31. október 2011

Barist gegn blóðfíkn

Bókmenntahátíð er nú yfirstaðin og eins og venjulega á lista- og menningarhátíðum var alltof margt að sjá og alltof lítill tími. En það góða við bókmenntahátíðir er að þótt höfundarnir séu horfnir til síns heima og málþingum og fyrirlestrum lokið þá eru bækurnar ekki að fara neitt og þær getur maður dundað sér við fram eftir vetri.

Einn af gestum bókmenntahátíðar í ár var breski rithöfundurinn Matt Haig sem er fæddur árið 1975. Hann sker sig örlítið úr hópnum þar sem hann hefur skrifað talsvert fyrir unglinga eða „young adults“ eins og markhópurinn er jafnan kallaður. Fyrsta bók hans, The Last Family in England, (sem gæti útlagst sem Síðasta fjölskyldan í Englandi) kom út árið 2005 og byggði hún á leikriti Williams Shakespeare um Hinrik IV. Nú er ekki óalgengt að höfundar sæki í smiðju leikskáldsins fræga en það sem var óvenjulegt við bók Haigs var að allar aðalpersónur bókarinnar voru hundar. Önnur bók hans, The Dead Fathers Club – (eða Klúbbur hinna dauðu feðra) frá árinu 2007 sækir sömuleiðis til Shakespeare en bókin er byggð á frægasta leikriti hans, Hamlet, og segir frá 11 ára dreng sem missir föður sinn og rétt eins og danski prinsinn sér hann afturgenginn.

Nú í haust kom hins vegar út hér á landi nýjasta bók Haigs – The Radleys eða Radley fjölskyldan, frá árinu 2010. Textinn er hnyttinn og uppfullur af tilvísunum í breska afþreyingarmenningu – slíkur stíll er ekki auðþýðanlegur en Bjarna Jónssyni ferst verkið glæsilega úr hendi. Skáldsagan segir, eins og nafnið bendir til, frá Radley fjölskyldunni. Hún samanstendur af foreldrunum Helen og Pétri og unglingunum Clöru og Róan. Þau búa í litlum úthverfabæ í Englandi og virðast næstum óeðlilega venjuleg. Enda kemur í ljós að þau eru í hæsta máta óeðlileg. Þau eru vampýrur.

Elstu heimildir um blóðsugur eru ævafornar en þær urðu fyrst vinsælar í bókmenntum á 18. öldinni og hafa svo átt marga góða spretti á þeirri 19. og 20. Eftir að Twilightsería Stephanie Meyer kom út árið 2005 er svo óhætt að segja að vinsældir þeirra hafi aukist til muna. Bækur, kvikmyndir og sjónvarpsþættir helgaðir vampýrum hafa hellst yfir heimsbyggðina og fullorðnir jafnt sem unglingar verið bitnir af vampýruæðinu. Það er ekki gott að fullyrða um ástæður þessara vinsælda en hugmyndin um ódauðleika mannsins ásamt hinum háskalegum tengslum kynlífs og dauða sem einkenna jú vampýrismann spila vafalaust einhverja rullu.

Spurningin er hins vegar – hverju er hægt að bæta við efni sem svo mikið hefur verið skrifað um? Er kannski búið að kreista síðasta blóðdropann úr þessu viðfangsefni? En mögulega er rangt að spyrja um efni – hvort sagan er gömul eða ný skiptir minna máli en hvernig hún er sögð – og Matt Haig tekst prýðilega upp. Vampýrufjölskylda hans, Radleyjarnir, eru óvenjulegar vampýrur og vandamál þeirra eru sniðuglega tengd vandamálum venjulegrar millistéttarfjölskyldu 21. aldarinnar. Fyrir það fyrsta þá drekka þær ekki blóð. Þær eru „óvirkar“ blóðsugur sem berjast við blóðfíkn (þetta kallast auðvitað á við allar þær endalausu fíknir sem talað er um í dag – áfengis-og lyfjafíkn auðvitað en líka kynlífsfíkn, matarfíkn, tölvufíkn og þar fram eftir götunum.)

En fyrir sautján árum yfirgáfu Helen og Pétur Radley London og fluttu í rólegan smábæ til að hefja nýtt blóðlaust líf og enginn, ekki einu sinni börnin þeirra – vita að þau eru öll blóðsugur. Helen og Pétur hafa logið að börnum, vinum og nágrönnum í sautján ár – sagt að þau séu öll með bráðaofnæmi fyrir hvítlauk, þjáist af svefnleysi og séu sérstaklega viðkvæm fyrir sólarljósi og þurfi því alltaf að bera á sig sólarvörn númer 60. Það er erfiðara að útskýra aðra hluti eins og afhverju hundar og kettir hlaupa spangólandi í burtu þegar þau birtast og fuglasöngur þagnar þegar þau stíga út í garð. Í heimi Haigs geta vampýrur lifað án blóðs – en það er erfitt líf því fyrir utan ofnæmi, útbrot, stanslausan höfuðverk og svefnleysi eru þau (og sérstaklega foreldrarnir sem þekkja þessar hvatir) sífellt að berjast við og bæla niður þrána eftir blóði. Sagan hefst á því að kvikyndislegur ofbeldisseggur úr bekk Clöru, dótturinnar, reynir að nauðga henni eftir partý. Við árásina vaknar loks hennar niðurbælda eðli og hún bítur hann og drepur. Þar með kemst leyndarmálið upp – alla vega innan fjölskyldunnar og það er ekki langt þar til nágrannarnir og lögreglan eru líka komin á sporið. Það er ekki svo erfitt að réttlæta að ung stúlka drepi nauðgara í sjálfsvörn en morðin verða fleiri áður en yfir lýkur og hinar óhjákvæmilegu siðferðisspurningar vakna – vill lesandinn að vampýrurnar fylgi eðli sínu og drekki blóð og drepi eða vill hann að þær haldi áfram að bæla hvatir sínar og reyna að lifa sómasamlegu lífi? Valið er gert erfiðara þar sem Haig undirstrikar hversu ömurlegt líf hinnar óvirku vampýru sé. Þegar vampýrurnar drekka blóð líður þeim vel, þau verða sterk og sjálfsörugg og finnst þau geta sigrað heiminn. Þau geta (í bókstaflegri merkingu) flogið. En þegar þau eru óvirk eru þau nánast lifandi dauð, þreytt, þunglynd og lífsleið. Fjölskyldan heldur dauðahaldi í snjáð eintak af sjálfshjálparritinu Handbók óvirkra (2. útgáfa) og kaflar þaðan sem er reglulega skotið inn í frásögnina kallast á við AA bókina og sporin 12. Þar má finna gullmola á borð við: „Blóðdrykkja æsir bara upp í manni þorstann, en slekkur hann ekki.“ (bls. 100) og „Ef svarið er blóð, er spurningin röng.“ (bls. 289) Þannig stendur Radley fjölskyldan frammi fyrir tveimur kostum og er hvorugur góður – annað hvort geta þau haldið áfram að afneita eðli sínu og lufsast lifandi dauð um úthverfið eða hefja blóðdrykkju með öllum þeim afleiðingum sem því fylgja.

Svarið við hinni stóru siðferðisspurningu blóð eða ekki blóð er kannski eilítið of snyrtilegt hér en það breytir því ekki að vandamálin sem upp koma eru sannfærandi og vel úr þeim unnið. Þau eru nefnilega (eins og áður sagði) nátengd vandamálum hverrar annarrar millistéttarfjölskyldu. Samband foreldranna er staðnað og náttúrulaust, unglingsdrengurinn Róan er lagður í einelti í skólanum og Clara er týnd og óörugg. Fjölskyldan gerir allt sem hún getur til að falla í hópinn – foreldrarnir losa sig við jaðartónlist úr geisladiskasafninu og fylla upp í með Phil Collins og Vivaldi. Helen, sem er málari, hættir að mála naktar konur og fer að mála blóm og girðingar og gengur í bókaklúbb á meðan Pétur er undir stöðugum þrýstingi að ganga í krikketliðið. Þau berjast í sífellu við að bæla innri hvatir og fylgja fyrirfram ákveðinni formúlu um hvernig sé best að líta út, tala og haga sér og eru illa svikin þegar þessi gríma færir þeim ekki hamingju heldur tómleika og vonbrigði. Handbók óvirkra gerir sér svo skemmtilegan mat úr þessum litlausa lífsstíl með ráðleggingum á borð við: „Fylgstu með golfi. Sýnt þykir að ef fólk horfir á ákveðnar utanhússíþróttir í sjónvarpi, til dæmis golf og krikket, þá dregur það til muna úr líkum á ÓBÞ (óstjórnlegum blóðþorsta).“(bls. 262)

Handbók óvirkra heldur því fram að eðlisávísunin sé röng –við séum siðmenntuð en siðmenningin standist ekki nema við bælum eðlisávísunina niður. Alveg burtséð frá því hvort maður er óvirk vampýra eða ekki er alveg ljóst að siðmenningin eins og hún birtist í bresku úthverfi er svo andlaus að hún hreinlega drepur (enda eru mannlegir nágrannar Radleyfjölskyldunnar síst hamingjusamari en hún). En á hinn bóginn kemur í ljós að ef einstaklingur fylgir bara eðli sínu og gefur skít í allt annað er hann ekki hæfur í samfélagi manna – og við þurfum þrátt fyrir allt öll (líka vampýrur) á öðrum manneskjum að halda. Þótt Haig hendi gaman að því hversu yfirborðskennd millistéttin geti verið og líf hennar óspennandi og innihaldslaust þá hefur hann samt skilning á því að undirliggjandi er mjög raunveruleg þrá eftir því að búa fjölskyldu sinni öruggt skjól í hættulegum heimi. Þegar upp er staðið eru flestir foreldrar tilbúnir til að fórna öllu til að vernda börnin sín, rétt eins og Helen og Pétur.


