30. janúar 2012
Að ala niður börn
„Margir smábarnaforeldrar (þar á meðal ég og eiginkona mín) höfum áhuga á uppeldisaðferðum Önnu Wahlgren. Ein spurning sem mig myndi langa að fá svar við er hvernig hennar eigin börnum hefur vegnað? Hún á níu stykki ef mig misminnir ekki. Urðu þau öll að sjálfstæðum, andlega heilbrigðum einstaklingum eða hafa þau borið einhvern skaða af aðferðum móður sinnar?“
Þannig spyr ónefndur sænskur faðir í hversdagslegu netspjalli í byrjun ársins 2010. Nú tveimur árum síðar hefur hann væntanlega fengið svörin sem hann óskaði eftir. Fyrir örfáum vikum kom nefnilega út bókin Felicia försvann sem eru minningar Feliciu Feldt, fullorðinnar dóttur umræddrar Önnu Wahlgren. Og dóttirin segir sínar farir ekki sléttar.
En áður en við rýnum í þá bók er rétt að bakka nokkur skref og gera grein fyrir Önnu þessari Wahlgren. Anna Wahlgren gaf út Barnaboken árið 1983, doðrant með undirtitilinn „umönnun og uppeldi barna frá 0-16 ára.“ Í bókinni setur hún fram kenningar sem hafa verið umdeildar allar götur síðan, sumir fullyrða að þær hafi bjargað lífi þeirra á þessum fyrstu erfiðu árum í foreldrahlutverkinu (þeirra á meðal er Camilla Läckberg sem lofaði aðferðir Önnu til að mynda í hástert í Steinsmiðnum), aðrir fussa og sveia. Í seinni tíð hefur Anna Wahlgren einbeitt sér að svefnvandamálum og gefið út bók um aðferðir til að fá börn til að sofa sjálf alla nóttina. Þau ráð hafa verið jafnumdeild og annað úr hennar ranni og hefur hún meðal annars verið harðlega gagnrýnd fyrir að fyrirskipa að öll börn eigi að sofa á maganum – nokkuð sem almennt hefur verið mælt gegn frá því í upphafi tíunda áratugarins þegar rannsóknir sýndu að koma mætti í veg fyrir stórt hlutfall vöggudauða með því að láta ungabörn sofa á bakinu. Gagnrýnendum Önnu Wahlgren þykja uppeldisaðferðir hennar stífar og telja þær frekar miðast að því að skapa foreldrunum rými en að hugsa um velferð barnsins. Þetta þykjast margir líka hafa lesið út úr sjálfsævisögu hennar í þremur hlutum, Mommo, sem kom út 1995-1997 þar sem hún ku greina frá bæði frjálslegum ástarmálum sínum og skemmtanalífi. Sjálf myndi Anna Wahlgren væntanlega frekar lýsa kenningum sínum á þann hátt að þær miði að því að móta sterka einstaklinga úr börnunum, leyfa þeim að taka ábyrgð en fría þau frá samviskubiti og skapa samband milli barna og foreldra sem einkennist af heilindum. Og einhvern veginn þannig er sú ímynd sem hún hefur gefið af sér og börnunum sínum átta (hún missti einn son ungan að árum), að þau hafi verið einn stór, samheldinn og hamingjusamur hópur þar sem allir hjálpuðust að við heimilishaldið og hver studdi annan. Þeirri mynd var víst líka haldið á lofti af fjölmiðlum í kringum útgáfu Barnaboken. Allt þangað til nú þegar þriðja barnið, Felicia, stígur fram og segir sögu sína.
28. janúar 2012
Hættuleg ástarsambönd og öruggar tilfinningasveiflur
Sleikur á bókarkápu. |
Fyrir um það bil ári síðan las ég Les Liaisons dangereuses eftir Pierre Choderlos de Laclos, en hún kom út árið 1782. Skáldsagan er í bréfaformi og meginviðfangsefni bréfanna eru mál sem tengjast tilfinningum og kynlífi. Söguþráðurinn er í raun of flókinn til að það borgi sig að reyna að gera honum almennilega skil hér. Sagan er þó að miklu leyti drifin áfram af persónunum Marquise de Merteuil og vini hennar Vicomte de Valmont, en þau eru bæði mjög upptekin af því að vinna kynferðislega „sigra“ og monta sig svo af því hvort við annað í bréfum sín á milli. Þau keppast um það að stjórna fólki og hafa því mikil áhrif á líf hinna persónanna án þess að þær átti sig á því. Bréfin sem fara milli sögupersóna eru afar persónuleg, en þar sem þær lifa flestar virku og spennandi ástarlífi, verða bréfin gjarnan að játningum á öllu sem snertir kynlíf þeirra – tilfinningum, athöfnum, hugsunum og þrám. Því mætti segja að nautnin sem persónur upplifa felist í rauninni fremur í því að tala um eða játa gjörðir, heldur en í gjörðunum sjálfum. (En er samfélag okkar ekki að mörgu leyti þannig? Endalausar lífsreynslusögur og persónulegar játningar út um allt?)
