30. janúar 2012

Að ala niður börn


„Margir smábarnaforeldrar (þar á meðal ég og eiginkona mín) höfum áhuga á uppeldisaðferðum Önnu Wahlgren. Ein spurning sem mig myndi langa að fá svar við er hvernig hennar eigin börnum hefur vegnað? Hún á níu stykki ef mig misminnir ekki. Urðu þau öll að sjálfstæðum, andlega heilbrigðum einstaklingum eða hafa þau borið einhvern skaða af aðferðum móður sinnar?“
Þannig spyr ónefndur sænskur faðir í hversdagslegu netspjalli í byrjun ársins 2010. Nú tveimur árum síðar hefur hann væntanlega fengið svörin sem hann óskaði eftir. Fyrir örfáum vikum kom nefnilega út bókin Felicia försvann sem eru minningar Feliciu Feldt, fullorðinnar dóttur umræddrar Önnu Wahlgren. Og dóttirin segir sínar farir ekki sléttar.
En áður en við rýnum í þá bók er rétt að bakka nokkur skref og gera grein fyrir Önnu þessari Wahlgren. Anna Wahlgren gaf út Barnaboken árið 1983, doðrant með undirtitilinn „umönnun og uppeldi barna frá 0-16 ára.“ Í bókinni setur hún fram kenningar sem hafa verið umdeildar allar götur síðan, sumir fullyrða að þær hafi bjargað lífi þeirra á þessum fyrstu erfiðu árum í foreldrahlutverkinu (þeirra á meðal er Camilla Läckberg sem lofaði aðferðir Önnu til að mynda í hástert í Steinsmiðnum), aðrir fussa og sveia. Í seinni tíð hefur Anna Wahlgren einbeitt sér að svefnvandamálum og gefið út bók um aðferðir til að fá börn til að sofa sjálf alla nóttina. Þau ráð hafa verið jafnumdeild og annað úr hennar ranni og hefur hún meðal annars verið harðlega gagnrýnd fyrir að fyrirskipa að öll börn eigi að sofa á maganum – nokkuð sem almennt hefur verið mælt gegn frá því í upphafi tíunda áratugarins þegar rannsóknir sýndu að koma mætti í veg fyrir stórt hlutfall vöggudauða með því að láta ungabörn sofa á bakinu. Gagnrýnendum Önnu Wahlgren þykja uppeldisaðferðir hennar stífar og telja þær frekar miðast að því að skapa foreldrunum rými en að hugsa um velferð barnsins. Þetta þykjast margir líka hafa lesið út úr sjálfsævisögu hennar í þremur hlutum, Mommo, sem kom út 1995-1997 þar sem hún ku greina frá bæði frjálslegum ástarmálum sínum og skemmtanalífi. Sjálf myndi Anna Wahlgren væntanlega frekar lýsa kenningum sínum á þann hátt að þær miði að því að móta sterka einstaklinga úr börnunum, leyfa þeim að taka ábyrgð en fría þau frá samviskubiti og skapa samband milli barna og foreldra sem einkennist af heilindum. Og einhvern veginn þannig er sú ímynd sem hún hefur gefið af sér og börnunum sínum átta (hún missti einn son ungan að árum), að þau hafi verið einn stór, samheldinn og hamingjusamur hópur þar sem allir hjálpuðust að við heimilishaldið og hver studdi annan. Þeirri mynd var víst líka haldið á lofti af fjölmiðlum í kringum útgáfu Barnaboken. Allt þangað til nú þegar þriðja barnið, Felicia, stígur fram og segir sögu sína.

28. janúar 2012

Hættuleg ástarsambönd og öruggar tilfinningasveiflur

Sleikur á bókarkápu.
Með hverju árinu sem líður sannfærist ég enn frekar um að best sé að halda lífi sínu eins lítið dramatísku og mögulegt er. Eftir því sem dregur úr dramatíkinni í lífi manns hefur maður líka enn meiri tíma til að lesa dramatískar bækur um tilfinningaflækjur og almennt vesen hjá skálduðum persónum. Við lesturinn fær maður að upplifa tilfinningasveiflurnar án þess að nokkuð hafi raunverulega gerst í manns eigin lífi. Það finnst mér stórkostlegt. Og svona þegar ég pæli í því, þá er hlýtur þetta að vera einn megintilgangur skáldskapar: að leyfa manni að upplifa allan fjandann án þess að þurfa að taka öllum afleiðingunum. Maður þarf ekki einu sinni að fara fram úr rúminu.

Fyrir um það bil ári síðan las ég Les Liaisons dangereuses eftir Pierre Choderlos de Laclos, en hún kom út árið 1782. Skáldsagan er í bréfaformi og meginviðfangsefni bréfanna eru mál sem tengjast tilfinningum og kynlífi. Söguþráðurinn er í raun of flókinn til að það borgi sig að reyna að gera honum almennilega skil hér. Sagan er þó að miklu leyti drifin áfram af persónunum Marquise de Merteuil og vini hennar Vicomte de Valmont, en þau eru bæði mjög upptekin af því að vinna kynferðislega „sigra“ og monta sig svo af því hvort við annað í bréfum sín á milli. Þau keppast um það að stjórna fólki og hafa því mikil áhrif á líf hinna persónanna án þess að þær átti sig á því. Bréfin sem fara milli sögupersóna eru afar persónuleg, en þar sem þær lifa flestar virku og spennandi ástarlífi, verða bréfin gjarnan að játningum á öllu sem snertir kynlíf þeirra – tilfinningum, athöfnum, hugsunum og þrám. Því mætti segja að nautnin sem persónur upplifa felist í rauninni fremur í því að tala um eða játa gjörðir, heldur en í gjörðunum sjálfum. (En er samfélag okkar ekki að mörgu leyti þannig? Endalausar lífsreynslusögur og persónulegar játningar út um allt?)

27. janúar 2012

Óspennandi ævisaga og heimspeki fyrir byrjendur

Þær bækur sem ég hef lesið í janúar (ýmist að hluta eða í heild) eiga það sameiginlegt að vera ekki skáldverk. Í það minnsta ekki strangt til tekið, því auðvitað taka höfundar sér ýmis skáldaleyfi svo lengi sem ekki er um hreinan fræðitexta að ræða, og engin umræddra bóka fellur svosem í þann flokk heldur. (Á þeim nótum liggur beint við að vísa á áhugaverð skoðanaskipti Guðrúnar Jónsdóttur og Páls Valssonar á síðum Fréttablaðsins í liðinni viku, um nýjustu skáldsögu Hallgríms Helgasonar og mörk ævisagnaritunar og skáldskapar.)

Þótt ég hafi ekki lesið margar ævisögur um dagana hef ég rekist á þó nokkrar skemmtilegar, til dæmis í bókmenntafræðinámskeiði í HÍ um árið þar sem fókusinn var á sjálfsævisögum innflytjenda og við lásum m.a. ævisögur Edwards Said og Vladimirs Nabokov. Svo fannst mér Strange Fascination, ævisaga Davids Bowie eftir David Buckley, vera æðisleg og ekki bara afþví ég er Bowie-nött heldur er hún virkilega vel unnin og skemmtileg.