(Þessi pistill var áður fluttur í Víðsjá í september)

lesið í london

Þrátt fyrir að núna sé góður tími til að byrja á umfjöllun um „jólabækurnar“ þá ætla ég alveg að láta það eiga sig í bili. Og það þrátt fyrir að nokkrar þeirra séu komnar í bókabiðröðina á náttborðinu og ein, sem mér er sagt að sé æsispennandi , eða „Víti í Vestmannaeyjum“ komin í lestur til undirverktaka. Nei, mér finnst einhvernvegin meira heillandi að spjalla aðeins um nýlega dvöl í London. Æ, hvað það er alltaf eitthvað dásamlegt, og í raun algjörlega bráðnauðsynlegt, að komast aðeins í burtu úr súldinni og krepputalinu hér á þessu annars svosem þokkalega skeri, og anda að sér hæfilega menguðu stórborgarlofti, detta inná söfn, hverfa inn í mannhafið, kíkja í leikhús, hangsa í bókabúðum og bara svona almennt að finna fyrir taktinum í stórborginni.

En jafnvel í stórborginni þarf maður að taka tillit og gera svona sitt lítið af hverju sem hentar hinum ýmsu fjölskyldumeðlimum, þannig að ég gat nú kannski ekki eytt eins miklum tíma og ég hefði viljað í bókabúðum og bókasöfnum. En náði nú samt að taka góða syrpu í Foyles og nokkrum second hand verslunum. Var að vonast eftir því að finna einhverjar spennandi ljóðabækur í Foyles, en þar hef ég oft dregið eitt og annað upp af því tagi, t.d. „The Beasts of Malunga“ eftir James Mapanje sem mér þótti mikill happafengur, sem og fleira útgefið af Bloodaxe Books. Í þetta sinn varð ég þó að láta mér nægja að taka með mér heim nýlega útgefna bók með völdum ljóðum lárviðarskáldsins Carol Ann Duffy, sem auðvitað er hið besta mál og í raun tími til kominn að ég kynni mér aðeins ljóðin hennar.

Ég komst líka alveg óvart í kynni við nýjan höfund, sem mér finnst raunar merkilegt að ég hafi náð að láta fara fram hjá mér, en svona er þetta þegar maður þarf að sjá fyrir sér og svona og getur ekki verið alltaf að lesa og fylgjast með ..... bara uppskrift að veseni! Sum sé, við duttum inná Kensington and Chelsea Public Library einn morguninn, verulega fínt, hægt að parkera ungmennum í þartilgerða deild og detta sjálfur í að skoða og lesa. Þar var mér bent á bókina „The Long Song“ eftir Andrea Levy, sem bæði hefur fengið Whitbread Book of the Year og Orange verðlaunin fyrir bækurnar sínar. Þessi sem ég gluggaði í er saga konu, Miss July, sem er dóttir þræls á sykurplantekru á Jamaica og býr við þær aðstæður þar til bresk ekkja, nýflutt til Jamiaca ákveður að taka hana af móður sinni nefnir hana „Marguerite“ og flytur hana í herragarðinn á plantekrunni. Þetta virkaði, af því litla sem ég náði að skoða, áhugaverð bók og sem áður sagði þá skil ég ekkert í því hvernig þessi höfundur hefur fram að þessu farið algjörlega fram hjá mér!

Það er svo ekki hægt að enda þessa frásögn án þess að segja frá því að sem ég sat í lestinni eitt síðdegið og gluggaði í Evening Standard komst ég að því að Julian Barnes hefði fengið Man Booker-verðlaunin fyrir bókina „Sense of an Ending“. Maður hefur svosem ekkert lesið hana frekar en margt annað og ekkert eftir Barnes annað en „Flaubert´s Parrot“ fyrir margt löngu. Í sama blaði las ég svo ansi skondna frétt um það að Jeanette Winterson hefði tekið æðiskast og öskrað á nágranna sinn sem var víst eitthvað að kvarta yfir því að hún hefði lagt Range Rovernum sínum í innkeyrslu sem hann átti. Segið svo að rithöfundar standi ekki í allskyns veseni öðru en að sitja hljóðir og góðir og skrifa bækur.

Bókaverslun E. P. Briem

Í gær rakst ég á þessa auglýsingu í tímaritinu Fálkanum frá 1931, en þá var nýbúið að opna Bókaverslun Eggerts P. Briem, sem var rekin í Austurstræti í nokkur ár. Þetta hefur greinilega ekki verið nein minniháttar verslun. Eins og stendur í auglýsingunni fengust þarna íslenskar og erlendar bækur, blöð og tímarit og því er heitið að útvega hverja þá bók sem ekki er til. Ef einhver veit hvort og hvar hægt sé að nálgast fleiri myndir úr þessari búð þá yrðu upplýsingar vel þegnar.

30. október 2011

Ljóðalestur á laugardagskvöldi

Haustið er eitthvað svo góður tími til að lesa ljóð. Ekki að það sé ekki alltaf góður tími til að lesa ljóð, en það er eitthvað svo fallega melankólískt við haustið sem hentar vel til ljóðalestrar, hvort sem viðfangsefnið er titrandi strá á heiði eða argasta klám.

Upp á síðkastið hef ég verið að glugga í doðrantinn The Harvill Book of Twentieth-Century Poetry in English, sem kom út 1999 og hefur að geyma úrval ljóða eftir rúmlega hundrað skáld.
Adrienne Rich í góðu geimi

28. október 2011

Messað um bækur í Turku og Helsinki: Fyrsti hluti

Fyrir mánuði síðan fór ég í fyrsta skipti á bókamessu, það var í Turku. Þema Turkumessunnar í ár var Norðurlönd og í messuhöllinni fann ég m.a. norska rithöfunda, finnskt súkkulaði og íslenska reggaetóna. Messuhöllin var stór, mjög stór – mikill kliður, margt fólk og sjúklega mikið af bókum – svo mikið af öllu að kostaði átak að einbeita sér að einhverju einu.

Það sem gefur bókamessu gildi umfram bókamarkað Perlunnar er auðvitað nærvera höfundanna sjálfra og annars fólks úr bókabransanum, sem var mætt í viðtöl og pallborðsumræður og áritanir út um allt svæðið. Margt var náttúrlega í gangi samtímis, svipað og á tónlistarhátíðum og öðrum margsviða viðburðum, svo gestir geta þurft að velja og hafna. Ég er blessunarlega nógu fáfróð um finnskar bókmenntir til að vita ekki neitt um heilan helling af höfundum og gat því stílað inná það fáa sem ég hafði forsendur til að þykja spennandi, án þess að finnast ég vera að missa af.

Jobsbók hin nýja

Maðurinn á forsíðunni er nokkuð reffilegur gaur. Líkaminn fullkomlega afslappaður en hugurinn einbeittur. Svona týpa sem er alltaf í nýburstuðum skóm. Hann heldur hurðinni fyrir þig, pantar oftast tvöfaldan espesso og dregur upp ipad og hvað þetta nú allt heitir í subway-inu. Eða ég ímynda mér það.

Það finnst varla svo aum bókabúðarhola hér vestanhafs að hún tjaldi ekki heljarinnar borði sem tileinkað er ævisögu Steve Jobs sem kom út í vikunni.

Margir hafa beðið hennar með töluverðri eftirvæntingu enda hafa allir fjölmiðlar verið undirlagðir af minningu Steve Jobs síðan hann lést fyrir tveimur vikum. Fjölmargir hafa "kynnst" þessum hugmyndaríka manni á síðustu dögum sem áður höfðu jafnvel aldrei heyrt á hann minnst. Ég sjálf er því sem næst í þeim flokki. Ég hef átt tölvur úr smiðju hans nokkuð lengi og líkað vel en ekki haft neinn sérstakan augastað á öðru dóti sem eftir hann liggur. Þaðan af síður vissi ég nokkuð um manninn sjálfan. Ég ætlaði að vera búin að ljúka við bókina áður en það kæmi næst að mér að skrifa á druslubókabloggið en mér tókst ekki að klára nema helming og skauta yfir restina. Einhvern veginn hef ég ekki verið neitt sérlega spennt þrátt fyrir nær óslökkvandi ást mína á hverskyns ævisögum. Mér líður svolítið eins og þegar Fight Club kom út, ég sá hana aldrei í raun og veru því mér fannst ég hafa séð hana ótal sinnum í gegnum annað fólk. Ég fékk mig fullsadda áður en ég tók fyrsta bitann. Það er svolítið þannig með ævisögu Jobs og segir það ekkert um gæði verksins sem slíks.

27. október 2011

Alltumlykjandi einræði ljóðsins!

Hið mjög svo teygjanlega skáldskaparform „ljóð“ hefur margt til síns ágætis. Það hefur það til dæmis fram yfir prósa að það er mun auðveldara að umlykja sig ljóðum í sínu daglega lífi: krota þau niður á blað, lesa þau þrisvar í röð, leggja þau á minnið, semja þau í snatri, fara með þau upp úr eins manns hljóði, söngla þau, mála þau á veggi, bera þau með sér um bæinn, lesa þau á klósettinu, og svo framvegis.

Eitt af því sem nútímamaðurinn getur gert við ljóð (hljómar eins og misþyrming) er að hafa þau á desktopinu sínu á tölvunni. T.d. var ég lengi með þetta skemmtilega brasilíska konkretljóð eftir Décio Pignatari í bakgrunninum hjá mér. Ástæðan fyrir því að mér datt þetta í hug var hins vegar þessi fídus á heimasíðu Antons Helga Jónssonar skálds, þar sem hann hefur búið til sérstakar skjáborðsmyndir með ljóðum, sem fólk getur tekið sér til handargagns. Flest eru ljóðin eftir hann sjálfan en líka eitt eftir Fernando Pessoa og eitt eftir Wislöwu Szymborsku. Uppáhalds mín eru Bíbí straujar angistina og Rain at Thingvellir, það síðarnefnda ekki síst af því að allt sem minnir mig á Kodachrome með Paul Simon gerir mig glaða.

