austurstrætinu
komdu með út í Hljómskálagarð
segir hann og lyftir brúnum bréfpoka
við setjumst á bekk við Tjörnina
súpum á og horfum þegjandi á fuglana
svo togar hann í skeggið
hallar sér að mér og hvíslar
Andarsteggirnir eru víst býsna graðir núna

Þórdís

10. nóvember 2010

Stolnar raddir

Stolnar raddir eftir Hugrúnu Hrönn Kristjánsdóttur lauk ég við á andvökustund í nótt. Þetta er saga stúlku á þrítugsaldri, Sóllilju, sem sem býr með dóttur sinni í kjallara hjá ömmu sinni en í húsinu býr einnig heyrnarlaus frændi með tölvudellu. Sóllilja finnur mynd af ömmu sinni og ókunnum karlmanni á bakvið mynd af ömmunni og afa sínum og kemst í framhaldinu að því að fortíð fölskyldunnar er flóknari en hún hefur hingað til talið.

Stolnar raddir er ekki leiðinleg eða óáhugaverð bók og það hvarflaði aldrei að mér að hætta að lesa (lífið er stutt og nóg af góðum bókum þannig af ef ég fæ ekki áhuga á efni bókar á 50-100 síðum þá legg ég hana frá mér) en hins vegar finnst mér verkið dálítið gallað. Söguþráðurinn er áhugaverður og ætti að vera spennandi en hann er allt of fyrirsjáanlegur og útreiknanlegur frá því snemma í bókinni. Miðað við hvað söguefnið er gríðarlega dramatískt þá fannst mér tilfinningarnar einhvernveginn ekki ná í gegn. Til þess er margt afgreitt með svo miklum hraði og persónurnar eru í heildina of óljósar, þær náðu a.m.k. ekki að fá á sig nægilega góða mynd í mínum huga með örfáum undantekningum. Þó að fatnaði og útliti fólks sé vel lýst (eins og þarna er oft gert) þá nægir það ekki til að persónan fái dýpt, þetta hefði verið hægt að vinna betur.

Sagan er í nokkrum lögum. Líf Sóllilju í nútíð finnst mér besti hlutinn. Bernsku hennar er lýst með ljóðrænum innskotum um fiðrildi, mjólk sem hellist niður og ýmislegt sem hún upplifir og hugsar en þau fannst mér síðri (ég held hins vegar að margir lesendur muni kunna vel að meta þá kafla) og saga ömmunnar er of  losaralega sögð og kaflarnir náðu ekki vel að fanga tíðaranda þess tíma sem þeir gerast á, en einmitt sú saga er hryggjarstykki bókarinnar.

Þrátt fyrir það sem ég hef nefnt er ýmislegt lúnkið í Stolnum röddum og ég vona að höfundurinn sé í stuði til að vinda sér í frekari bókaskrif. Frásögn af feisbúkkstatusum þeim sem móðirin setti inn, með nákvæmum upplýsingum um einkunnir systkina aðalpersónunnar og tilheyrandi kommentum vinkvenna, skemmtu mér til dæmis. Sóllilja sjálf er  vel heppnuð persóna; gölluð, lygin, ábyrgðarlaus og dugleg við að klúðra lífi sínu eins og býsna margt gott fólk þannig að ég held að margir lesendur muni ná góðu sambandi við hana.

Þórdís

8. nóvember 2010

Franskt reyfarahaust með Fred Vargas

Fred-Vargas-001bchhhcegcfEftir að hafa helgað líf mitt skandinavískum reyfurum í sumar setti ég í annan gír þegar fór að hausta og las tvær bækur eftir frönsku skáldskonuna Fred Vargas í prýðilegri þýðingu Guðlaugs Bergmundssonar. Þetta eru reyndar líka reyfarar en gjörólíkir norrænum frændum sínum – hér erum við víðsfjarri skandinavíska myrkrinu, kuldanum og alkahólismanum, í staðinn er hiti og ryk og já- reyndar eru aðalpersónurnar sötrandi vín meira eða minna frá fyrsta til síðasta kafla en í Frakklandi er það ekki alkahólismi heldur menning!

Fyrri bókin, Varúlfurinn, hefst í afskekktu þorpi í frönsku ölpunum – í takt við hitastigið og rykið er tempóið hægt. Helsta ógnin virðist til að byrja með vera hitinn en persónur eru í sífellu að hóta því að núverandi veður sé „bara byrjunin“. Í raun og veru byrjar bókin svo rólega að ég gleymdi því eiginlega að ég væri að lesa spennusögu og fór að gefa meiri gaum að persónu- og landslagslýsingum sem kom alls ekki að sök. Það kemur þó að því að ókyrrð kemst á þorpið vegna dularfulls vargs sem leggst á sauðfé og síðar fólk en það er hins vegar komið fram í miðja bók áður en áþreifanlegur glæpur er framinn og áður en stjarna séríunnar – Adamsberg lögregluforingi – stígur fram á sjónarsviðið.