27. janúar 2012
Óspennandi ævisaga og heimspeki fyrir byrjendur
Þótt ég hafi ekki lesið margar ævisögur um dagana hef ég rekist á þó nokkrar skemmtilegar, til dæmis í bókmenntafræðinámskeiði í HÍ um árið þar sem fókusinn var á sjálfsævisögum innflytjenda og við lásum m.a. ævisögur Edwards Said og Vladimirs Nabokov. Svo fannst mér Strange Fascination, ævisaga Davids Bowie eftir David Buckley, vera æðisleg og ekki bara afþví ég er Bowie-nött heldur er hún virkilega vel unnin og skemmtileg.
Sumarið 2005 gaf vinkona mín mér ævisögu Kate Bush í afmælisgjöf; bók sem þá var nýútkomin, skrásett af Rob Jovanovic og heitir einfaldlega Kate Bush: The Biography. Ég er mikill aðdáandi tónlistar Kate Bush, finnst hún spennandi karakter og hlakkaði til að lesa ævisöguna við tækifæri. Síðan hefur bókin fylgt mér til Kaupmannahafnar, á Seyðisfjörð og nú síðast til Finnlands, ávallt með millilendingu í Reykjavík og hefur þjónað hlutverki einskonar öryggisbita í bókahillunni: ég átti þó alltaf eitthvað spennandi ólesið.
26. janúar 2012
Fantagóðar fantasíur
Ursula K. Le Guin
© Marian Wood Kolisch |
25. janúar 2012
Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011
Rétt í þessu var tilkynnt á Bessastöðum hvaða bækur hlytu Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011. Í flokki fagurbókmennta hlaut Guðrún Eva Mínervudóttir verðlaunin fyrir skáldsögu sína Allt með kossi vekur en í flokki fræðibóka og bóka almenns efnis varð Páll Björnsson hlutskarpastur fyrir bók sína um Jón Sigurðsson, Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar, en um báðar þessar bækur hefur verið fjallað á síðunni. Druslubókadömur óska Guðrúnu Evu og Páli hjartanlega til hamingju með verðlaunin!
24. janúar 2012
You're born naked and the rest is drag
Nostalgía á Súfistanum
23. janúar 2012
Þegar sál mín þreytist, leggst hún til hvíldar á rósarblaði....
Ég fékk undurfagra bók, gefna út í Svíþjóð, eftir Björn Ranelid sem ég hafði aldrei heyrt um og ákvað því að byrja á því að kynna mér manninn. Í fyrsta lagi kom í ljós að við eigum sama afmælisdag, Björn Ranelid er nákvæmlega 20 árum eldri en ég. Þetta getur varla verið tilviljun. Í ljós kemur einnig að Ranelid þótti efnilegur knattspyrnumaður á sínum yngri árum en ákvað frekar að gerast gríðarlega afkastamikill á ritvellinum, hann hefur sent frá sér 20 skáldsögur síðan hann byrjaði að skrifa árið 1983 og skrifað mörg hunduð blaðagreinar og er samkvæmt heimildum mikið fyrir að halda ræður við ýmis tilefni. Eitthvað virðist vera varið í skáldskapinn, hann hefur að minnsta kosti fengið ýmsar viðurkenningar á þeim vettvangi, meðal annars August priset fyrir skáldsöguna Synden árið 1994.
En í umfjöllunum um hann er líka iðulega tekið fram að hann sé býsna umdeildur. Hann er afar kristinn og víst fullur efasemda þegar kemur að þróunarkenningunni. Hann þykir líka hafa mjög svo sérstakan og afgerandi stíl í skrifum sínum, talað er um “det ranelidska språket”, þ.e. að hann hafi í raun búið til sitt eigið tungumál. Sjálfur virðist hann vera meðvitaður um þetta og lýsir eigin tungumáli einhvern veginn á þá leið að það sé afar ljóðrænt og hlaðið myndhverfingum, ég er engu nær og þið eflaust ekki heldur enda gæti lýsingin átt við meiri hluta skáldskapar, svona almennt séð. En sumsé, stíllinn er víst auðþekkjanlegur.