26. október 2011

Anatómía andartaks

Ég hef varla haft tíma til að lesa nokkuð að eigin frumkvæði síðustu vikur, en ákvað að þá væri kjörið tækifæri til að taka fram bók sem ég las síðasta vetur og hef ætlað að skrifa um hér síðan þá en aldrei komið því í verk. Það er bókin Anatomía de un instante, eða The Anatomy of a Moment í ensku þýðingunni sem ég las, eftir spænska rithöfundinn Javier Cercas. Sennilega þekkja margir lesendur bloggsíðunnar Cercas betur en ég, hann kom hingað á bókmenntahátíð fyrir einhverjum árum, bók hans Stríðsmenn Salamis kom út hjá Bjarti um svipað leyti, og ég má segja að hann eigi sér aðdáendur í kúltúrellum kreðsum hér í bæ. Ég hafði aldrei lesið neitt eftir hann áður en verð að nefna að stíll Cercas minnti mig svo á stíl útvarpsmanns nokkurs að ég heyrði rödd þess síðarnefnda stöðugt fyrir eyrum mér fara með þann texta sem ég var að lesa og þannig hélst það út allar fjögur hundruð blaðsíðurnar.

Anatómía andartaks – ég leyfi mér þetta af því að titillinn er ekki ætlaður til útgáfu – er ekki skáldsaga heldur einhvers konar sagnfræðilegt rit, og fjallar um valdaránstilraunina sem gerð var á Spáni í febrúar árið 1981. Þá, minna en áratug eftir dauða Francos og endalok einræðisins, ruddust vopnaðir hermenn inn í þingið og tóku þingmennina í gíslingu í átján klukkustundir, þar til þeir gáfust upp morguninn eftir. Upphafsmenn valdaránstilraunarinnar voru ýmsir menn af hægri væng stjórnmálanna, þar á meðal nokkrir hershöfðingjar - á meðfylgjandi mynd sést einmitt Antonio Tejero Molina, einn af aðalmönnunum í valdaránstilrauninni, veifa byssu í þinginu. Lýðræðiskerfið stóð ennþá veikum fótum á Spáni, nærvera Francos var sterk, sumir valdaránsmanna voru nátengdir konunginum og þetta var allt hið flóknasta mál, en þar sem það er liðið meira en hálft ár síðan ég las bókina þori ég ekki að fara út í meiri smáatriði.

Einar Áskell og byltingin

Einar Áskell er gamall fjölskylduvinur. Einn af þeim sem hægt hefur verið að reiða sig á að sé á sömu buxunum (bókstaflega) ár eftir ár. Frá fyrstu bókinni, Góða nótt Einar Áskell, sem kom út í Svíþjóð 1972 og í íslenskri þýðingu 1980, hefur frásögnin iðulega verið staðsett í steinsteyptum hversdagsleika sænskra blokkarbarna. Einar Áskell hefur alltaf verið bara venjulegur strákur. Hann er hugmyndaríkur og einlægur. Hann leikur sér að bílum og ímynduðum þyrlum. Hann vill ekki slást en getur alveg orðið reiður. Í þeim fjölmörgu bókum sem hafa komið út um hann hefur Einar Áskell fyrst og fremst glímt við ógnir og gleði sem eiga sér uppruna í raunveruleikanum.
Í nýju bókinni sinni, Einar Áskell og allsnægtapokanum, yfirgefur höfundurinn Gunilla Bergström sögusvið fyrri bóka og stígur inn í draumkennda ævintýraveröld. Mörkin sem hún hefur áður sett sögunum um Einar Áskell eru sprengd. Sænska blokkin og sandkassinn eru horfin. Einar Áskell hefur nú eignast sitt eigið land, „Heimalandið“, og ríkir þar sem kóngur.

24. október 2011

Liturinn sem var ekki til

Fyrir svona átta til tíu árum fékk dóttir mín bókina Litarím í afmælisgjöf. Þessi bók kom út 1992 og er fagurlega myndskreytt af Tryggva Ólafssyni með kvæðum eftir Þórarin Eldjárn. Eins og titillinn gefur til kynna er tilgangur bókarinnar að kynna litina fyrir ungviðinu sem og að útskýra fyrir þeim grundvallaratriði í blöndun lita (gult og blátt verður grænt og svo framvegis).

Bókin er þannig sett upp að fyrst er fjallað um einn lit á hverri opnu, öðrum megin er þá mynd eftir Tryggva þar sem viðkomandi litur er í aðalhlutverki en hinum megin er þriggja erinda vísa um litinn eftir Þórarin. Í lokin er svo fjallað um alla litina saman og svo er litahringur sem sýnir blöndun grunnlita. Eins og við má búast eru myndir Tryggva mjög skemmtilegar og vísur Þórarins prýðilega settar saman, þótt þetta sé svo sem ekki með því besta eða skemmtilegasta sem ég hef séð frá honum.

Af ástæðum sem verða svo tíundaðar hér hef ég átt erfitt með að fá mig til að lesa þessa bók með börnunum mínum og hef leyft henni að gleymast svolítið. Þegar hún hefur þrátt fyrir allt verið dregin fram þá hef ég fundið mig knúna til að benda á að hún sé haldin undarlegum galla. Þetta er galli sem hlýtur að vera viljandi hjá myndlistarmanninum Tryggva og ég bara skil ekki hvers vegna í ósköpunum:

Bækur sem „á“ að lesa – Coraline

Það eru margar bækur sem maður veit að maður „á“ að lesa, yfirleitt afþví það eru svo margir í kringum mann sem eru alltaf að segja manni að maður verði að lesa þær.

Þannig hef ég vitað lengi að bókin Coraline eftir Neil Gaiman væri bók sem ég „ætti“ að lesa, en ég á það til að humma fram af mér ýmislegt sem ég upplifi sem einhverskonar kvöð og þessvegna hafði ég ekki komið því verk.

Í liðinni viku var vinur minn að hneykslast á því að ég hefði ekki ennþá lesið hana og sendi mér linkinn á ókeypis eintak af henni á ólöglegri síðu á netinu. Ég ákvað að ég gæti ekki hummað Coraline fram af mér lengur, en afþví ég er svo heiðarleg og umhugað um að höfundar fái nú örugglega höfundalaun fyrir verkin sín, þá keypti ég mér hana á kyndilinn og lét sem hefði ekki séð linkinn á ólöglega eintakið.

23. október 2011

Tvær bækur frá fyrra ári

Svokallaðar jólabækur eru farnar að streyma í búðir fyrir allnokkru. Ég er farin að sulla aðeins í flóðinu en áður en ég sting mér á kaf finnst mér ástæða til að minna á að bækur geta lifað lengur en milli jólavertíða og því verður hér fjallað um tvær ótengdar bækur frá fyrra ári: Geislaþræði eftir Sigríði Pétursdóttur og Hringnum lokað eftir Michael Ridpath. (Kannski spilar líka inn í að ég vil gjarnan hreinsa til á skrifborðinu (í bæði eiginlegri og óeiginlegri merkingu) og skila einhverju af mér um bækur sem ég sagðist ætla að skrifa um fyrir löngu en það er aukaatriði; hinn tilgangurinn er augljóslega göfugri og er því tilgreindur utan sviga.)

Geislaþræðir
Það er merkilegt hversu lítið ber almennt á tölvupósti og netinu í bókmenntum, þrátt fyrir að þetta sé fyrirferðarmikið í lífi flestra nú til dags og drjúgur hluti margra af samskiptum við annað fólk sé orðinn rafrænn. Tölvupóstur o.þ.h. hefur reyndar verið notað þónokkuð í ýmsum unglingabókum síðustu árin en miklu minna í fullorðinsbókum. Það er svosem hefð fyrir því að ýmis grundvallaratriði í daglegu lífi séu lítt áberandi í bókmenntum – klósettferðir eru kannski augljósasta dæmið – en samskiptatæki eins og tölvupóstur bjóða upp á fleiri möguleika við skáldskaparskrif en mörg önnur hversdagsleg fyrirbæri og athafnir.

Blogg um bók um bækur: How to Read a Novel

Stuttu eftir að ég lærði að lesa byrjaði ég að hafa áhyggjur af því hversu margar bækur eru til í heiminum. Það getur verið mjög stressandi að hugsa um það, vegna þess að það er alveg hundraðprósent víst að maður mun aldrei ná að lesa nema brotabrot af því sem mann langar til að lesa. Og þá fer maður að hugsa um dauðann (sem er líka stressandi) og hvað það væri nú gott ef maður gæti orðið ódauðlegur eða stöðvað tímann... og svo er kannski liðinn svona hálftími sem hefði getað farið í að lesa eina af þessum trilljón bókum sem maður á eftir að komast yfir. (Þá verður maður enn stressaðari, fer aftur að hugsa um tímann og dauðann og svo framvegis.) Þið kannist ábyggilega við þetta.

Áhyggjurnar yfir bókamagni breyttust með tímanum í áhyggjur af því að ég hefði nú varla lesið neitt merkilegt, engar mikilvægar bækur. Svo, árið áður en ég byrjaði að læra bókmenntafræði, fór ég að hafa áhyggjur af því að ég myndi komast að því í háskólanum að ég vissi bara ekkert um bókmenntir og þetta yrði bara allt saman alveg geðveikislega vandræðalegt fyrir mig, kennarana og samnemendur mína. Um það leyti sem ég var að hafa áhyggjur af þessu rakst ég á bókina How to Read a Novel: A User‘s Guide eftir John Sutherland. Þegar ég blaðaði í gegnum hana í bókabúðinni og sá að fyrsti kaflinn heitir „So many novels, so little time“ vissi ég að ég yrði að eignast þessa bók.

Nípukotsætt

Nípukotsætt
Ættfræði er áhugamál ófárra, menn vilja gjarna þekkja uppruna sinn, forvitnast um ættir vina sinna og granna og skyggnast inn í líf genginna kynslóða. Til forna skiptu ættartengslin gríðarlegu máli, á þeim byggðist ekki bara réttur til erfða heldur líka sveitarfesti og hefndarskylda.