Adamsberg er skemmtilega ólíkur Erlendi, Harry Hole og í raun helstu rannsóknarmönnum bókmenntanna. Sherlock Holmes hefði varla virt hann viðlits þar sem Adamsberg gefur lítið fyrir rökvísi og afleiðuaðferðina frægu. Í staðinn treystir hann alfarið á innsæi sitt og leið hans til að leysa málin má helst líkja við það þegar maður horfir á 3D mynd í bók og veit að myndin verður fyrst greinileg þegar hægt er að horfa á hana nógu lengi til að hún fari úr fókus. Adamberg er sífellt að fara í langar gönguferðir og leyfa huganum að fljóta til að þess að hann geti séð mynstrið sem óumflýjanlega finnst í þeim flóknu glæpamálum sem á fjörur hans rekur. Þetta ferli tekur mjög á taugar hans helsta aðstoðarmanns sem líður ekki verulega vel nema hann geti skrifað allt í exel.

En Adamsberg er skemmtileg týpa og lesandinn kynnist honum enn betur í næstu bók – Kallaranum – sem kom út í sumar. Þar er hann nýfluttur í nýjar bækistöðvar – búið að hækka hann í tign og hann reynir eftir nýstárlegum leiðum að leggja andlit og nöfn undirmanna sinna á minnið: „-Noel, endurtók Adamsberg um leið og hann reyndi að leggja andlit hans á minnið. Ferkantað höfuð, fölur á vanga, ljóst burstaklippt hár og eyru í stærra lagi sama sem Noel. Þreyta, dramb, hugsanlegur hrottaskapur sama sem Noel. Eyru, hrottaskapur, Noel“ (bls. 39 í Kallaranum). Þar eru það ekki varúlfar sem fólk þarf að óttast heldur plágan, svartidauði, sem lagði Evrópu nánst í rúst fyrr á öldum og hefur nú óvænt látið á sér kræla aftur.

Það er þó ekki endilega Adamsberg, skemmtilegur sem hann er, sem stendur upp úr persónugalleríi bókanna. Í hvorri bók fyrir sig skapar Vargas lokaðan heim sérkennilegra en sannfærandi persóna og lesandinn fylgist með áhrifunum sem glæpirnir hafa í þessum litlu samfélögum. Í Varúlfinum leggja ungur ættleiddur drengur, ævagamall fjárhirðir, stór hundur og ung kona uppí langferð en í Kallaranum kynnumst við samansafni af utangarðsfólki sem leigir herbergi hjá dularfullum eldri manni. Það eru þessar persónur, þeirra innra líf og skemmtilegar samræður sem gera bækurnar áhugaverðar. Þær tengjast líka þessu rólega tempói sem einkennir Vargas – það þarf tíma og rúm til að leyfa þessu fólki að lifna á síðunum og á meðan verða allar sprengjur og bílaeltingaleikir bara að bíða róleg.

Maríanna Clara

6. nóvember 2010

Er þetta bókakápa ársins?

bidukollurRitarar þessarar síðu hafa nú orðið sér úti um þó nokkrar nýjar bækur og vonandi fyllumst við allar mikilli löngun til að tjá okkur um þær með tilheyrandi bloggfærsluflóði. Á meðan beðið er má skoða þessa mögnuðu kápu á bók Kleopötru Kristbjargar sem hefur hinn einkennilega titil Biðukollur út um allt. Það er eitthvað við þetta!

5. nóvember 2010

Múmínálfar í Máli og menningu þriðjudagskvöldið 9. nóvember

Halastjarnan eftir Tove Jansson hefur verið endurútgefin á íslensku!

IBBY-samtökin á Íslandi fagna þessum tíðindum og og því verður haldið Múmínálfakvöld á Súfistanum í Máli og menningu á Laugavegi 18 í Reykjavík þar sem valinkunnir múmínaðdáendur fjalla um þessar geðþekku skepnur.  Samkoman fer fram þriðjudagskvöldið 9. nóvember klukkan átta og fyrirlesarar verða:

Erna Erlingsdóttir - Seint í nóvember. Síðasta múmínbókin, fjarvera og ferðalög

Stefán Pálsson - Múmínsnáðinn, Kattholtsstrákurinn, Erlendur lögregluforingi & Sir Edmund Halley

Dagný Kristjánsdóttir - Múmínálfarnir og hamskiptin

Sérstakur gestur frá múmínvinunum í borgarstjórn verður Óttarr Ólafur Proppé.

Í þessu samhengi er vert að benda á grein um Halastjörnuna sem birtist í tímaritinu Börn og menning fyrr á árinu og var endurbirt hér á síðunni.

3. nóvember 2010

Börn og menning - hausthefti 2010

bogmTímaritiðörn og menning er gefið út af IBBY-samtökunum á Íslandi tvisvar á ári. Nú er hausthefti blaðsins nýkomið út prentun og kemur senn til áskrifenda.

Blaðið er að þessu sinni helgað bókmenntum. Tveir höfundar, Brynhildur Þórarinsdóttir og Friðrik Erlingsson, skrifa um miðlun íslenskra fornbókmennta til íslenskra barna, grein Brynhildar ber yfirskriftina Bókmenntaverkfræði og samgöngubækur en grein Friðriks heitir Þruma úr heiðskíru lofti. Í blaðinu eru einnig greinar um nýlega útkomnar barnabækur; Guðrún Elsa Bragadóttir skrifar um nýlega útgáfu af Spóa eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson, Kristín Svava Tómasdóttir um Núll Núll 9 eftir Þorgrím Þráinsson, Brynja Baldursdóttir fjallar um Hetjur, eftir Kristínu Steinsdóttur og Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir um Illa kall efti Svein Nyhus og Gro Dahle og Þórey Mjallhvít hannar einnig kápu Barna og menningar í þetta skiptið.