Sumarið 2005 gaf vinkona mín mér ævisögu Kate Bush í afmælisgjöf; bók sem þá var nýútkomin, skrásett af Rob Jovanovic og heitir einfaldlega Kate Bush: The Biography. Ég er mikill aðdáandi tónlistar Kate Bush, finnst hún spennandi karakter og hlakkaði til að lesa ævisöguna við tækifæri. Síðan hefur bókin fylgt mér til Kaupmannahafnar, á Seyðisfjörð og nú síðast til Finnlands, ávallt með millilendingu í Reykjavík og hefur þjónað hlutverki einskonar öryggisbita í bókahillunni: ég átti þó alltaf eitthvað spennandi ólesið.

26. janúar 2012

Fantagóðar fantasíur

Ursula K. Le Guin          
© Marian Wood Kolisch
Þegar ég var barn var ég fastagestur á Borgarbókasafninu. Nokkrum sinnum í mánuði rogaðist ég heim með úttroðinn bókapoka og renndi mér þannig gegnum megnið af barnadeildinni. Sumar bækur hélt ég meira upp á en aðrar og fékk þær lánaðar aftur og aftur. Sú sem ég fékk einna oftast lánaða á aldrinum 10-12 ára hét Galdramaðurinn, íslensk þýðing á A Wizard from Earthsea eftir Ursulu K. Le Guin. Þessa bók gat ég lesið óendanlega oft, jafnvel þótt ég nötraði af hræðslu yfir lýsingunum á afleiðingum þess svartagaldurs sem söguhetjunni hafði orðið á að fremja, enda var ég með eindæmum myrkfælin sem barn og langt fram á fullorðinsár. Bókin er um strák, og síðar ungan mann, sem er göldróttur, kemst í læri hjá galdrameisturum og slysast í ofmetnaði til að leysa úr læðingi öfl sem hann fyrst um sinn ræður ekki við en þarf á endanum að sigrast á. Leiðin til þess er jafnframt braut þroska. Það eru auðvitað til ýmsar fantasíubókmenntir um göldrótta krakka en Le Guin skapar þarna veröld sem er eitthvað svo, tja, raunveruleg og sögupersónurnar eru eitthvað svo mannlegar. Heimurinn sem um ræðir er eyjaklasi og fólkið glímir við náttúruöflin og þarf að kljást við alls konar hversdagslega hluti meðfram galdrakúnstunum.

25. janúar 2012

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011


Rétt í þessu var tilkynnt á Bessastöðum hvaða bækur hlytu Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011. Í flokki fagurbókmennta hlaut Guðrún Eva Mínervudóttir verðlaunin fyrir skáldsögu sína Allt með kossi vekur en í flokki fræðibóka og bóka almenns efnis varð Páll Björnsson hlutskarpastur fyrir bók sína um Jón Sigurðsson, Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar, en um báðar þessar bækur hefur verið fjallað á síðunni. Druslubókadömur óska Guðrúnu Evu og Páli hjartanlega til hamingju með verðlaunin!

24. janúar 2012

You're born naked and the rest is drag

Einn ískaldan morgun fyrir skömmu staulaðist ég niður í Tryggvagötu og húkti fyrir utan dyrnar þegar Borgarbókasafnið opnaði. Erindið var að fá lánaða bókina Suits Me, The Double Life of Billy Tipton eftir Diane Wood Middlebrook. Bókin, sem hefst á tilvitnun í dragdrottninguna RuPaul og er yfirskriftin hér að ofan, fjallar um kvenkyns djassistann Dorothy Tipton sem fæddist í Bandaríkjunum1914, en tók sér nafnið Billy og lifði frá 19 ára aldri sem karlmaður. Þegar Billy lést, árið 1989, opinberaðist leyndarmál sem fáir höfðu nokkurn grun um, sjúkraflutningamaður sem var kallaður í móbílhómið þar sem Billy bjó spurði soninn hvort faðirinn hefði farið í kynskiptiaðgerð, sonurinn William kom alveg af fjöllum en það var ekki um að villast, þegar fötunum var flett utan af Billy til að athuga hjartsláttinn, að þarna var kona eða svo vitnað sé í soninn: "I was in awe. I had no thoughts - just looked up at the sky, thinking it was some hallucination from drugs. If my father had lived as a woman, she would have had big breasts."

Nostalgía á Súfistanum

Bókakaffi IBBY verður haldið á Súfistanum, Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg, fimmtudagskvöldið 26. janúar kl. 20. Viðfangsefnið að þessu sinni er nostalgía. Um öxl líta eftirtaldir barnabókavinir:
* Salka Guðmundsdóttir, þýðandi og leikskáld: Þegar ég vaknaði í Erilborg
* Sölvi Björn Sigurðsson, rithöfundur: Ævintýrakafbáturinn, Vaknað í Nangilima
* Jónína Leósdóttir, rithöfundur: Aldinmauk og límonaði
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

23. janúar 2012

Þegar sál mín þreytist, leggst hún til hvíldar á rósarblaði....

Druslubókadömur halda ekki aðeins úti bókabloggi, þær hittast stundum í raunheimnum og skömmu fyrir jól var skellt í jólaglögg. Allar áttu að mæta með eina innpakkaða hallærislúðasnilldarskringibók og síðan var skiptst á gjöfum. Ákveðið var að hver ætti svo að blogga um sína gjöf en eitthvað hefur verið lítið um efndir, ég ætla því að brjóta ísinn og ríða á vaðið.

Ég fékk undurfagra bók, gefna út í Svíþjóð, eftir Björn Ranelid sem ég hafði aldrei heyrt um og ákvað því að byrja á því að kynna mér manninn. Í fyrsta lagi kom í ljós að við eigum sama afmælisdag, Björn Ranelid er nákvæmlega 20 árum eldri en ég. Þetta getur varla verið tilviljun.  Í ljós kemur einnig að Ranelid þótti efnilegur knattspyrnumaður á sínum yngri árum en ákvað frekar að gerast gríðarlega afkastamikill á ritvellinum, hann hefur sent frá sér 20 skáldsögur síðan hann byrjaði að skrifa árið 1983 og skrifað mörg hunduð blaðagreinar og er samkvæmt heimildum mikið fyrir að halda ræður við ýmis tilefni. Eitthvað virðist vera varið í skáldskapinn, hann hefur að minnsta kosti fengið ýmsar viðurkenningar á þeim vettvangi, meðal annars August priset fyrir skáldsöguna Synden árið 1994.

En í umfjöllunum um hann er líka iðulega tekið fram að hann sé býsna umdeildur. Hann er afar kristinn og víst fullur efasemda þegar kemur að þróunarkenningunni. Hann þykir líka hafa mjög svo sérstakan og afgerandi stíl í skrifum sínum, talað er um “
det ranelidska språket”, þ.e. að hann hafi í raun búið til sitt eigið tungumál. Sjálfur virðist hann vera meðvitaður um þetta og lýsir eigin tungumáli einhvern veginn á þá leið að það sé afar ljóðrænt og hlaðið myndhverfingum, ég er engu nær og þið eflaust ekki heldur enda gæti lýsingin  átt við meiri hluta skáldskapar, svona almennt séð. En sumsé, stíllinn er víst auðþekkjanlegur.