Markaðsdeild Druslubóka og doðranta er það ljúft og skylt að tilkynna að nýkomin er út bókin Nípukotsætt, en þar eru raktar ættir Húnvetninganna Jóns Þórðarsonar f.1775 á Fossi í Hrútafirði og Guðrúnar Jónsdóttur f. 1779 á Ytri-Löngumýri í Blöndudal. Jón og Guðrún giftu sig 13. júlí 1800 og hófu búskap í Nípukoti í Víðidal ári síðar. Þau eignuðust þrettán börn og er mikill fjöldi afkomenda frá þeim kominn.

Guðrún Hafsteinsdóttir tók bókina saman en hún er einnig höfundur Jóelsættar, sem kom út í tveim bindum fyrir nokkrum árum. Nípukotsætt er 419 blaðsíðna harðspjaldabók með mörgum ljósmyndum. Hún er prentuð í Odda og kostar 7500 krónur ásamt sendingarkostnaði (einnig geta menn nálgast eintök í Reykjavík og Mosfellsbæ). Þeir sem hafa áhuga á að kaupa Nípukotsætt sendi póst á netfangið thordisg@gmail.com. Bókin er ekki seld í bókabúðum.

22. október 2011

Sjálfhverfir karlar dulbúnir sem húmanistar?

Halldór Laxness skrifaði einhversstaðar að Íslendingar væru, vegna landfræðilegrar legu, í dálítið skökku perspektívi ár og síð. Nú á dögum telst landfræðileg lega varla góð afsökun fyrir skökku perspektívi en samt finnst mér perspektívið oft ansi skakkt. Líklega er tungumálinu töluvert um að kenna, eða að heimurinn hefur ekki minnkað eins mikið og ætla mætti miðað við jöfn og stöðug tengsl við útlönd. Þetta datt mér af einhverjum ástæðum í hug þegar ég fór að lesa um Nóbelsverðlaunin í bókmenntum, nokkrum dögum eftir að opinberað var að Svíinn Tomas Tranströmer hljóti verðlaunin í ár.

Þegar tilkynnt var um Nóbelsverðlaunahafann í bókmenntum í ár fylltust erlendar menningarvefsíður af póstum um verðlaunahafann og verðlaunin yfirleitt og hér á okkar síðu skrifaði okkar kona í Svíþjóð. Val á verðlaunahafa er alltaf umdeilt og gagnrýnt og undanfarin ár hafa Ameríkanar verið sérstaklega gagnrýnir. Þessi gagnrýni Ameríkana var sérstaklega rædd í pistli í danska blaðinu Information um daginn og ekki síst grein Tim Parks, What’s Wrong With the Nobel Prize in Literature, sem birtist í New York Review of Books, en þar segir Tim Parks beinlínis að þessi verðlaun séu hlægileg og kjánaleg.

Margir ritarar í amerískum fjölmiðlum halda því fram að sænska akademían sé Evrópumiðuð og and-amerísk og eftir að tilkynnt var um að Tranströmer fái verðlaunin í ár blossaði umræðan upp. Því er ekki haldið fram að Tranströmer sé lélegt skáld en margir eru samt ansi óhressir með höfundarvalið. Greinarhöfundur Information, Rikke Viemose, nefnir t.d. gagnrýni blaðamanns Washington Post, sem finnst einkennilegt að sjö af síðustu tíu verðlaunahöfum séu Evrópumenn og blaðamenn hafa einnig nefnt að ansi margir Svíar hafi fengið verðlaunin, þeirra á meðal tveir sem sjálfir sátu í Akademíunni. Tim Parks reifar hvernig verðlaunahafi sé fundinn af sextán Svíum, en tveir af átján meðlimum Akademíunnar taka ekki þátt í starfinu, annar vegna skorts á stuðningi við Salman Rushdie á sínum tíma og hinn vegna óánægju með valið á Elfriede Jelinek. Það er ekki hægt að hætta í Akademíunni nema dauður þannig að nýtt blóð á ekki greiða leið inn. Aðeins fimm meðlimir eru konur, aðeins einn fæddur eftir 1960 og síðan spyr Parks hvort meðlimir Akademíunnar hafi virkilega þekkingu á því sem þeir eiga að vega og meta. Flestir sem sitja í Akademíunni eru í fullri vinnu með og eiga þó að lesa að lágmarki 200 bækur á ári og meta verk höfunda frá öllum heiminum. Efni bókanna og form er fjölbreytt og sprottið úr ólíkum menningarheimum, einhver verkanna séu til á ensku en önnur bara í þýðingum á frönsku, þýsku eða spænsku, úr enn meira framandi tungum.

21. október 2011

Viðundur og skrælingjar

Minik stuttu eftir komuna til New York
Árið 1897 sneri bandaríski landkönnuðurinn Robert Peary aftur til New York frá Norðvestur-Grænlandi. Hann kom aldeilis ekki tómhentur því með sér flutti hann stórt brot af loftsteini sem hann hafði „fundið“ og 6 „sýnishorn“ af innfæddum, þar á meðal um það bil sex ára gamlan dreng, Minik, og föður hans, Qisuk. Peary hafði þegar flutt tvö smærri brot af loftsteininum til Bandaríkjanna nokkrum árum áður.

Það hafði vakið athygli fyrri landkönnuða að inúítar á Norðvestur-Grænlandi notuðu verkfæri úr járni og virtust hafa greiðan aðgang að einhvers konar járnnámu. Járnið reyndist koma úr þremur loftsteinsbrotum í Savissivik við Melvillesund. Innfæddir kölluðu þau Konuna, Hundinn og Tjaldið (eða Ahnighito), og var Tjaldið langstærst, eða 31 tonn að þyngd (Konan var 3 tonn og Hundurinn 400 kílógrömm). Peary hafði heyrt af loftsteininum og beitti miklum fortölum til að fá einhvern kunnugan staðháttum til að vísa sér leiðina að honum. Íbúar svæðisins voru flestir tregir til þess þar sem þeir höfðu áhyggjur af að hann hefði brotin með sér á brott—enda reyndist full ástæða fyrir þeim áhyggjum. En Peary fann að lokum viljugan leiðsögumann og þannig tókst honum að ná loftsteinsbrotunum.

Á nostalgíutrippi með góðmenninu

Einusinni vann ég með skóla á kaffihúsi í Kringlunni. Þetta var bara einn vetur og það var líklega eftir jóla„fríið“ sem ég ákvað að ein jól um borð í verslanamiðstöð væru meira en nóg. Mér dettur þetta í hug núna vegna þess að þótt jólin séu rúma tvo mánuði framundan er bara rúm vika eftir af október, sem þýðir m.a. tvennt – að jólaskraut fær brátt að blómstra á almannafæri, og að jólabækur eru byrjaðar að flæða inní verslanir.

Málþing um Kristmann

Á sunnudaginn, 23. október,  halda norska sendiráðið og Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands málþing um rithöfundinn Kristmann Guðmundsson í Norræna húsinu, en þann dag eru liðin 110 ár frá fæðingu skáldsins.

Dagskrá:
13.30 Þingið sett.

13.40 Heming Gujord, dr. art. í norrænum bókmenntum og førsteamanuensis við Universitetet i Bergen: Kristmann Guðmundsson – Norsk gjensyn med en populær islandsk forteller.

14.20 Ármann Jakobsson, dósent í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands: Spámaður utan föðurlands – Kristmann Guðmundsson og Noregur.

14.45 Gunnar Stefánsson, dagskrárfulltrúi: Skáldið Kristmann á heimaslóð.

15.10 Kaffihlé.

15.30 Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við Háskóla Íslands:
Félagi mamma – Um kreppu karlmennskunnar í hörðum heimi eftirstríðsáranna.

15.55 Gunnþórunn Guðmundsdóttir, dósent í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands:
"Hvorki annálar né vísindaleg sagnfræði" – Skyggnst um í fjögurra binda sjálfsævisögu Kristmanns Guðmundssonar.

16.20 Lokaorð: Hrefna Kristmannsdóttir, prófessor við Háskólann á Akureyri.

16.30 Léttar veitingar.
Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

19. október 2011

Káputextar og kjölfræðingar

Nokkrar glænýjar bækur
Í desember 1998 skrifaði Þröstur Helgason grein í Lesbókina þar sem hann sagði káputexta sennilega mest lesnu bókmenntir í heimi. Í greininni segir hann káputextana sérstakt bókmenntalegt form sem hafi sín stíllegu og efnislegu einkenni og geti jafnvel haft sammannlegt og listrænt gildi eins og góður skáldskapur. Svo tekur Þröstur dæmi af lýrískum káputexta sem birtist aftan á þá nýútkominni bók og hljóðar svo:
Sumar þúfur er auðvelt að hoppa yfir ­ aðrar ummyndast í ókleif fjöll, ekki síst á ljúfsárum brotaárum þegar mikið er í húfi og leitin að fótfestu í lífinu stendur sem hæst. [...] með örlitlu braki í gólffjöl, sætum ilmi eftirvæntingarinnar, sektarkennd svikarans, uppgjöf fyrir ofurefli og sælukennd sigursins má skynja bæði neistaflug gleðinnar og hyldýpi örvæntingarinnar.
Ég hef ekki hugmynd um af hvaða bók þetta er en hins vegar hef ég dálítinn áhuga á káputextum og kápumyndum. Orðið kjölfræðingur var töluvert notað einu sinni um ákveðna menn, sem þóttust hafa lesið bækur sem þeir höfðu í raun bara lesið káputextana á, ég veit ekki hvort það hugtak er dottið uppfyrir.

18. október 2011

Börnin í svínastíunni

Susanna Alakoski


Tilkynnt var á dögunum að kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 falli í skaut Pernillu August fyrir myndina Svínastíuna (s. Svinalängorna). Ég taldi því ekki seinna vænna að skella í umfjöllun um bók Susönnu Alakoski, sem myndin er byggð á og ég hef einmitt nýlokið við. Myndin verður sýnd áfram í Bíó Paradís í Reykjavík, að minnsta kosti út þessa viku.