Hægt er að gerast félagi í IBBY-samtökunum og jafnframt áskrifandi að Börnum og menningu með því að senda póst á bornogmenning@gmail.com.

31. október 2010

Svar við bréfi Helgu

svarÞér finnst kannski gróft að minnast þessa, og skrifa til þín, Helga mín. Mannorð og virðing, mér er alveg sama um það. Hvað á maður svo sem að gera við slíkt þegar allt er komið í kring? Þegar öllu er á botninn hvolft verð ég víst að játa að aldrei hef ég vitað aðra eins og þvílíka jarðneska sælunautn sem okkar samfarir þar í hlöðunni þennan eilífa vordag í mínu minni. Þegar ég loksins fékk að þukla þinn brúnslétta skapnað og drukkna í fylltum vörum þessa sælu og skammæju fengitíð lífs míns. (Svar við bréfi Helgu bls. 35)

Inngangur að bókinni Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson er ljóðið Þau eftir Stefán Hörð Grímsson þar sem segir meðal annars Nú ganga þau sinn veginn hvort og haldast í hendur. Bók Bergsveins má segja tilbrigði við þetta ljóð en hún er bréf gamals bónda og ekkils, Bjarna Gíslasonar,  skrifað á höfuðdegi árið 1997 til Helgu, fyrrum ástkonu sinnar, sem hann fylgdi ekki til Reykjavíkur á sínum tíma. Það borgar sig ekki að rekja söguna því þá skemmi ég bara fyrir ykkur öllum sem verðið alveg endilega að lesa þessa bók.

Ég myndi segja Svar við bréfi Helgu býsna núþálegt verk í besta skilningi þess orðs. Það er dálítið í tísku um þessar mundir að póstmódernisera menningararfinn og poppa hann upp, en þessa bók ætla ég samt ekki að stimpla með póstmódernismastimplinum mínum því Bergsveinn gengur eins langt og hægt er að gera, bókin er eins og hún sé skrifuð af gömlum bónda og orðfærið og hugsunarhátturinn er svo sannfærandi að mér fannst ég alveg vera að lesa bréf frá íslenskum alþýðumanni sem gæti verið fæddur í byrjun síðustu aldar. Þetta hljómar kannski ekki sérlega spennandi, ég sjálf yrði líklega ekki beint spennt ef mér væri sagt að lesa svona verk (mig langar t.d. ekki að lesa ljóð eftir fólk sem yrkir eins og Guðmundur Böðvarsson eða Steinn Steinarr, þó ég dái þá báða) en Svar við bréfi Helgu er samt algjörlega ómótstæðileg bók og mig langar að gefa öllum sem ég þekki hana í jólagjöf. Hún er dásamlega fallega skrifuð erótísk ástarsaga og unaðslega skemmtileg lýsing á íslenskri alþýðumenningu til sveita á síðustu öld og svo er hún bæði fyndin og sorgleg. Þarf maður eitthvað meira?

Þórdís

21. október 2010

Sjötta alþjóðlega ljóðahátíð Nýhils



Sjötta alþjóðlega ljóðahátíð Nýhils verður sett í Norræna húsinu klukkan fimm í dag, fimmtudaginn 21. október, og mun standa yfir helgina. Fimm erlend skáld eru gestir hátíðarinnar að þessu sinni en auk þeirra munu fjórtán innlend skáld lesa upp. Tvær skáldkonur koma frá Bandaríkjunum, Sharon Mesmer frá New York er reynsluflarfbolti í bransanum en Alli Warren frá Kaliforníu er yngst erlendu gestanna, fædd árið 1983. Frá Svíþjóð kemur tilraunaskáldið og hljóðalistamaðurinn Pär Thörn, sem mun flytja raftónlist á föstudeginum en lesa upp á laugardeginum. Teemu Manninen er frá Finnlandi en skrifar einnig mikið á ensku. Síðastur en ekki sístur er það Jean-Michel Espitallier sem kemur frá Frakklandi en hann er bæði ljóðskáld og trommari í rokkhljómsveit.

Druslubókadömur koma nokkuð við sögu á hátíðinni. Undirritaðar hafa veg og vanda af skipulagningu hátíðarinnar og munu vera kynnar á föstudagsupplestrinum, auk þess sem Kristín Svava mun lesa upp á laugardeginum. Kynnar á laugardagskvöldi verða Þórdís Gísladóttir og Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir og Þórdís mun einnig lesa upp úr flunkunýrri bók sinni, Leyndarmál annarra, á föstudagskvöldinu.

Sérstök athygli skal vakin á æsispennandi ljóðapöbbkvissi sem fer fram á Næsta bar klukkan níu í kvöld, fimmtudag, og vegleg verðlaun eru í boði. Hér, eftir fréttir, má finna umfjöllun Víðsjár um hátíðina og upplestur okkar á tveimur ljóðum erlendra gesta: http://dagskra.ruv.is/ras1/4555542/2010/10/20/

Dagskrá hátíðarinnar er í heild sinni sem hér segir:

Fimmtudagur 21. október
17:00: Opnunarkokkteill í Norræna húsinu.
21:00: Ljóðapöbbkviss á Næsta bar.