Ófreskjur
22. janúar 2012
Homo non sapiens: mannlýsingar
„Robbins is about fifty, with the face of a Cockney informer, the archetypal “Copper´s Nark.“ He has a knack of pitching his whiny voice directly into your consciousness. No external noise drowns him out. Robbins looks like some unsuccessful species of Homo non sapiens, blackmailing the human race with his existence.
“Remember me? I´m the boy you left back there with the lemurs and the baboons. I´m not equipped for survival like some people.““
(Úr Interzone eftir William S. Burroughs, blaðsíðu 51.)Munið þið eftir einhverjum góðum mannlýsingum?
21. janúar 2012
Hjálp, staðalmyndir kynjanna! Hjálp!
Til allrar hamingju eru innlend sem erlendfyrirtæki dugleg við að minna börn á það að kynferði þeirra sé mikilvægasta breytan í lífinu |
20. janúar 2012
Er bókaþjóðin varla stautfær?
Sjálfsprottinn hópur rithöfunda stendur að undirbúningi ráðstefnunnar og það er von þeirra að hún marki upphaf að þjóðarátaki um eflingu lesturs og vitundarvakningu um læsi sem lífsgæði. Hópurinn skorar á stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki, skóla og heimili um allt land að leggja sitt af mörkum til að snúa þróuninni við – það dugar ekkert minna – velferð og menning bókmenntaþjóðar er í húfi!
Dagskrá:
Ljótikór syngur.
Ávarp – Jón Kalman Stefánsson, rithöfundur.
Lestur er málið: Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor og forstöðumaður Rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Læsi er skilningur: Daníel Andri Halldórsson, nemi í 10. bekk í Giljaskóla á Akureyri.
Svavar Knútur syngur og leikur.
kaffihlé
Lestrarhestamennska - heillandi fjölskyldusport: Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og lektor við Háskólann á Akureyri.
Lestur er bæði yndisleg og uppbyggileg iðja: Guðmundur Engilbertsson, lektor kennaradeild og sérfræðingur á miðstöð skólaþróunar við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.
Dagskráin hefst kl. 14:00 og lýkur um kl. 16:00.
Dagskrárstjóri er Eva María Jónsdóttir
Aðgangur ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
19. janúar 2012
Tvær franskar bækur
Hlutirnir fjallar um par á þrítugsaldri, Jérôme og Sylvie, sem búa í París og starfa við markaðsrannsóknir. Bókin lýsir einhvers konar hamingjuleit þeirra. Þau eiga ekki mikla peninga og eru upptekin af því sem þau geta ekki veitt sér þess vegna, þau þrá að búa við velsæld og ríkidæmi en spyrna samt við fótum þegar þjóðfélagið vill beina þeim inn í heim hinna fullorðnu; ábyrgðarstöðu í starfi, fjölskyldulíf, bíl og íbúð. Þau vilja ráða sér sjálf en virðast ekki hafa neina hugmynd um hvað þau vilja gera við það frelsi. Í einhvers konar flóttatilraun fara þau til Túnis og dvelja þar um tíma, en sama stefnuleysið og ráðleysið hvílir yfir dvöl þeirra þar. Það er ekki skýr söguþráður í bókinni og ekki persónusköpun sem slík, Jérôme og Sylvie koma fram sem eining frekar en tveir sjálfstæðir einstaklingar.
Ég náði ekki alveg sambandi við þessa bók. Við lesturinn varð mér hugsað til sumra bókanna sem maður var látinn lesa í skóla, höfðu verið klassíkerar á sinni tíð og verið valdar til kennslu vegna þess að aðalsöguhetjarnir voru ungt fólk, en náðu ekki spontant sambandi út á það eitt. Mér detta í hug Catcher in the Rye eftir J.D. Salinger og Den kroniske uskyld eftir Klaus Rifbjerg. Ég myndi sennilega kunna betur að meta þessar bækur ef ég læsi þær í dag en þær náðu engan veginn til mín þegar ég var í skóla, sérstaklega ekki sú síðarnefnda, enda uppnefndum við hana Den kroniske kedelighed af alkunnri kímnigáfu menntaskólanema. Ég varð mjög hissa þegar ég komst að því nokkrum árum síðar að Klaus Rifbjerg væri nokkuð hátt skrifaður höfundur í Danmörku og þætti jafnvel skemmtilegur.