Ófreskjur

Eins og ég hef nú oft skrifað um áður þá er ég svag fyrir reyfurum og þykir fátt huggulegra en góð glæpasaga – það eru því gríðarleg vonbrigði þegar reyfarinn er lélegur – dálítið eins og þegar maður fær vont súkkulaði! Einn slíkan vonbrigða-reyfara rak á fjörur mínar um daginn – það er reyndar eiginlega að bera í bakkafullan lækinn að nöldra yfir honum þar sem Guðrún Lára hefur þegar varað við honum hér – en úr því ég hafði fyrir því að lesa bókina ætla ég að skrifa um hana nokkur orð - en í sárabætur ætla ég líka að mæla með öðrum betri reyfara í leiðinni!

22. janúar 2012

Homo non sapiens: mannlýsingar

Ég fann svo skemmtilega mannlýsingu í bókinni sem ég er að lesa að ég fann mig knúna til að deila henni með ykkur:

„Robbins is about fifty, with the face of a Cockney informer, the archetypal “Copper´s Nark.“ He has a knack of pitching his whiny voice directly into your consciousness. No external noise drowns him out. Robbins looks like some unsuccessful species of Homo non sapiens, blackmailing the human race with his existence.

“Remember me? I´m the boy you left back there with the lemurs and the baboons. I´m not equipped for survival like some people.““

(Úr Interzone eftir William S. Burroughs, blaðsíðu 51.)

Munið þið eftir einhverjum góðum mannlýsingum?

21. janúar 2012

Hjálp, staðalmyndir kynjanna! Hjálp!

Til allrar hamingju eru innlend sem erlendfyrirtæki dugleg við að minna börn
á það að kynferði þeirra sé mikilvægasta breytan í lífinu
Lesefni á biðstofum lækna er af æði misjöfnum toga. Hver kannast ekki við að blaða í örvæntingarfullum leiðindum í gegnum Gigtarfréttir, Stangveiði á Norðurlandi eða Ársrit áhugafólks um þvagfærasýkingar? Stundum slæðast samt einhverjar bækur með, og í barnahorninu er oft hægt að finna bækur eða jafnvel Andrésblöð. Í síðustu viku fór ég með 4 ára bróðurdóttur minni til augnlæknis og þar lentum við í eins og hálfs tíma bið, sem hefði getað orðið hroðalegt en gekk bara nokkuð vel þar sem a) þriggja mánaða systirin svaf allan tímann og b) bróðurdóttir mín er ótrúlega skemmtileg, þolinmóð og jákvæð telpa. Jú, og c) það voru nokkrar barnabækur á staðnum. Við lásum einhverja fremur undarlega bók um dreng sem fer í flugferð (sennilega sjálfsútgefna), bók um kisu sem týnir mömmu sinni en finnur hamingjuna með kisuprinsi (litla frænka, í áfalli: "Hún gleymdi bara mömmu sinni!") og svo kom ég auga á bókina Hjálp, Keikó! Hjálp! eftir Þorgrím Þráinsson sem virtist ákjósanleg til lestrar. Við frænkur lásum því þessa stuttu sögu á meðan beðið var eftir augnlækninum fjarstadda.

20. janúar 2012

Er bókaþjóðin varla stautfær?

Okkur barst fréttatilkynning um að á morgun, laugardaginn, 21. janúar, verði haldin ráðstefna í Norræna húsinu undir yfirskriftinni ALVARA MÁLSINS – Bókaþjóð í ólestri. Þar verður fjallað um ískyggilegar niðurstöður rannsókna sem sýna að ört stækkandi hópur ungs fólks getur ekki lesið sér til gagns, hvað þá gamans.

Sjálfsprottinn hópur rithöfunda stendur að undirbúningi ráðstefnunnar og það er von þeirra að hún marki upphaf að þjóðarátaki um eflingu lesturs og vitundarvakningu um læsi sem lífsgæði. Hópurinn skorar á stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki, skóla og heimili um allt land að leggja sitt af mörkum til að snúa þróuninni við – það dugar ekkert minna – velferð og menning bókmenntaþjóðar er í húfi!

Dagskrá:
Ljótikór syngur.
Ávarp – Jón Kalman Stefánsson, rithöfundur.
Lestur er málið: Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor og forstöðumaður Rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Læsi er skilningur: Daníel Andri Halldórsson, nemi í 10. bekk í Giljaskóla á Akureyri.
Svavar Knútur syngur og leikur.
kaffihlé
Lestrarhestamennska - heillandi fjölskyldusport: Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og lektor við Háskólann á Akureyri.
Lestur er bæði yndisleg og uppbyggileg iðja: Guðmundur Engilbertsson, lektor kennaradeild og sérfræðingur á miðstöð skólaþróunar við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Dagskráin hefst kl. 14:00 og lýkur um kl. 16:00.
Dagskrárstjóri er Eva María Jónsdóttir

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

19. janúar 2012

Tvær franskar bækur

Mig hefur langað að lesa eitthvað eftir Georges Perec síðan ég hlustaði á Seiðs og héloga-þátt um bókina hans, Lífið: Notkunarreglur (frá 2. nóvember 2008). Í bókabúð í London um þarsíðustu helgi rakst ég á fyrstu tvær skáldsögurnar hans saman í kilju sem var nógu nett til að ógna ekki tuttugu kílóa farangurshámarkinu. Ég notaði tækifærið og keypti hana og lauk fljótlega við fyrri bókina, fyrstu skáldsögu Perec, Things. A story of the sixties (Les Choses. Une histoire des années soixante), sem Pétur Gunnarsson hefur þýtt á íslensku og heitir Hlutirnir.

Hlutirnir fjallar um par á þrítugsaldri, Jérôme og Sylvie, sem búa í París og starfa við markaðsrannsóknir. Bókin lýsir einhvers konar hamingjuleit þeirra. Þau eiga ekki mikla peninga og eru upptekin af því sem þau geta ekki veitt sér þess vegna, þau þrá að búa við velsæld og ríkidæmi en spyrna samt við fótum þegar þjóðfélagið vill beina þeim inn í heim hinna fullorðnu; ábyrgðarstöðu í starfi, fjölskyldulíf, bíl og íbúð. Þau vilja ráða sér sjálf en virðast ekki hafa neina hugmynd um hvað þau vilja gera við það frelsi. Í einhvers konar flóttatilraun fara þau til Túnis og dvelja þar um tíma, en sama stefnuleysið og ráðleysið hvílir yfir dvöl þeirra þar. Það er ekki skýr söguþráður í bókinni og ekki persónusköpun sem slík, Jérôme og Sylvie koma fram sem eining frekar en tveir sjálfstæðir einstaklingar.

Ég náði ekki alveg sambandi við þessa bók. Við lesturinn varð mér hugsað til sumra bókanna sem maður var látinn lesa í skóla, höfðu verið klassíkerar á sinni tíð og verið valdar til kennslu vegna þess að aðalsöguhetjarnir voru ungt fólk, en náðu ekki spontant sambandi út á það eitt. Mér detta í hug Catcher in the Rye eftir J.D. Salinger og Den kroniske uskyld eftir Klaus Rifbjerg. Ég myndi sennilega kunna betur að meta þessar bækur ef ég læsi þær í dag en þær náðu engan veginn til mín þegar ég var í skóla, sérstaklega ekki sú síðarnefnda, enda uppnefndum við hana Den kroniske kedelighed af alkunnri kímnigáfu menntaskólanema. Ég varð mjög hissa þegar ég komst að því nokkrum árum síðar að Klaus Rifbjerg væri nokkuð hátt skrifaður höfundur í Danmörku og þætti jafnvel skemmtilegur.