Föstudagur 22. október
20:00(- 00:00): Upplestur á Venue.
Jón Örn Loðmfjörð
Ásgeir H Ingólfsson
Ragnhildur Jóhanns
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson
Pär Thörn (tónlist)
HLÉ
Þórdís Gísladóttir
Kári Tulinius
Alli Warren
Hildur Lilliendahl
Byrkir
Teemu Manninen
Bárujárn spilar

Laugardagur 23. október
12:00: Pallborðsumræður í Norræna húsinu. Benedikt Hjartarson stjórnar. Í fyrra pallborði munu Sharon Mesmer, Pär Thörn, Angela Rawlings, Kári Tulinius og Ásgeir H. Ingólfsson ræða pólitík formsins. Í seinni pallborði munu Teemu Manninen, Jean-Michel Espitallier, Alli Warren, Ingólfur Gíslason og Anton Helgi Jónsson ræða um tilraunaljóðið, hefð þess og nýsköpun.
20:00(-00:00): Upplestur á Venue.
Bjarni Klemenz
Angela Rawlings
Sindri Freyr Steinsson
Ingólfur Gíslason
Pär Thörn
HLÉ
Jón Bjarki Magnússon
Kristín Svava Tómasdóttir
Jean-Michel Espitallier
Anton Helgi Jónsson
Sharon Mesmer
Hrund Ósk Árnadóttir syngur og Tómas R. Einarsson spilar undir


Kristín Svava og Guðrún Elsa

19. október 2010

Ský - tímarit fyrir skáldskap

skyÍ vor gaf Jón Hallur Stefánsson mér átta eintök af tímaritinu SKÝ sem kom út ellefu sinnum á árunum 1990-1994. Síðan hef ég haft þessi eintök sem náttborðslesningu og gluggað í þau öðru hverju mér til upplyftingar. Á innsíðu tímaritsins, sem er látlaust og í litlu og skemmtilegu vasabroti (ég giska á 10x15 cm), stendur að Ský sé tímarit fyrir skáldskap, í því birtust aðallega ljóð eftir íslenska og erlenda höfunda en þar má líka finna öðruvísi texta, ljósmyndir og dúkristur. Ritstjórar Skýs voru Jón Hallur og Óskar Árni Óskarsson en síðan voru gestaritstjórar sem fóru fyrir einstökum heftum, menn á borð við Geirlaug Magnússon, Gyrði Elíasson, Braga Ólafsson og Þór Eldon. Meðal íslenskra höfunda sem birtu ljóð má t.d. sjá Jón Stefánsson (sem nú heitir líka Kalman), Ágúst Borgþór Sverrisson, Harald Jónsson, Hannes Sigfússon, Sjón, Hallgrím Helgason, Hlyn Hallsson, Svein Yngva Egilsson o.fl. Þýddir höfundar eru t.d. Pentti Saarikoski, Eduardo Pérez Baca, Elias Canetti og Guillaume Appollinaire.  Kvenmannsnöfnum fer lítið fyrir í tímaritinu Ský en þó má t.d. finna ljóð eftir Úlfhildi Dagsdóttur, Berglindi Gunnarsdóttur, Önnu Láru Steindal og þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur á ljóði eftir Marínu Tsvetajevu og þýðingar Geirlaugs á Wieslawa Szymborska, sem þá var ekki orðin Nóbelsskáld. Hér á eftir fara örfá sýnishorn úr tímaritinu SKÝ.

Á heitum degi
getur majónes verið banvænt
það sagði mér frænka mín

hún sagði mér einnig
að fara aldrei veskislaus út
ef svo færi ég dræpist
þyrftu þeir að bera kennsl á líkið

Sam Shephard (Óskar Árni Óskarsson þýddi)

______________________________________


Lífshlaupið

Ginblautt var bréfið er ég sendi minni móður
Hún sagði komdu aldrei aftur heim
Ginblautt var skeytið er ég sendi minni konu
Hún sagði komdu strax aftur heim
Ginblautt var kortið er ég sendi mínum föður
Hann kom til mín strax næsta dag
Ginblautur var pakkinn er ég sendi mínum syni
Hann elskar mig ennþá í dag

Því að ginblautt er líf mitt     gegnsósa af gini
ég ferðast um ókunn lönd
með tösku fulla af gini og brúsa af tónik
ég heilsa uppá fjarlæga strönd

Óttarr Proppé

______________________________________


Hviids Vinstue

Mörghundruð ára gamalt brak
undir skónum

strýk þys borgarinnar af mér
og spyr eftir þögninni

Ég er ekki búinn að drekka mikið
þegar maður frá síðustu öld
sest á móti mér

honum fylgja
skógarþröstur
lóa

og lykt af fjalli

Jón Stefánsson

______________________________________


Jarðarglópur

Það er ekkert verra
að vera Guðsson og
á leið heim til Paradísar
þótt maður hafi misst af síðustu
ferð í kvöld

Á meðan getur maður bara
setið á bekknum og gónt
á stjörnur og rauðamöl þyrlast
um janúarnóttina og já
maður getur jafnvel hugsað

Nú væri gott að eiga
þótt ekki væri nema einn lítinn
poka af piparmyntum
frá Síríusi, Nói

Ísak Harðarson

______________________________________

Þórdís

17. október 2010

Erfitt að finna góðar metsölubækur?

harlekinAf einhverjum ástæðum tekst mér alltaf að gíra upp í mér einhverja spennu fyrir því hver fái Nóbelinn í bókmenntum. Í kringum Nóbelsverðlaunatilkynninguna heyrist alltaf umræðan um hvort höfundurinn sem vinnur happdrættið sé frægur/ekki frægur, hvort fólk þurfi almennt að gúggla viðkomandi og hvort bækur viðkomandi séu skiljanlegar eða hvort þetta sé óskiljanlegur litteratúr fyrir einhverja útvalda furðufugla.  Fólk hefur allskonar skoðanir á málunum og í ár birtist að venju einhver könnun, samdægurs eða daginn eftir að verðlaunahafinn var tilkynntur,  þar sem fram kom að sjötíu og eitthvað prósent Svía hefðu aldrei heyrt minnst á Vargas Llosa (túlki fólk tilgang og niðurstöður svona kannana eins og það vill).