Pælingar um paradís...

Í gegnum Bókmenntahátíð hef ég kynnst verkum margra skemmtilegra og áhugaverðra höfunda sem annars hefðu sjálfsagt farið fram hjá manni. Sérstaklega er gaman að fylgjast með höfundum sem ekki eru enskumælandi því eitthvað er jafnan þýtt eftir þá á íslensku við þetta tilefni. Sjálf er ég því miður ekki nógu dugleg að lesa annað en bækur á ensku og íslensku – en þótt talsvert sé þýtt þessa dagana (alla vega miðað við hina frægu höfðatölu okkar Íslendinga) þá er ansi stór hlutfall þess skandinavískir reyfarar. Nú er ég mikill aðdáandi lífsþreyttra, drykkfelldra rannsóknarlögreglumanna og gleypi þetta allt í mig með bestu lyst – en það er hins vegar gleðiefni þegar fjölbreytnin verður meiri – eins og til dæmis í kringum bókmenntahátíð.

Meðal nýlegra þýðinga má nefna Andarslátt eftir rúmanska nóbelsverðlaunahafann Hertu Müller en áður hefur komið út eftir hana Ennislokkur einvaldsins. Þá var að koma út Fásinna eftir salvadorska skáldið Horacio Castellanos Moya. Einnig var að koma í bókabúðir íslensk þýðing Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur á Adam og Evelyn, skáldsögu frá 2008 eftir Ingo Schulze og er sú bók hér til umfjöllunar.
Schulze er fæddur árið 1962 í Dresden í Austur-Þýskalandi sem þá var, og var því um 27 ára gamall þegar múrinn féll haustið 1989. Hann er metsölu höfundur í Þýskalandi og hefur verið þýddur yfir á fjöldamörg tungumál – þar á meðal íslensku en árið 2000 kom hér út bókin Simple Stories: Ein Roman aus der ostdeutchen Provinz eða Bara sögur: Skáldsaga úr austurþýskum smábæ. Fall múrsins og lífið sitthvoru megin við hann fyrir og eftir fallið hefur reynst Schulze drjúgur efniviður og er Adam og Evelyn þar engin undantekning.

17. október 2011

Það er svo gaman að hnýsast....


Það getur verið ótrúlega spennandi að lesa eitthvað sem manni er ekki ætlað, dagbækur og bréf annarra, minnismiða, verkefnalista, glósur, spássíukrot og þar fram eftir götunum. Nú er hægt að komast yfir slíkt efni með auðveldum hætti.

Hér er t.d. skemmtilegt veftímarit sem birtir allskonar bréfsnifsi sem fundist hafa hér og þar. Davy Rothbart stofnaði Found Magazine, hann fékk hugmyndina þegar hann fann miða sem hafði verið settur á bílrúðuna hjá honum fyrir mistök. Hann sýndi vinum sínum miðann og þeir sögðu honum frá allskonar bréfsnifsum sem þeir höfðu fundið í gegnum tíðina og smám saman fór hann að safna svona miðum, myndum, ýmsu efni sem fannst fyrir tilviljun (Síðan liggur niðri þegar þetta er skrifað, annars þannig að ég get ekki birt skemmtileg dæmi, þið verðið bara að fletta og skoða....).

Hér er svo hin ágæta síða Letters of note en þar eru birt allskonar bréf, bæði frá frægum og ófrægum sem enginn nema sá sem bréfið er stílað á átti væntanlega að sjá. Hér er til dæmis skemmtilegt bréf frá Herra Asuquo Okon Inyang, fyrrverandi starfsmanni breska sendiráðsins í Kalabar í Nígeríu en hann er síður en svo ánægður með að hafa misst vinnu sína þar. Hér er svo bréf, skrifað til Coca Cola verksmiðjunnar í fyrri heimstyrjöldinni þar sem kvartað er yfir kók skorti í MacArthur kampi.

Hér eru svo fínir This American Life þættir:

Í þessum koma hlustendur og lesa upp úr eigin bréfum. Hér eru frásagnir fólks sem las bréf annarra með ófyrirséðum afleiðingum.

15. október 2011

Ennþá betri á hljóðbók en á bók

Það verður að viðurkennast að undirrituð er ekki mjög sjóuð í hljóðbókabransanum. Sjálf les ég svo hratt og á mun auðveldara með að meðtaka ritmál en talað mál að ég vel nánast alltaf bók á prenti ef það er í boði. Hins vegar er afskaplega gaman að hlusta á góðan upplestur og ég dett oft inn í framhaldssögur í útvarpi, nú fyrir utan Útvarpsleikhúsið sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég sakna þess oft í athyglisbrostna nútímanum að sitja, hlusta og njóta, sem ég gerði afar mikið af sem barn. Bæði hlustaði ég á útvarpssögur og -leikrit (mitt eftirlætisleikrit er ennþá Tordýfillinn flýgur í rökkrinu eftir Mariu Gripe, sem er stórkostlegt og ætti svo sannarlega að vera til á geisladiski) og svo ógrynnin öll af hljómplötum/kassettum með sögum og tónlist. Hver getur gleymt Pílu Pínu, Kardemommubænum, Ævintýri í Mararþaraborg eða Pétri og úlfinum?

iPodinn og stafrænuvæðingin hafa reyndar orðið til þess að stórauka framboð af og aðgengi að hljóðbókum og upplestri hvers kyns. Um daginn bloggaði ég um Guardian Book Club og á netinu er hægt að finna nóg af skemmtilegum bókmenntaþáttum, allt eftir því hvaða tungumál maður skilur.

Síðasta vetur eignaðist ég svo skemmtilegasta upplestrardisk sem ég hef komist í. Það var druslubókadaman Maríanna Clara sem kynnti mig fyrir bandaríska höfundinum David Sedaris og gaf mér téðan disk, sem heitir einfaldlega David Sedaris Live at Carnegie Hall.

14. október 2011

Ekki líta undan

Það skal viðurkennt að ég var á báðum áttum með að tjá mig opinberlega um bókina Ekki líta undan, sögu Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur, sem Elín Hirst skráði. Í fyrsta lagi er búið að fjalla mjög mikið um mál biskupsins heitins og kærurnar á hendur honum og einnig um mál dóttur hans og í öðru lagi þá er afskaplega erfitt að fjalla um bækur á borð við þessa, og aðrar sem lýsa svona hræðilegri lífsreynslu, á einhverskonar fagurfræðilegum nótum, hvað þá að gagnrýna þær. Ekki líta undan er ætlað að segja sögu konu í því skyni að benda á að mikilvægt sé að uppgjör ákveðinna mála fari fram, að satt megi ekki kyrrt liggja. Ætlunin er að benda fólki á að vera á verði gagnvart hugsanlegum kynferðisbrotamönnum, það geti mögulega komið í veg fyrir að einhverjir lendi í klóm þeirra. Mér finnst líklegt að bókin muni að einhverju leyti standa undir ætlunarverkinu og ég efast ekki um að það sé til góðs að þessi saga sé sögð.

Ekki líta undan er fyrstu persónu ævisaga sögð í tímaröð, hún hefst á fæðingu aðalpersónunnar og lýkur fyrir skömmu. Aftast er ítarefni, fræðsla um sifjaspell, bréf Guðrúnar Ebbu til Karls Sigurbjörnssonar biskups og þakkir höfundarins, sem hitti Guðrúnu Ebbu fyrst árið 2010. Þar kemur einnig fram að Elín Hirst ræddi við móður og bróður Guðrúnar Ebbu, en þau samtöl eru (því miður) ekki til umræðu í bókinni. Í upphafi bókar kemur fram að Guðrún Ebba sé ekki í tengslum við systkini sín og móður, þau eru ósátt við að bókin sé skrifuð og af tillitsemi við þau koma þau mjög lítið við sögu og ég held að fjölskyldan, sem greinilega virðist ekki vilja hugsa þá hugsun til enda, hvað þá viðurkenna að Ólafur Skúlason hafi nokkurn tíma misnotað nokkra konu kynferðislega, geti bara vel við sinn hlut unað, þau eru næstum ósýnileg.

Upphefðin að utan

Frá íslenska skálanum í Frankfurt
Bókamessan í Frankfurt stendur nú sem hæst og öll forlög í Reykjavík galtóm af starfsfólki (ég athugaði það sko). Það virðist ríkja almenn ánægja með framlag okkar Mörlendinga - og sannarlega lítur skálinn kósí út á myndum; hér er umfjöllun El País um Ísland á bókamessunni og hér raðar Süddeutsche Zeitung einum miðaldabókmenntum, átta körlum og einni rómantískri konu á topp tíu lista.

Svo má benda á að Eiríkur Örn Norðdahl heldur uppi stöðugum bókamessuskætingi á þessu bloggi.

En grænu bólurnar sem ég fæ af því að sjá forsetag****ð vaða þarna uppi...my oh my.

13. október 2011

Smá ljóðahátíðarfréttir


Alþjóðlega ljóðahátíðin fór fram um síðustu helgi og mér datt í hug að setja inn fáeinar misblörraðar myndir frá hátíðinni - af Þórdísi Gísladóttur, Monicu Aasprong og Gary Barwin. Ég er rosa léleg í uppsetningu á Blogger þannig að þær koma örugglega frekar skringilega út (ég lofa að mennta mig betur í þessari tækni við fyrsta tækifæri). Ég náði ekki allri hátíðinni, var í Nýlistasafninu á upplestrum föstudagskvöldsins og fyrri part laugardagskvölds en missti af pallborðsumræðunum í Norræna húsinu á laugardaginn. Ég er því að flestu leyti frekar vonlaus fréttaritari, en það er þá hægt að bæta upp fyrir það í athugasemdum.