Nýjasta tækni og vísindi
Ég er ekki sú framsæknasta þegar kemur að tækninýjungum. Því til staðfestingar get ég nefnt að á dögunum keypti ég mér rauðan skjalaskáp sem ég hyggst nota til þess að flokka ljósrit og annað efni sem ég þarf að hafa tiltækt. Á meðan ég leitaði logandi ljósi á fornsölum borgarinnar að hentugum skjalaskáp voru flestir vinir mínir að kaupa sér spjaldtölvu og skanna sitt efni til stafrænnar varðveislu.
Sá gjörningur að kaupa sér skjalaskáp til hefðbundinnar notkunar er reyndar ekki talinn svo undarlegur hér í Bandaríkjunum. Hér er líka talið mjög eðlilegt að senda fax - já og skrifa ávísanir. Á Íslandi ligggja faxtæki og ávísanahefti á öskuhaugum sögunnar og skjalaskápar eru orðnir það framandlegir að hipp og kúl fólk stillir þeim upp við hlið hannaðra húsgagna í stofum sínum.
Fyrir nokkru síðan heyri ég af dulítilli nýjung sem gæti mögulega orðið til þess að ég gengist stafrænu byltingunni á hönd. Það er víst til hugbúnaður sem gerir manni kleyft að skanna strikamerki á bókum inn í snjallsíma og flytja allar bókfræðilegar upplýsingar þannig með einu handtaki inn sérsniðin forrit til þess að halda utan um heimildaskrár! Of gott til að vera satt? Já, það finnst mér og líklega eru einhverjir gallar á þessari gjöf Njarðar. Engu að síður er þetta eitthvað sem ég ætla að skoða betur. Það gæti þó tekið mig nokkur ár....
18. janúar 2012
Hlaðvarp Ríkisútvarpsins
Á hlaðvarpssíðunni er bæði hægt að sækja þætti sem eru í reglulegri dagskrá, til dæmis Seið og hélog, Skorninga og Víðsjá, og þætti sem gerðir hafa verið um afmarkað efni, svo sem aldarminningu um Tolstoj, upplestur á Svartfugli Gunnars Gunnarssonar og frábæran þátt Hauks Ingvarssonar um Maístjörnu Halldórs Laxness, svo fátt eitt sé nefnt. Þótt þeir séu ekki strangt til tekið bókmenntaþættir má ég líka til með að mæla með Drottningu hundadaganna, sem Pétur Gunnarsson gerði, og Prússar: Ris og fall járnríkis, sem Hjálmar Sveinsson gerði.
Þrátt fyrir óþol mitt gagnvart klassískri tónlist verð ég yfirleitt óskaplega þakklát fyrir dagskrárgerðarfólk Ríkisútvarpsins þegar ég slysast inn á aðrar stöðvar. Svona er maður forpokaður, að verða ómótt yfir spjallþáttunum á Bylgjunni og ekki orðinn þrítugur.
16. janúar 2012
Lítið kver um lítið mein
15. janúar 2012
Kjúklingasæmandi líf
„Í flestum nágrannalöndum okkar eru kjúklingar hversdagsmatur, en svo er ekki hér, vegna þess hversu dýrir þeir eru. Kjúklingarnir hafa orðið óþyrmilega fyrir barðinu á vélvæðingunni, því algengt er, að þeir séu ræktaðir innanhúss og þá gjarnan í búrum, aldir á sérstöku fæði. Þessir kjúklingar lifa engu, sem getur kallazt kjúklingasæmandi líf, og verða afar bragðdaufir. Ég er ekki viss um, að við höfum náð jafn langt í vélvæðingunni, en sjálfsagt er að hafa augun hjá sér og forvitnast um æfiskeið kjúklinganna, þegar við kaupum þá.“
Bókin kom út árið 1978. Þótt móðir mín haldi því fram að höfundi hafi fyrst og fremst verið umhugað um bragðið af kjúklingunum, finnst mér alveg stórkostlegt að þetta hafi ratað í matreiðslubók fyrir rúmum þrjátíu árum.