Nýjasta tækni og vísindi


Ég er ekki sú framsæknasta þegar kemur að tækninýjungum. Því til staðfestingar get ég nefnt að á dögunum keypti ég mér rauðan skjalaskáp sem ég hyggst nota til þess að flokka ljósrit og annað efni sem ég þarf að hafa tiltækt. Á meðan ég leitaði logandi ljósi á fornsölum borgarinnar að hentugum skjalaskáp voru flestir vinir mínir að kaupa sér spjaldtölvu og skanna sitt efni til stafrænnar varðveislu.

Sá gjörningur að kaupa sér skjalaskáp til hefðbundinnar notkunar er reyndar ekki talinn svo undarlegur hér í Bandaríkjunum. Hér er líka talið mjög eðlilegt að senda fax - já og skrifa ávísanir. Á Íslandi ligggja faxtæki og ávísanahefti á öskuhaugum sögunnar og skjalaskápar eru orðnir það framandlegir að hipp og kúl fólk stillir þeim upp við hlið hannaðra húsgagna í stofum sínum.

Fyrir nokkru síðan heyri ég af dulítilli nýjung sem gæti mögulega orðið til þess að ég gengist stafrænu byltingunni á hönd. Það er víst til hugbúnaður sem gerir manni kleyft að skanna strikamerki á bókum inn í snjallsíma og flytja allar bókfræðilegar upplýsingar þannig með einu handtaki inn sérsniðin forrit til þess að halda utan um heimildaskrár! Of gott til að vera satt? Já, það finnst mér og líklega eru einhverjir gallar á þessari gjöf Njarðar. Engu að síður er þetta eitthvað sem ég ætla að skoða betur. Það gæti þó tekið mig nokkur ár....

18. janúar 2012

Hlaðvarp Ríkisútvarpsins

Ég fékk þá skyndilegu hugdettu yfir tebollanum að vekja athygli lesenda okkar á hlaðvarpi Ríkisútvarpsins, ef ske kynni að einhverjir hefðu látið það framhjá sér fara. Ég er sjálf mikill unnandi hlaðvarpsins og þeirrar nútímatækni að geta hlustað á það sem ég vil þegar mér hentar, meðal annars vegna þess að þótt mjög margt í útsendingum Ríkisútvarpsins höfði til mín hef ég jafn lítið gaman af öðru sem er vinsælt þar á bæ, þá einkum og sérílagi klassískri tónlist. Ég hef sérstaka unun af því að hlusta á hlaðvarpið meðan ég elda (og af því hvað ég er hægvirk í eldhúsinu kemst ég oft yfir töluvert efni) og þegar ég ligg fyrir í þynnku.

Á hlaðvarpssíðunni er bæði hægt að sækja þætti sem eru í reglulegri dagskrá, til dæmis Seið og hélog, Skorninga og Víðsjá, og þætti sem gerðir hafa verið um afmarkað efni, svo sem aldarminningu um Tolstoj, upplestur á Svartfugli Gunnars Gunnarssonar og frábæran þátt Hauks Ingvarssonar um Maístjörnu Halldórs Laxness, svo fátt eitt sé nefnt. Þótt þeir séu ekki strangt til tekið bókmenntaþættir má ég líka til með að mæla með Drottningu hundadaganna, sem Pétur Gunnarsson gerði, og Prússar: Ris og fall járnríkis, sem Hjálmar Sveinsson gerði.

Þrátt fyrir óþol mitt gagnvart klassískri tónlist verð ég yfirleitt óskaplega þakklát fyrir dagskrárgerðarfólk Ríkisútvarpsins þegar ég slysast inn á aðrar stöðvar. Svona er maður forpokaður, að verða ómótt yfir spjallþáttunum á Bylgjunni og ekki orðinn þrítugur.

16. janúar 2012

Lítið kver um lítið mein

Er lítið mein yfirtók líf mitt er bók um brjóstakrabbamein. Þetta er saga höfundarins Lilju Sólrúnar, lítið kver um að greinast með illvígan sjúkdóm, meðferðina og eftirköst hennar. Frásögnin er línuleg en ekki ætlað að vera tæmandi, það er frekar eins og Lilja Sólrún drepi niður fæti hér og þar í ferlinu og deili með lesandanum ýmsum minningarbrotum og vangaveltum. Inn á milli eru svarthvítar ljósmyndir og svo lítil textabrot sem kalla mætti spakmæli eða tilvitnanir en þar sem ekki er gerð nein frekari grein fyrir þeim dreg ég þá ályktun að þau séu runnin undan rifjum höfundarins sjálfs.

Bækur sem þessi eru með innbyggða gagnrýnivörn. Enginn hefur rétt á að segja upplifanir eða tilfinningar annarrar manneskju séu rangar, allra síst fullfrísk manneskja sem aldrei hefur gengið í gegnum neitt viðlíka og veit í raun ekkert hvernig hún brygðist við þegar á hólminn væri komið. Í ofan á lag finnst mér erfitt að gagnrýna tilurð bókarinnar sem slíkrar. Ég hef óbilandi trú á heilunarmætti orðsins og held að það að skrifa um erfiða lífsreynslu sé oft besta leiðin til að takast á við hana, koma reiðu á hugsanir og sjá hlutina frá nýjum sjónarhóli. Það eina sem mér finnst ég því geta rætt um í bókarumfjöllun sem þessari er upplifun lesandans og kannski mögulega hlutverk útgefanda.

15. janúar 2012

Kjúklingasæmandi líf

Það getur verið afskaplega áhugavert að blaða í gömlum matreiðslubókum. Í Matreiðslubók handa ungu fólki á öllum aldri eftir Sigrúnu Davíðsdóttur má til dæmis finna eftirfarandi um kjúklinga:

„Í flestum nágrannalöndum okkar eru kjúklingar hversdagsmatur, en svo er ekki hér, vegna þess hversu dýrir þeir eru. Kjúklingarnir hafa orðið óþyrmilega fyrir barðinu á vélvæðingunni, því algengt er, að þeir séu ræktaðir innanhúss og þá gjarnan í búrum, aldir á sérstöku fæði. Þessir kjúklingar lifa engu, sem getur kallazt kjúklingasæmandi líf, og verða afar bragðdaufir. Ég er ekki viss um, að við höfum náð jafn langt í vélvæðingunni, en sjálfsagt er að hafa augun hjá sér og forvitnast um æfiskeið kjúklinganna, þegar við kaupum þá.“
Matreiðslubók handa ungu fólki á öllum aldri, bls. 161

Bókin kom út árið 1978. Þótt móðir mín haldi því fram að höfundi hafi fyrst og fremst verið umhugað um bragðið af kjúklingunum, finnst mér alveg stórkostlegt að þetta hafi ratað í matreiðslubók fyrir rúmum þrjátíu árum.