12. október 2011

Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins (European Union Prize for Literature)

Evrópusambandinu og framkvæmdastjórn þess er ekkert mannlegt óviðkomandi. Þar á bæ er veröldinni skipt niður í skipulega búta sem fjalla um allt frá tollkvótum og yfir í bókmenntaverðlaun. DG Culture (Directorate General for Culture) sem útleggst sem einhverskonar menningarmálaráðuneyti sambandsins stendur m.a. fyrir ýmiskonar verðlaunaveitingum (bókmenntir, arkitektúr, menningararfur o.fl) sem settar voru á laggirnar í gegnum nokkuð sem kallast „special action“ innan Menningaráætlunar sambandsins sem menn geta kynnt sér nánar hér

Markmiðið með Evrópsku bókmenntaverðlaununum er að setja kastljósið á alla þá sköpun og hin margbreytilegu verðmæti sem felast í evrópskum samtímabókmenntum á sviði skáldverka, auka dreifingu bókmennta innan Evrópu og vekja innan landanna áhuga á bókmenntum annarra Evrópuþjóða.

Michigan - paradís bernskunnar

Ernest Hemingway með systrum sínum og móður í Michigan
Það er mín tilfinning að útgáfa svonefndra „coffee table“ bóka hafi aukist á Íslandi hin síðari ár. Þetta er aðeins tilgáta og hef ég ekki ráðist í neina rannsóknarvinnu til þess að renna stoðum undir hana. Kannski var vöxtur í þessum geira angi af velmegunarsprengjunni, fólk átti meiri pening til þess að eyða í allskyns „óþarfa“ eins og puntbækur og skilyrðislaus krafan um glæsileika alls innbús – þar með talinna bóka, varð kæfandi.

Ég er ekki einusinni viss um hvað eðlilegt er að nota til skilgreiningar á þessum bókaflokki. Þær eru oftast stórar um sig og of þungar til að fara með upp í rúm (nema lesandinn sé með hjálm til að fyrirbyggja meiðsl). Þær eru dýrar og gjarnan gefnar í starfsloka- og stórafmælisgjafir. Fjalla oft um listir, náttúru, hönnun eða eru bara hreinræktaðar ljósmyndabækur. Þetta eru svona bækur sem enginn les, bara flettir og eins og nafnið bendir til þá safna þær ryki undir sófaborðinu. Ef að vinkona þín kemur í kaffi þá getur hún kannski flett nokkrum síðum meðan þú skreppur á klósettið. Í hinum fullkomna heimi situr þú í snyrtilegu stofunni þinni með rjúkandi espresso og grípur eina bókina, lest ljóð af handahófi og skoðar tilheyrandi svarthvíta mynd af íslensku eyðibýli. Svolítið eins og þegar þú færð þér einn Quality street-mola. Þú veist þú mátt ekki velja þér, þú bara læðir höndinni undir lokið og færð þér einn og svo ekki meir. Svona eins og siðaða mannveran sem þú ert.

10. október 2011

Mjög góðar danskar smásögur *

„Hún heitir Helle Helle. Hún getur skrifað skrifað. Því miður hefur hún ekkert að skrifa skrifa um.“ Einhvern veginn þannig hófst einn af fyrstu ritdómunum sem skrifaður var um verk hinnar dönsku Helle Helle. Til allrar hamingju – fyrir Helle alla vega – hafa dómarnir farið batnandi síðan. Eða batnandi er kannski ekki rétta orðið, hún hefur almennt verið hyllt af gagnrýnendum jafnt sem lesendum og fengið fjölda verðlauna og viðurkenninga, var til að mynda tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2009. Engu að síður hafa orð gagnrýnandans þarna forðum daga enn ákveðið sannleiksgildi. Þótt mér finnist Helle Helle alltaf hafa eitthvað mikilvægt að segja er ekki hægt að neita því að sögurnar hennar eru viðburðarsnauðar með meiru.

Druslubókabloggið er líka erlendis

Um daginn áttum við Þorgerður samtal við ameríska blaðakonu (sem býr reyndar í Berlín og á þetta bókablogg) og afraksturinn má nú lesa á þessari amerísku vefsíðu. Hróður Druslubóka og doðranta berst um veröld víða.

9. október 2011

Misgóðar danskar glæpasögur

Fyrr á árinu las ég tvær arfaslappar danskar glæpasögur um svipað leyti: Dødsenglen eftir Söru Blædel og Vold og magt eftir Elsebeth Egholm. Hvor um sig var sú sjötta í bókaflokki. Í báðum tilfellum hafði ég lesið allar hinar bækurnar í flokknum og líkað ýmsar þeirra ágætlega þannig að vonbrigðin urðu kannski meiri en ella.

Fyrsta glæpasaga Söru Blædel, Grønt støv, var reyndar ekki upp á marga fiska, enda var það svo að þegar farið var að þýða bækur hennar á íslensku var byrjað á annarri bókinni í flokknum um lögreglukonuna Louise Rick, Kallaðu mig prinsessu (Kald mig prinsesse) sem var verulega mikið skárri. Síðan hefur Sara Blædel skrifað allnokkrar bækur sem eru svo sem langt frá því besta sem finna má innan glæpasagnahefðarinnar en alveg skikkanleg afþreying. Sjötta sagan í flokknum og sú nýjasta, Dødsenglen, er hins vegar svo foráttuvond, illa plottuð og fyrirsjáanleg að það er langt síðan nokkur bók hefur farið eins í taugarnar á mér.

7. október 2011

Viðnám ímyndunaraflsins

Þegar við lesum skáldverk er fátt eins mikilvægt og að geta lifað sig inn í það. Það er yfirleitt lítið varið í að lesa skáldsögu ef við finnum ekki til samkenndar með söguhetjunum eða ef hegðun þeirra og viðbrögð eru ekki sannfærandi. Ímyndunaraflið er bráðnauðsynlegt til að fá eitthvað út úr lestri skáldverka og ákveðið samspil milli höfundar og lesanda þarf að koma til. Höfundurinn þarf að setja efnið þannig fram að það nái til lesandans og lesandinn þarf að vera móttækilegur, meðal annars með ímyndunarafli sínu, fyrir efninu. Ef þetta er ekki til staðar er tilganginum ekki náð. Hér má svo velta fyrir sér hvaða skorður, ef einhverjar, ímyndunaraflinu eru settar. Getum við ímyndað okkur, og lifað okkur inn í, hvað sem er? Vantar eitthvað upp á frjósemi ímyndunaraflsins ef við getum það ekki?
Mörg okkar njóta þess að lesa alls konar fantasíubókmenntir eða aðrar bókmenntir þar sem söguhetjur, jafnt mannlegar sem annarra tegunda, eru í alls konar langsóttum aðstæðum sem geta verið afar ólíkar nokkru sem á sér stað í raunveruleikanum. Við förum létt með að ímynda okkur flakk milli heima og vídda, alls konar galdra og öfl sem ekki eru þessa heims, talandi dýr og yfirnáttúrulegar furðuskepnur og ótal margt fleira. Við gætum þess vegna hlegið og grátið með fjölkunnugri drekakanínu sem berðist við sjávaranda úr fortíðinni og flakkaði milli tímavídda. En þýðir þetta að ímyndunarafl okkar eigi sér engin takmörk? Er hægt að lifa sig inn í hvað sem er?
Hér koma hugleiðingar heimspekinga til sögunnar. Fyrir rúmum 250 árum skrifaði David Hume:
Þó að íhugunarvillur sé að finna í siðmenntuðum skrifum allra tíma og þjóða þá draga þær ekki nema lítið úr gildi þessara verka. Einungis þarf litla breytingu á blæbrigðum í hugsun eða ímyndun til að við tökum á okkur þær skoðanir sem þá ríktu og lærum að meta þau sjónarmið eða niðurstöður sem leiddar eru af þeim. En afar heiftarlegt átak gerist nauðsynlegt ef breyta skal dómum okkar um hegðun og vekja kenndir á borð við velþóknun eða álösun, ást eða hatur, frábrugnar þeim sem hugur okkar hefur lengi mátt venjast … Ég get ekki, né væri það viðeigandi að ég gerði svo, gengist undir slíka [lastafulla] afstöðu (David Hume, „Af mælikvarða smekksins“).
Hume taldi sem sagt að þótt við gætum sett okkur í spor fólks á fjarlægum slóðum eða á öðrum tímum og þannig metið hluti útfrá aðstæðum ólíkum okkar eigin þá gilti það ekki þegar um væri að ræða gildisdóma á borð við þá sem varða siðferði. Og hann segir að það væri beinlínis rangt af okkur að reyna. Hume er svo sem ekki sérstaklega að fjalla um ímyndunaraflið eða skáldskap en það hafa aðrir heimspekingar gert, mun nær okkur í tíma, og sett þessi orð hans í slíkt samhengi. Tamar Szabó Gendler hefur þannig fjallað um það sem hún kallar ímyndunarviðnámsráðgátuna (e. puzzle of imaginative resistance) og þar lagt út af orðum Humes. Ímyndunarviðnámsráðgátan snýst um það að suma hluti eigum við afar erfitt með að ímynda okkur. Við getum ímyndað okkur heim þar sem manneskjur hafa vængi og geta flogið, þar sem verur með fjögur höfuð ráða ríkjum eða þar sem ýmiss konar náttúrulögmál eru brotin en það er afar erfitt, ef ekki ómögulegt, að ímynda sér heim þar sem rétt er að drepa barn á þeim forsendum að það sé stúlka, þar sem nauðganir eru réttmætar eða þar sem það besta sem hægt er að gera fyrir nokkurn mann er að pynta hann.
Kendall Walton hefur bent á svipaða hluti en vill ekki setja þá fram á sama hátt og Gendler. Hann vill gera greinarmun á því sem snýr að ímynduninni og því sem lýtur að skáldskap. Það sem greinargerðir beggja eiga þó sameiginlegt er að litið er svo á að hugmyndir um siðferði og annað gildismat séu það sem setja ímyndunaraflinu eða skáldskaparinnlifuninni einna mestar skorður. Gildismat okkar, ekki síst hið siðferðilega, liggur svo djúpt í okkur að við fáum okkur ekki einu sinni til að ímynda okkur eitthvað sem gengur gegn því eða lifa okkur inn í aðstæður þar sem það hefur ekkert vægi. Það virðist jafnvel eitthvað siðferðilega rangt við það að leyfa sér að ímynda sér að morð og limlestingar séu réttmæt.
Það virðist þó ekki bara vera eitthvað siðferðilegt sem truflar ímyndunarafl eða innlifun. Sjálf á ég að minnsta kosti erfitt með að lifa mig inn í líf sögupersónu sem hefur tilfinningalíf sem mér finnst of furðulegt eða ekki nógu sannfærandi. Það virðist ekki trufla trúverðugleika sögupersónu að hún sé þríhöfða þurs sem étur skósvertu í hvert mál og svífur um óháð þyngdarlögmálinu en ef hún gerir ekki greinarmun á sorg og gleði eða lætur sér standa á sama um sína nánustu þá verður hún svo framandi að sagan verður of fjarstæðukennd til að ég geti lifað mig inn í hana. 