14. janúar 2012
Bill Bryson gægist inn í skúmaskot heimilisins
Bill Bryson er jafndúllulegur og pandabjörn |
Á kassanum í Bónus
Þegar sagan hefst er Diljá í þeim sporum að hún er að hefja vinnu við lokaverkefnið sitt frá Listaháskólanum. Hún fær þá hugmynd að verkefnið hennar verði „gjörningur“sem felist í því að hún fái sér vinnu á kassa í Bónus og að kvikmynd af henni í starfi verði í beinni útsendingu á listsýningu. Þetta er í raun frábær hugmynd. Eitt það allra hversdagslegasta sem maður getur hugsað sér, kassinn í Bónus, tekinn úr samhengi og gerður að listaverki. Hversu mikið „meta“ eitthvað getur það orðið að fara á listsýningu og fylgjast með röðinni á kassanum í Bónus yfirfærðri í algjörlega nýtt umhverfi. Allavega, Diljá finnst þetta fín hugmynd, skólinn er til í að leyfa henni að prófa og þannig fer allt af stað.
13. janúar 2012
Hrokafullir mannhatarar með hríðskotabyssur og napalm
Fjandkona Finnlands, saga Eistlands og kýr Stalíns
Ég las Hreinsun á sínum tíma, þó nægilega seint til að hæpið kringum bókina hefði glætt mér þónokkrar væntingar (og reyndar eftir að hafa séð leikritið, á sænsku). Ég varð ekki alveg jafn hrifin og gagnrýnendurnir, eins og kannski er hætt við þegar verk hefur verið hafið svo til skýjanna. Þetta er um margt merkileg bók og ágætis skáldsaga, efnið mjög áhugavert — og reyndar grunar mig að gagnrýnendum og úthlutunarnefndum hafi einmitt verið það ofarlega í huga; hvað umfjöllunarefnið er góðra gjalda vert. Það er það svo sannarlega — saga Sovét-Eistlands hefur legið í þagnargildi þar til tiltölulega nýlega og Hreinsun var þarft og gott innlegg í þá umræðu (og í sjálfu sér er athyglisvert að leikverkið kom ekki á svið í Eistlandi fyrr en 2010) — en kannski ekki þar með sagt að hún sé alveg stórfenglega framúrskarandi skáldsaga. Mér fannst leikritið líka áhrifameira en skáldsagan.
Nú er ég samt aðallega að hugsa um bók sem ég hef nýlokið við, og fannst mögnuð, en það er fyrsta skáldsaga Oksanen; Kýr Stalíns (2003). Hún kom út á íslensku núna fyrir jólin, einnig í þýðingu Sigurðar Karlssonar.
12. janúar 2012
Sokkar sem rokka
11. janúar 2012
Af hinum og þessum bókum, en aðallega einni
Ég fékk nokkrar bækur í jólagjöf, þeirra á meðal Nöfn Íslendinga (sem ég hef þó ekki enn lesið spjaldanna á milli, ótrúlegt en satt), svo fékk ég ógeðslega skemmtilega myndasögu sem ég ætla að blogga um seinna og Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur sem mér fannst alveg frábær.
Síðast í fyrradag kláraði ég svo Hálendið eftir Steinar Braga og var bara helvíti hrifin af henni, en Guðrún Elsa fjallaði einmitt um hana í þessum pistli, sem birtist hér fyrir jól. Ég hef svosem ekki miklu við hennar fínu umfjöllun að bæta, en get ekki annað en nefnt að mig langaði svolítið í aaaðeins meira konkret endi. Ég nefni það vegna þess að a.m.k. tveir hafa nýverið gúgglað „Steinar Bragi+Hálendið+endir“ og lent hérna á Druslubókasíðunni. Það tel ég bera vitni um að ég sé ekki ein um að hafa viljað fá aðeins haldbærari upplýsingar svona rétt undir lokin, og það að enn annar lesandi síðunnar hafi gúgglað „Steinar Bragi netfang“ lít ég jafnframt á sem sönnun þess að einhver lesandi sé framfærnari en ég og hyggist krefja höfundinn sjálfan um svör. Hinn sami lesandi má svo gjarnan áframsenda þau á mig, fái beiðnin hljómgrunn.
10. janúar 2012
Ef Einar og Gyrðir leggðu í púkk ...
8. janúar 2012
Tvær alvörugefnar konur
Sögur af Eyrinni
7. janúar 2012
Tíminn er hrotti: jólin gerð upp.
6. janúar 2012
Hlaðvarpastyrkur
5. janúar 2012
Erótík liðinna jóla
Að loknum jólum fór ég að svipast um eftir lesefni og rakst þá á bók sem ég fékk í jólagjöf í fyrra og hafði ekki náð (eða nennt) að lesa. Um er að ræða lítið ljóðasafn eftir bandaríska skáldið E.E. Cummings (1894-1962), Erotic Poems. Ég hef lengi ætlað mér að lesa meira af bandarískum tuttugustu aldar bókmenntum. Þegar ég var yngri var ég hrifin af Hemingway, las Steinbeck og elskaði Brautigan meira en aðra menn. Hin síðari ár hef ég ekki lagt lag mitt við bandarísk skáld af neinu ráði. Á liðnu ári bætti ég reyndar nokkuð úr og las nokkrar skáldsögur en ljóð hef ég lítið kynnt mér.