Um daginn spurði Dagens Nyheter Peter Englund, ritara (er hann ekki kallaður ritari?) Sænsku Akademíunnar, sem velur þann sem fær Nóbel í bókmenntum, þriggja spurninga um hvernig bókmenntaverðlaunahafinn sé valinn. Í þessu stutta viðtali kemur fram að þeir sem vonast eftir því að Bob Dylan eða James Ellroy (sem er í uppáhaldi hjá Englund) fái Nóbelsverðlaun ættu ekki að gera sér miklar vonir. Síðan 1901 hefur Sænska akademían einungis veitt Nóbelsverðlaun fyrir prósa, ljóð og leikbókmenntir fyrir fullorðna (blaðamaðurinn telur þessa tvo fyrrnefndu karla greinilega ekki skrifa svoleiðis texta).  Peter Englund segir að það sé ekkert í erfðaskrá Nóbels sem segi til um hverju skuli farið eftir þegar verðlaunin eru veitt en barnabókmenntir eða dægurlagatextar hafa þó aldrei fengið Nóbel (meðan Astrid Lindgren var á lífi voru oft í gangi undirskriftalistar þar sem þess var krafist að hún fengi verðlaunin). Englund segir að það væri hægt að veita Dan Brown Nóbelsverðlaun en hann spyr til hvers það ætti að gera, verðlaunin geri það mögulegt að draga fram mikilvægari bókmenntir. Blaðamaðurinn spyr hvort mikilvægar bókmenntir sé ekki að finna meðal þess sem er á vinsældarlistunum en P.E. segir (hlæjandi) að þær þurfi ekki að draga fram því þær séu vinsælar. Síðan segir hann að það sé ekkert skilyrði að benda á eitthvað sem fáir þekkja en að málið snúist um bókmenntaleg gæði og hans skoðun sé sú að það sé mjög erfitt að finna vinsæla höfunda sem standi undir þeim kröfum sem Akademían krefst.

Þórdís

P.S. Já og eitt í viðbót. Annað tölublað Spássíunnar, sem er fínasta menningarrit sem að miklum hluta fjallar um bókmenntir, kom út um daginn og fæst í mörgum búðum og það er auðvitað líka hægt að gerast áskrifandi. Spássían er með feisbúkksíðu og  hér eru líka upplýsingar.

16. október 2010

Fyrir unnendur súrrealískra endurminninga



Ég er orðin svo meðvirk druslubókardama að ég get ekki lesið áhugaverða bók án þess að nefna hana hér, þótt í stuttu máli sé. Hún var keypt á heimilinu eftir meðmæli frá fjölskylduvinum og ég var sú þriðja í fjölskyldunni sem tók við henni þannig að hún er þrautlesin orðin: endurminningabókin My last sigh (ensk þýðing á Mon dernier soupir) eftir spænska kvikmyndagerðarmanninn Luis Buñuel.

Buñuel gefur hressandi skít í nákvæma krónólógíska frásögn en segir mikið af litlum skrítnum sögum héðan og þaðan milli þess sem hann veltir vöngum, telur upp það sem honum finnst skemmtilegt og ræðir mismunandi áfengistegundir. Mér fannst sérstaklega gaman að lesa um barnæsku hans í Calanda á Spáni á fyrstu áratugum 20. aldar þar sem, segir hann sjálfur, miðaldir stóðu fram að fyrra stríði, og tíma hans með súrrealistunum í París, sem voru allir í því að reyna að breyta heiminum með því að hneyksla hann, stóðu fast á prinsippunum og voru alltaf að gera hver annan útlægan úr hópnum fyrir að brjóta þau. Þetta er ein af þessum bókum þar sem koma fyrir línur á borð við „Við sátum þarna nokkrir, ég, Dalí, Lorca, Picasso og André Breton...” (og að sjálfsögðu á Sélect, þetta er þvottekta Parísarsnobb).

Það eina sem stakk mig er að það fer áberandi lítið fyrir kvenfólki í bókinni, þær eru aðallega mellur og hysterískar leikstjörnur, sú sem kemur einna mest við sögu er Gala Dalí og sú fær nú ekki góð eftirmæli, fégráðug og klikkuð. Ég held ég megi segja að kona komi nokkurn veginn aldrei fyrir nema sem einhvers konar objekt. Hins vegar er Buñuel nógu fínn gaur að öðru leyti til að maður fyrirgefi honum það og mér leiddust sögurnar hans aldrei.