14. janúar 2012

Bill Bryson gægist inn í skúmaskot heimilisins

Ég hef áður minnst á dálæti mitt á hinum viðkunnanlega og einkar notalega rithöfundi Bill Bryson, samanber þessa færslu um Ástralíubækur. Kristín Svava minntist líka á hann í nýlegri færslu og þá í tengslum við óheppilega uppsetningu bókarinnar Made in America í kyndilsformi. Ég fékk hins vegar bókina At Home: A Short History of Private Life í jólagjöf (fyndið, fjölskyldan mín er allsherjarsamansafn lestrarhesta og samt erum við öll með jafnmikið ofnæmi fyrir jólabókaflóðshæpinu og inn í fjölskylduna barst aðeins ein "jólabók", en fullt af annars konar lestrarefni) og hef verið að skemmta mér yfir henni síðasta hálfa mánuðinn.

Bill Bryson er jafndúllulegur og pandabjörn
Í At Home fer Bryson um víðan völl eins og hann yfirleitt gerir; einhver gagnrýnandi lýsti t.d. ferðabókunum hans nokkurn veginn þannig að Bill Bryson fari til útlanda, rölti um, tali í rólegheitunum við þá sem hann rekst á, kíki kannski inn á safn, fái sér að borða á krá og fari snemma í háttinn, með þeim afleiðingum að ári seinna liggja mörgþúsund lesendur í hláturskasti. Ekki svo fjarri lagi. Bryson hefur aðallega skrifað tvær tegundir af bókum; annars vegar eru það ferðabækurnar (t.d. Notes from a Small Island, Down Under og Neither Here, Nor There) og hins vegar bækur af alfræðitoga þar sem hann tekur fyrir eitthvert tiltekið efni, fræðir lesandann um allt milli himins og jarðar í fremur léttum dúr og veltir upp óvenjulegum hliðum (t.d. At Home, Mother Tongue sem fjallar um enska tungu, og A Short History of Nearly Everything, sem er líklega hans þekktasta bók).

Á kassanum í Bónus

Bónusstelpan eftir Rögnu Sigurðardóttur sem út kom hjá Forlaginu fyrir nýliðin jól er bók um hugmyndir. Þar spinnast saman ýmsir þræðir sem allir tengjast á einn eða annan hátt Bónusstelpunni sjálfri, henni Diljá.  Diljá er nett ofvirkur nemi í Listaháskólanum, býr í litlu, huggulegu einbýlishúsi á hraununum í Hafnarfirði með foreldrum sínum og yngri systur. Pabbinn er framhaldsskólakennari, óskup venjulegur fjölskyldufaðir nema ef vera skyldi óvanaleg fegurð hans sem hann virðist samt næsta ómeðvitaður um. Mamman er týpískur dugnarðarforkur, heldur öllu gangandi og er líkt og dóttirin, aðeins ofvirk, en hefur náð tökum á sínum málum  með löngum hlaupatúrum, bæði í Hafnarfirði og eins á fjöll og firnindi.

Þegar sagan hefst er Diljá í þeim sporum að hún er að hefja vinnu við lokaverkefnið sitt frá Listaháskólanum. Hún fær þá hugmynd að verkefnið hennar verði „gjörningur“sem felist í því að hún fái sér vinnu á kassa í Bónus og að kvikmynd af henni í starfi verði í beinni útsendingu á listsýningu. Þetta er í raun frábær hugmynd. Eitt það allra hversdagslegasta sem maður getur hugsað sér, kassinn í Bónus, tekinn úr samhengi og gerður að listaverki. Hversu mikið „meta“ eitthvað getur það orðið að fara á listsýningu og fylgjast með röðinni á kassanum í Bónus yfirfærðri í algjörlega nýtt umhverfi. Allavega, Diljá finnst þetta fín hugmynd, skólinn er til í að leyfa henni að prófa og þannig fer allt af stað.

13. janúar 2012

Hrokafullir mannhatarar með hríðskotabyssur og napalm

Ég náði þeim merka áfanga nýlega að lesa mína fyrstu bók með aðstoð kyndils – alltaf með puttann á púlsinum eins og þið heyrið. (Og kýs að skrifa orðið með y – pjúra fagurfræðylegyr dyntyr.) Ég valdi bókina nokkurn veginn af handahófi. Ég var að prófa mig áfram með kyndilinn, opnaði fyrst Made in America, sögu enskrar tungu í Bandaríkjunum eftir Bill Bryson, og hún byrjaði mjög skemmtilega, en var á óheppilegu formi þannig að letrið var óþægilega smátt. Eftir að hafa stautað mig í gegnum einn eða tvo kafla gafst ég upp og prófaði Columbine eftir bandaríska blaðamanninn Dave Cullen í staðinn. Hún fjallar um Columbine-árásina í apríl 1999 sem ég geri ráð fyrir að flestir muni eftir, en þá myrtu tveir sautján og átján ára strákar þrettán manns í skólanum sínum í Colorado og frömdu síðan sjálfsmorð. Cullen fjallaði um málið sem blaðamaður á sínum tíma, lagðist í töluverðar rannsóknir út frá því og gaf út þessa bók tíu árum eftir árásina.

Hann rekur annars vegar ævi morðingjanna tveggja, Eric Harris og Dylan Klebold, aðdraganda og undirbúning árásarinnar, og hins vegar það sem kom í kjölfar hennar; lögreglurannsóknina, fjölmiðlaumfjöllunina, líf þeirra sem særðust og aðstandenda hinna látnu, og það hvernig samfélagið tókst á við áfallið. Hann hoppar dálítið fram og til baka og ég er ekki viss um að uppbygging bókarinnar sé alls kostar nógu góð, en þar kom upp einn galli við kyndilinn sem ég hafði áður heyrt af; maður flettir ekki jafn hratt í gegnum rafrænu bókina og þá efnislegu, sem gerir manni erfiðara fyrir að rifja upp ákveðin atriði og gera sér grein fyrir heildarmyndinni.