E.E. Cummings var mjög vinsæll rithöfundur meðan hann lifði, líklega eru fá bandarísk ljóðskáld sem notið hafa jafn mikillar hylli í lifanda lífi, nema ef vera skyldi Robert Frost. Cummings orti nærri þrjú þúsund ljóð, skrifaði sjálfsævisögu, smásögur, nokkur leikrit og ritgerðir – auk þess sem hann var flinkur teiknari og eftir hann liggur töluvert af myndlist. Hann var barnungur þegar hann ákvað að gerast rithöfundur. Hann æfði sig vel og öll sín unglingsár skrifaði hann eitt ljóð á dag. Svo fór hann í fínan háskóla og las þar verk margra framsækinna höfunda sem höfðu mikil áhrif á hann, t.d. Gertrude Stein. Cummings gaf út fyrstu ljóðabókina sína árið 1923 og bar hún titilinn Tulips and Chimneys. Árið áður kom út eftir hann sjálfsævisögulega skáldsagan The Enormous Room. Báðar bækurnar þóttu nýstárlegar og hlutu góðar viðtökur gagnrýnenda sem hvöttu þennan unga mann óspart áfram. Yrkisefnin voru að stærstum hluta ást, nánd og kynlíf. Pólitískur var hann ekki á sínum yngri árum en eftir heimsókn til Sovétríkjanna í upphafi fjórða áratugarins hallaði hann sér nokkuð til hægri, gekk í Repúblikanaflokkinn og studdi McCarthy í einu og öllu. Ég er ekki viss um að mér hefði líkað vel við Cummings sem manneskju enda er það algjört aukaatriði. Sum þessara erótísku ljóða hugnast mér hinsvegar ágætlega. Þetta eru kannski ekki sérlega frumleg, mörg þeirra eru sonnettur og ég efast um að formlega séð hafi þau verið sérlega framsækin þegar þau voru skrifuð þó á því séu undantekningar. Einhversstaðar las ég að Cummings hefði sætt töluverðri gagnrýni fyrir að staðna og halda sig fast við þann stíl sem hann hafði skapað sér í stað þess að leita nýrra leiða og að hann hefði lítið þróast sem höfundur í heil þrjátíu ár.
4. janúar 2012
Það sem kossinn vekur
3. janúar 2012
Dramb og hroki undir hæl feðraveldisins
Ýmsar skemmtilegar bækur hafa verið skrifaðar sem fjalla um þennan tíma (og hér er „þessi tími“ dálítið vítt skilgreindur eins og sjá má af framhaldinu). Þar má til dæmis nefna Horfinn heimur. Árið 1900 í nærmynd eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur, þar sem hún notast við dagblöð frá aldamótaárinu, og ævisöguna góðu Bríet, Héðinn, Valdimar og Laufey eftir Matthías Viðar Sæmundsson (en í hana sótti ég titilinn á fyrstu ljóðabókinni minni og á Matthíasi því mikið að þakka). Bæði eru þau frábærir pennar og kunna að draga upp stemmningsríkar fortíðarmyndir þar sem skemmtilegar sögur og dýpri pælingar um samfélagið eru í góðu jafnvægi.
2. janúar 2012
Jólalesningin
Söguþráður Eldvittnet er einhvern veginn svona: Á áfangaheimili fyrir vandræðastúlkur finnst einn vistmanna myrtur á hrottafengin hátt. Önnur stúlka virðist hafa horfið af heimilinu á nákvæmlega sama tíma og er því óhjákvæmilega grunuð um glæpinn. Inn í málin blandast meðal annars einmana en forrík yfirstéttardama og óhamingjusöm falsspákona og yfir öllu saman vakir svo eins og vanalega hinn finnskættaði lögreglumaður Joona Linna.
1. janúar 2012
Bókasöfn á gististöðum, 11. þáttur: Singapúr og Saigon
Þess háttar röskun á hversdagsleikanum gefur þó færi á að bæta við greinaflokkinn um bókasöfn á gististöðum.
Á tveimur af fjórum gististöðum sem undirrituð druslubókadama hefur dvalið á undanfarna viku hefur mátt finna bókahillur, býsna ólíkar.