Kristín Svava

15. október 2010

Bráðum koma blessuð jólin

Jólabókaflóðið árlega er við það að bresta á. Jólin eru líka örugglega í næstu viku eða þarnæstu, allavega er byrjað að auglýsa Frostrósatónleika og senn munu feisbúkkstatusar vina minna meira og minna snúast um lakkrístoppabakstur, jólakortaföndur og skápahreingerningar. Ég sjálf er með gríðarlega metnaðarfull áform sem snúast ekki um neitt af því fyrrnefnda heldur um að lesa fullt af bókum sem koma út núna fyrir jólin og skrifa um þær á þessa síðu og svo ætla ég að tuða hæfilega mikið í hinum druslubókagellunum um að lesa og skrifa eins og óðar og rífa niður draslið og mæla með allri snilldinni. En góð áform eru náttúrlega bara góð áform, það er enginn að segja að maður þurfi að standa við þau!

Nú um stundir er ég hins vegar dálítið að lesa ljóð eftir Fredrik Lindström sem er netttilgerðarleg fjölmiðlafígúra og rithöfundur í Svíþjóð.  Ljóðin hans Fredriks minna mig töluvert mikið á ljóð Vitu Andersen, sem ég las mér til óbóta einhverntíma á síðustu öld. Það er eitthvað skemmtilegt við það. Hún skrifaði líka smásagnasafnið Haltu kjafti og vertu sæt og Fredrik hefur skrifað smásögur sem eru líka svolítið undir áhrifum frá Vitu Andersen.*

Að lokum ætla ég að ljóstra upp hvernig kápan á bókinni minni, Leyndarmál annarra,  er til komin. Maður kaupir sér veggfóður á fornsölu í útlöndum og er með góð áform um að betrekkja skrifstofuna eða svefnherbergið, en gerir ekkert í málunum og skrifar í staðinn bók og fer svo með veggfóðrið til bókaútgefandans sem kemur því til hönnuðar sem breytir því snilldarlega í bókarkápu.

Leyndarmál

* Fyrir þá sem skilja sænsku er hér fyrir aftan krækja á þúskjá þar sem Fredrik Lindström les smásöguna sína Bara knulla lite sem útleggst á góðri íslensku Bara ríða smávegis: Bara knulla lite.

Þórdís

13. október 2010

MÁTTLEYSI MIÐALDRA MANNA

Þennan pistil um Svíann Jan Guillou fengum við sendan frá Dr. Gunnari Hrafni Hrafnbjargarsyni og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Þeir sem senda svona skemmtilega gestapistla eru í sérlegu uppáhaldi hjá Druslubókadömunum.

Stundum stingur rithöfundurinn Jan Guillou upp kollinum í sænskum fjölmiðlum, oft óforvarendris, jafnan með ákúrur á aðra rithöfunda samtímis því sem hann rómar eigið ágæti. Svíar muna einna helst eftir rifrildi hans og Unni Drougge, en hann sakaði hana um að hún gerði ekki annað en að næla sér í karlmenn til þess að geta svo hefnt sín á þeim í bókum sínum þegar sambandi var slitið. Þetta orðaskak þeirra er dregið upp í hvert sinn sem Unni Drougge (sem sumir álíta jafnathyglissjúka og Guillou) birtist á sjónvarpsskjánum. Þetta greinarkorn er ekki um ritdeilur sænskra rithöfunda. Það er fyrst og fremst stutt lýsing á manni sem hefur mest gaman af að hlusta á sjálfan sig.

Hver er maðurinn?
Jan Oskar Sverre Lucien Henri Guillou fæddist 17. janúar 1944. Móðir hans var af ætt ríkra Norðmanna en faðir hans, sem var franskur, var sonur húsvarðar (síðar sendiherra í Helsinki) við franska sendiráðið í Stokkhólmi. Framan af var Jan Guillou franskur ríkisborgari, en 1975 öðlaðist hann sænskan ríkisborgararétt. Foreldrar Jans skildu þegar föðurafi hans gerðist sendiherra í Helsinki og hún giftist stjúpföður Jans sem beitti fjölskylduna líkamlegu og andlegu ofbeldi eins og lýst er í bókinni Ondskan frá 1981.

Á sjöunda og áttunda áratugnum starfaði Jan Guillou innan maóístísku hreyfingarinnar Clarté og var um tíma meðlimur í Sænska kommúnistaflokknum. Jan Guillou þreytist seint á því að gagnrýna aðskilnaðarstefnu Ísraels. Á sjöunda áratugnum starfaði Jan Guillou sem blaðamaður á tímaritinu FiB aktuellt. Árið 1973 gerðist hann ritstjóri vinstrisinnaða tímaritsins Folket i Bild/Kulturfront sem birti greinar hans og Peters Bratts um IB (Informationsbyrån), leyniþjónustu sænska hersins. Fyrir þátt sinn í að koma upp um leyniþjónustuna var Jan Guillou dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir njósnir.

Leyniþjónustumaðurinn Hamilton, riddarinn Árni Magnússon og lofsöngur höfundar um sjálfan sig
Jan Guillou er án efa þekktastur fyrir bækur sínar um sænska leyniþjónustumanninn Carl Hamilton, en um hann hafa komið út þrettán bækur á árunum 1986-2008. Jafnframt hafa bækur hans um riddarann Árna Magnússon notið mikilla vinsælda. Tvær þeirra, Musterisriddarinn og Leiðin til Jerúsalem hafa komið út á íslensku í þýðingu Sigurðar Þórs Salvarssonar. Auk þessa hefur Jan Guillou skrifað tæplega þrjátíu bækur og greinasöfn, sem fjalla um allt frá hans eigin ævi, mat, veiðar, stjórnmál, og nornaveiðar. Síðust kom út bókin Ordets makt och vanmakt (Máttur og máttleysi orðsins) á síðasta ári. Bókin fjallar um þau fjörutíu ár sem Jan Guillou hefur starfað sem blaðamaður og rithöfundur. Bókin er einn endalaus lofsöngur höfundar um sjálfan sig og það hvað samferðamenn Jans Guillous hafi verið vitlausir og að hann hafi nú alltaf haft rétt fyrir sér. Ég gafst upp áður en ég kláraði fyrsta kaflann og á örugglega ekki eftir að lesa bókina nema ég þurfi að liggja í rúminu í heila viku.