Fjandkona Finnlands, saga Eistlands og kýr Stalíns

Finnska skáldkonan Sofi Oksanen ætti að vera Íslendingum kunn, ef ekki fyrir vinsælan skáldskap, þá ef til vill fyrir að hafa sármóðgað útvarpskonu Rásar 2 í viðtali í vetur sem leið. Oksanen hefur gefið út þrjár skáldsögur, tvö leikrit og samritstýrt einu greinasafni — þar af hefur Hreinsun notið mestrar velgengni, sem upphaflega var leikrit, frumsýnt 2007. Oksanen vann síðan skáldsögu úr handritinu sem kom út árið eftir. Fyrir skáldsöguna, sem hefur verið þýdd á tugi tungumála og kom út í íslenskri þýðingu Sigurðar Karlssonar 2010, hlaut höfundurinn ótal viðurkenningar og gríðarlegt lof víða um heim. Leikritið hefur sömuleiðis farið víða og er um þessar mundir í sýningu í Þjóðleikhúsinu í Reykjavík.
Ég las Hreinsun á sínum tíma, þó nægilega seint til að hæpið kringum bókina hefði glætt mér þónokkrar væntingar (og reyndar eftir að hafa séð leikritið, á sænsku). Ég varð ekki alveg jafn hrifin og gagnrýnendurnir, eins og kannski er hætt við þegar verk hefur verið hafið svo til skýjanna. Þetta er um margt merkileg bók og ágætis skáldsaga, efnið mjög áhugavert — og reyndar grunar mig að gagnrýnendum og úthlutunarnefndum hafi einmitt verið það ofarlega í huga; hvað umfjöllunarefnið er góðra gjalda vert. Það er það svo sannarlega — saga Sovét-Eistlands hefur legið í þagnargildi þar til tiltölulega nýlega og Hreinsun var þarft og gott innlegg í þá umræðu (og í sjálfu sér er athyglisvert að leikverkið kom ekki á svið í Eistlandi fyrr en 2010) — en kannski ekki þar með sagt að hún sé alveg stórfenglega framúrskarandi skáldsaga. Mér fannst leikritið líka áhrifameira en skáldsagan.
Nú er ég samt aðallega að hugsa um bók sem ég hef nýlokið við, og fannst mögnuð, en það er fyrsta skáldsaga Oksanen; Kýr Stalíns (2003). Hún kom út á íslensku núna fyrir jólin, einnig í þýðingu Sigurðar Karlssonar.

12. janúar 2012

Sokkar sem rokka

Á dögunum kom út bókin Á rauðum sokkum. Baráttukonur segja frá á vegum RIKK. Ritstjóri og höfundur formála er Olga Guðrún Árnadóttir, Dagný Kristjánsdóttir skrifar eftirmála en þrettán fyrrum félagar í Rauðsokkahreyfingunni segja frá reynslu sinni, hver í sínum kafla. Á kaflareglunni er reyndar ein undantekning því Vilborg Dagbjartsdóttir leggur til ljóð milli kaflanna í stað frásagnarkafla. Í frásögnum sínum rekja þessar konur ekki bara rauðsokkaárin (1970-1982) heldur segja, að minnsta kosti flestar, frá uppruna sínum og uppvexti og hvað varð til þess að þær gengu til liðs við Rauðsokkahreyfinguna.

11. janúar 2012

Af hinum og þessum bókum, en aðallega einni

Það er soldið langt síðan ég bloggaði síðast og ég er búin að lesa svo mikið síðan þá að ég vissi ekki alveg á hvaða bók ég ætti að byrja að fjalla um.

Ég fékk nokkrar bækur í jólagjöf, þeirra á meðal Nöfn Íslendinga (sem ég hef þó ekki enn lesið spjaldanna á milli, ótrúlegt en satt), svo fékk ég ógeðslega skemmtilega myndasögu sem ég ætla að blogga um seinna og Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur sem mér fannst alveg frábær.

Síðast í fyrradag kláraði ég svo Hálendið eftir Steinar Braga og var bara helvíti hrifin af henni, en Guðrún Elsa fjallaði einmitt um hana í þessum pistli, sem birtist hér fyrir jól. Ég hef svosem ekki miklu við hennar fínu umfjöllun að bæta, en get ekki annað en nefnt að mig langaði svolítið í aaaðeins meira konkret endi. Ég nefni það vegna þess að a.m.k. tveir hafa nýverið gúgglað „Steinar Bragi+Hálendið+endir“ og lent hérna á Druslubókasíðunni. Það tel ég bera vitni um að ég sé ekki ein um að hafa viljað fá aðeins haldbærari upplýsingar svona rétt undir lokin, og það að enn annar lesandi síðunnar hafi gúgglað „Steinar Bragi netfang“ lít ég jafnframt á sem sönnun þess að einhver lesandi sé framfærnari en ég og hyggist krefja höfundinn sjálfan um svör. Hinn sami lesandi má svo gjarnan áframsenda þau á mig, fái beiðnin hljómgrunn.

10. janúar 2012

Ef Einar og Gyrðir leggðu í púkk ...

Það er allur gangur á því hvað það gerir fyrir mig að heyra höfunda lesa úr eigin verkum, stundum virkar það fremur eins og viðvörun en hvatning, en undir lok síðasta árs heyrði ég sænska rithöfundinn Önnu Ringberg lesa upp úr nýrri bók sinni og varð svo áhugasöm að mér fannst ég verða að ná í bókina. Bókin heitir Boys og er fyrsta bók Önnu, hún var tilnefnd til a.m.k. tveggja debútantaverðlauna í Svíþjóð í fyrra (þar eru nokkur bókmenntaverðlaun sérstaklega tileinkuð fyrstu verkum höfunda). Á meðan ég var að bíða eftir að bókin kæmi með póstinum gúgglaði ég nokkur viðtöl við höfundinn og umfjallanir um bókina og komst að því að hún hefur almennt fengið frábæra dóma. Engu að síður var ég með ofurlitlar efasemdir fyrirfram og vissi ekki alveg hverju ég ætti að búast við. Bók sem hefur hund sem eina af þremur aðalpersónum er ekki alveg það sem ég veldi mér fyrst af öllu sem lesefni, talandi krúttdýr eru ekki í uppáhaldi hjá mér. Efinn fylgdi mér í gegnum fyrstu síður bókarinnar en þegar ég var búin með upphafskaflann var ég steinhætt að efast, ég komst að því hundurinn Boys er ekkert talandi dúlludýr og hann fær alveg að vera hundur. Boys er mjög fín bók og tvímælalaust með því besta og eftirminnilegasta sem ég las árið 2011.


8. janúar 2012

Tvær alvörugefnar konur

Það hefur lengi staðið til hjá mér að kynna mér verk Jane Bowles. Það er í sjálfu sér ekki flókið verkefni, Jane Bowles sendi aðeins frá sér eina skáldsögu, eitt leikrit og svo nokkrar smásögur en hún var illa haldin af framtaksleysi og verkkvíða. Hún sagðist verða að skrifa en gæti það í rauninni ekki, henni leiddist alltaf að skrifa og hataði það í raun að eigin sögn en komst bara ekki hjá því. Og það gekk hægt, hvert orð var meitlað í granít með tilheyrandi erfiði, sagði hún.

Jane Bowles lýsir reynslu sinni af skrifum þannig á dramatískan hátt og hún virðist alltaf efast um eigin getu og eigin ágæti. Þetta kemur ágætlega fram í grein sem breski bókmenntagagnrýnandinn Elizabet Young birti í þessari bók en þar fjallar hún um ævi Bowles og störf. Bowles fæddist árið 1917 og lést 1973, hún var gift rithöfundinum Paul Bowles en hjónabandið var engan veginn hefðbundið, enda voru hjónin bæði samkynhneigð (sumar heimildir vilja meina að þau hafi verið tvíkynhneigð með sterka tilhneigingu til eigin kyns) og var Jane sérstaklega hrifin af gerðarlegum og mikilúðlegum konum í eldri kantinum, frægt er ástarsamband hennar við Cherifu, marokkóska, miðaldra fátækling sem hún kynntist þegar þau hjónin bjuggu í Tangier, það samband var bæði umtalað og flókið, enda ástkonan miðaldra lesbískur múslimi.


