Þegar dönsku framhaldsþættirnir Taxa voru sýndir í danska sjónvarpinu sendi áhorfandi dönsku dagblaði kvörtunarpóst og benti á að þættirnir væru óraunsæir að því leyti að allir leigubílarnir í þáttunum væru af gerðinni Toyota (vegna samninga milli framleiðandans og Toyota-umboðsins) en langflestir leigubílar í Kaupmannahöfn væru í rauninni af gerðinni Mecedes Benz. Þessu velti Lena Sundström, höfundur bókarinnar Världens lyckligaste folk (Hamingjusamasta þjóð í heimi), ekkert fyrir sér þegar hún horfði á þættina, en hins vegar tók hún eftir að 23 af 24 aðalleikurum eru með danskhljómandi nöfn. Hún sjálf segist hins vegar aldrei hafa ekið í leigubíl með bílstjóra með danskt eftirnafn í Kaupmannahöfn þó að hún hafi búið þar þó nokkuð lengi og tekið mjög marga leigubíla.Ég ólst upp við að lesa danskar bækur og blöð, á frummálinu og í þýðingum. Ég las t.d. bækur Deu Trier Mørch, Vitu Andersen, Susanne Brøgger og fleiri höfunda, hlustaði á danska tónlist og þegar ég kom til Kaupmannahafnar, fyrst 16 ára og svo nokkrum árum síðar til lengri dvalar, fannst mér ég kannast við mig. Ég las dagblöðin, fór í Huset og Kristjaníu og upplifði það sem mér fannst vera frjálslynt land og almennt var gleðin við völd þó að Mogens Glistrup væri stundum í fréttunum. Á meðan ég bjó í Svíþjóð á þarsíðasta og síðasta áratug fór ég ekki oft til Danmerkur og í Svíþjóð heyrði ég aldrei neinar fréttir að ráði frá grannþjóðinni. Á síðustu árum hef ég farið nokkrum sinnum til Danmerkur, ég horfi nokkuð reglulega á danskt sjónvarp og upplifi, eins og margir, Danmörku nútímans sem fremur íhaldssamt land og afskaplega „danskt“, þar sem margir virðast stöðugt óttast að yfir þá flæði hópar af óþjóðalýð og illum múslimum.