6. október 2011

Nýræktarstyrkir Bókmenntasjóðs

Í dag, fimmtudaginn 6. október, tilkynnti Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri mennta- og menningarmálaráðuneytis hverjir hlytu Nýræktarstyrki Bókmenntasjóð árið 2011, en þetta er í fjórða sinn sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað. Athöfnin fór fram í Nýlistasafninu á Skúlagötu 28 og þar var boðið upp á hnetur, súkkulaðirúsínur, saltstangir og drykki í ýmsum litum.  Nýræktarstyrkjum er ætlað að styðja við útgáfu á nýjum íslenskum skáldverkum sem hafa takmarkaða eða litla tekjuvon en hafa ótvírætt menningarlegt gildi. Undir þetta svið falla skáldverk í víðri merkingu þess orðs til dæmis sögur, ljóð, barnaefni, leikrit, eða eitthvað allt annað, og leitað var eftir breidd og fjölbreytni í umsóknum.  Í ár bárust 30 umsóknir um 5 styrki að upphæð 200.000 kr.

Styrkina fengu að þessu sinni barnabók, myndasögutímarit, skáldsaga, bókverk/myndljóð og unglingabók og meðal styrkþegar var ein úr röðum okkar, sem skrifum á Druslubókasíðuna, Hildur Knútsdóttir og einnig fengu verk eftir Bryndísi Björgvinsdóttur og Arndísi Þórarinsdóttir styrki. En eftirfarandi verk og höfundar hlutu styrki, blóm og hamingjuóskir:



Aðsvif (myndasögutímarit)
Ritstjóri: Andri Kjartan Jakobsson

Játningar mjólkufernuskálds
Höfundur: Arndís Þórarinsdóttir
Útgefandi: Forlagið

Flugan sem stöðvaði stríðið
Höfundur : Bryndís Björgvinsdóttir
Útgefandi: Forlagið

Sláttur 
Höfundur: Hildur Knútsdóttir
Útgefandi: JPV

Hold og hjarta - líkamlegu ljóðin 
Myndljóð unnin upp úr bók Magneu frá Kleifum.
Höfundur: Ragnhildur Jóhanns
Útgefandi: Ófundinn

Vonir, væntingar og Nóbelsverðlaunin

Í dag klukkan 13 mátti heyra gleðióp óma yfir allri Svíþjóð. Ástæðan: sænska ljóðskáldið Tomas Tranströmer fékk loksins bókmenntaverðlaun Nóbels. Sjálf sat ég á undirkjólnum við eldhúsborðið heima hjá mér í sænskum smábæ og tók þótt í ópinu. Ég var ekki svona glöð af því að ég hafi lesið kynstrin öll eftir Tranströmer og vonað að hann fengi verðlaunin árum saman. Nei, ég var kannski fyrst og fremst glöð af því að ég hef lesið kynstrin öll af ummælum annars fólks sem hefur vonað árum saman. Eftir fimm ára búsetu í Svíþjóð hefur það orðið mér ljóst að sænsku þjóðina dreymir um tvennt, heimsmeistaratitli í fótbolta (dream on!) og Nóbelsverðlaun handa Tranströmer. Í nokkra októberdaga á hverju ári eru fjölmiðlar fullir af vangaveltum um hver hljóti verðlaunin. Hver sérfræðingurinn á fætur öðrum er leiddur fram og allir beðnir að gefa sitt álit, hvaða höfund þeir telji líklegastan og nafn hvers þeir vilji sjálfir helst heyra nefnt þegar ritari sænsku akademíunnar stígur inn í Börssalen fullan af fréttamönnum og tilkynnir ákvörðun hennar. Og ævinlega hefur nafn Tranströmers bergmálað í viðtölum, greinum og veðbönkum.  Ár hvert, daginn sem verðlaunin eru tilkynnt, ku stigagangurinn í fjölbýlishúsinu sem Tranströmer býr í á Södermalm í Stokkhómi líka fyllast af vongóðum blaðamönnum. Þar laumast þeir hljóðlega upp tröppurnar skömmu fyrir klukkan eitt og standa svo í hóp fyrir framan dyrnar að íbúð hans í von um að ef Tranströmer fái verðlaunin þá nái þeir fyrsta viðtalinu, fyrstu myndinni af nýjasta nóbelsverðlaunahafa Svía. Og nokkrar mínútur yfir eitt hafa þeir svo hingað til neyðst til að laumast lúpulega til baka, blómvöndurinn eins og lafandi skott milli fótanna á þeim.


5. október 2011

Herra Helmer ávíttur

Í heilan mánuð hef ég fátt lesið nema á hlaupum. (Annað hef ég lesið í bútum; það hefði kannski verið skemmtilega asnalegt að blogga um „bls. 1-13, 54-56 og 70-97 í Býr Íslendingur hér?“) Ég hef komist í gegnum 120 blaðsíður af No Logo áratug á eftir öllum öðrum, þrjár frekar vondar bækur eftir Lizu Marklund, 25 gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur, stutta bernskusögu af Ströndum og fjórar verðlaunasögur Gaddakylfusamkeppninnar, sem ég verð að segja að voru hver annarri verri. Það sem gladdi mig mest voru eiginlega rauðu og svörtu Word Art-myndskreytingarnar úr sarpi umbrotsmanna DV, sem vöktu með mér nostalgíu eftir hnausþykku heildarsafni Edgar Allan Poe sem ég átti einu sinni þar sem var eins og einhver hefði ælt svörtum líkkistum og svörtum hröfnum og svörtum krossum yfir hverja einustu síðu.

En nú við mánaðamót er nokkrum verkefnum lokið og mjúkt skref mitt yfir í nýja og aðeins minna erilsama dagskrá var ljóðabókin Blóm handa pabba frá 2007 eftir Bjarna Gunnarsson, sem var einmitt að lesa upp með mér á Akureyri um þarsíðustu helgi.

Húshjálpin / The Help

Bandaríska kápan.
Ég fékk fyrst veður af The Help, skáldsögu Kathryn Stockett, í sumar þegar á las einhversstaðar grein um að hún stæði í málaferlum af því hún væri sökuð um að stela atburðum úr lífi (svartrar) vinnukonu bróður síns og byggja á þeim eina af aðalpersónu bókarinnar. Höfundur greinarinnar rakti málið og lýsti því svo yfir að henni fyndist bókin æðisleg, sama hvort eitthvað væri stolið í henni eða ekki.

Svo rakst ég skömmu síðar á aðra grein þar sem fjallað var um að það hafi vakið hörð viðbrögð að hvít kona skrifaði í orðastað svarta kvenna og notaði orðalag eins og "you is kind", "ever day" og "once upon a time they was two girls" (sorrí ég kann ekki að gera íslenskar gæsalappir á blogger!). Höfundur þeirrar greinar endaði hana líka á því að tala um það hvað henni hafði fundist bókin æðisleg.

Jaðarsetning kvenkyns rithöfunda?

Grein á vefnum The Bookseller fjallar um að sala á bókum eftir ákveðna kvenrithöfunda í Bretlandi, sem gjarna eru seldar í stórmörkuðum, fari minnkandi. Þarna eru nefndar Marian Keyes, Jodi Picoult, Dorothy Koomson og fleiri. Tekin eru dæmi um minnkandi sölu hjá einstökum höfundum, en heildarsalan í Bretlandi á 20 söluhæstu kvenrithöfundunum sem selst hafa mest undanfarin ár hefur minnkað um 10%. Menn velta vöngum yfir hvernig standi á þessu, fólk er almennt að spara við sig í kreppunni, rafbækur eru komnar til sögunnar og eitthvað fleira er tínt til. Síðan er vitnað í bókmenntaritstjóra tímaritsins Marie Claire, sem segir:
People are getting a bit sick of the chick lit look, and the term as a genre label—it seems to cover such a wide range. The jackets make it seem frothy and light, but a lot of books with those covers actually deal with quite serious things.
Hún vill sem sé meina að lesendur séu búnir að fá nóg af chick-lit kápunum og stimplinum, margar þessar bækur fjalli í raun um mjög alverleg efni en sé pakkað inn í rangar umbúðir. Ég er ekkert frá því að eitthvað sé til í þessu hjá Marie Claire-blaðakonunni en athugasemd lesanda fyrir neðan fréttina á bookseller-vefnum vakti líka athygli mína.
Why always this distinction on "Women's fiction". Donaldson's comment "It's possible budget-conscious women doing the weekly shop are denying themselves a purchase they'd have made happily a couple of years ago." only emphesises the general opinion that only women read books written by women, and female novelists only write for a female audience. Completely ridiculous. Surely sales on "Men's fiction" is hit just as hard by the belt-tightening of recent years. Why perpetuate this marginalising of women's writing which still keeps the majority of female novelists on the sidelines?
Já, hvers vegna er þetta chick-lit hugtak eiginlega til? Hvað gerir bók að chick-lit? Ég ræddi þetta við sænska metsöluhöfundinn Kajsu Ingemarsson þegar hún var á Íslandi í sumar, en það fer í taugarnar á henni að bækurnar hennar séu víða flokkaðar sem skvísubækur. Hún sagði að sér fyndist margar skáldsögur eftir sjálfa sig og aðrar skrifandi konur, sem flokkaðar eru sem skvísubækur af útgefendum og lesendum, bara vera skáldsögur á borð við t.d. þær sem Nick Hornby skrifar, og hélt því fram að þetta væri ein leið til að setja skáldsagnaskrifandi konur út á jaðarinn. Mér finnst þetta áhugaverðar vangaveltur, en nú er jafnvel farið að kalla ákveðnar bækur eftir karlmenn chick-lit. Hafa lesendur Druslubóka og doðranta skoðun á málinu?