Uppskrúfun og einhæfni
Þegar ég kom í fyrsta sinn til Svíþjóðar á fullorðinsárum (2000) kom ég í fornbókasölu og ákvað að kaupa allar bækurnar um Carl Hamilton. Ég ætlaði mér að læra sænsku og fannst það bráðupplagt að lesa eitthvað létt. Ég hafði ekki hugmynd um hver Jan Guillou var, né að tungumálið sem bækurnar eru skrifaðar á er einstaklega uppskrúfað og einhæft. Ég tengi til dæmis orðið „numera“ (nú á tímum) mjög við bækur Jans Guillous. Þegar ég kynntist konunni minni (sem er sænsk) sagði ég „numera“ í annarri hverri setningu sem ég reyndi að segja á stirðri og norskublandaðri sænsku (við bjuggum í Noregi þá) án þess að hafa hugmynd um hvort það passaði inn eða ekki. Það má segja að sænskur orðaforði minn hafi einskorðast við kafbáta, köfunarleiðangra, titla á rússneskum hershöfðingjum, kavíar og, síðast en ekki síst, frönskum vínum.

Innbrot og árgangavín
Í bókinni Tjuvarnas Marknad (um leynilögreglukonuna Evu Johnsén-Tanguy, sem er gift Pierre Tanguy, sem er vinur Eriks Pontis, sem er aftur á móti vinur Carls Hamiltons, svona flækjur eru í miklu uppáhaldi hjá Jan Guillou, því það er hægt að flétta inn matarboð með öllum þessum persónum í hinar ýmsu bækur) þylur ein sögupersónan upp hvaða vín er til í vínkjallaranum. Þetta eru allt voða fínir árgangar af dýru frönsku víni, en það vill svo til að þetta er vínið sem Jan Guillou á í vínkjallaranum sínum á sveitasetrinu sínu í Östhammar í Upplöndum. Um miðjan september brutust þjófar inn á sveitasetrið og stálu einum fimmtahluta af víninu hans Jans, árgöngunum sem eru nefndir í bókinni, og því sem hann saknar mest, öllum orðum Carls Hamiltons! Sá sem kemur upp um þjófana og skilar orðunum (Guillou er að sögn skítsama um vínið) er lofað fimmtíu þúsund sænskum krónum í fundarlaun.

Gunnar Hrafn Hrafnbjargarson

Heimildir:

Aftonbladet:
http://www.aftonbladet.se/nyheter/article1329711.ab
http://www.aftonbladet.se/nyheter/article166513.ab

Expressen:
http://www.expressen.se/nyheter/1.2172693/guillou-utlyser-beloning-for-stulna-medaljer

Wikipedia:
http://sv.wikipedia.org/wiki/Jan_Guillou

30. september 2010

Leyndarmál annarra

leyndarmal annarra Í fyrradag tók ein þeirra sem halda úti þessari síðu (hún Þórdís) við Bókmenntaverðlaunum Tómasar Guðmundssonar úr hendi borgarstjórans, Jóns Gnarr, fyrir ljóðabókina Leyndarmál annarra.  Bókin, sem hefur að geyma á þriðja tug ljóða og er skreytt að utan með mynstri af  veggfóðri sem er í eigu höfundarins, er komin úr prentsmiðju og er á leið í bókabúðir, en það er Bjartur sem gefur út.

Til þess að fagna útgáfunni verður efnt til útgáfugleði í Eymundsson á Skólavörðustíg á milli klukkan 17 og 18 föstudaginn 1. október. Þar mun höfundurinn árita bókina ef óskað er og lesa smávegis úr verkinu og boðið verður upp á léttar veitingar.

Allir velkomnir!

Ljóðaþerapía



Einn af fjölmörgum kostum við starf bókavarðarins er að óvæntum bókum á það til að skola upp í hendurnar á manni. Ég hefði aldrei rekist á bókina Poetry Therapy – sem er flokkuð í Deweynúmerið 615.8516 (nálarstungur, dáleiðslumeðferðir, trúarlækning, nudd) – ef ég hefði ekki verið við þau skyldustörf að raða inn bókum á svipuðum slóðum.

Poetry Therapy. The Use of Poetry in the Treatment of Emotional Disorders er greinasafn sem kom út árið 1969 í ritstjórn Jack J. Leedy og fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um notkun ljóða í sálrænni þerapíu. Ég hafði heyrt um tónlistarþerapíu og myndlistarþerapíu en þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri af fagmönnum sem nota ljóð sem meðferðartæki. Það er auðvitað útbreidd hugmynd að það sé á einhvern hátt læknandi gjörningur að tjá sig í ljóði, að þerapískt gildi ljóðsins fyrir skáldið skipti jafnvel töluverðu máli. Aðaláherslan í ljóðaþerapíu Jack Leedy og félaga er hins vegar ekki að sjúklingurinn sjálfur skrifi ljóð, þótt það komi einnig fyrir, heldur að geðlæknirinn eða sálgreinandinn noti ljóð sem tæki í meðferð sjúklingsins. Hann greinir þá erfiðleika sem sjúklingurinn á við að etja og velur síðan út frá þeirri greiningu hentugt ljóð sem hann kynnir fyrir sjúklingnum í von um að það hjálpi honum að takast á við vandann.