Og í skáldsögunni sem ég las yfir jólin, Two serious ladies, eru konur á miðjum aldri einmitt áberandi, þær Christina Goering (já, nafnið tengist nasistanum Hermanni) og Frieda Copperfield. Þær hittast í partíi í New York í upphafi sögunnar og hittast aftur í lok hennar en í millitíðinni söðla þær báðar algerlega um, segja skilið við sín gömlu líf. Christina Goering er ágætlega sett piparmey sem ákveður að yfirgefa sitt fína miðstéttarheimili, kaupir sér hálfgert hreysi og sankar að sér ýmsu ólánsfólki sem hún á ýmisskonar kynferðissamskiptum við, hún ákveður að reyna fyrir sér í vændi og gerist háklassa vændiskona. Heimilishaldið er allt hið óvenjulegasta, ekki síst ef hugað er að því að bókin kemur út árið 1943. Frieda Copperfield er viðkvæm og óörugg með sig, hún ferðast með manni sínum til Suður-Ameríku og í Panama kynnist hún Pacificu, miðaldra vændiskonu og verður ástfangin af henni. Hún heillast af undirheimunum og öllu sem þeim fylgir, vændishúsunum, drykkjunni og slarkinu.


Sögur af Eyrinni

Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thors myndi væntanlega flokkast undir sagnasveig þar sem hér er á ferðinni safn smásagna sem þó tengjast allar. (Þetta er greinilega heitt umræðuefni þar sem Guðrún Elsa var rétt áðan að setja inn færslu um sagnasveiga hér). Sjálf var ég alltaf lítið spennt fyrir smásögum þar til ég kynntist skrifum snillingsins Alice Munro (sem ég fjalla um hér) en síðan hef ég verið svag fyrir forminu. Munro hefur nær eingöngu skrifað smásögur en eftir hana liggur þó ein skáldsaga – Lives of Girls and Women – sem mætti mögulega flokka sem sagnasveig þar sem hver kafli er að forminu til eins og sjálfstæð smásaga þótt þeir fjalli um sömu fjölskyldu. Uppáhalds sagnasveigs bókin mín er þó sennilega Olive Kitteridge eftir Elizabeth Strout (sem ég kannski lufsast til að skrifa um við tækifæri) en hún fékk Pulitzer verðlaunin árið 2009. Eins og Valeyrarvalsinn tekur hún fyrir smábæ og leyfir lesandanum að skyggnast inn í nokkur hús og kynnast íbúunum. Þetta er frábær bók sem nýtir sér einn skemmtilegasta möguleika sagnasveigsins – að segja frá sömu atburðum og manneskjum frá mismunandi sjónarhorni. Það gerir Guðmundur Andri raunar líka og leikur sér að dómhörku lesandans – oft reynist persóna sem maður var löngu búin að afgreiða hafa sitthvað sér til málsbóta.

7. janúar 2012

Tíminn er hrotti: jólin gerð upp.

Um jólin las ég tvær frábærar bækur. Sú fyrri, Nóvember 1976 eftir Hauk Ingvarsson, gerði jóladagsleguna afar ánægjulega, en Þórdís Gísladóttir hefur þegar fjallað um bókina hér. Mig langar þó aðeins að minnast á byggingu skáldsögu Hauks: frásögnin flakkar á milli sögupersóna sem eiga það sameiginlegt að búa í sömu blokk þannig að skipt er um sjónarhorn í hverjum kafla. Persónurnar eiga samskipti sín á milli og smám saman hafa þær áhrif á líf hverrar annarrar. Eins og Þórdís bendir á í bloggfærslunni sinni um bókina gerist hún á þremur dögum, í tímaröð og söguþráðurinn er nokkuð beiskk (Haukur gerir þetta allt saman mjög vel, tékkið á þessari bók). Hin bókin sem ég heillaðist af er A Visit from the Goon Squad eftir Jennifer Egan. Bókina fékk ég í tölvupósti á aðfangadagsmorgun og hún rann svo þaðan beint í kyndilinn minn. Ég ákvað að þetta yrði fyrsta bókin sem ég myndi lesa með þessari nýju tækni. Það eina sem ég vissi um bókina áður en ég byrjaði að lesa var að Egan hreppti Pulitzer verðlaun fyrir hana árið 2011. Bygging bókarinnar minnti mig í fyrstu á bók Hauks (ég veit ekki af hverju, en mér fannst það í svolitla stund afskaplega líklegt að Egan myndi barasta gera allt nákvæmlega eins og hann og var alsæl með það), en smám saman áttaði ég mig á því að ég fengi aðeins að kynnast sjónarhorni hverrar persónu einu sinni og að persónurnar tengdust oft mjög lauslega, að hver kafli gerist á ólíku tímabili og söguþráð vantaði í rauninni alveg. Kaflarnir minntu oft frekar á lauslega tengdar smásögur. (Ég veit, ég er að bera saman gjörólíkar bækur en mér finnst ég bara verða að leiða ykkur í gegnum upplifun mína á þessu öllu saman.)

6. janúar 2012

Hlaðvarpastyrkur

Síðan á dögum Búsáhaldabyltingarinnar hefur verið skrifað um bókmenntir á þessa síðu og innleggin eru nú orðin 507 talsins. Í gær veittist okkur sá mikli heiður að taka þakklátar við styrk úr Menningarsjóði Hlaðvarpans. Þetta eykur okkur að sjálfsögðu metnað og gleði og því er hér með hvíslað að lesendum að ýmsar breytingar eru á döfinni hjá Druslubókum og doðröntum.

5. janúar 2012

Erótík liðinna jóla

Ég fékk tvær bækur í jólagjöf, Hálendið eftir Steinar Braga og nýju matreiðslubókina hennar Sollu grænu. Hálendið las ég í einum rykk og hreytti ónotum í hvern þann sem dirfðist að ávarpa mig á meðan lestrinum stóð. Hún minnti mig á ýmsar aðrar bækur sem ég hef lesið og kvikmyndir sem ég hef séð en það var engu að síður eitthvað frumlegt við uppbyggingu hryllingsins og alla þessa bolta sem höfundurinn nær að halda á lofti. Guðrún Elsa fjallaði um þessa ágætu skáldsögu hér.

Að loknum jólum fór ég að svipast um eftir lesefni og rakst þá á bók sem ég fékk í jólagjöf í fyrra og hafði ekki náð (eða nennt) að lesa. Um er að ræða lítið ljóðasafn eftir bandaríska skáldið E.E. Cummings (1894-1962), Erotic Poems. Ég hef lengi ætlað mér að lesa meira af bandarískum tuttugustu aldar bókmenntum. Þegar ég var yngri var ég hrifin af Hemingway, las Steinbeck og elskaði Brautigan meira en aðra menn. Hin síðari ár hef ég ekki lagt lag mitt við bandarísk skáld af neinu ráði. Á liðnu ári bætti ég reyndar nokkuð úr og las nokkrar skáldsögur en ljóð hef ég lítið kynnt mér.