4. október 2011

Alþjóðleg ljóðahátíð um helgina

Alþjóðleg ljóðahátíð verður haldin í Norræna húsinu og Nýlistasafninu í Reykjavík 6.-8. október. Þar verða ljóðaupplestrar og pallborðsumræður sem innlend og erlend skáld taka þátt í, ásamt ýmsum fjöllistamönnum. Opnun og pallborðsumræður hátíðarinnar fara fram í Norræna húsinu og á Nýlistasafninu verður boðið upp á upplestra. Í boði verður ljóðlist, tónlist, myndlist, leiklist, sviðslist og alls kyns sambland af þessum listum. Alþjóðleg ljóðahátíð er haldin í samstarfi við S.L.Á.T.U.R. (Samtök listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík).

Fjögur heimsþekkt erlend ljóðskáld koma á hátíðina:
Anne Kawala frá Frakklandi: Sjónlista- og sviðslistaskáld sem hefur vakið mikla athygli á alþjóðlegum vettvangi.
Gary Barwin frá Kanada: Skáld sem yrkir myndræn ljóð, hljóðljóð og súrrealísk ljóð og hefur gefið út tíu bækur, nú síðast bókina The Porcupinity of Stars.
Marko Niemi frá Finnlandi. Marko fæst við stafræna, hljóðræna og myndræna ljóðlist. Verk hans má skoða á nokturno.org.
Monica Aasprong frá Svíþjóð: Höfundur bókarinnar Soldatmarkedet (Hermannamarkaðurinn) sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir pólitískan boðskap sinn og myndræna framsetningu.

„Eru ekki allir málsmetandi íslenskir höfundar með þríleik?“ Tapio Koivukari situr fyrir svörum

Rithöfundurinn og guðfræðingurinn Tapio Koivukari hefur sterk tengsl við Ísland og hefur m.a. þýtt verk Vigdísar Grímsdóttur, Gyrðis Elíassonar og Gerðar Kristnýjar á finnsku. Hann bjó um skeið á Vestfjörðum og var þá af sumum þekktur sem Kiddi Finni, en býr nú ásamt fjölskyldu í sínum gamla heimabæ í Finnlandi. Við Tapio hittumst fyrst á þýðingaþingi í HÍ árið 2007 og höfum haldið sambandi síðan ég flutti til Finnlands. Á dögunum heimsótti ég fjölskylduna til Rauma og sigldi með þeim út í eyju á bátnum Halldísi, nefndri uppúr Laxdælu. Tapio tók vel í þá hugmynd að svara nokkrum spurningum um sig og sín störf.

3. október 2011

Hraðskreiðasta kona heims


Um daginn fann ég skemmtilega bók í tiltekt sem ég var alveg búin að gleyma. Þetta er lítið kver, sérstaklega af ævisögu að vera, bókin heitir The Queen of Whale Cay eftir Kate Summerscale og fjallar um Marion Barböru Carstairs, sjúkrabílstjóra, hraðbátaunnanda og plantekrudrottningu, með meiru. Marion Barbara var reyndar alltaf kölluð Joe, hún var lesbía og gekk um í karlmannsfötum, var með tattú og reykti vindla. Og svo var hún víst mjög góð í Charleston dansi.

Joe Carstairs fæddist árið 1900 í London. Ekki er í raun vitað hver var faðir Joe þó talið sé að það hafi verið Albert Carstairs, skoskur liðsforingi sem lét sig hverfa áður en Joe fæddist. Mamma hennar var hinsvegar vellríkur heróínfíkill, erfingi olíuauðs sem fékk ýmsar skemmtilegar hugmyndir, hún reyndi til dæmis að markaðssetja furðurlegar yngingarmeðferðir en græddi lítið á því. Flest bendir til þess að hún hafi ekki haft mikinn áhuga á dóttur sinni sem “var aldrei lítil stúlka” að eigin sögn.

Upplyfting kaldhæðins bókmenntafræðings

Ég hata mánudaga. Ég hata súld og ég hata gargandi krákur. Og eins og það sé ekki nóg að það sé kaldur og grár mánudagur þá hef ég þurft að eyða morgninum í að reyna að setja saman ferilskrá. Fátt veit ég óréttlátara en að það sé ætlast til að maður haldi sjálfur skrá yfir hversu ómerkilegur maður sé! Nei, á svona stundum þarf maður virkilega á smá upplyftingu að halda og sem betur fer er hún innan seilingar. Ég á nefnilega í fórum mínum myndir sem ég skoða gjarnan ef ég þarf að hressa mig við. Leyfið mér að kynna ykkur fyrir sænska rithöfundinum Björn Ranelid:


Ég þarf ekki annað en að horfa á þessa mynd eitt augnablik til að vera í það minnsta farin að brosa út í annað, jafnvel hlæja upphátt. Kannski það sé leðurtöskuhúðin eða sveipurinn í englahárinu? Eða svipurinn, þetta fjarræna og gáfulega augnaráð? Sennilega er það samt aðallega sú staðreynd að Björn Ranelid er bæði í útliti og anda eins og skilgetið afkvæmi Frímanns Gunnarssonar sjónvarpsmanns og Gilderoy Lockhart úr Harry Potter bókunum.

Ef hvorug myndin er nóg til að kæta mig get ég alltaf gúgglað einhverjar tilvitnanir í Björn Ranelid til að fullkomna gleðina. Það er rétt að taka það fram að maðurinn fékk Augustpriset, virstu bókmenntaverðlaun Svía, árið 1994 svo hann virðist eiga sér að minnsta kosti jafnmarga aðdáendur og hann á aðhlæjendur. Sjálf er ég handviss um að dómnefndin hafi verið full það árið. Ég skal fúslega játa að ég hef ekki lesið heilt verk eftir Björn en árið 2009 gaf hann út bók með fleygum tilvitnunum í sig á fjórum tungumálum og þar sem hann virðist sjálfur telja að sitt helsta framlag til sænskra bókmennta sé að finna einmitt í téðum tilvitnunum leyfi ég mér að láta þær nægja til að draga mínar ályktanir. Ég hef sem sagt rannsakað málið ítarlega og skoðað frá öllum hliðum og komist að þeirri niðurstöðu að líkingamál Björns Ranelids sé svolítið eins og að gubba bleikum slaufum og glimmeri. Og til að hressa ykkur við á þessum gráa mánudegi læt ég fylgja hér með listann minn yfir þrjár hræðilegustu Ranelid tilvitnanirnar (ásamt ofurlauslegri þýðingu minni):

Í þriðja sæti: Du skall bära ditt barn som den sista droppen vatten. (Þú skalt bera barn þitt eins og síðasta vatnsdropann.)

Í öðru sæti: Min själ väger inte mer än drömmen i en fjäril, men den rymmer så mycket att Gud får ta till sin stora passare om han vill sluta den. (Sál mín vegur ekki meira en draumur fiðrildis en hún rúmar svo mikið að Guð þarf að nota stóra sirkilinn ef hann vill loka henni.)

Og í fyrsta sæti: Att leva är att simma från stranden jag till stranden du i havet vi. (Að lifa er að synda frá ströndinni ég til strandarinnar þú í hafinu við.)

2. október 2011

Hinir dauðu - og hinir


Sumarið 2010 las ég bókina Land draumanna eftir norðmanninn Vidar Sundstøl og skrifaði stutta umfjöllun um hana hér á Druslubókavefinn. Núna fyrir nokkrum dögum komst ég svo í gegnum bók tvö í þessari seríu (þríleik) um norskættuðu skógarlögguna frá Minnesota, Lance Hansen. Sú nefnist Hinir dauðu og kom út hjá Undirheimum, hliðarútgáfu Uppheima fyrr á árinu.

Á bókarkápunni er varpað fram spurningunni: „verður veiðimaðurinn sjálfur bráð?“ og segja má að sú pæling einkenni söguna. Lance er þjakaður af sektarkennd yfir framgöngu sinni við að upplýsa morðmálið sem fyrri bókin lýsir, þegar ungur norskur ferðamaður er myrtur við strönd Lake Superior. Lance grunar sum sé bróður sinn Andy um morðið, en gerði engum viðvart um grunsemdir sínar og aðhafðist ekki þegar Lenny Diver, tuttugu og fimm ára gamall Ojibway indjáni var handtekinn og fangelsaður grunaður um morðið. Lenny þessi gat ekki gefið neinar trúverðugar skýringar á ferðum sínum morðkvöldið, og á vettvangi fannst blóðblettur sem við greiningu skilaði þeim niðurstöðum að sá seki væri af indjánaættum því fram kom stökkbreytt gen sem nær einungis finnst í frumbyggjum Ameríku. Lance gerir ekkert þrátt fyrir að hann viti að Andy bróðir hans segi ekki rétt frá ferðum sínum morðkvöldið, að hafnaboltakylfan sem notuð var sem morðvopn sé merkt AH – og hann komist að því í gegnum sagnfræðirannsóknir sínar að langamma þeirra bræðra, Nanette, hafi verið Ojibway indjáni, en fram að þeim tíma hafði það verið viðtekin skilningur innan fjölskyldunnar að hún hafi verið frönsk. Þarmeð var í raun síðasta hálmstrá hans varðandi sekt bróðurins farið.