Þetta þótti mér við fyrstu sýn, og þykir eiginlega enn, fríkuð aðferð til að takast á við sálræn vandamál. Þótt ég kunni vel að meta ljóð og neiti því ekki að þau geti haft áhrif á andlegt ástand þess sem þeirra nýtur, svo sem með huggandi orðum eða sefandi ryþma, virkar þessi faglega og systematíska nálgun mjög fyndin. Greinarhöfundar bókarinnar hafa hins vegar alvöruþrungna tröllatrú á fyrirbærinu og ég bara verð að tilfæra þessa ræðu Theodors Reik, brautryðjanda í ljóðaþerapíu og fyrrum nemanda Sigmunds Freud, en hann segir um bókina: „Its publication should stimulate the establishment of poetry therapy in mental hygiene clinics, mental health centers, hospitals, guidance and counseling centers, self-help groups, rehabilitation centers, the private practice of psychotherapy, and training centers in psychiatry, psychology, social work, nursing occupational therapy, pastoral counseling, mental redardation, and penology. Inside the school system, I believe that the efficacy of poetry as therapy for disturbed youngsters may make a crucial contribution.“ (7)

Til sönnunar um lækningamátt ljóðsins segir hann söguna af ungum sjúklingi sínum sem hafði átt í erfiðu sambandi við móður sína – nema hvað – en brotnaði niður þegar læknirinn hafði yfir fyrir hann dramatískt ljóð um vanþakklátan son sem missir hjarta móður sinnar í göturykið, en hjartað spyr hann blíðlega: „Meiddirðu þig, barnið mitt?“ Sjúklingnum heilsaðist strax betur eftir þessa hreinsandi reynslu.

Aðrar sögur í bókinni eru í svipuðum dúr. Ég hef sérstakar mætur á fyrstu grein bókarinnar þar sem geðveik kona nær bata með stuðningi ljóðsins The Road Not Taken eftir Robert Frost – það er eitthvað svo stórkostlega og banalt viðeigandi í þessu samhengi, ég man langa enskutíma í menntaskóla þar sem við krufðum þetta ljóð til mergjar án mikils áhuga og svo kemur það allavega tvisvar fyrir í Simpsons, einu sinni þegar gömul kona fer með það í vídeóerfðaskránni sinni og einu sinni þegar Krusty the Clown er með Robert Frost í viðtali, hrópar „hey Frosty, want some SNOW, man?“ og sturtar yfir hann snjóskafli (Frost: „We discussed this and I said no.“). Jæja, þetta er útúrdúr, en allavega tekst geðlækninum með aðstoð ljóðsins að koma sjúklingnum í skilning um það að þegar maður tekur ákvarðanir fórnar maður alltaf þeim möguleika sem maður velur ekki, og voilà, hún er útskrifuð af spítalanum skömmu síðar.

Aðrar greinar í bókinni heita t.d. „The Universal Language of Rhythm“, „Poetry Therapy with Disturbed Adolescents“ og „Poetry, a Way to Fuller Awareness“. Aftast í bókinni er handhægur listi yfir ljóð sem henta til þerapíu, enda vill ritstjórinn meina að sálgreinandinn þurfi í raun ekki meira en fimmtíu til hundrað ljóð til að eiga við flest þau vandamál sem fyrir hann eru lögð. Á listanum eru ljóð eftir ýmsar kanónur á borð við William Blake, e.e. cummings, Emily Dickinson, Kahlil Gibran, Hómer, Gustav Mahler og Walt Whitman.

Poetry Therapy er ein af þeim bókum sem vekja fleiri spurningar en þær svara. Virkar ljóðaþerapía? Hvert er hlutverk hins listræna í þessu þerapíska samhengi? Væri hægt að staðfæra ljóðaþerapíuna á Íslandi? Hvaða geðveilu gæti Tíminn og vatnið læknað? (Já, ekki bara spurningar heldur ótal ljóðræna fimmaurabrandara.)

Það er annar útúrdúr, en ég má til með að minnast á sænska skáldið UKON, sem var einn gesta á ljóðahátíð Nýhils í fyrra. Hann starfar sem sálgreinir meðfram skáldskapnum og mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds af tilhugsuninni um að vera sjúklingur hans eftir að hafa heyrt hann lesa (frábærlega) upp á hátíðinni. Ég finn ekki upplesturinn sem ég var að hugsa um, Eiríkur Örn Norðdahl spilaði hann einu sinni í innslagi í Seiði og hélogum, en þetta gefur kannski einhverja hugmynd um það hversu lítil grið manni eru gefin hjá þessu snilldarskáldi: http://www.norddahl.org/2009/01/ulf-karl-olov-nilsson/ Mér finnst afar leiðinlegt að hafa ekki verið búin að rekast á bókina Poetry Therapy þegar hann var hérna, það hefði verið mjög áhugavert að heyra skoðun sálgreinandans og ljóðskáldsins á ljóðlist sem þerapíu.

Kristín Svava