E.E. Cummings var mjög vinsæll rithöfundur meðan hann lifði, líklega eru fá bandarísk ljóðskáld sem notið hafa jafn mikillar hylli í lifanda lífi, nema ef vera skyldi Robert Frost. Cummings orti nærri þrjú þúsund ljóð, skrifaði sjálfsævisögu, smásögur, nokkur leikrit og ritgerðir – auk þess sem hann var flinkur teiknari og eftir hann liggur töluvert af myndlist. Hann var barnungur þegar hann ákvað að gerast rithöfundur. Hann æfði sig vel og öll sín unglingsár skrifaði hann eitt ljóð á dag. Svo fór hann í fínan háskóla og las þar verk margra framsækinna höfunda sem höfðu mikil áhrif á hann, t.d. Gertrude Stein. Cummings gaf út fyrstu ljóðabókina sína árið 1923 og bar hún titilinn Tulips and Chimneys. Árið áður kom út eftir hann sjálfsævisögulega skáldsagan The Enormous Room. Báðar bækurnar þóttu nýstárlegar og hlutu góðar viðtökur gagnrýnenda sem hvöttu þennan unga mann óspart áfram. Yrkisefnin voru að stærstum hluta ást, nánd og kynlíf. Pólitískur var hann ekki á sínum yngri árum en eftir heimsókn til Sovétríkjanna í upphafi fjórða áratugarins hallaði hann sér nokkuð til hægri, gekk í Repúblikanaflokkinn og studdi McCarthy í einu og öllu. Ég er ekki viss um að mér hefði líkað vel við Cummings sem manneskju enda er það algjört aukaatriði. Sum þessara erótísku ljóða hugnast mér hinsvegar ágætlega. Þetta eru kannski ekki sérlega frumleg, mörg þeirra eru sonnettur og ég efast um að formlega séð hafi þau verið sérlega framsækin þegar þau voru skrifuð þó á því séu undantekningar. Einhversstaðar las ég að Cummings hefði sætt töluverðri gagnrýni fyrir að staðna og halda sig fast við þann stíl sem hann hafði skapað sér í stað þess að leita nýrra leiða og að hann hefði lítið þróast sem höfundur í heil þrjátíu ár.

4. janúar 2012

Það sem kossinn vekur

Í nýjustu skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Allt með kossi vekur, fylgist lesandinn með sögumanninum Davíð skrásetja sögu sem hann vinnur úr minningum, textabrotum og samtölum og að miklu leyti eftir endursögn annarra. Markmiðið er að komast að sannleikskjarna atburða sem hentu foreldra hans og vini þeirra þrettán árum fyrr, en jafnvel skrásetning staðreynda verður óhjákvæmilega sköpun skrásetjarans upp að einhverju marki; hann velur, hafnar og túlkar og Davíð er sömuleiðis meðvitaður um misjafnlegan áreiðanleika heimildafólks síns. Þegar skrásetning atburðanna hefst er móðir hans ein eftir til frásagnar: „Ég hefði átt að tala við Láka, heimta af honum óbrenglaða útgáfu... Þess í stað hékk ég yfir mömmu kvöld eftir kvöld á meðan hún rakti fyrir mér sína vægast sagt óáreiðanlegu hlið, fulla af galskap og yfirnáttúru.“ (60) Hin eiginlega saga er þannig römmuð inn af sögu eigin tilurðar; eigin sköpunarsögu. Sköpunarkraftur, hæfileiki mannfólksins til að skapa og jafnvel endurskapa sig sjálft og þær takmarkanir sem sú viðleitni er þó háð er eitt helsta þema bókarinnar.

3. janúar 2012

Dramb og hroki undir hæl feðraveldisins

Ég veit ég er varla sú eina sem hefur allt að því rómantískan áhuga á Reykjavíkurbæ á síðustu áratugum 19. aldar og fyrstu áratugum þeirrar 20. Séð frá upphafi 21. aldarinnar er eitthvað heillandi við lífið í höfuðstaðnum á þessum umbrotatímum, þegar byrjað var að losna um bændasamfélagið og upplausn komin í ýmislegt en bæjalífið var samt ekki orðið þjóðfélagsnormið. Reykjavíkurbær er bæði kunnuglegur og ókunnugur; maður þekkir staðhætti, kannast við nöfn, en nógu margt er framandi til að gera hann spennandi; risavaxin yfirvaraskeggin á körlunum, dönsku áhrifin, vanþróaðar skólplagnir, önnur stéttskipting en í dag.

Ýmsar skemmtilegar bækur hafa verið skrifaðar sem fjalla um þennan tíma (og hér er „þessi tími“ dálítið vítt skilgreindur eins og sjá má af framhaldinu). Þar má til dæmis nefna Horfinn heimur. Árið 1900 í nærmynd eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur, þar sem hún notast við dagblöð frá aldamótaárinu, og ævisöguna góðu Bríet, Héðinn, Valdimar og Laufey eftir Matthías Viðar Sæmundsson (en í hana sótti ég titilinn á fyrstu ljóðabókinni minni og á Matthíasi því mikið að þakka). Bæði eru þau frábærir pennar og kunna að draga upp stemmningsríkar fortíðarmyndir þar sem skemmtilegar sögur og dýpri pælingar um samfélagið eru í góðu jafnvægi.

2. janúar 2012

Jólalesningin

Jólalesningin að þessu sinni var Eldvittnet, nýjasta bók Lars Kepler sem er dulnefni sænsku hjónanna Alexöndru og Alexanders Ahndoril. Fyrri bækurnar tvær (sem hafa komið út á íslensku undir heitunum Dávaldurinn og Paganinisamningurinn) las ég í einum rykk þarsíðasta sumar, sitjandi undir eplatrénu í sólinni með blauta lófa af svita, hjartslátt og ískaldan hroll innra með mér af spennunni og hryllingnum. Þegar kom að því að velja lesningu sem þyrfti að halda athygli minni gegnum örferð til Íslands yfir jólin, ókyrrð í flugi, heimsóknaþeyting, reykt kjöt í ótakmörkuðu magni og pakkatryllt börn fannst mér ólíklegt að nokkur bók stæði það betur af sér en þriðja Keplerbókin.

Söguþráður Eldvittnet er einhvern veginn svona: Á áfangaheimili fyrir vandræðastúlkur finnst einn vistmanna myrtur á hrottafengin hátt. Önnur stúlka virðist hafa horfið af heimilinu á nákvæmlega sama tíma og er því óhjákvæmilega grunuð um glæpinn. Inn í málin blandast meðal annars einmana en forrík yfirstéttardama og óhamingjusöm falsspákona og yfir öllu saman vakir svo eins og vanalega hinn finnskættaði lögreglumaður Joona Linna.

1. janúar 2012

Bókasöfn á gististöðum, 11. þáttur: Singapúr og Saigon

Á ferðalögum gefst mismikill tími til lestrar. Stundum er druslubókadama einfaldlega of upptekin við að skoða mannlífið í Saigon og skemmta sér við að fara yfir götu þar eða borða ferskan ananas á bát á Mekong-fljótinu, svo fátt eitt sé nefnt.

Þess háttar röskun á hversdagsleikanum gefur þó færi á að bæta við greinaflokkinn um bókasöfn á gististöðum.

Á tveimur af fjórum gististöðum sem undirrituð druslubókadama hefur dvalið á undanfarna viku hefur mátt finna bókahillur, býsna ólíkar.